Frakkland
Frakkland eða Lýðveldið Frakkland, (franska République française eða France) er land í Vestur-Evrópu sem nær frá Miðjarðarhafi í suðri að Ermarsundi í norðri og frá Rín í austri að Atlantshafi í vestri. Vegna lögunar landsins gengur það oft undir heitinu „sexhyrningurinn“ (fr. Hexagone) hjá Frökkum sjálfum. Í Evrópu á Frakkland landamæri að Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Mónakó, Spáni og Andorra, en handanhafssýslur þess í öðrum heimsálfum eiga landamæri að Brasilíu, Súrínam og Hollensku Antillaeyjum. Landið tengist Bretlandseyjum gegnum Ermarsundsgöngin. Frakkland skiptist í 18 héruð (þar af 5 utan Evrópu) sem ná yfir samanlagt 643.801 km². Þar búa yfir 68 milljónir manna. Frakkland er einingarríki sem býr við forsetaþingræði. Höfuðborg landsins er París sem er jafnframt efnahagsleg og menningarleg höfuðborg. Aðrar stórar borgir eru Lyon, Marseille, Toulouse, Bordeaux, Lille og Nice. Frakkland og hjálendur þess ná yfir 12 tímabelti, sem er það mesta sem þekkist.
Lýðveldið Frakkland | |
République française | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Liberté, égalité, fraternité (franska) Frelsi, jafnrétti, bræðralag | |
Þjóðsöngur: La Marseillaise | |
Höfuðborg | París |
Opinbert tungumál | Franska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Emmanuel Macron |
Forsætisráðherra | François Bayrou |
Stofnun | |
• Verdun-samningurinn | 843 |
• Núgildandi stjórnarskrá | 1958 |
Evrópusambandsaðild | 25. mars 1957 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
42. sæti 640.679 km² 0,86 |
Mannfjöldi • Samtals (2023) • Þéttleiki byggðar |
20. sæti 68.042.591 121/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2020 |
• Samtals | 2.954 millj. dala (10. sæti) |
• Á mann | 45.454 dalir (26. sæti) |
VÞL (2019) | 0.901 (26. sæti) |
Gjaldmiðill | Evra |
Tímabelti | UTC+1 (+2 á sumrin) |
Ekið er | hægra megin |
Þjóðarlén | .fr |
Landsnúmer | +33 |
Elstu merki um byggð í Frakklandi eru frá fornsteinöld. Á járnöld settust Keltar sem nefndust Gallar að þar sem Frakkland er nú. Rómaveldi lagði landið undir sig árið 51 f.Kr. og franska þróaðist sem tungumál út frá blöndun gallverskrar og rómverskrar menningar. Hinir germönsku Frankar lögðu landið undir sig árið 476 og stofnuðu þar konungsríkið Frankíu sem varð kjarni veldis Karlunga. Með Verdun-samningnum 843 var ríkinu skipt og Vestur-Frankía varð konungsríkið Frakkland árið 987. Frakkland var öflugt lénsveldi á hámiðöldum en átök um yfirráð yfir lénum milli frönsku og ensku konungsættanna leiddu til Hundrað ára stríðsins á 14. og 15. öld. Þá tók að verða til sérstök frönsk sjálfsmynd. Eftir lok stríðsins blómstraði frönsk menning í frönsku endurreisninni milli 15. og 17. aldar. Um leið átti landið í átökum við Spán og Heilaga rómverska ríkið og kom sér upp nýlenduveldi sem á 20. öld var það annað stærsta í heimi á eftir breska heimsveldinu. Eftir borgarastyrjaldir á 17. öld blómstraði Frakkland undir stjórn Loðvíks 14.. Á 18. öld beið það ósigra gegn Bretlandi í Sjö ára stríðinu, studdi sjálfstæði Bandaríkjanna en varð sjálft vettvangur Frönsku byltingarinnar sem steypti konungi af stóli og stofnaði lýðveldi árið 1789.
