Júgóslavneska karlalandsliðið í knattspyrnu

Júgóslavneska karlalandsliðið í knattspyrnu var fulltrúi Júgóslavíu í knattspyrnu og var stjórnað af knattspyrnusambandi landsins á árunum 1920 til 1992. Júgóslavar voru löngum í hópi sterkari knattspyrnuþjóða Evrópu og voru tíðir gestir í úrslitakeppnum EM og HM. Liðið hlaut tvívegis silfurverðlaun á Evrópumeistaramóti og lék tvisvar til undanúrslta á heimsmeistaramóti.

Júgóslavneska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Serbneska: Фудбалски савез Југославије - króatíska: Nogometni savez Jugoslavije) Knattspyrnusamband Júgóslavíu
ÁlfusambandUEFA
LeikvangurLeikvangur Rauðu stjörnunnar, Belgrað


Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
0-7 gegn Tékkóslóvakíu, 28. ágúst, 1920
Stærsti sigur
10-0 gegn Venesúela, 14. júní 1972
Mesta tap
0-7 gegn Tékkóslóvakíu, 28. ágúst, 1920; 0-7 gegn Úrúgvæ, 26. maí, 1924 & 0-7 gegn Tékkóslóvakíu, 28. okt., 1925

Ríkið Júgóslavía var sett á stofn í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Landið nefndist í fyrstu Konungsríki Serba, Króata og Slóvena og gekk síðan undir ýmsum formlegum heitum, en almennt er þó vísað til þess sem Júgóslavíu í daglegu tali. Knattspyrnusamband var stofnað árið 1919 og fékk það aukaaðild að FIFA árið 1921 og fulla aðild tveimur árum síðar. Fyrsti landsleikurinn var gegn Tékkóslóvakíu á Ólymíuleikunum í Antwerpen 1920 og endaði með 7:0 stórtapi. Tveimur árum síðar náði liðið fram hefndum gegn tékkneska liðinu og var það fyrsti sigur Júgóslava.

Júgóslavía mætti aftur til leiks á ÓL 1924 en mátti þola sömu útreiðina, 7:0 tap gegn meistaraefnum Úrúgvæ. Enn tapaði Júgóslavía í fyrstu umferð fjórum árum síðar, þá fyrir Portúgölum.

Fyrsta heimsmeistaramótið

breyta

Nafni Konungsríkis Serba, Króata og Slóvena var breytt í Júgóslavíu árið 1929 þegar konungurinn, Alexander fyrsta, tók sér tímabundið alræðisvöld í landinu. Hann átti stóran þátt í því að Júgóslavía var eitt einungis fjögurra Evrópuríkja til að senda lið á fyrstu heimsmeistarakeppnina sem fram fór í Úrúgvæ árið 1930. Lið Júgóslavíu var kornungt, meðalaldurinn innan við 22 ár og ekki talið líklegt til stórafreka. Deilur milli Serba og Króata vegna flutnings knattspyrnusambandsins frá Zagreb til Belgrað höfðu veikt liðið til mikilla muna þar sem Króatar neituðu að gefa kost á sér.

 
Júgóslavneska liðið sem mætti Brasilíu á HM 1930.

Ekki tókst að hafa fjóra fullskipaða riðla á mótinu og biðu Júgóslava því aðeins tveir mótherjar. Fyrst var leikið gegn Brasilíumönnum sem álitnir voru mun sigurstranglegri. Hið unga Balkanskagalið kom á óvart og sigraði 2:1. Í kjölfarið kom auðveldur 4:0 sigur á Bólivíu sem aldrei hafði unnið knattspyrnulandsleik.

