Argentína

land í Suður-Ameríku

Argentína er land í sunnanverðri Suður-Ameríku. Það er næststærsta land álfunnar og það áttunda stærsta í heimi. Það afmarkast af Andesfjallgarðinum í vestri, Atlantshafi í austri og Drakesundi í suðri. Lönd, sem liggja að Argentínu eru Síle í vestri, Paragvæ og Bólivía í norðri, Brasilía og Úrúgvæ í norðaustri. Argentína gerir kröfu til Falklandseyja (sem Argentínumenn nefna Malvinaseyjar), Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyja og loks til hluta af Suðurskautslandinu.

Argentínska lýðveldið
República Argentina
Fáni Argentínu Skjaldarmerki Argentínu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
En Unión y Libertad (spænska)
Samstaða og frelsi
Þjóðsöngur:
Himno Nacional Argentino
Staðsetning Argentínu
Höfuðborg Búenos Aíres
Opinbert tungumál Spænska
Stjórnarfar Sambandslýðveldi, forsetaræði

Forseti Javier Milei
Varaforseti Victoria Villarruel
Sjálfstæði frá Spáni
 • Lýst yfir 9. júlí 1816 
 • Viðurkennt 1821 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
8. sæti
2.780.400 km²
1,57
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
31. sæti
45.605.826
14,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 1.033 millj. dala (26. sæti)
 • Á mann 22.997 dalir (56. sæti)
VÞL (2019) 0.845 (46. sæti)
Gjaldmiðill Pesói
Tímabelti UTC-3
Þjóðarlén .ar
Landsnúmer +54

Söguágrip

breyta

Elstu merki um menn í Argentínu eru frá fornsteinöld. Landið skiptist milli margra hópa frumbyggja og búseta var dreifð fyrir komu Evrópubúa. Spánverjar stofnuðu þar byggðina Buenos Aires árið 1536. Landið varð hluti af varakonungsdæminu Perú en árið 1776 var varakonungsdæmið Río de la Plata stofnað með Buenos Aires sem höfuðborg. Landið fékk sjálfstæði í kjölfar Maíbyltingarinnar árið 1810 en í kjölfarið skildu Banda Oriental (síðar Úrúgvæ), Efra-Perú (síðar Bólivía) og Paragvæ sig frá gamla varakonungsdæminu. Stjórnmál hins nýja ríkis einkenndust af baráttu milli miðstjórnarsinna og sambandsríkissinna sem höfðu sigur að lokum. Mikill innflutningur fólks frá Evrópu einkenndi síðari hluta 19. aldar. Árið 1884 var tekin upp skólaskylda, iðnaður þróaðist hratt og í upphafi 20. aldar var landið orðið 7. stærsta iðnríki heims. Stjórnmálahneyksli, kosningasvindl og spilling á fyrri hluta 20. aldar ollu aftur hnignun efnahagslífsins. Juan Domingo Perón komst til valda árið 1946 og þjóðnýtti lykilgeira í iðnaði. Hann sagði af sér 1955 en perónismi var áfram áhrifamikil stjórnmálastefna.[1] Árið 1966 komst til valda herforingjastjórn sem lagði niður þingið og bannaði stéttarfélög. Afleiðingin af því var vaxandi skæruhernaður stjórnmálahreyfinga. Þegar Perón sneri aftur úr útlegð á Spáni 1973 kom til blóðugra átaka milli hægri- og vinstrisinnaðra perónista. Eiginkona hans Isabel Perón tók við forsetaembættinu eftir lát Peróns 1974. Hún gaf lögreglu og her leyfi til að beita hvaða aðferðum sem var í baráttu við vinstrisinnaða hópa sem leiddi til skítuga stríðsins.[2] Jorge Rafael Videla steypti henni af stóli.[3] Herforingjastjórn fór með völdin þar til Argentína beið ósigur í Falklandseyjastríðinu 1982. Eftir það var borgaraleg stjórn kjörin og réttað var vegna mannréttindabrota í tíð herforingjastjórnanna. Carlos Menem útfærði efnahagsstefnu í anda nýfrjálshyggju á 10. áratugnum sem leiddi á endanum til alvarlegrar efnahagskreppu og gjaldþrots argentínska ríkisins árið 2001.[4]

Argentínubúar eru langflestir afkomendur innflytjenda sem fluttust þangað frá Evrópu á 19. og 20. öld. Spænska er opinbert mál en í landinu eru líka stórir hópar ítölskumælandi, frönskumælandi og þýskumælandi íbúa. Argentína er eitt af fimmtán stærstu iðnríkjum heims og aðili að G-20. Landið er auðugt af náttúruauðlindum, menntunarstig er hátt og framleiðsluiðnaður fjölbreyttur. Efnahagslíf landsins hefur einkennst af hagvaxtarskeiðum og efnahagskreppum á milli, með sögulega hárri verðbólgu. Argentína glímdi við mikla efnahagsörðugleika á síðari hluta 10. áratugarins sem enduðu með gjaldþroti 2001. Landið hefur átt í skuldakreppu frá sumrinu 2014 þegar dómstólar í Bandaríkjunum dæmdu landið til að standa skil á skuldum við hrægammasjóði.