Frakklandi náði hátindi sem hernaðarveldi undir stjórn Napóleons Bónaparte í upphafi 19. aldar. Hann lagði undir sig stærstan hluta af meginlandi Evrópu og stofnaði fyrsta franska keisaradæmið. Frönsku byltingarstríðin og Napóleonsstyrjaldirnar höfðu mikil áhrif á þróun Evrópu og mannkynssöguna alla. Hrun keisaradæmisins var upphafið að hnignunartímabili og endurteknum stjórnarkreppum fram að stofnun þriðja franska lýðveldisins í fransk-prússneska stríðinu 1870. Í kjölfarið blómstruðu vísindi og listir og efnahagsuppgangur varð á tímabilinu sem kallað var Belle Époque („fagra tímabilið“). Frakkland var einn Bandamanna í fyrri heimsstyrjöld og síðari heimsstyrjöld þar sem landið var að hluta hernumið af Þjóðverjum frá 1940 til 1944. Eftir stríð var fjórða franska lýðveldið stofnað, en það leystist upp eftir ósigra Frakka í styrjöldinni í Alsír. Fimmta franska lýðveldið var stofnað af Charles de Gaulle árið 1958. Nær allar nýlendur Frakka fengu sjálfstæði eftir 1960, en margar þeirra hafa enn mikil stjórnmálaleg, menningarleg og efnahagsleg tengsl við Frakkland.
Frakkland hefur lengi talist vera miðstöð lista, vísinda og heimspeki. Landið er í 5. sæti yfir fjölda færslna á Heimsminjaskrá UNESCO og er vinsælasta ferðamannaland heims, með yfir 89 milljón ferðamenn árið 2018. Frakkland er þróað ríki og sjöunda stærsta hagkerfi heims að nafnvirði, og það níunda stærsta kaupmáttarjafnað. Landið situr hátt á listum yfir menntun, heilbrigðisþjónustu, lífslíkur og lífsgæði. Á heimsvísu er Frakkland enn stórveldi og á fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Frakkland er meðal stofnaðila Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Það á aðild að G7, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Samtökum frönskumælandi ríkja.
Saga
breytaFrakkland nútímans tekur yfir svipað svæði og hið forna hérað Gallía þar sem Gallar bjuggu en þeir voru keltnesk þjóð. Á fyrstu öld fyrir Krist var Gallía innlimuð í Rómaveldi og tóku íbúarnir upp latneska tungu og menningu. Kristni skaut rótum í landinu á annarri og þriðju öld eftir Krist. Á fjórðu öld tóku germanskir ættflokkar að streyma yfir Rín sem markaði austurlandamæri Gallíu. Í þeim hópi voru Frankar mest áberandi en af þeim er nafn Frakklands dregið.
Samfelld tilvist Frakklands sem sérstaks ríkis er talin hefjast á 9. öld þegar Frankaveldi Karlamagnúsar skiptist í vestur- og austurhluta. Austurhlutinn náði þá yfir það svæði sem nú er Þýskaland og er þessi skipting oft einnig talin marka upphaf Þýskalands.
Normannar lögðu undir sig England árið 1066 sem síðar leiddi til togstreitu milli afkomenda Vilhjálms sigursæla hertoga af Normandí og konunga Frakklands í hinu svokallaða hundrað ára stríði.
Frakkland var konungsríki allt til ársins 1792 þegar lýðveldi var komið á í kjölfar frönsku byltingarinnar.
Napóleon Bónaparte náði svo undirtökum í lýðveldinu og lýsti sjálfan sig keisara 1804. Napóleon lagði undir sig stóran hluta Evrópu með landvinningum og með því að koma skyldmennum til áhrifa í mörgum konungsríkjum þess tíma. Napóleon var settur af árið 1815 og var gamla konungsríkið endurreist. Það var svo afnumið með öðru lýðveldinu sem síðar var afnumið með öðru keisaraveldinu undir forustu bróðursonar Napóleons. Honum var svo steypt af stóli og þriðja lýðveldið aftur komið á 1870. Í síðari heimsstyrjöldinni hernámu Þjóðverjar norðanvert Frakkland, en svonefnd Vichystjórn stýrði suðurhlutanum. Að stríðinu loknu var stofnsett svokallað fjórða lýðveldi sem varð loks fimmta lýðveldið með stjórnskipunarbreytingum sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1958.
