Diego Maradona

Argentínskur knattspyrnumaður og -stjóri (1960-2020)

Diego Armando Maradona (30. október 1960 – 25. nóvember 2020) var argentínskur knattspyrnumaður og að margra mati besti leikmaður sögunnar. Hann vann fjölda titla með félagsliðum sínum í Argentínu, Spáni og Ítalíu, auk þess að leiða þjóð sína til sigurs á HM 1986. Árið 2000 voru Maradona og Brasilíumaðurinn Pelé útnefndir bestu knattspyrnumenn 20. aldar af Alþjóðaknattspyrnusambandinu. Á seinni hluta ferils síns átti Maradona við að etja ýmis vandamál sem tengdust ofneyslu eiturlyfja. Hann rataði ítrekað í fréttir vegna ummæla sinna eða skrautlegra uppátækja í seinni tíð. Maradona var síðast þjálfari argentínska félagsins Gimnasia de la Plata.

Diego Maradona
Upplýsingar
Fullt nafn Diego Armando Maradona
Fæðingardagur 30. október 1960
Fæðingarstaður    Lanús, Buenos Aires, Argentína
Dánardagur    25. nóvember 2020 (60 ára)
Hæð 1,65 m
Leikstaða framsækinn miðherji, framherji
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
1976-1981 Argentinos Juniors 167 (116)
1981-1982 Boca Juniors 40 (28)
1982-1984 FC Barcelona 36 (22)
1984-1991 SSC Napoli 188 (81)
1992-1993 Sevilla FC 26 (5)
1993-1994 Newell's Old Boys 5 (0)
1994-1997 Boca Juniors 30 (7)
Landsliðsferill
1977-1979
1977-1994
Argentína U-20
Argentína
24 (13)
91 (34)
Þjálfaraferill
1994
1995
2008-2010
2011-2012
2017-2018
2018-2018
2019-
Mandiyú de Corrientes
Racing Club
Argentína
Al Wasl
Al Fujairah
Dorados
Gimnasia de la Plata

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Líf og störf

breyta

Diego Maradona ólst upp í stórum hópi systkina í Villa Fiorito, fátæku úthverfi stórborgarinnar Buenos Aires. Aðeins átta ára gamall vakti hann athygli útsendara ungmennaliðs Argentinos Juniors og gekk hann til liðs við félagið. Fáeinum árum síðar var hann farinn að vekja athygli stuðningsmanna félagsins, þar sem hann var boltastrákur á leikjum aðalliðsins en sýndi knattþrautir í leikhléi.

Félagslið

breyta
 
Maradona í búningi Boca Juniors 1981

Argentinos Juniors og Boca Juniors

breyta

Maradona lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Argentinos Juniors skömmu fyrir sextán ára afmælisdag sinn þann 20. október árið 1976. Hann vakti þegar mikla athygli og kölluðu ýmsir knattspyrnuáhugamenn eftir því að hann yrði valinn í landsliðið fyrir HM 1978 þrátt fyrir ungan aldur. Maradona var í herbúðum Argentinos Juniors til 1981 og skoraði 115 mörk í 167 leikjum. Þaðan lá leiðin til Boca Juniors, þar sem hann varð argentínskur meistari strax á fyrsta keppnistímabili. Var það fyrsti meistaratitill félagsins um nokkurra ára skeið og sá síðasti í rúman áratug. Átti sú titlaþurrð eftir að auka enn dálæti stuðningsmanna Boca Juniors á Maradona.

Barcelona

breyta

Fyrir HM 1982 á Spáni, gekk Maradona til liðs við FC Barcelona. Söluverðið nam fimm milljónum punda og varð hann því dýrasti leikmaður sögunnar. Þá um vorið varð hann spænskur bikarmeistari með Barcelona og vakti athygli fyrir glæsimark á móti erkifjendunum í Real Madrid á Santiago Bernabeu, sem fékk jafnvel heimamenn til að klappa lof í lófa.

