Bólivíska karlalandsliðið í knattspyrnu

Bólivíska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Bólivíu í knattspyrnu og er stjórnað af knattspyrnusambandi lands síns.

Bólivíska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Spænska: Federación Boliviana de Fútbol) (Knattspyrnusamband Bólivíu)
ÁlfusambandCONMEBOL
ÞjálfariÓráðið
FyrirliðiMarcelo Moreno
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
83 (20. júlí 2023)
18 (júlí 1997)
115 (október 2011)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
1-7 gegn Síle, (12. október, 1926)
Stærsti sigur
7-0 á móti Venesúela (22. ágúst 1993) & 9-2 á móti Haítí (3. mars 2000)
Mesta tap
0-9 gegn Úrúgvæ (6. nóvember 1927) & 1-10 gegn Brasilíu (10. apríl 1949)
 
Treyjur leikmanna Bólivíu vöktu athygli á HM 1930.

Knattspyrnusamband Bólivíu var stofnað árið 1925 en enskir athafnamenn höfðu fyrst kynnt knattspyrnuíþróttina í landinu undir lok nítjándu aldar. Fyrstu leikir landsliðsins voru á Copa America árið 1926 þar sem liðið tapaði öllum sínum leikjum með miklum mun. Allt fór á sömu lund árið eftir og hættu Bólivíumenn í kjölfarið þátttöku í Suður-Ameríkukeppninni um alllangt skeið.

Bólivía var í hópi þeirra Suður-Ameríkuþjóða sem mættu til leiks á fyrstu heimsmeistarakeppninni sem haldin var í Úrúgvæ árið 1930. Bólivíska liðið markaði ekki djúp spor í keppninni, tapaði báðum sínum leikjum 4:0 gegn Brasilíu og Júgóslavíu. Leikurinn við Júgóslavíu reyndist síðasti leikurinn við evrópska mótherja til ársins 1972. Leikmenn Bólivíska liðsins vöktu nokkra athygli fyrir að mæta til leiks í treyjum með stórum bókstöfum á brjóstinu og stilltu sér upp þannig að þeir mynduðu slagorðið Viva Uruguay (Lifi Úrúgvæ).

Synt með stóru fiskunum

breyta
 
Bólivía á Copa America 1945.

Frá 1945 til 1953 tók Bólivía þátt í Copa America í hvert einasta skipti, sex sinnum í allt. Í fimm þessara skipta endaði liðið í neðsta en næst neðsta sæti en árið 1949 í Brasilíu vann liðið fjóra af sjö leikjum sínum og hafnaði í fjórða sæti af átta keppnisliðum. 10:1 tap fyrir gestgjöfunum dró þó nokkuð úr ánægjunni með frammistöðuna og hefur liðið enn í dag ekki tapað með meiri mun.

Bólivía mætti aftur til Brasilíu árið eftir til að keppa á HM 1950. Frakkar drógu lið sitt úr keppni á síðustu stundu og enduðu Úrúgvæ og Bólivía ein saman í riðli sem lauk með 8:0 sigri heimsmeistaraefnanna.

Eftir Suður-Ameríkukeppnina 1953 tók við tímabil þar sem Bólivía tók afar stopult þátt í alþjóðakeppnum. Í fimm næstu keppnum tók liðið aðeins þátt einu sinni, árið 1959 og endaði þá á botninum. Þátttökutilkynning Bólivíu fyrir forkeppni HM 1954 var ekki tekin gild og þrátt fyrir góðan sigur á heimavelli gegn Argentínu í forkeppni HM 1958 reyndust Argentínumennirnir þeim ofjarlar. Fjórum árum síðar veittu Bólivíumenn liði Úrúgvæ harða keppni um að komast á HM í Síle.

Álfumeistarar

breyta

Eftir að hafa rekið lestina í hverri Suður-Ameríkukeppninni á fætur annarri - oftar en ekki án þess að vinna leik - tókst Bólivíumönnum á blómstra í keppninni 1963, þeirri fyrstu sem fram fór á heimavelli þeirra. Sú staðsetning vakti ekki sérstaka kátínu annarra liða, enda erfitt að leika í þunna loftinu uppi í fjöllunum í Bólivíu. Úrúgvæ neitaði að keppa vegna staðarvalsins og Síle var ekki boðið til leiks vegna landamæradeilna ríkjanna tveggja. Sjö lið kepptu í einni deild þar sem bólivíska liðið vann fimm af sex leikjum og gerði eitt jafntefli. Sigurinn í mótinu var tryggður með 5:4 sigri á Brasilíu í Cochabamba. Sigurmarkið skoraði Máximo Alcócer sem varð einnig markahæstur heimamanna í keppninni.