Í undanúrslitunum tóku við heimamenn í Úrúgvæ. Mikil taugaveiklun einkenndi leik gestgjafanna í byrjun og Júgóslavar náðu forystunni á fimmtu mínútu. Eftir tuttugu mínútna leik náði lið Úrúgvæ hins vegar að jafna metin, tók svo öll völd og sigraði að lokum 6:1. Júgóslavar voru mjög ósáttir við dómgæsluna í viðureigninni og mun það samkvæmt sumum heimildum hafa ráðið því að ekkert varð úr leik um bronsverðlaun á mótinu, en aðrir telja að aldrei hafi staðið til að halda slíkan leik. Margt er á huldu um hvort bronsverðlaun hafi yfir höfuð verið veitt í keppninni og þá hvort Júgóslavar hafi fengið þau sem liðið sem tapaði fyrir endanlegum heimsmeisturum eða hvort Júgóslavía og Bandaríkin hafi verið látin deila þeim. Mörgum áratugum síðar kvað FIFA upp þann úrskurð að Bandaríkin teljist hafa hlotið 3ja sætið á þessu fyrsta heimsmeistaramóti og Júgóslavía það 4ða, þrátt fyrir mótbárur þeirra síðarnefndu.

Júgóslavar freistuðu þess að komast á HM 1934 og 1938 en féllu úr leik í forkeppninni í bæði skiptin.

Í alþýðulýðveldi (1945-1958)

breyta

Heimsstyrjöldin síðari raskaði knattspyrnuiðkun í Júgóslavíu og landið var tímabundið klofið upp. Kommúnistar komust til valda að stríðinu loknu. Ríkisstjórnir í alþýðulýðveldum Austur-Evrópu lögðu áherslu á góðan árangur á íþróttasviðinu og það var Júgóslavía engin undantekning. Áhugamannareglur Ólympíuhreyfingarinnar gáfu kommúnistaríkjunum færi á að tefla fram miklu sterkari liðum í knattspyrnukeppni leikanna en Vesturlönd höfðu færi á. Júgóslavía hlaut silfurverðlaunin á þrennum leikum í röð, 1948, 1952 og 1956, áður en liðið varð loks meistari á leikunum 1960.

Júgóslavar mættu í annað sinn til leiks á HM í Brasilíu 1950. Þar unnu þeir góða sigra á Sviss og Mexíkó en töpuðu í hreinum úrslitaleik um að komast upp úr riðlinum á móti ógnarsterku liði heimamanna.

Brasilíumenn urðu mótherjar Júgóslava í þriðja sinn í jafnmörgum keppnum á HM í Sviss 1954. Þar gerðu liðin jafntefli í framlengdum leik í Lausanne. Bæði lið komust áfram úr riðlinum en áður höfðu Júgóslavar unnið Frakka, 1:0. Í fjórðungsúrslitum máttu Júgóslavar sætta sig við tap gegn heimsmeistaraefnum Vestur-Þjóðverja með tveimur mörkum gegn engu.

Í Svíþjóð 1958 voru Júgóslavar enn taldir í hópi sterkustu liða. Í fyrsta leik gerði liðið jafntefli við Skota, sigraði þvínæst spútniklið Frakka 3:2 en gerði óvænt 3:3 jafntefli við Paragvæ í lokaleiknum og mátti sætta sig við annað sætið í riðlinum. Það reyndist dýrkeypt því mótherjarnir í fjórðungsúrslitum urðu því ekki Norður-Írar heldur ríkjandi heimsmeistarar Vestur-Þjóðverja, sem fóru með sigur af hólmi, 1:0.

Bitist um verðlaun (1960-1968)

breyta

Evrópukeppnin í knattspyrnu fór fyrst fram árið 1960. Júgóslavar þurftu að slá út Búlgari og Portúgala á leið sinni í fjögurra liða úrslitakeppni sem fram fór í Frakklandi. Þar skoruðu Júgóslavar þrjú síðustu mörkin í æsilegum 4:5 sigri á heimamönnum í öðrum undanúrslitaleiknum. Við tók úrslitaviðureign gegn Sovétmönnum sem framlengja þurfti uns sovéska liðið hafði betur, 2:1.

Sömu lið mættust tveimur árum síðar í riðlakeppni HM í Síle. Aftur höfðu Sovétmenn betur, að þessu sinni 2:0. Sigrar gegn Úrúgvæ og Kólumbíu komu Júgóslövum hins vegar í næstu umferð. Í fjórðungsúrslitum komu Júgóslavar loks fram hefndum gegn Vestur-Þjóðverjum og unnu þá 1:0 með marki undir lok leiksins.