Heitið Argentína er dregið af latneska orðinu argentum sem merkir „silfur“. Það tengist þjóðsögunni um Silfurfjöllin sem gekk meðal Evrópumanna í Suður-Ameríku. Áin Río de la Plata dregur líka nafn sitt af þessari sögu (plata merkir silfur á spænsku). Heitið La Argentina kemur fyrir í ljóði Martín del Barco Centenera frá 1602. Það var orðið almennt heiti landsins á 18. öld þótt það héti formlega „Varakonungsdæmið Río de la Plata“ meðan það var hluti Spænska heimsveldisins og „Sameinaðar sýslur Río de la Plata“ eftir að það fékk sjálfstæði.

Í stjórnarskrá Argentínu frá 1826 er „Argentínska lýðveldið“ fyrst notað sem opinbert heiti. „Sambandsríkið Argentína“ var tekið upp í stjórnarskránni frá 1853. Árið 1860 gaf forseti út tilskipun um að opinbert heiti landsins skyldi vera Argentínska lýðveldið.

Landfræði

breyta

Argentína er í Suður-Ameríku og er 2.780.400 ferkílómetrar að stærð. Landamæri Argentínu að Chile í vestri liggja um Andesfjöll. Í norðri á landið landamæri að Bólivíu og Paragvæ, Brasilíu í norðaustri og Úrúgvæ í austri þar sem áin Río de la Plata myndar hluta landamæranna. Landið á strönd að Suður-Atlantshafi í austri og Drakesundi í suðri. Alls eru landamæri landsins 9.376 að lengd og strandlengjan 5.117 km að lengd.

Hæsta fjall Argentínu er Aconcagua í Mendoza-héraði, 6.959 metrar á hæð, sem er jafnframt hæsti tindur suður- og vesturhvelsins. Lægsti punktur landsins er Lago del Carbón í San Juan-dældinni í Santa Cruz-héraði, 105 metra undir sjávarmáli, sem líka er lægsti punktur suður- og vesturhvelsins og sjöundi lægsti punkturinn á þurrlendi jarðar.

Nyrsti oddi landsins er þar sem árnar Grande de San Juan og Río Mojinete mætast í Jujuy-héraði. Syðsti oddinn er San Pío-höfði á Eldlandi. Austasti oddinn er norðaustan við borgina Bernardo de Irigoyen og sá vestasti er í Los Glaciares-þjóðgarðinum í Santa Cruz. Lengd landsins frá norðri til suðurs er 3.694 km, en mesta breidd þess er 1.423 km.

Helstu fljót landsins eru Paraná og Úrúgvæfljót sem renna saman í Río de Plata, Paragvæfljót, Salado-á, Santa Cruz-á, Pilcomayo-á, Río Bermejo og Río Colorado. Allar þessar ár renna í Argentínuhaf, sem er grunnsævi yfir Argentínugrunni, breiðu landgrunni undan strönd Argentínu við Atlantshaf. Tveir hafstraumar mætast á grunninu, heitur Brasilíustraumurinn úr norðri og kaldur Falklandseyjastraumurinn úr suðri.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta
 
Héruð í Argentínu

Argentína skiptist í 23 sjálfstjórnarhéruð (provincias) og eina sjálfstjórnarborg (ciudad autonoma).

Tilvísanir

breyta
  1. Tómas R. Einarsson (19. mars 1997). „Perón - maðurinn hennar Evitu“. Alþýðublaðið. Sótt 22. nóvember 2019.
  2. „AAA birtir dauðalista mánaðarlega“. Mánudagsblaðið. 10. mars 1975. Sótt 3. nóvember 2019.
  3. Ásgeir Sverrisson (21. júní 1998). „Börn „skítuga stríðsins". Morgunblaðið. Sótt 24. nóvember 2019.
  4. Helgi Hrafn Guðmundsson (18. ágúst 2009). „Þegar fyrirmyndarnemandinn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kolféll“. Dagblaðið Vísir. Sótt 1. nóvember 2019.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.