Hin góða byrjun reyndist ekki vísbending um það sem koma skyldi. Veikindi og alvarleg meiðsli settu strik í reikninginn, þar á meðal ökklabrot eftir groddalega tæklingu frá Andoni Goikoetxea leikmanni Athletic Bilbao í september 1983. Var um tíma óttast að ferill Maradona væri á enda vegna þessa. Hann sneri þó aftur fyrir lok keppnistímabilsins og náði að taka þátt í bikarúrslitaleik gegn Athletic Bilbao vorið 1984. Í þeim leik sauð upp úr, þar sem Maradona mátti þola gróf brot og níð vegna uppruna síns uns hann missti stjórn á skapi sínu. Í kjölfarið brutust út allsherjarslagsmál á vellinum. Áflogin þóttu reginhneyksli og urðu til þess að stjórnendur Barcelona ákváðu að selja Maradona til ítalska liðsins SSC Napoli og varð söluupphæðin, 6,9 milljónir punda, nýtt heimsmet. Í 58 leikjum í Barcelona-treyjunni skoraði Maradona 38 mörk.

Napólí

breyta

Koma Maradona til SSC Napoli sumarið 1984 vakti gríðarlega eftirvæntingu stuðningsmanna. Napólí-liðið hafði um áratugaskeið verið eitt vinsælasta félag Ítalíu, en aldrei hreppt meistaratitilinn frekar en önnur lið frá suðurhluta landsins. Maradona var fljótlega gerður að fyrirliða og hjá SSC Napoli átti hann sín bestu ár. Með hann í fararbroddi varð félagið meistari í fyrsta sinn leiktíðina 1986-87. Tryllt fagnaðarlæti brutust út í Napólí og raunar víðar á Suður-Ítalíu og stóðu í viku. Þótt félagið hefði á að skipa mörgum öflugum leikmönnum, fékk Maradona stærstan hluta heiðursins og öðlaðist einstaka stöðu í huga heimamanna. Börn voru skírð í höfuðið á honum og risastórar veggmyndir málaðar með ásjónu hans.

SSC Napoli hafnaði í öðru sæti næstu tvær leiktíðir og seinna árið varð liðið sigurvegari í Evrópukeppni félagsliða. Vorið 1990 vann SSC Napoli sinn annan meistaratitil (og þann síðasta, enn sem komið er). Sama ár var HM á Ítalíu þar sem Maradona var í eldlínunni með argentínska landsliðinu. Hann olli miklu uppnámi með yfirlýsingum um að íbúar Suður-Ítalíu hefðu alla tíð verið kúgaðir af norðanmönnum svo jaðraði við kynþáttahatur og hvatti íbúa Napólí til að styðja frekar lið Argentínu. Ummælin hleyptu illu blóði í marga, þar með talið forystu Ítalska knattspyrnusambandsins, sem batnaði ekki þegar Argentínumenn slógu Ítali út í undanúrslitum í Napólí.

Um þessar mundir var heldur farið að halla undan fæti hjá Maradona. Taumlaust skemmtanalíf og kókaínneysla tóku sinn toll, auk þess sem götublöðin fluttu fréttir af því að hann hefði eignast son utan hjónabands. Á leiktíðinni 1990-91 greindist kókaín í lyfjaprófi hans. Maradona og stjórnendur SSC Napoli lýstu því yfir að niðurstöðurnar væru falsaðar og hluti af hefndaraðgerðum knattspyrnusambandsins vegna atburðanna á HM. Allt kom fyrir ekki og Maradona var dæmdur í keppnisbann. Hann lék aldrei aftur fyrir Napoli. Í viðurkenningarskyni fyrir þjónustu hans og 81 mark í 188 leikjum, hefur treyja númer 10 verið frátekin hjá félaginu upp frá því.

Sevilla og aftur á heimaslóðum

breyta

Stórlið á borð við Real Madrid og Olympique de Marseille sýndu Maradona áhuga eftir að lyfjabanninu lauk og kom því nokkuð á óvart þegar hann gekk til liðs við Sevilla FC á Spáni fyrir leiktíðina 1992-93. Knattspyrnustjóri liðsins var Carlos Bilardo, sem stýrt hafði Argentínu til sigurs á HM 1986. Dvölin hjá Sevilla olli þó vonbrigðum og hvarf Maradona frá félaginu eftir aðeins eitt ár, sem einkennst hafði af meiðslum og ósætti við Bilardo.