Frakkland var meðal sigurvegara í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni en hafði enga burði eftir stríðin til að viðhalda stórveldisstöðu sinni í heiminum.
Eftir stríðið hafa tekist sættir með Frökkum og Þjóðverjum og hefur samvinna þessara þjóða verið kjarninn í stofnunum eins og Evrópusambandinu en Frakkar hafa verið hvað harðastir stuðningsmenn þess að efla samstarf Evrópuríkja á sviði stjórnmála, varnar- og öryggismála.
Landfræði
breytaLandamæri Frakklands í Evrópu eru 2970 km að lengd og snúa að eftirtöldum átta ríkjum: Spáni (650 km), Belgíu (620 km), Sviss (572 km), Ítalíu (515 km), Þýskalandi (450 km), Lúxemborg (73 km), Andorra (57 km) og Mónakó (4,5 km). Í Suður-Ameríku á Franska Gvæjana landamæri að Brasilíu (580 km) og Súrínam (520 km). Saint-Martin-ey í Antillaeyjaklasanum skiptist milli Frakklands og Hollands. Loks gera Frakkar tilkall til svonefndrar Terre Adélie á Suðurskautslandinu. Stjórnsýsla á þessum yfirráðasvæðum Frakklands er með ýmsum hætti og ganga þau eftir því undir fjölbreytilegum nöfnum, allt frá „handanhafssýslu“ til „handanhafssvæðis“.
Meginland Frakklands einkennist af mjög fjölbreyttu landslagi, allt frá flatlendinu með norður- og vesturströndinni að fjallakeðjunum í suðaustri (Ölpunum) og suðvestri (Pýreneafjöllum). Í frönsku Ölpunum er hæsti fjallstindur í vestanverðri Evrópu, Mont Blanc, sem er talinn 4810 m. Í landinu er víða fjalllendi sem er eldra að uppruna, til að mynda miðhálendið (Massif Central), Júrafjöll, Vogesafjöll og loks Ardennafjöll sem eru bæði klettótt og vaxin þéttum skógi. Frakkar njóta þess einnig að eiga mikið kerfi vatnsfalla en helstu fljótin eru Leira, Rón (kemur upp í Sviss), Garonne (kemur upp á Spáni), Signa og nokkur hluti árinnar Rín, en einnig Somme og Vilaine. Meuse er eina stórfljótið í Frakklandi sem hefur ekki verið aðlagað skipaumferð.
Landsvæði Frakklands í Evrópu er 544 000 km², en með svæðunum utan Evrópu fer sú tala upp í 640 000.
Vegna mikils fjölda franskra yfirráðasvæða um allan heim sem snúa að hafi ræður Frakkland yfir annarri stærstu efnahagslögsögu heims á eftir Bandaríkjunum, samtals mælist hún 11.035.000 km².