Í undanúrslitum var austur-evrópskur slagur milli Júgóslavíu og Tékkóslóvakíu sem féll fullkomlega í skuggann af viðureign heimamanna og Brasilíu sem fram fór á sama tíma. Tékkneska liðið hafði betur, 3:1 og mætti Brasilíu í úrslitum á meðan Júgóslavar máttu sætta sig við bronsleik gegn spútnikliði Síle. Gestgjafarnir herjuðu fram 1:0 sigur með marki á lokamínútunni og hrepptu bronsverðlaunin.

 
Fyrirliðar Júgóslavíu og Ítalíu fyrir úrslitaleikinn 1968.

Júgóslavía var fjarri góðu gamni á næstu tveimur stórmótum. Svíar slógu þá út í forkeppni EM 1964 og Frakkar gerðu það sama fyrir HM 1966. Evrópukeppnin 1968 átti hins vegar eftir að verða söguleg.

Vestur-Þjóðverjar og Júgóslavar lentu saman í forriðlinum þar sem þeir fyrrnefndu hefðu náð toppsætinu ef ekki hefði komið til óvænt jafntefli gegn Albaníu. Í fjórðungsúrslitum mættu Júgóslavar Frökkum og gerðu 1:1 jafntefli ytra en skelltu þeim svo 5:1 á heimavelli. Farseðillinn í úrslitakeppnina á Ítalíu var tryggður.

Júgóslavar skelltu ríkjandi heimsmeisturum Englendinga 1:0 í Napólí með sigurmarki í lokin. Við tók úrslitaleikur gegn heimamönnum í Rómarborg. Júgóslavar tóku forystuna en Ítalir jöfnuðu seint í leiknum. Framlenging skilaði engu og við tók nýr leikur tveimur dögum síðar þar sem vítaspyrnukeppnir höfðu ekki verið innleiddar. Þar reyndust gestgjafarnir sterkari, unnu 2:0 og Júgóslavía mátti á ný sætta sig við silfrið.

Gestgjafar á EM (1970-1980)

breyta

Strembinn forriðill með Belgum og Spánverjum þýddi að Júgóslavía komst ekki á HM 1970 í Mexíkó. Liðið sat einnig heima á EM 1972 eftir tap í úrslitaeinvígi gegn Sovétmönnum.

 
Josip Katalinski fagnar marki sínu á HM 1974, markvörður Saír lemur angistarfullur í völlinn.

Spánn og Júgóslavía mættust í oddaleik í Belgíu um það hvort liðið kæmist á HM í Vestur-Þýskalandi 1974 og höfðu Júgóslavar betur, 1:0. Þegar til Þýskalands var komið gerðu Júgóslavar markalaust jafntefli í fyrsta leik gegn heimsmeisturum Brasilíumanna og unnu í næstu viðureign einn stærsta sigur í sögu HM þegar Saír var lagt að velli 9:0. Jafntefli í þriðja leik gegn Skotum, 1:1, þýddi að Júgóslavar höfnuðu í efsta sæti riðilsins og lentu því í milliriðli B. Ekki tókst Júgóslövum þó að standa undir væntingum þegar í milliriðil var komið og töpuðu öllum þremur leikjunum. Fyrst gegn heimamönnum, þá Pólverjum og loks Svíum.

Júgóslavar voru ekki lengi að sleikja sárin. Þeir unnu forriðil sinn fyrir EM 1976 auðveldlega og slógu þvínæst Wales út í tveimur leikjum. Þar með var júgóslavneska liðið komið í fjögurra liða úrslitakeppni sem ákveðið var að halda í Belgrað og Zagreb í júní 1976. Útlitið var gott í undanúrslitaleiknum gegn heimsmeisturum Vestur-Þjóðverja þar sem Júgóslavar náðu tveggja marka forystu. Gestirnir jöfnuðu þó 2:2, þar sem Gerd Müller jafnaði metin og skoraði svo tvö mörk til viðbótar í framlengingu, 2:4.

Ósigurinn varð gríðarlegt áfall fyrir Júgóslava sem höfðu gert sér góðar vonir um Evrópumeistaratitil. Fáir áhorfendur sáu ástæðu til að mæta á bronsleikinn gegn Hollendingum. Sú viðureign fór einnig í framlengingu þar sem hollenska liðið vann 3:2.

