Ermarsund
Ermarsund er sund í Atlantshafi á milli meginlands Evrópu (Frakklands) og eyjunnar Stóra-Bretlands og tengir Norðursjó við Atlantshafið. Nafnið kemur úr frönsku; La Manche, „ermin“. Á ensku er það kallað: English Channel. Það er um 560 km langt og breiðast 240 km, en mjóst 34 km, á milli borganna Dover og Calais.
Árið 1988 var byrjað að grafa lestargöng undir Ermarsundið og voru þau opnuð 1994 og tengja saman England og Frakkland. Göngin eru 50,5 km löng. Um þau fara hraðlestir sem kallast Eurostar.
Í sundinu eru Ermarsundseyjar, nær Frakklandi. Syllingar og franska eyjan Ouessant mynda vesturmörk sundsins.
Synt yfir ErmarsundiðBreyta
Ermarsundið er stundum kallað „Mount Everest sjósundmanna“ en að synda yfir sundið er eitt og sér mikið afrek. Einungis um helmingur þeirra sem reynir að synda yfir sundið nær því í fyrstu tilraun. Fyrstur til að synda yfir sundið var Matthew Webb en hann synti yfir sundið 24. ágúst 1875. Á næstu 36 árum voru gerðar 80 tilraunir til að synda yfir sundið, án árangurs. Fyrsta konan til að synda yfir Ermarsundið var Gertrude Ederle en hún gerði það 6. ágúst árið 1926
Fyrsti íslenski karlinn til að synda yfir Ermarsundið var Benedikt Hjartarson, en það gerði hann 16. júlí 2008. Fyrsta íslenska konan til að synda yfir Ermarsundið var Sigrún Þuríður Geirsdóttir, en það gerði hún 8. ágúst 2015. Hún var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að ná að synda yfir Ermarsundið í fyrstu tilraun.
Alls hafa sjö Íslendingar gert samtals 13 tilraunir til að synda yfir Ermarsundið.
Nafn | Dagsetning | Sundtími | Athugasemd |
---|---|---|---|
Benedikt Hjartarson | 16. júlí 2008 | 16 klst. og 1 mín. | Gerði einnig tilraun árið 2007 |
Sigrún Þuríður Geirsdóttir | 8. ágúst 2015 | 22 klst. og 34 mín. | |
Ásgeir Elíasson | 7. september 2015 | 17 klst. og 16 mín. | |
Árni Þór Árnason | 7. september 2015 | 20 klst. og 47 mín. | Gerði einnig tilraun árið 2011 |
Eyjólfur Jónsson | Gerði 3 tilraunir á árunum 1958 og 1959 | ||
Benedikt LaFleur | Gerði 3 tilraunir á árunum 2007 og 2008 | ||
Jón Kristinn Þórsson | Gerði tilraun árið 2018 |