Ástralska karlalandsliðið í knattspyrnu

Ástralska karlalandsliðið í knattspyrnu er er fulltrúi Ástralíu í knattspyrnu og er stjórnað af Ástralska knattspyrnusambandinu. Þekktasti leikmaður þeirra í gegnum tíðina er sennilega Harry Kewell.

Ástralska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
GælunafnSocceroos
ÍþróttasambandFootball Federation Australia Knattspyrnusamband Ástralíu
ÁlfusambandAFC (Knattspyrnusamband Asíu)
ÞjálfariGraham Arnold
AðstoðarþjálfariRené Meulensteen
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
29 (6. apríl 2023)
14 (september 2009)
75 (nóvember 1965)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
1-3 gegn Nýja-Sjálandi (Dunedin, Nýja-Sjálandi, 17.júní, 1922)
Stærsti sigur
31-0 gegn Samóaeyjum (Coffs Harbour, Ástralíu, 11 Apríl 2001)
Mesta tap
0-8 gegn Suður-Afríka (Adelaide Ástralíu 17.september 1955)
Heimsmeistaramót
Keppnir5 (fyrst árið 1974)
Besti árangur16. liða Úrslit (2006)
Asíubikarinn
Keppnir2007 (fyrst árið 2007)
Besti árangurMeistarar (2015)

Knattspyrna í Ástralíu á sér langa sögu, þótt íþróttin hafi löngum staðið í skugga annarra öflugra boltaíþrótta: rúbbí, krikkets og ástralsks fótbolta. Fyrsta félagið, Wanderers, var stofnað í Sydney árið 1880 en elsta starfandi félagið er Balgownie Rangers í Wollongong frá árinu 1883. Skipulögð voru staðbundin sambönd um íþróttina en engin tilraun var gerð til að stofna landssamband fyrr en árið 1911. Á vettvangi þess var rætt um að stofna landslið og senda til keppni á Ólympíuleikana 1916. Ekki lá ljóst fyrir hvort aðild að FIFA væri forsenda fyrir þátttöku og bárust misvísandi skilaboð um það. Að lokum féll málið um sjálft sig þegar leikjunum var frestað vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar.

1922-65: Úr alfaraleið

breyta

Nýtt knattspyrnusamband var stofnað árið 1921 og árið eftir var fyrsta ástralska landsliðið sett saman. Það hélt í keppnisferð til Nýja-Sjálands og lék við nýstofnað landslið heimamanna. Fyrsti leikurinn tapaðist 3:1. Næstu áratugina léku Ástralir einkum við granna sína Nýsjálendinga en einnig við Suður-Afríkumenn en mikil samskipti voru milli ríkjanna þriggja á íþróttasviðinu.

Ólympíuleikarnir 1956 voru haldnir í Melbourne og gafst þar ástralska liðinu færi á að láta ljós sitt skína. Mikil forföll urðu í knattspyrnukeppni leikanna og tóku að lokum aðeins ellefu lið þátt. Í fyrstu umferð slógu Ástralir lið Japan úr keppni en töpuðu þvínæst fyrir Indverjum í fjórðungsúrslitum.

Ástralir gengu í alþjóðaknattspyrnusambandið á árinu 1956 en voru reknir úr því fáeinum misserum síðar. Ástæðan var sá háttur ástralskra knattspyrnuliða að fá til liðs við sig samningsbundna leikmenn annars staðar frá án þess að greiða fyrir. Deilan leystist ekki fyrr en nýtt knattspyrnusamband var stofnað árið 1961 og fékk það aðild að FIFA tveimur árum síðar.

1965-74: Komist á kortið

breyta

Með FIFA-aðildinni opnuðust tækifæri til þátttöku í alþjóðakeppnum fyrir ástralska landsliðið. Ekki skipti minna máli að með stórbættum og ódýrari flugsamgöngum urðu keppnisferðir til og frá landinu mun raunhæfari og viðráðanlegri. Ástralir skráðu sig þegar til leiks í forkeppni HM 1966. Þar var eitt sæti frátekið fyrir Asíu, Afríku og Eyjaálfu. Undankeppnin breyttist þó í hreinan farsa þegar þátttökuliðin drógu sig úr leik eitt af öðru af ólíkum ástæðum. Að lokum sátu aðeins tvö lið eftir: Ástralir og Norður-Kóreumenn. Liðin mættust í tveimur leikjum á hlutlausum velli í Phnom Penh þar sem Norður-Kórea hafði mikla yfirburði og átti síðar eftir að standa sig með prýði í úrslitakeppninni í Englandi.

Þáttökuliðum frá minni aðildarsamböndum FIFA var fjölgað um eitt á HM 1970. Afríka fékk eitt sæti en Eyjaálfa og Asía (auk Ródesíu) börðust um eitt sæti. Ástralir lögðu Japan, Suður-Kóreu og Ródesíu að velli en töpuðu þvínæst naumlega fyrir Ísrael í tveggja leikja einvígi um farseðilinn til Mexíkó.

Mun fleiri lið frá Asíu og Eyjaálfu tóku þátt í forkeppni HM 1974 eða fimmtán talsins. Ástralir höfðu að lokum sigur eftir oddaleik gegn Suður-Kóreu sem fram fór í Hong Kong og voru því meðal þátttökuliða í úrslitakeppninni í Vestur-Þýskalandi. Þar stóð liðið sig með prýði. Tapaði reyndar 3:0 fyrir heimamönnum og 2:0 fyrir Austur-Þjóðverjum en gerði markalaust jafntefli við Síle.

