Síleska karlalandsliðið í knattspyrnu

Síleska karlalandsliðið í knattspyrnu er er fulltrúi Síle í knattspyrnu og er stjórnað af Síleska knattspyrnusambandinu. Þeir unnu Copa América Bikarinn, árið 2015 og aftur árið 2016.

Síleska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Spænska:La Roja) Þeir Rauðu (Spænska:El equipo de todos) Lið hins almenna borgara
ÁlfusambandCONMEBOL
ÞjálfariMartin Lasarte
FyrirliðiGary Medel
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
32 (20. júlí 2023)
3 (maí 2016)
84 (desember 2002)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
1-3 gegn Argentína (27.maí 1910)
Stærsti sigur
7-0 gegn Mexíkó (18.júní 2016)
Mesta tap
0-7 gegn Brasilíu (17.september 1959)
Heimsmeistaramót
Keppnir9 (fyrst árið 1930)
Besti árangurÞriðja Sæti(1962)
Copa America
Keppnir39 (fyrst árið 1916)
Besti árangurMeistarar (2015 og 2016)

Alexis Sánchez er leikja- og markahæsti maður liðsins.

 
Frá leik Síle og Mexíkó á HM 1930.

Knattspyrnusamband Síle er það annað elsta í Suður-Ameríku, stofnað í Valparaiso árið 1895 og var það meðal fjögurra stofnaðila álfusambandsins COMNEBOL árið 1916. Fyrsti landsleikur Síle var gegn Argentínu árið 1910. Síle tók þátt í fyrstu Copa America-keppninni en hafnaði oftar en ekki í botnsætinu fyrstu árin.

HM í knattspyrnu var í fyrsta sinn haldin í Úrúgvæ 1930. Lið frá Suður-Ameríku voru í meirihluta þátttakenda og var Síle í riðli með Mexíkó, Frakklandi og Argentínu. Síle vann tvo fyrstu leiki sína, 3:1 gegn Mexíkó og 1:0 gegn Frakklandi, þar sem Sílebúinn Guillermo Subiabre varð fyrsti leikmaðurinn í sögu HM til að misnota vítaspyrnu. Í lokaumferðinni mættust Síle og Argentína í hreinum úrslitaleik um sæti í undanúrslitum og reyndist argentínska liðið sterkara í 3:1 sigri.

Úrslitaleikur á heimavelli

breyta

Eftir að hafa hafnað í botnsætinu á fjórum fyrstu Copa America-keppnunum tók við tímabil þar sem Síle ýmist dró sig úr keppni eða tók þátt og endaði við botninn. Árin 1926, 1941 og 1945 náði liðið þó þriðja sætinu, í öll skiptin á heimavelli. Síðastnefnda skiptið mátti þó litlu muna að Sílebúar fögnuðu meistaratitlinum eftir hreinan úrslitaleik gegn Brasilíu í lokaleiknum.

Síle dró sig úr keppni fyrir HM 1934 og 1938. Mótið árið 1950 fór hins vegar fram í Brasilíu og voru lið frá Suður-Ameríku mörg meðal keppenda. Frammistaða Síle olli vonbrigðum þar sem liðið tapaði gegn Englendingum og Spánverjum í tveimur fyrstu leikjunum. Sigur á Bandaríkjamönnum með fimm mörkum gegn tveimur voru litlar sárabætur.

Tvenn silfurverðlaun

breyta

Síle mistókst að komast áfram úr forkeppni næstu tveggja heimsmeistaramóta sem bæði fóru fram í Evrópu. Sjötti áratugurinn var þó gjöfull fyrir síleska landsliðið. Síle var í hlutverki gestgjafa á Copa America árið 1955 og hafnaði í öðru sæti eftir hreinan úrslitaleik gegn Argentínu í lokaumferðinni. Árið eftir fór mótið fram í Úrúgvæ og varð Síle í öðru sæti á eftir heimamönnum.

Þessi ágæta frammistaða kom Síle á knattspyrnukortið á besta tíma. Sumarið 1956 var tekin ákvörðun um hvar halda skyldi HM 1962 og var breið samstaða um að það skyldi vera í Suður-Ameríku. Argentína var af mörgum talin augljóst val vegna knattspyrnuhefðar sinnar og öflugra innviða. Knattspyrnusamband Síle ákvað að sækja um mótið og lagði í kosningabaráttunni áherslu á stöðu sína sem ung knattspyrnuþjóð. Ólympíuhreyfingin hafði úthlutað ÓL 1952 og 1956 til „smærri“ ríkja, Finnlands og Ástralíu. Svo fór að lokum að Sílemönnum var úthlutað keppninni 1962 og hófu þegar að undirbúa sig fyrir hlutverkið.