Leiktíðina 1993-94 var Maradona í herbúðum Newell's Old Boys í Argentínu en lék ekki nema fáeina leiki. Eftir eins árs hlé í kjölfar lyfjabanns sneri hann aftur til Boca Juniors árið 1995. Þar lék hann 30 leiki og skoraði 7 mörk á næstu tveimur árum áður en hann lagði skóna endanlega á hilluna.

Landslið

breyta

Maradona lék 91 leik með landsliði Argentínu á ferli sínum og skoraði 34 mörk. Fyrsta A-landsleikinn lék hann gegn Ungverjum þann 27. febrúar 1977, aðeins sextán ára að aldri. Landsliðsþjálfarinn César Luis Menotti hafði hann þó ekki í leikmannahópi sínum á heimsmeistaramótinu 1978 sem fram fór í Argentínu og var sú ákvörðun gagnrýnd af mörgum. Árið 1979 leiddi Maradona lið Argentínu til sigurs á heimsmeistaramóti unglinga, þar sem hann var valinn besti leikmaðurinn.

HM 1982

breyta

Miklar vonir voru bundnar við Maradona á HM á Spáni 1982. Hann mætti til leiks í liði ríkjandi heimsmeistara, nýorðinn dýrasti leikmaður heims. Frammistaða argentínska liðsins olli hins vegar vonbrigðum og opnunarleikurinn gegn Belgíu tapaðist. Fyrir vikið lenti Argentína í ógnarþungum milliriðli ásamt Ítölum og Brasilíumönnum. Báðir leikirnir töpuðust og Maradona átti erfitt uppdráttar, enda ítrekað sparkaður niður af harðsnúnum varnarmönnum andstæðinganna. Undir lok leiksins gegn Brasilíu missti hann stjórn á skapi sínu og uppskar rauða spjaldið að launum.

HM 1986

breyta
 
Heimsmeistaratitlinum 1986 fagnað

HM 1986 í Mexíkó var glæstasta stundin á knattspyrnuferli Maradona. Hann lék alla leiki liðsins frá upphafi til enda, skoraði fimm mörk og átti jafnmargar stoðsendingar. Einn minnisstæðasti leikur keppninnar var í fjórðungsúrslitum á móti Englandi, en sú viðureign var sérlega merkingarþrungin vegna Falklandseyjastríðs landanna nokkrum árum fyrr. Maradona skoraði bæði mörk sinna manna, annað með því að slá knöttinn í netið en hitt eftir að leika ensku vörnina sundur og saman. Seinna markið var af mörgum kallað „mark aldarinnar“ og var höggmynd til að minnast þess sett upp fyrir framan Azteca-leikvanginn í Mexíkóborg.

Aftur skoraði Maradona bæði mörk Argentínu í undanúrslitaleik gegn Belgum. Í úrslitunum sjálfum gegn Vestur-Þjóðverjum var hann í strangri gæslu, en fyrir vikið losnaði um samherja hans og Argentína tryggði sér titilinn eftir 3:2 sigur. Jorge Burruchaga skoraði sigurmarkið á 84. mínútu eftir stungusendingu frá Maradona. Í leikslok var Maradona útnefndur besti leikmaður keppninnar.

HM 1990

breyta

Maradona átti við ökklameiðsli að stríða á HM 1990 sem bitnuðu mjög á frammistöðu hans. Í aðdraganda mótsins tókst honum þó að valda miklu uppnámi á Ítalíu með ummælum sínum um að íbúar suðurhluta landsins ættu fremur að styðja Argentínu en sitt eigið landslið. Átti það sinn þátt í mjög fjandsamlegu viðmóti í garð argentínska liðsins í flestum leikjum.

Litlu mátti muna að heimsmeistararnir féllu úr keppni strax í upphafi eftir óvænt tap gegn Kamerún í opnunarleik mótsins. Liðið komst þó áfram og fór alla leið í úrslitin eftir að hafa unnið sterk lið Brasilíu, Júgóslavíu og Ítalíu í útsláttarkeppninni. Vestur-Þjóðverjar reyndust of stór biti í úrslitaleiknum þar sem Argentína missti tvo menn af velli og andstæðingarnir fengu umdeilda vítaspyrnu.

