Einmenningskjördæmi

Einmenningskjördæmi er kjördæmi í þingkosningum þar sem aðeins einn frambjóðandi nær kjöri. Mismunandi reglur geta gilt um það hvernig sigurvegarinn er ákvarðaður, algengt er að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði nái kjöri þó að viðkomandi fái ekki meirihluta atkvæða. Þetta fyrirkomulag er til dæmis notað í þingkosningum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Einnig kann að vera kosið í tveimur umferðum þannig að þeir tveir frambjóðendur sem fá flest atkvæði í fyrri umferð kosninga haldi áfram í aðra umferð, sú aðferð er til dæmis notuð við þingkosningar í Frakklandi. Þá er mögulegt að notast sé við forgangsröðunaraðferð þar sem kjósendur raða frambjóðendum í röð frá þeim sem þeir kjósa helst til þess sem þeir kjósa síst.

Það er talinn kostur við einmenningskjördæmi að þingmenn hafi sterka tengingu við tiltekið landsvæði og að kjósendur á því svæði hafi "sinn þingmann" til að leita til. Á móti kemur hins vegar að atkvæði þeirra sem kjósa aðra frambjóðendur falla dauð niður og smærri framboð eiga litla möguleika á að koma mönnum á þing. Í löndum þar sem eingöngu er notast við einmenningskjördæmi er því tilhneiging til þess að fáir stjórnmálaflokkar komi mönnum á þing, jafnvel aðeins tveir.

Einmenningskjördæmi á Íslandi

breyta

Einmenningskjördæmi tíðkuðust áður í Alþingiskosningum á Íslandi. Þegar Alþingi var endurreist 1844 voru 20 þingmenn kjörnir úr 20 einmenningskjördæmum auk þess sem konungur skipaði 6 þingmenn. Kjördæmin miðuðust þá við sýslur landsins auk þess sem Reykjavík var sérstakt kjördæmi. Árið 1874 var farið að gera sumar sýslur að tvímenningskjördæmum og eftir því sem fólki fjölgaði í Reykjavík fjölgaði þingmönnum höfuðstaðarins. Einmenningskjördæmi voru síðast notuð í Alþingiskosningunum í júní 1959 en þá voru 21 þingmenn kjörnir úr jafn mörgum einmenningskjördæmum, 12 þingmenn úr 6 tvímenningskjördæmum, 8 samkvæmt hlutfallskosningu í Reykjavík og 11 uppbótarmenn á landsvísu. Síðar sama ár var aftur kosið til Alþingis samkvæmt nýrri kjördæmaskipan þar sem landinu var skipt upp í átta kjördæmi með hlutfallskosningum.