Spútniklið á heimavelli

breyta

Vorið 1960 reið einn stærsti jarðskjálfti sögunnar yfir í Síle og olli gríðarlegri eyðileggingu. Þrátt fyrir hamfarirnar ákváðu Sílebúar að halda sínu striki og halda mótið. Gestgjafarnir lentu í ógnarþungum riðli með þremur reynslumiklum Evrópuþjóðum: Sviss, Ítalíu og Vestur-Þýskalandi. Svartsýnisspádómar um gengi heimamanna virtust ætla að rætast strax í fyrsta leik þar sem Svisslendingar náðu forystunni eftir fáeinar mínútur en Síle svaraði með þremur mörkum, þar af tveimur frá Leonel Sánchez sem varð einn af markakóngum keppninnar með fjögur mörk.

Næsti leikur varð einn sá alræmdasti í HM-sögunni og hefur viðureign Sílemanna og Ítala verið kölluð bardaginn í Santiago vegna þess hversu ofbeldiskennd hún var. Skrif ítalskra blaðamanna um lífið í Síle höfðu hleypt illu blóði í heimamenn fyrir leikinn og enski dómarinn Ken Aston missti fljótlega öll tök á leiknum. Gestirnir misstu tvo menn af velli í fyrri hálfleik og ellefu á móti níu tókst Sílemönnum að vinna 2:0 sigur og koma sér í kjörstöðu í riðlinum. Í lokaleikunum tapaði Síle fyrir Vestur-Þjóðverjum með sama mun og mátti sætta sig við annað sætið á eftir þýska liðinu.

Í fjórðungsúrslitum mætti Síle liði Evrópumeistara Sovétmanna með markvörðinn Lev Yashin fremstan í flokki. Eftir hálftíma leik náðu heimamenn 2:1 forystu og héldu henni til leiksloka. Flestum að óvörum var lið Síle komið alla leið í undanúrslitin.

Brasilíumenn reyndust of stór biti að kyngja í undanúrslitum og unnu þeir 4:2 sigur eftir fjörugan leik. Við tók leikur gegn Júgóslövum um bronsverðlaunin. Eftir harða baráttu tókst Síle að herja út 1:0 sigur með marki á lokamínútunni.

Endurfundir í Sunderland

breyta

Þegar dregið var í riðla á HM í Englandi 1966 vakti mikla athygli að Ítalir og Sílebúar, mótherjarnir úr leiknum alræmda fjórum árum fyrr, lentu saman í fyrstu umferð í borginni Sunderland. Búist var við harðri baráttu beggja liða og Sovétmanna um lausu sætin tvö í fjórðungsúrslitum. Ítalir reyndust sterkari og unnu 2:0 í viðureign sem reyndist þokkalega prúðmannslega leikinn.

Áfallið reið yfir í næsta leik á móti Norður-Kóreu. Síle náði forystunni um miðjan fyrri hálfleik en tókst ekki að knésetja asíska liðið sem jafnaði tveimur mínútum fyrir leikslok og endaði loks á að slá Ítali einnig út úr keppni. Síle hafði því ekki um annað að keppa en heiðurinn í lokaleiknum gegn Sovétmönnum sem unnu 2:1 með sigurmarki undir lokin.

Síle mistókst að komast í úrslitakeppni HM í Mexíkó 1970 enda samkeppnin hörð. Fjórum árum síðar tókst liðinu betur upp en aðdragandi þess var þó umdeildur og litaður af pólitískum atburðum.

Í skugga herforingjanna

breyta
 
Austur-Þjóðverjar sækja hart að marki Síle á HM 1974.

Augusto Pinochet og herforingjastjórn hans steypti réttkjörinni stjórn Salvador Allende af stóli haustið 1973 og hóf þegar að ofsækja stjórnarandstæðinga. Sjálfur þjóðarleikvangnurinn í Santiago var nýttur sem fangelsi, pyntingarbúðir og aftökustaður. Um sumarið höfðu Sílemenn unnið sinn riðil í forkeppni HM 1974 og áttu að mæta Sovétríkjunum í umspilsleikjum um laust sæti. Liðin skildu jöfn í Moskvu, 0:0. Sovétmenn mótmæltu því harðlega að vera gert að leika á þjóðarleikvangnum í Santiago í ljósi þess sem þarf hafði gengið á. FIFA hlustaði ekki á neinar mótbárur og þegar Sovétmenn mættu ekki til leiks var Síle dæmdur 2:0 sigur.

Riðillinn í sjálfri úrslitakeppninni virtist ekki óálitlegur. Heimamenn Vestur-Þjóðverja voru taldir langsterkastir og máttu Sílemenn því ágætlega við una að tapa bara 1:0 fyrir þeim í upphafsleiknum. Á sama tíma unnu Austur-Þjóðverjar 2:0 sigur á Áströlum, sem voru að stíga sín fyrstu skref á sviði heimsfótboltans.