Stjórnmál
breytaStjórnarfar
breytaFrakkland er einingarríki þar sem stjórnskipan byggir á forsetaþingræði.[1] Landið á sér langa lýðræðishefð sem mótað hefur stjórnmál, menningu og sjálfsmynd frönsku þjóðarinnar.[2] Stjórnskipan landsins hefur oft tekið stakkaskiptum en núgildandi stjórnskipan er kennd við fimmta franska lýðveldið og var tekin upp með samþykkt nýrrar stjórnarskrár 1958.[3] Með þeirri stjórnarskrá var horfið frá hreinu þingræði og völd forseta styrkt verulega á kostnað löggjafarþingsins í því skyni að koma á meiri stöðugleika í stjórnmálum landsins en ríkt hafði í tíð þriðja og fjórða lýðveldisins.[2]
Framkvæmdavaldið er í höndum tveggja embættismanna. Annarsvegar er það forseti Frakklands sem er kjörinn beint af kjósendum til fimm ára í senn.[4] Hins vegar er það forsætisráðherrann sem skipaður er af forsetanum til að leiða ríkisstjórn. Forsetinn hefur vald til þess að rjúfa þing og til þess að leggja mál beint í þjóðaratkvæðagreiðslu án aðkomu þingsins. Forseti skipar einnig dómara og aðra embættismenn auk þess sem hann skrifar undir samninga við önnur ríki og er æðsti yfirmaður alls herafla landsins. Hlutverk forsætisráðherra snýr hins vegar meira að innanlandsmálum og daglegum ríkisrekstri.[5]
Franska þingið fer með löggjafarvaldið og skiptist í tvær þingdeildir. Þjóðþingið (Assemblée nationale) er neðri deildin en öldungadeildin (Sénat) er efri deildin.[6] Á þjóðþinginu sitja 577 fulltrúar sem kjörnir eru af almenningi úr einmenningskjördæmum til fimm ára í senn.[7] Þingmenn efri deildar eru hins vegar kjörnir af fulltrúum sveitar- og hérðasstjórna. Kjörtímabil þeirra er sex ár og er kosið um helming sæta í öldungadeildinni á þriggja ára fresti.[8] Þjóðþingið er mun valdameira en öldungadeildin og getur samþykkt löggjöf gegn vilja öldungadeildar auk þess sem þjóðþingið getur vikið forsætisráðherra úr embætti.[9]
Stjórnsýslustig
breytaStjórnsýslustig í Frakklandi eru mörg. Ríkið skiptist í 18 stjórnsýsluhéruð, 13 héruð í Evrópu og 5 utan álfunnar svonefnd „handanhafshéruð“. Þessi héruð skiptast síðan í 101 sýslu. Þær eru tölusettar (í stórum dráttum eftir stafrófsröð) og ráðast póstnúmer, skráningarnúmer ökutækja og fleira af því.
Sýslurnar skiptast síðan í 342 sýsluhverfi (franska: arrondissements). Þau hafa enga kjörna fulltrúa og þjóna eingöngu tæknilegu hlutverki í skipulagi ríkisstofnana. Sýsluhverfin skiptast síðan niður í 2.054 kantónur (franska: cantons) sem eru fyrst og fremst kosningakjördæmi. Sýsluhverfin skiptast einnig í 34.945 sveitarfélög (franska: communes) er hafa kjörinnar sveitastjórnir.
Héruðin, sýslurnar og sveitarfélögin kallast „umdæmi“ (franska: collectivités territoriales), en það þýðir að þau hafa á að skipa bæði kjörnum fulltrúum og framkvæmdavaldi ólíkt því sem gildir um sýsluhverfin og kantónurnar.
Fimm af ofangreindum sýslum eru svonefndar „handanhafssýslur“ er falla saman við handanhafshéruðin fimm. Þau eru fullgildur hluti Frakklands (og þar með Evrópusambandsins) og hafa þannig að mestu sömu stöðu og sýslur á meginlandi Frakklands.
Lýðfræði
breytaMannfjöldi
breytaÍbúafjöldi í Frakklandi er um 63 milljónir (2006). Manntal fór fram með reglulegu millibili frá árinu 1801 en frá árinu 2004 hefur mannfjöldaskráin verið haldin óslitið.
Fjölgun íbúa í Frakklandi er einhver sú mesta í Evrópu og stafar það bæði af tiltölulega hárri fæðingatölu og miklum fjölda innflytjenda. Engu að síður fjölgar öldruðum í Frakklandi hlutfallslega mjög ört vegna hækkandi meðalaldurs og sökum þess að fjölmennar kynslóðir eftirstríðsáranna eru nú farnar að bætast í þann hóp.
