Forseti lýðveldisins Frakklands (franska: Président de la République française), í daglegu máli forseti Frakklands, er þjóðhöfðingi Frakklands. Það er elsta forsetaembætti Evrópu sem er til í dag, þ.e.a.s. hafa haft fimm af fjórum lýðveldum Frakklands forseta. Aðsetur forseta Frakklands er í Élysée-höll í París.

Þjóðtákn lýðveldisins Frakklands.

Forsetinn hefur verið Emmanuel Macron síðan 14. maí 2017.

Fyrsta skiptið sem stungið var upp á því að Frakkland fengi forseta var árið 1830 í júlíbyltingunni. Þá buðu byltingarmennirnir Lafayette markgreifa að gerast forseti, en hann afþakkaði boðið og studdi þess í stað að Loðvík Filippus hertogi af Orléans fengi að ríkja sem konungur. Átján árum síðar, þegar annað franska lýðveldið var stofnað, var ákveðið að kjósa forseta sem yrði nýr þjóðhöfðingi ríkisins. Fyrsti forseti Frakklands var Louis-Napoléon Bonaparte, sem var kjörinn í beinum kosningum með 74,3% atkvæða þann 10. desember árið 1848. Bonaparte var forseti til ársins 1951, en þá framdi hann valdarán og lýsti sjálfan sig keisara undir nafninu Napóleon 3..

Frakkland varð aftur að lýðveldi árið 1870 og fékk forseta á ný. Með stofnun þriðja lýðveldisins var þingræði komið á í Frakklandi og því voru völd forsetans hins vegar verulega skert. Forseti Frakklands á tíma þriðju og fjórðu lýðvelda Frakklands var í reynd valdalaus og táknrænn þjóðhöfðingi sem var ekki kjörinn í beinum kosningum af þjóðinni, heldur valinn af franska þinginu.

Þegar fimmta franska lýðveldið var stofnað árið 1958 jukust völd forsetaembættisins verulega. Forsetinn varð aftur æðsti valdsmaður Frakklands og fékk m. a. beint vald til að skipa forsætisráðherrann. Með stjórnarskrárbreytingum sem gerðar voru árið 1962 var aftur farið að kjósa forsetann í beinum kosningum, en þetta hafði þá ekki verið gert síðan árið 1848.

Árið 2000 var kjörtímabil forseta Frakklands stytt úr sjö árum í fimm. Árið 2008 voru sett lög sem banna forsetanum að sitja fleiri en tvö kjörtímabil í röð.

Tengt efni

breyta