Síle og Austur-Þýskaland gerðu svo 1:1 jafntefli í næstu umferð og töldu Sílemenn sig því í góðri stöðu þar sem þriggja marka sigur á Áströlum í lokaleiknum myndi að öllum líkindum duga upp úr riðlinum. Leikurinn við Ástrali olli hins vegar miklum vonbrigðum og varð steindautt markalaust jafntefli niðurstaðan. Síðar kom þó á daginn að sigur Síle hefði ekki dugað til þar sem Austur-Þjóðverjar unnu gríðarlega óvæntan sigur á grönnum sínum.

Fjórum árum síðar var það lið Perú sem sló Sílemenn úr leik í forkeppni HM 1978, frekar óvænt. Síle fór hins vegar alla leið í úrslitin á Copa America árið 1979. Þar mætti liðið Paragvæ í tveimur leikjum og unnu þjóðirnar sinn leikinn hvor. Gripið var til oddaleiks í Argentínu en þegar honum lauk með 0:0 jafntefli eftir framlengingu voru Paragvæmenn krýndir meistarar á fleiri mörkum skoruðum í fyrri viðureignunum.

HM á Spáni og Ólympíuför

breyta

Síle kom fram hefndum á Paragvæjum með því að slá þá úr leik í forkeppni HM á Spáni 1982. Nokkur bjartsýni ríkti fyrir mótið en lið Síle reyndist langt frá sínu besta. Það tapaði fyrstu tveimur leikjunum, 1:0 gegn Austurríki og 4:1 gegn Vestur-Þjóðverjum. Liðið var þar með fallið úr keppni áður en komið var að lokaleiknum gegn Alsír. Afríska liðið sem stóð sig með prýði á mótinu komst í 3:0 en Sílemenn klóruðu í bakkann með þremur mörkum. Síle hafði nú fallið úr leik í riðlakeppninni á þremur síðustu úrslitakeppnum sínum og það án þess að vinna leik.

Tveimur árum síðar átti Síle fulltrúa í knattspyrnukeppni ÓL í Los Angeles, en landið hafði ekki átt knattspyrnulið í þeirri keppni í meira en þrjá áratugi. Leikið var með nýju fyrirkomulagi. Í stað þess að liðin þyrftu að vera skipuð áhugamönnum, sem einkum gagnaðist kommúnistaríkjum Austur-Evrópu, var heimilað að velja atvinnumenn sem þó máttu ekki hafa leikið meira en 10 A-landsleiki.

Síle gerði markalaust jafntefli við Norðmenn í fyrsta leik, vann lið Katar 1:0 í næstu viðureign og gerði loks jafntefli við verðandi Ólympíumeistara Frakka. Í fjórðungsúrslitum mætti Síle stjörnum prýddu liði Ítala og féll þar úr keppni, 1:0 eftir framlengdan leiktíma. Frammistaðan á Ólympíuleikunum þótti góð og sannfærði marga um að bjartir tímar væru framundan hjá landsliðinu.

Hneykslið í Ríó

breyta
 
Myndin sem leiddi í ljós að Rojas hafði ekki orðið fyrir flugeldinum.

Úrúgvæ hafði betur í lokaleiknum gegn Síle til að tryggja sér þátttökuréttinn á HM 1986. Fjórum árum seinna beið liðinu ekki síður erfitt verkefni til að komast á HM á Ítalíu. Liðið lenti í riðli með Brasilíu og Venesúela þar sem aðeins toppliðið komst áfram. Venesúela tapaði öllum sínum leikjum og Síle og Brasilía gerðu jafntefli í Santiago. Vegna lakari markatölu þurfti Síle því að sækja sigur á Maracanã-leikvanginn í Ríó sem talið var óvinnandi vegur.

Þegar seinni hálfleikur var nálega hálfnaður og heimamenn leiddu með einu marki gegn engu virtist flugeldur frá stuðningsmönnum Brasilíu hæfa markvörðinn Roberto Rojas sem var borinn alblóðugur af velli. Leikurinn var flautaður af í kjölfarið og knattspyrnuáhugafólk um heim allan stóð á öndinni, enda mátti reikna með að leikurinn yrði dæmdur heimaliðinu tapaður og Brasilíumenn myndu missa af úrslitakeppninni í fyrsta sinn. Sú staða breyttist snögglega þegar í ljós komu myndir sem leiddu í ljós að flugeldurinn hefði í raun lent til hliðar við markvörðinn. Nánari rannsókn leiddi í ljós að Rojas veitti sjálfum sér áverkana. Síle var rekið úr keppni, meinað að taka þátt í forkeppni HM 1994 og Rojas uppskar langt keppnisbann sem batt í raun enda á feril hans.