Trúarbrögð
breytaEins og í ýmsum öðrum Evrópuríkjum telst ekki við hæfi í Frakklandi að ríkið grennslist fyrir um trúarlíf þegnanna. Ýmsar sjálfstæðar stofnanir stunda þó slíkar rannsóknir. Meðal annars fer fram á þriggja ára fresti könnun á vegum stofnunarinnar CSA. Samkvæmt könnun frá árinu 2004, sem náði til úrtaks 18.068 Frakka, segjast 64,3% kaþólskrar trúar en 27% segjast vera guðleysingjar. Hlutfall kaþólskra hafði þá fallið úr 69% á þremur árum. Þannig teljast um 30 milljónir fullorðinna Frakka kaþólskrar trúar en fjórar milljónir alls tilheyra öðrum trúarbrögðum, fyrst og fremst íslam og mótmælendakirkjum. Flestir hinna kaþólsku segjast ekki leggja rækt við trúna.
Samkvæmt könnun á vegum stofnunarinnar IFOP, sem fram fór í apríl árið 2004, segjast 44% Frakka ekki trúaðir. Árið 1947 var sá hópur ekki nema 20% þjóðarinnar.
Menning
breytaBókmenntir
breytaElstu bókmenntir Frakka voru samdar á miðöldum en þá var ekkert eitt tungumál talað á því landsvæði sem í dag tilheyrir Frakklandi. Franska var enn að verða til úr latínu snemma á miðöldum og ýmsar mállýskur voru talaðar en engin réttritun. Höfundar franskra mimðaldabókmennta eru ókunnir, sem sem höfundar verkanna Tristan og Ísold og Lancelot og hið heilaga gral. Ýmiss franskur miðaldakveðskapur sótti innblástur til þjóðsagna, til dæmis Rolandskvæði. „Roman de Renart“, sem Perrout de Saint Cloude samdi árið 1175, segir söguna af Reynard (refinum) og er annað dæmi um snemmfranskar bókmenntir. Nöfn nokkurra höfunda eru þekkt, þar á meðal Chrétien de Troyes og Vilhjálmur 9. af Aquitaniu, sem ritaði á okkitísku.
François Rabelais var mikilvægur höfundur á 16. öld og hafði töluverð áhrif á orðaforða og myndmál nútíma frönsku. Á 17. öld höfðu leikrit eftir Pierre Corneille, Jean Racine og Molière, sem og siðfræðileg og heimspekileg rit eftir Blaise Pascal og René Descartes mikil áhrif á frönsku yfirstéttina og urðu enn fremur mikilvægar fyrirmyndir næstu kynslóða franskra rithöfunda, þar á meðal fyrir höfunda á borð við Jean de La Fontaine, sem var mikilvægt skáld á 17. öld.
Franskar bókmenntir og kveðskapur stóðu í miklum blóma á 18. og 19. öld. Á 18. öld voru til að mynda að störfum rithöfundar eins og Voltaire, Denis Diderot og Jean-Jacques Rousseau, sem allir fengust við heimspeki. Charles Perrault var mikilvirkur höfundur barnabókmennta og skrifaði til dæmis víðkunnar sögur svo sem um stígvélaða köttinn, Öskubusku, Þyrnirós og Bláskegg.
Við upphaf 19. aldarinnar var táknsæisstefnan mikilvæg hreyfing í frönskum bókmenntum en til hennar heyrðu meðal annarra skáld á borð við Charles Baudelaire, Paul Verlaine og Stéphane Mallarmé.[12] Á 19. öld voru einnig að störfum rithöfundarnir Victor Hugo (Vesalingarnir og Hringjarinn í Notre-Dame), Alexandre Dumas (Skytturnar þrjár og Greifinn af Monte-Cristo) og Jules Verne (Sæfarinn: Ferðin kring um hnöttinn neðansjávar og Leyndardómar Snæfellsjökuls). Sá síðastnefndi var mikilvægur brautryðjandi vísindaskáldskapar. Meðal annarra skáldsagnahöfunda 19. aldar má nefna Émile Zola, Honoré de Balzac, Guy de Maupassant, Théophile Gautier og Stendhal.
