Loðvík 14.

Konungur Frakklandis (f.1643 - d. 1715)

Loðvík 14. (5. september 16381. september 1715) var konungur Frakklands og Navarra frá 14. maí 1643 þar til hann lést, eða frá fjögurra ára aldri þar til hann var nærri sjötíu og sjö ára gamall. Hann ríkti því í sjötíu og tvö ár, lengur en nokkur annar franskur konungur eða nokkur annar af helstu einvöldum í Evrópu. Hann tók þó ekki persónulega við valdataumunum þar til eftir lát forsætisráðherra síns (premier ministre), Mazarins kardinála árið 1661. Hann var þekktur sem „sólkonungurinn“ (Le Roi Soleil) (sagt var að sólin snerist um hann), „Loðvík hinn mikli“ (Louis le Grand) eða sem „hinn mikli einvaldur“ (Le Grand Monarque). Iðulega er vísað til orða hans „Ríkið, það er ég“ („L'État, c'est moi“) og á það að vera til merkis um alræði stjórnunarhátta hans og ríkulegt sjálfsálit. Dregið hefur verið í efa að hann hafi raunverulega sagt þetta.[1]

Skjaldarmerki Búrbónar Frakkakonungur
Búrbónar
Loðvík 14.
Loðvík 14.
Ríkisár 1643 - 1715
SkírnarnafnLouis-Dieudonné
Fæddur5. september 1638
 Saint-Germain-en-Laye, Frakklandi
Dáinn1. september 1715 (76 ára)
 Versalahöll, Frakklandi
GröfSaint-Denis-kirkja, París
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Loðvík 13.
Móðir Anna frá Austurríki
DrottningMaría Teresa Spánarprinsessa
Börn
  • Loðvík erfðaprins
  • Anne-Élisabeth de France
  • Marie-Anne de France
  • Marie-Thérèse de France
  • Philippe-Charles de France
  • Louis-François de France

Loðvík fæddist undir nafninu Louis-Dieudonné[2] („Loðvík guðsgefni“) og steig á valdastól eftir andlát föður síns, Loðvíks 13., nokkrum mánuðum fyrir fimmta afmælisdaginn sinn. Hann var 64. konungur Frakklands og þriðji konungurinn af Búrbónaætt.

Á tíma Loðvíks varð til veraldlegt einveldi er byggðist á guðlegri forsjón. Loðvík 14. tók persónulega við stjórnartaumum Frakklands eftir dauða Mazarins kardinála og réð sér aldrei framar forsætisráðherra til að fara með völdin í sínu umboði. Með stjórnartíð hans lauk uppreisnum aðalsmanna, þingmanna, mótmælenda og bænda sem höfðu einkennt stjórnartíðir forvera hans. Konungurinn krafðist hlýðni lögstéttanna þriggja og mótaði almannaálit, meðal annars á mótmælendum og jansenistum. Hann byggði miðstýrt ríki þar sem hann lék æ stærra hlutverk eftir dauða ráðherranna Colbert árið 1683 og Louvois árið 1691.

Loðvík 14. teygði völd sín um alla Evrópu og gerðist erkióvinur Habsborgaraættarinnar. Stefna hans var sú að víkka og styrkja landamæri Frakklands og vernda þau með „járnbeltum“ verkfræðingsins Sébastien Le Prestre de Vauban, sem víggirti herteknar borgir. Til þess að styrkja efnahagsyfirburði Frakklands voru gerðar markvissar tilraunir til að útvíkka og þróa franska verslana- og nýlenduveldið.

Frá og með árinu 1682 ríkti Loðvík 14. frá höll sinni í Versölum. Versalahöll, sem Loðvík lét byggja, varð fyrirmyndin að fjölmörgum evrópskum höllum. Í hirð hans laut aðallinn konunginum og þurfti að fylgja ströngum og flóknum hirðsiðum. Loðvík var einnig mikill velgjörðarmaður franskra listamanna og styrkti m.a. Molière, Racine, Boileau, Lully, Le Brun og Le Nôtre. Í stjórnartíð Loðvíks var Nantes-tilskipunin, sem hafði veitt frönskum mótmælendum viss réttindi, felld úr gildi og mótmælendur voru ýmist neyddir til að skipta um trú eða reknir úr landi.

Síðustu ár valdatíðar Loðvíks einkenndust af flótta ofsóttra mótmælenda frá Frakklandi, af hungursneyðum árin 1693 og 1709 þar sem um tvær milljónir létu lífið, af uppreisn kalvínista og af dauða flestra erfingja Loðvíks. Öll skilgetin börn og barnabörn Loðvíks 14. létust á undan honum og því varð erfingi hans sonarsonarsonur hans, Loðvík 15., sem var aðeins fimm ára þegar hann erfði ríkið. Filippus hertogi af Orléans gerðist ríkisstjóri fyrstu árin eftir dauða Loðvíks 14. en þó lifði einveldið í anda hans áfram, sem sýnir hve mikil áhrif hann hafði haft á stjórnkerfi Frakklands.

Tilvísanir breyta

  1. Marignié, Jean Etienne François (1818). Le roi ne peut jamais avoit tort, le roi ne peut mal faire (franska). Le Normant. bls. 12.
  2. Archives départementales des Yvelines - Saint-Germain-en-Laye (BMS 1637-1644 ; vues 277/339 et 278/339) - Mort du Roy (Louis XIII) le 14 mai 1643 …apres une longue et langoureuse maladie mourut dans le Chasteau neuf de St Germain en Laye tres puissant tres Victorieux et tres chrestien Prince Louis De Bourbon treiziesme du nom surnommé Le Juste… ; tres Illustre Prince Louis De Bourbon quatorziesme du nom surnommé Dieudonné son fils aisné Dauphin de france…).


Fyrirrennari:
Loðvík 13.
Konungur Frakklands
(1643 – 1715)
Eftirmaður:
Loðvík 15.


   Þessi sögugrein sem tengist Frakklandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.