Antillaeyjar
Antillaeyjar eru eyjarnar í Karíbahafi eða Vestur-Indíur, utan Bahamaeyjar. Almennt er gerður greinarmunur á Stóru-Antillaeyjum, norðan við Karíbahafið, sem telja Kúbu, Jamaíku, Hispaníólu og Púertó Ríkó, og Litlu-Antillaeyjum sem eru austurmörk Karíbahafsins og skiptast í Hléborðseyjar og Kulborðseyjar og eyjarnar undan strönd Venesúela. Landfræðilega eru eyjarnar taldar til Norður-Ameríku, en af menningarlegum og sögulegum ástæðum eru Stóru-Antillaeyjar talin með Rómönsku Ameríku.