Prix Goncourt eru frönsk bókmenntaverðlaun sem voru fyrst veitt árið 1903.[13] Meðal mikilvægra rithöfunda 20. aldar má nefna Marcel Proust, Louis-Ferdinand Céline, Albert Camus og Jean-Paul Sartre. Antoine de Saint Exupéry samdi Litla prinsinn, sem hefur áratugum saman notið vinsælda sem barnabók en einning meðal fullorðinna.[14] Lengst af á 20. öld áttu Frakkar fleiri nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum en nokkur önnur þjóð.[15]
Myndlist
breytaUpphaf franskrar myndlistar var undir töluverðum áhrifum frá ítalskri myndlist. Frægustu tveir myndlistarmenn Frakka á endurreisnartímanum voru Nicolas Poussin og Claude Lorrain, sem báðir bjuggu á Ítalíu. Forsætisráðherra Loðvíks 14., Jean-Baptiste Colbert, stofnaði árið 1648 Konunglegu myndlistarakademíuna til að styðja við listamenn og árið 1666 stofnaði hann Frönsku akademíuna í Róm, sem starfar enn. Henni var ætlað að styrkja tengslin við ítalska listamenn. Frönsk myndlist fylgdi einnig þróun ítalskrar myndlistar í áttina að rókókóstíl 18. aldarinnar en hann sótti innblástur til gamals barokkstíls. Verk hirðlistamanna, svo sem Antoines Watteau, François Boucher og Jean-Honorés Fragonard voru dæmigerð fyrir ríkjandi stíl. Með frönsku byltingunni komu ýmsar breytingar en Napóleon Bónaparte hafði dálæti af nýklassískum stíl, til dæmis í verkum Jacques-Louis David. Um miðja 19. öld var ríkjandi stefna í fyrstu rómantík, eins og fram kom í verkum Théodores Géricault og Eugènes Delacroix, og síðar meira raunsæi eins og verk Camilles Corot, Gustaves Courbet og Jean-François Millet bera vitni um.
Á síðari hluta 19. aldar varð Frakkland að miðstöð lista og listsköpunar og þar urðu til nýjar stefnur í myndlist, þar á meðal impressjónismi en meðal frægustu myndlistarmanna þeirrar stefnu voru Camille Pissarro, Édouard Manet, Edgar Degas, Claude Monet og Auguste Renoir.[16] Önnur kynslóð impressjónískra myndlistarmanna var einnig framúrstefnuleg en til þeirrar kynslóðar teljast myndlistarmennirnir Paul Cézanne, Paul Gauguin, Toulouse-Lautrec og Georges Seurat.[17] Til expressjónismans, sem naut vinsælda snemma á 20. öldinni, heyrðu Henri Matisse, André Derain og Maurice de Vlaminck.[18] En á fyrri hluta 20. aldar var kúbismi einnig að ryðja sér til rúms. Hann varð til í verkum Georges Braque og spánska listamansins Pablos Picasso, sem bjó í París. Margir aðrir erlendir listamenn settust að í París, svo sem Vincent van Gogh, Marc Chagall og Wassily Kandinsky.
Mörg listasöfn í Frakklandi sérhæfa sig í myndlist. Mikill fjöldi frægra málverka frá því á 18. öld eða fyrr er til sýnis á ríkisrekna listasafninu Louvre í París, þar á meðal Mona Lisa. Louvre-höll hefur lengi verið listasafn Orsay-safnið var vígt í gamalli lestarstöð (Gare d'Orsay) árið 1986, þegar mikil uppstokkun átti sér stað í skipulagi listasafna hins opinbera. Frönskum málverkum frá síðari hluta 19. aldar var safnað saman, einkum impressjónískum og expressjónískum verkum.[19][20] Nútímalist er til sýnis á Musée National d'Art Moderne, sem flutti árið 1976 til Centre Georges Pompidou. Þessi þrjú söfn taka á móti um það bil 17 milljónum gesta á ári hverju.[21] Meðal annarra opinberra myndlistarsafna má nefna Grand Palais (1,3 milljónir gesta árið 2008) en einnig eru mörg listasöfn í eigu borga og bæjarfélaga og er Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris vinsælast þeirra með um átta hundruð þúsund gesti á ári (2008).