HM 1994

breyta

Maradona mætti á sitt fjórða heimsmeistaramót í Bandaríkjunum 1994. Knattspyrnuáhugafólk vissi ekki hverju ætti við að búast, enda hafði hann lítið leikið misserin á undan. Maradona kom þó mörgum á óvart með því að sýna gamla takta í sigurleikjum gegn Grikkjum og Nígeríumönnum. Eftir seinni leikinn bárust hins vegar þær fregnir að efidrín hefði greinst í lyfjaprófi leikmannsins, sem var þegar í stað sendur heim. Maradona lýsti sig þó saklausan af lyfjanotkuninni og taldi að efnið hefði leynst í orkudrykk sem liðslæknirinn færði honum í misgripum. Reyndust þetta síðustu landsleikir Maradona á ferlinum.

Þjálfaraferill

breyta
 
Maradona (annar frá hægri) á blaðamannafundi sem stjóri Al-Fujairah árið 2018

Fyrsta þjálfunarverkefni Maradona var árið 1994. Auðmenn höfðu fest kaup á tiltölulega lítt kunnu félagi, Deportivo Mandiyú, með það í huga að búa til úr því stórveldi. Maradona var ráðinn sem knattspyrnustjóri ásamt gömlum landsliðsfélaga sínum Carlos Fren og nokkrir sterkir leikmenn keyptir til liðsins, þar á meðal landsliðsmarkvörðurinn Sergio Goycochea. Tilraunin endaði með ósköpum og félagið varð gjaldþrota skömmu síðar. Maradona og Fren tóku upp þráðinn að nýju með Racing Club á árinu 1995, en voru látnir hætta eftir fáeina mánuði enda uppskeran rýr.

Argentínska landsliðið hóf forkeppnina fyrir HM 2010 afar illa og sagði þjálfarinn Alfio Basile starfi sínu lausu þann 16. október 2008. Þrátt fyrir óverulega þjálfunarreynslu lýsti Maradona vilja sínum til að taka við starfi hans og féllst knattspyrnusambandið á hugmyndina. Eftir sigur í þremur fyrstu leikjunum, var hinum nýja landsliðsþjálfara skellt rækilega niður á jörðina með 6:1 tapi gegn Bólivíu, sem jafnaði metið fyrir stærsta ósigur Argentínu í landsleik.

Undir stjórn Maradona komst Argentína með herkjum í úrslitakeppnina í Suður-Afríku. Þar komst liðið upp úr forriðlinum með fullt hús stiga og sló því næst Mexíkó úr leik, en steinlá fyrir Þjóðverjum í fjórðungsúrslitum, 4:0. Maradona lét af störfum að heimsmeistaramótinu loknu.

Maradona hefur tvívegis tekið að sér stjórn liða frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fyrst Al-Wasl F.C. leiktíðina 2011-12 og síðar Al-Fujairah SC 2017-18, í hvorugt skiptið með teljandi árangri. Sumarið 2018 var tilkynnt um ráðningu hans sem stjórnarformanns hvít-rússnesku bikarmeistaranna Dynamo Brest. Sú ráðning varð þó skammvinn og í september sama ár var tilkynnt að hann hefði tekið við stjórn mexíkóska 2. deildarliðsins Dorados, samningnum var þó rift þegar félaginu mistókst að komast upp um deild. Í september 2019 tók Maradona við stjórn Gimnasia de la Plata í argentínsku úrvalsdeildinni.

Einkahagir

breyta

Maradona kvæntist árið 1984 Claudiu Villafañe, unnustu sinni til margra ára. Þau eiga saman tvær dætur. Hjónabandinu lauk með skilnaði árið 2004. Í skilnaðarferlinu gekkst Maradona í fyrsta skipti opinberlega við launsyni sínum, Diego Sinagra, sem fæddist í Napólí árið 1986. Ítalskir dómstólar höfðu raunar staðfest faðerni drengsins árið 1993, eftir að Maradona neitaði að gangast undir DNA-rannsókn. Diego Sinagra á að baki knattspyrnuferil með nokkrum neðrideildarliðum í heimalandinu og landsleiki í strandfótbolta. Dóttir Maradona, Gianinna, er barnsmóðir argentínska knattspyrnumannsins Sergio Agüero.