Sigurinn 1963 var þó frávik á þessum árum. Eftir að Copa America færðist aftur niður á láglendið urðu úrslit Bólivíu lakari á nýjan leik. Í forkeppni HM 1970 fór Bólivía vel af stað og endaði ofar í riðlinum en Argentína, en spútniklið Perú tók toppsætið og farseðilinn til Mexíkó. Fyrir HM í Argentínu 1978 komst Bólivía í þriggja liða úrslit um tvö sæti heimsálfunnar eftir að hafa unnið forriðil sinn, en fékk þar ljóta skelli gegn Brasilíu og Perú, 8:0 og 5:0. Það þýddi að Bólivíu beið umspilseinvígi gegn Ungverjum en því mátti heita lokið strax eftir fyrri viðureignina sem tapaðist 6:0.

Gullöld á tíunda áratugnum

breyta
 
Riðill Bólivíu á HM 1994 á rúmensku frímerki.

Eftir rýra uppskeru um langt árabil mátti sjá talsverð batamerki á lik bólivíska landsliðsins í forkeppni HM 1990. Bólivía vann þrjá fyrstu leiki sína en tapaði fyrir Úrúgvæ í þeim fjórða og síðasta og sat eftir á markatölu. Fjórum árum síðar mætti liðið reynslunni ríkara til leiks og vann fimm fyrstu leiki sína, þar á meðal 7:0 og 7:1 gegn Venesúela. Þessi góða byrjun gerði það að verkum að liðið komst upp með að fá bara eitt stig í lokaleikjunum þremur, þar á meðal að steinliggja fyrir Brasilíu, 6:0. Bólivía var komið á HM í Bandaríkjunum 1994 í fyrsta sinn í 44 ár.

Í undirbúningi fyrir úrslitakeppnina mætti bólivíska liðið á Laugardalsvöll þar sem það mætti Íslandi í fyrsta landsleik þjóðanna. Þorvaldur Örlygsson skoraði eina mark leiksins.

Það kom í hlut Bólivíu að leika opnunarleik keppninnar á móti ríkjandi heimsmeisturum Þjóðverja. Leikurinn var bragðdaufur og mark frá Jürgen Klinsmann skildi liðin að. Bólivía og Suður-Kórea gerðu svo markalaust jafntefli, sem reyndist bræðrabylta þrátt fyrir að vera fyrsta stigið í HM-sögu Bólivíu. Í lokaleiknum skoraði Bólivía svo sitt fyrsta (og enn sem komið er eina) HM-mark þegar Erwin Sánchez minnkaði muninn í 3:1 tapi gegn Spánverjum.

Árið 1995 komst Bólivía upp úr riðlakeppninni á Copa America í fyrsta sinn frá meistaratitlinum 1963 en féll úr leik í fjórðungsúrslitum. Enn betur tókst til 1997 þegar keppnin var í annað sinn haldin í Bólivíu. Heimamenn unnu sinn forriðil á fullu húsi stiga og með markatöluna 4:0 í þremur leikjum. Í fjórðungsúrslitum og undanúrslitum slógu Bólivíumenn út bæði Kólumbíu og Mexíkó. Heimsmeistarar Brasilíu voru hins vegar illviðráðanlegir í úrslitum. Erwin Sánchez jafnaði metin í lok fyrri hálfleiks en tvö brasilísk mörk undir lokin tryggðu 3:1 sigur þeirra. Silfurverðlaunin fleyttu Bólivíu upp í 18. sæti heimslista FIFA sem er þeirra hæsta staða fyrr og síðar.

Ládeyða

breyta

Ekki tókst að fylgja eftir góðum árangri tíunda áratugarins á nýrri öld. Í þeim níu Copa America-keppnum sem haldnar hafa verið frá silfurverðlaununum 1997 (árin 1999-2021) hefur Bólivía alltaf fallið úr leik í riðlakeppninni utan einu sinni þegar liðið komst í fjórðungsúrslit 2015. Frá og með forkeppni HM 1998 hafa lið Suður-Ameríku keppt í einni deild í stað fleiri riðla. Upp frá því hefur Bólivía aldrei farið nálægt því að komast í úrslitakeppnina og oftast hafnað í neðsta eða næstneðsta sæti. Liðið þykir þó alltaf erfitt heim að sækja og kvíðir andstæðinga oft fyrir ferðalaginu upp í fjöllin.