Eftir vonbrigðin á heimavelli 1976 þurftu Júgóslavar að sitja heima á næstu stórmótum, HM 1978 og EM 1980. Í bæði skiptin komust Spánverjar áfram í þeirra stað.

Misjafnt gengi (1982-1988)

breyta

Júgóslövum gekk vel í forkeppni fyrir HM 1982 og hafnaði í efsta sæti á undan Ítölum sem urðu að lokum heimsmeistarar. Frammistaðan gaf tilefni til bjartsýni á Spáni þar sem liðið var talið heppið með drátt. Markalaust jafntefli í fyrsta leik gegn Norður-Írum var þó ekki í samræmi við væntingar og Júgóslavar komust í vonda stöðu eftir 2:1 tap gegn heimamönnum, þar sem dómarinn var talinn draga taum Spánverja og dæmdi m.a. fráleita vítaspyrnu. Lokaleikur riðilsins var á móti Hondúras þar sem þriggja marka hefði tryggt sæti í næstu umferð. Júgóslövum tókst hins vegar ekki að herja út nema 1:0 sigur í blálokin og þurftu því að treysta á hagstæð úrslit í leik Spánverja og Norður-Íra. Það gekk ekki eftir og Júgóslavar sátu eftir með sárt ennið.

Vonbrigðin héldu áfram á EM í Frakklandi 1984. Þar sáu Júgóslavar aldrei til sólar og töpuðu öllum þremur leikjunum, gegn Belgum, Dönum og Frökkum. Miðjuleikurinn gegn Dönum var sérlega slæmur og tapaðist 5:0.

Afleitt gengi á heimavelli í forkeppninni gerði það að verkum að Júgóslavía var aldrei nálægt því að komast á HM 1986. Englendingar höfðu svo betur í keppni við Júgóslava um laust sæti á EM í Vestur-Þýskalandi 1988.

Endalokin (1990-1992)

breyta

Júgóslavía hafði á að skipa einhverju efnilegasta landsliði heims undir lok níunda áratugarins. U-21 árs landsliðið varð heimsmeistari árið 1987, þar sem Robert Prosinečki var valinn besti leikmaðurinn. Hið unga lið fór taplaust í gegnum forkeppni HM 1990 og skildi m.a. lið Frakka eftir í forriðlinum.

Heimsmeistaraefni Vestur-Þjóðverja reyndust of stór biti í fyrsta leik þegar til Ítalíu var komið og töpuðu Júgóslavar þar 1:4. Næsta viðureign var hörkuslagur við Kólumbíumenn sem vannst 1:0. Sameinuðu arabísku furstadæmin voru mótherjarnir í þriðja leik sem vannst 4:1 og Júgóslavar voru komnir í 16-liða úrslitin.

Þar tók við hörð viðureign gegn Spánverjum sem lauk með 1:1 jafntefli en mark frá Dragan Stojković í framlengingu skildi liðin að lokum að. Í fjórðungsúrslitum mættust stálin stinn þegar Júgóslavía og Argentína gerðu markalaust jafntefli. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem Diego Maradona misnotaði sína spyrnu en Argentínumenn unnu engu að síður 3:2 eftir að markvörður þeirra varði þrjár spyrnur.

Tveimur árum eldri og reynslunni ríkari voru Júgóslavar taldir til alls vísir á EM í Svíþjóð 1992. Liðið tryggði sér þátttöku í úrslitakeppninni en áður en til átti að taka braust út borgarastyrjöld í landinu sem olli því að Júgóslavía var sett í keppnisbann frá alþjóðlegum íþróttamótum. Danir tóku sæti þeirra á mótinu og fóru óvænt með sigur af hólmi.

Síðasti knattspyrnulandsleikur gömlu Júgóslavíu var 2:0 tapleikur gegn Hollendingum þann 25. mars 1992. Frá 1992 til 2006 mynduðu Serbía og Svartfjallaland ríkjaheild og kenndi landslið þeirra sig um tíma við Júgóslavíu, en það telst þó ekki sama landslið og hið fyrra.