Heilsufar og fíknivandi

breyta

Maradona ánetjaðist kókaíni meðan á atvinnuferli hans í Evrópu stóð og var hann í nokkuð stöðugri neyslu til ársins 2004 að talið er. Auk eiturlyfjaneyslunnar hefur hann löngum átt við offitu að stríða og var þyngstur um 130 kíló (en Maradona er 1,65 metrar á hæð). Að auki hefur hann lengi átt við áfengisvandamál að stríða, sem fór illa saman við þrálát veikindi í lifur sem hrjáð hafa hann um árabil. Þrálátar sögur gengu af slæmu heilsufari hans og yfirvofandi dauða stóran hluta tíunda áratugarins og var hann langdvölum á heilbrigðisstofnunum vegna þessa.

Stjórnmálaskoðanir

breyta

Maradona var lengi talinn stuðningsmaður Carlosar Menem forseta Argentínu, sem þótti heldur hægrisinnaður í efnahagsmálum. Eftir því sem árin liðu gerðist hann hins vegar róttækari og hefur ítrekað lýst vinstrisinnuðum sjónarmiðum. Hann komst í vinfengi við Fídel Kastró meðan á dvöl hans á heilsuhæli á Kúbu stóð og ber húðflúr með myndum að bæði Kastró og Che Guevara. Þeim Maradona og Hugo Chávez forseta Venesúela var sömuleiðis vel til vina og dásamaði Maradona mjög stjórnarfar hans og merkar samfélagstilraunir. Eftir að Nicolás Maduro tók við valdataumunum hefur stuðningur Maradona haldist óbreyttur. Á sama hátt hefur Maradona verið óvæginn í gagnrýni á heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og þá sérstaklega stríðsrekstur George W. Bush forseta. Hann fagnaði hins vegar mjög kjöri Barack Obama árið 2008.

Meðan á Ítalíudvöl Maradona stóð, hitti hann Jóhannes Pál 2. páfa í Vatíkaninu. Við það tilefni mun hann hafa gagnrýnt páfa fyrir íburð og bruðl við hirðina. Síðar hitti hann samlanda sinn Frans páfa og fór öllu betur á með þeim. Lýsti Maradona páfa sem sannri fyrirmynd í baráttunni gegn fátækt í veröldinni.

Andlát

breyta

Maradona fór í aðgerð vegna blóðtappa í heila í nóvember 2020 og í áfengismeðferð. Hann lést síðar í mánuðinum úr hjartaáfalli á heimili sínu í Buenos Aires.[1]

Maradona í dægurmenningu

breyta
  • Kirkja Maradona var stofnuð í borginni Rosario á 38 ára afmælisdegi kappans árið 1998. Söfnuðurinn, sem stofnaður var af hópi gárunga hafði flest einkenni hefðbundinna trúfélaga vakti athygli fjölmiðla og gengu þúsundir manna til liðs við hann. Er talið að allt að 200 þúsund manns hafi undirgengist boðskap Maradona-kirkjunnar, af mismikilli alvöru þó.
  • Árið 2006 kom Maradona fram í gosdrykkjaauglýsingu í brasilísku sjónvarpi, þar sem hann var klæddur í brasilíska landsliðsbúninginn. Auglýsingunni var illa tekið í Argentínu, en Maradona lýsti því yfir að hann sæi ekkert athugavert við að sjást í treyju grannþjóðarinnar. Öðru máli gegndi hins vegar um búning River Plate, erkifjenda Boca Juniors.
  • Fjöldi heimildarmynda hafa verið gerðar um líf og feril Maradona. Þar á meðal er myndin Maradona by Kusturica frá árinu 2008 eftir hinn kunna serbneska kvikmyndagerðarmann Emir Kusturica.
  • Árið 2005 þreytti Maradona frumraun sína sem þáttastjórnandi í argentínsku sjónvarpi með spjallþætti sem einkum var helgaður knattspyrnu. Gestir þáttarins voru flestir kunnir fótboltamenn á borð við Pelé og Zinedine Zidane en einnig aðrir íþróttamenn, svo sem hnefaleikakappinn Mike Tyson.
  • Spænsk/brasilíski knattspyrnumaðurinn Diego Costa var skírður í höfuðið á Diego Maradona.

Heimildir

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. BBC News - Diego Maradona: Argentina legend dies aged 60[óvirkur tengill]Bbc, skoðað 25. nóv, 2020.