Tónlist
breytaSaga franskrar tónlistar nær aftur til miðalda en stóð þó í mestum blóma á 17. öld þökk sé Loðvíki 14., sem réð fjölda tónlistarmanna og tónskálda við hirð sína. Frægustu tónskáld þessa tíma voru meðal annarra Marc-Antoine Charpentier, François Couperin, Michel-Richard Delalande, Jean-Baptiste Lully og Marin Marais. Allir voru þeir við hirð konungs. Að Loðvíki 14. látnum fataðist franskri tónlist flugið en á næstu öld öðlaðist Jean-Philippe Rameau þó nokkra frægð og er enn í dag meðal þekktustu tónskálda Frakklands. Klassísk tónlist náði aftur fyrri hæðum á 19. og 20. öld við lok rómantíska tímabilsins. Í fyrstu bar mest á óperutónskáldum á borð við Hector Berlioz, Georges Bizet, Gabriel Fauré, Charles Gounod, Jacques Offenbach, Édouard Lalo, Jules Massenet og Camille Saint-Saëns. Þetta tímabil var gullöld óperunnar. Á eftir fylgdu forverar nútíma klassískrar tónlistar með þá Érik Satie og Francis Poulenc og umfram allt Maurice Ravel og Claude Debussy fremsta í fylkingu.[22][23][24][25] Um miðja 20. öldina lögðu tónskáldin Maurice Ohana, Pierre Schaeffer og Pierre Boulez sitt af mörkum til þróunar klassískrar tónlistar.[26]
Frönsk tónlist var svo fyrir miklum áhrifum frá popptónlist og rokktónlist um miðja 20. öld. Enda þótt tónlist frá enskumælandi löndum yrði vinsæl í Frakklandi hefur frönsk popptónlist, þekkt sem chanson française, ætíð notið mikilla vinsælda. Meðal mikilvægustu tónlistarmanna Frakka á 20. öld má nefna Édith Piaf, Georges Brassens, Léo Ferré, Charles Aznavour og Serge Gainsbourg. Þótt fáar rokkhljómsveitir séu í Frakklandi samanborið við enskumælandi lönd,[27] hafa hljómsveitir á borð við Noir Désir, Mano Negra, Niagara og Rita Mitsouko og nýverið Superbus, Phoenix og Gojira[28] náð alþjóðlegum vinsældum. Meðal annarra franskra tónlistarmanna sem hafa notið vinsælda víða um heim má nefna söngkonurnar Mireille Mathieu, Mylène Farmer og Nolwenn Leroy, raftónlistarmennina Jean-Michel Jarre, Laurent Garnier, Bob Sinclar og David Guetta. Á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar hafa raftónlistarhljómsveitirnar Daft Punk, Justice og Air einnig náð vinsældum víða um heim og átt sinn þátt í að auka vinsældir raftónlistar um heim allan.[29][30]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Constitutional Limits on Government: Country Studies – France“. Democracy Web: Comparative studies in Freedom. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. ágúst 2013. Sótt 30. september 2013.
- ↑ 2,0 2,1 „France | History, Map, Flag, Capital, & Facts“. Encyclopedia Britannica (enska). Afrit af uppruna á 14. júní 2015. Sótt 27. ágúst 2021.
- ↑ Drake, Helen (2011). Contemporary France. Palgrave Macmillan. bls. 95. doi:10.1007/978-0-230-36688-6. ISBN 978-0-333-79243-8.
- ↑ „Le quinquennat : le référendum du 24 Septembre 2000“ [The 5-year term: referendum of 24 September 2000] (franska). Afrit af uppruna á 12. ágúst 2010.