Jafntefliskóngar

breyta

Eftir eyðimerkurgönguna á tíunda áratugnum tókst Síle að tryggja sér síðasta lausa sætið á HM í Frakklandi 1998. Liðið var talið það sterkasta sem Síle hafði teflt fram um langt árabil og var í níunda sæti á heimslista FIFA um það leyti sem dregið var í riðla. Langkunnasti leikmaður liðsins var fyrirliðinn Iván Zamorano sem lék með Inter Milano.

Framherjinn Marcelo Salas var í aðalhlutverki í Frakklandi. Hann skoraði tvívegis í jafnteflisleik gegn Ítölum í fyrstu umferð. Í næsta leik kom Salas sínum mönnum 1:0 yfir gegn Austurríkismönnum sem náðu að jafna í uppbótartíma. Þriðja jafnteflið leit dagsins ljós á móti Kamerún í lokaumferðinni. Síle var þar með komið upp úr riðlakeppni HM í fyrsta sinn frá 1962, án þess þó að vinna leik.

Í 16-liða úrslitum biðu Sílemanna heimsmeistarar Brasilíu sem höfðu talsverða yfirburði og unnu 4:1 sigur.

Allt gekk á afturfótunum hjá Síle í forkeppni HM 2002. Þrátt fyrir 3:0 sigur á Brasilíu snemma í keppninni endaði Síle á botni Suður-Ameríkukeppninnar sem er lakasti árangur liðsins fyrr og síðar. Árangurinn varð litlu betri fyrir HM 2006. Á sama tíma komst Síle aldrei lengra en í fjórðungsúrslit Copa America. Ljósið í myrkrinu var frammistaða liðsins á Ólympíuleikunum 2000 þar sem Síle vann til bronsverðlauna með Zamorano innanborðs.

Loksins sigurleikir

breyta

Eftir að hafa mistekist að vinna leik á fernum úrslitakeppnum HM tókst Síle loksins að innbyrða sigur á HM í Suður-Afríku 2010. Síle vann tvo fyrstu leiki sína, gegn Hondúras og Sviss og var þar með komið áfram í útsláttarkeppnina, þrátt fyrir tap í lokaleiknum gega Spánverjum. Líkt og í Frakklandi tólf árum fyrr biðu Brasilíumenn í 16-liða úrslitunum og aftur reyndist Síle lítil fyrirstaða, 3:0.

Í Brasilíu 2014 mætti Síle enn á ný til leiks. Upphafsleikurinn var gegn Áströlum, þar sem Síle skoraði tvo mörk snemma leiks og eitt í uppbótartíma til að vinna 3:1. Í næstu umferð slógu Sílemenn ríkjandi heimsmeistara Spánverja úr keppni með því að vinna þá 2:0. Spænska liðið hafði áður fengið útreið gegn Hollandi sem vann riðilinn með því að leggja Síle í lokaleiknum.

Þriðja skiptið í röð mættust Síle og Brasilía í 16-liða úrslitum. Liðin skoruðu hvort sitt markið í fyrri hálfleik en síðan ekki söguna meir. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem heimamenn misnotuðu tvær spyrnur en Sílemenn þrjár. Þetta reyndist síðasta skiptið sem Síle komst í úrslit heimsmeistaramóts enn sem komið er.

Álfumeistarar að lokum

breyta
 
Suður-Ameríkumeistarar Síle árið 2016 ásamt þáverandi forseta landsins Michelle Bachelet með verðlaunagripinn.

Auk Ekvador og Venesúela var Síle til skamms tíma eina fasta þátttökulandið í Copa America sem aldrei hafði farið þar með sigur af hólmi. Úr því var rækilega bætt árin 2015 og 2016. Fyrra árið fór mótið fram í Síle og var það í sjöunda skiptið í sögunni. Gestgjafarnir náðu efsta sæti í sínum riðli og slógu svo út Úrúgvæ og Perú á leiðinni í úrslit gegn Argentínu. Eftir markalausan leik var gripið við vítaspyrnukeppni þar sem Síle vann 4:1 og fagnaði þjóðin vel og innilega.

Árið eftir var haldin aukakeppni í tilefni af 100 ára afmæli Copa America og var mótið haldið í Bandaríkjunum. Argentína varð hlutskörpust í riðlinum en Síle náði öðru sæti og fór áfram í útsláttarkeppnina. Í fjórðungsúrslitum kjöldró Síle sterkt lið Mexíkóa 7:0 í leik þar sem Eduardo Vargas skoraði fernu og varð að lokum markakóngur mótsins. Í undanúrslitum unnu Sílemenn Kólumbíu og í líkt og ári fyrr urðu Argentínumenn mótherjarnir í úrslitum. Annað árið í röð urðu úrslitin markalaust jafntefli og aftur sigraði Síle í vítaspyrnukeppni. Varð sú niðurstaða slík vonbrigði fyrir Lionel Messi að hann ákvað að leggja landsliðsskóna á hilluna, en sá sig þó um hönd nokkru síðar.