1974-2006: Úti í kuldanum

breyta

Heil 32 ár áttu eftir að líða uns ástralskt landslið komst aftur á HM. Árið 1982 máttu Ástralir horfa á eftir grönnum sínum Nýsjálendingum í úrslitakeppninni á Spáni. Fjórum árum síðar komust Ástralir í umspil gegn Skotum um að komast á HM í Mexíkó. Eyjaálfukeppnin var þá orðin skringilegur samtíningur liða, þar sem Ástralir og Nýsjálendingar kepptu við Ísrael og Tævan, tvö ríki sem erfitt var að finna stað á fótboltalandakortinu af pólitískum ástæðum.

Enn freistuðu Ástralir þess að komast á HM 1994. Þeir byrjuðu á að sigra Eyjaálfukeppnina, sem loksins var einungis skipuð liðum úr heimsálfunni. Þá tók við tveggja leikja einvígi gegn Kanada og að lokum tveir leikir gegn Argentínumönnum sem reyndust of stór biti. Á þessum árum fór óánægja Ástrala með hina flókna og erfiðu leið í úrslitin ört vaxandi. Lítill áhugi var þó á því innan FIFA að gefa Eyjaálfu fast sæti í úrslitunum.

Litlu mátti muna að Ástralir kæmust á HM 1998. Liðið gerði tvö jafntefli við Íran í úrslitum, en féll úr leik á færri mörkum skoruðum á útivelli. Í seinni leiknum missti ástralska liðið, sem stýrt var af Englendingnum Terry Venables niður tveggja marka forskot undir lokin.

Forkeppni HM 2002 reyndist líka vonbrigði. Þátttökuliðum í Eyjaálfukeppninni fjölgaði mjög og urðu úrslit oft skrautleg. Þannig setti ástralska liðið heimsmet þegar það sigraði Bandarísku Samóa 31:0. Ástralía vann flestar sínar viðureignir með miklum yfirburðum en það kom fyrir ekkert og liðið tapaði í umspili gegn Úrúgvæ, fulltrúa Suður-Ameríku. Urðu þær raddir sífellt háværari að tilgangslitlir leikir gegn alltof veikum andstæðingum stæðu framförum landsliðsins fyrir þrifum.

2006-: Í hópi þeirra bestu

breyta

Töluverð endurskipulagning átti sér stað í ástralskri knattspyrnu á upphafsárum 21. aldarinnar. Knattspyrnusambandið var endurskipulagt og nýrri ástralskri úrvalsdeild ýtt úr höfn. Þá var með markvissum hætti farið að tala um íþróttina sem football í staðinn fyrir soccer, sem var til marks um aukið sjálfstraust greinarinnar gagnvart áströlskum fótbolta.

Þetta endurreisnarstarf féll saman við aukna velgengni landsliðsins. Ástralir tóku sem fyrr í Eyjaálfuforkeppninni fyrir HM 2006 og unnu með talsverðum yfirburðum. Aftur biðu umspilsleikir gegn Úrúgvæ, en að þessu sinni höfðu Ástralir betur. Báðum viðureignum lauk með 1:0 sigri á heimavelli, en Ástralía vann sigur í vítaspyrnukeppni.

Líkt og 32 árum fyrr beið ástralska liðsins keppni í Þýskalandi. Brasilía tók efsta sætið í undanriðlinum en Ástralir náðu öðru sætinu á kostnað Japans og Króatíu, þar sem Harry Kewell skaut liðinu áfram með jöfnunarmarki sínu gegn hinum síðarnefndu. Ástralska ævintýrinu lauk þó í 16-liða úrslitum þegar Ítalir skoruðu úr umdeildri vítaspyrnu á lokamínútu uppbótartíma, 1:0.

Fyrir HM 2010 tók ástralska knattspyrnusambandið þá ákvörðun að færa sig milli álfusambanda, úr Eyjaálfu yfir í Asíu. Markmiðið var að fá fleiri leiki gegn sterkari andstæðingum til að standa betur að vígi í úrslitakeppni stórmóta. Ástralía átti ekki í vandræðum með að komast áfram og hafnaði í efsta sæti síns riðils í úrslitakeppninni. Þegar til Suður-Afríku var komið beið liðsins strembinn riðill með Þjóðverjum, Serbum og liði Gana. Eftir 4:0 tap gegn Þjóðverjum í fyrsta leik var ljóst að róðurinn yrði þungur. Jafntefli gegn Gana þýddi að Ástralir yrðu að treysta á úrslit í hinum leiknum og/eða vinna stórsigur á Serbum. Ástralir unnu vissulega með tveimur mörkum gegn einu en það dugði ekki til.

Ástralir komust á HM 2014 í gegnum Asíukeppnina sem fyrr. Þar var liðið langt frá því að standa undir væntingum og tapaði öllum þremur leikjum sínum, gegn Hollandi, Spáni og Síle.

Leiðin á HM í Rússlandi 2018 var torfærari en í fyrri skiptin. Ástralir og Sýrlendingar þurftu að keppa um fimmta sætið í Asíukeppninni. Naumur sigur í þeim leikjum tryggði Áströlum sæti í umspili gegn Hondúras. Ekki voru miklar væntingar bundnar við ástralska liðið í úrslitakeppninni. Það stóð vel í heimsmeistaraefnum Frakka í fyrsta leik, en tapaði þó að lokum 1:2. Jafntefli við Dani kveikti veika von um sæti í næstu umferð sem dó með 0:2 tapi gegn Perú.