- ↑ „The French National Assembly – Constitution of October 4, 1958“. 13. mars 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. mars 2013. Sótt 27. ágúst 2021.
- ↑ „The National Assembly and the Senate – General Characteristics of the Parliament“. Assemblée Nationale. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. desember 2008.
- ↑ „Election of deputies“. Assemblée Nationale. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júlí 2011.
- ↑ „The senatorial elections“. Sénate. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. júní 2011. Sótt 30. júlí 2010.
- ↑ „Le role du Sénat“ [What is the purpose of the Senate?] (franska). 18. ágúst 2007. Afrit af uppruna á 18. júní 2010.
- ↑ „Auteurs et répertoires“ Geymt 19 september 2010 í Wayback Machine - Opinber síða Comédie Française
- ↑ {{„Victor Hugo est le plus grand écrivain français“}}
- ↑ „„Le symbolisme français"“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2018. Sótt 7. mars 2011.
- ↑ „La première Académie Goncourt“ Geymt 25 apríl 2011 í Wayback Machine - Opinber síða l'Académie Goncourt Geymt 19 nóvember 2008 í Wayback Machine
- ↑ „The Little Prince“ Geymt 30 september 2018 í Wayback Machine - Completely Novel
- ↑ „National Literature Nobel Prize shares 1901-2009 by citizenship at the time of the award“ og „National Literature Nobel Prize shares 1901-2009 by country of birth“. Frá Jürgen Schmidhuber (2010), „Evolution of National Nobel Prize Shares in the 20th Century“ Geymt 27 mars 2014 í Wayback Machine á arXiv:1009.2634v1
- ↑ „Guide to Impressionism“
- ↑ „Le néo-impressionnisme de Seurat à Paul Klee“ Geymt 10 október 2017 í Wayback Machine 15. mars 2005.
- ↑ „„The Fauves"“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. nóvember 2010. Sótt 11. júlí 2011.
- ↑ Musée d'Orsay (opinber vefsíða), Saga safnsins - „From station to museum“
- ↑ Musée d'Orsay (opinber vefsíða), Saga safnsins - „History of the painting collection“
- ↑ „Sites touristiques en France“ Geymt 11 maí 2011 í Wayback Machine síða 2: „Palmarès des 30 premiers sites culturels (entrées comptabilisées)“
- ↑ NPR, „Debussy's 'La Mer' Marks 100th Birthday“, 14. október 2005.
- ↑ NPR, „Debussy's Musical Game of Deception“, 12. júlí 2008.
- ↑ Classic fM, „Biography of Claude Debussy“.
- ↑ Classic fM, „Biography of Maurice Ravel“
- ↑ NPR, „Composer-Conductor Pierre Boulez At 85“, 24. maí 2010.
- ↑ RFI Musique, „Biography of Noir Désir“ Geymt 16 júlí 2009 í Wayback Machine, mars 2009 : „Rokktónlist er Frökkum framandi. Þetta er rómanskt land með meiri áhuga á kveðskap og melódíu og hefur alið fáa hæfileikaríka rokktónlistarmenn. Rokktónlist hefur annað og engilsaxneskara innihald.“
- ↑ France Diplomatie, „French music has the whole planet singing“ Geymt 22 desember 2010 í Wayback Machine, júní 2009.
- ↑ The Telegraph, „Daft Punk: Behind the robot masks“, 17. nóvember 2007 : „Daft Punk var á margan hátt ábyrg fyrir því að kastljósið beindist að nýrri, svalri neðanjarðartónlist í Frakklandi seint á tíunda áratugnum, þar á meðal að hljómsveitum á borð við Air, og hafa haft ómæld áhrif á núverandi kynslóð plötusnúða um heim allan.“
- ↑ BBC News, „The return of French pop music“, 20. desember 2001.
Heimildir
breytaTenglar
breyta- „Hvað er Frakkland mörgum sinnum stærra en Ísland?“. Vísindavefurinn.
- „Hverjar eru fimm helstu borgir Frakklands?“. Vísindavefurinn.