Rómantíkin
Rómantíkin, rómantíska stefnan eða rómantíska tímabilið var listastefna sem var ríkjandi í evrópskri list og menningu frá lokum 18. aldar til miðrar 19. aldar, um það bil frá 1800 til 1850. Einkenni rómantísku stefnunnar voru áhersla á tilfinningar og einstaklingshyggju, upphafning náttúrunnar og efasemdir um iðnvæðinguna, og upphafning fortíðar með áherslu á miðaldir fremur en klassíska tímabilið.[1] Tímabilið tók við af upplýsingunni og var að sumu leyti viðbragð við iðnbyltingunni[2] og vísindalegri rökhyggju.[3] Rómantíska stefnan birtist í listsköpun; myndlist, tónlist og bókmenntum, en má líka sjá stað í sagnaritun, menntun og vísindum á þessum tíma. Rómantískir hugsuðir höfðu áhrif á þróun stjórnmálastefna á 19. öld, eins og íhaldsstefnu, frjálslyndisstefnu, róttækni og þjóðernishyggju.[4]
Stefnan lagði áherslu á tilfinningalífið sem uppsprettu fagurfræði, með áherslu á sterkar tilfinningar eins og hrifningu, ást, ótta og hrylling. Hið háleita var fagurfræðilegt viðmið sem var hægt að finna í óhamdri og villtri náttúru.[5][6] Hún leitaði fanga í alþýðumenningu og lagði líka áherslu á óundirbúna sköpun (eins og spunatónlist). Stefnan skilgreindi sig í andstöðu við upplýsinguna með áherslu sína á fornöldina og endurvakti miðaldahyggju til að flýja þéttbýlisvæðingu og iðnvæðingu sem einkenndi vestræn samfélög 19. aldar í síauknum mæli.
Helstu áhrifavaldar rómantísku stefnunnar voru þýska Sturm und drang-hreyfingin sem kom fram á síðari hluta 18. aldar og lagði áherslu á innsæi og tilfinningar,[7] og franska byltingin sem hafði áhrif á stjórnmálaskoðanir menntafólks um allan heim. Margir af fyrstu rómantísku hugsuðunum voru byltingarsinnar þótt þeir væru sjálfir af yfirstétt.[8] Rómantískir listamenn og gagnrýnendur lögðu áherslu á listamanninn sem „hetju“ sem lyfti samfélaginu á hærra og göfugra plan. Stefnan lagði þannig áherslu á frelsi einstaklingsins til að skapa út frá eigin ímyndunarafli, óháð formrænum reglum sem áður giltu um listsköpun. Sumir voru undir áhrifum frá söguhyggju í anda Hegels og trúðu því að „tíðarandinn“ væri óumflýjanlegur. Á seinni hluta 19. aldar kom raunsæið fram sem viðbrögð við rómantísku stefnunni.[9] Hnignun rómantísku stefnunnar stafaði af mörgum breytingum sem urðu á síðari hluta 19. aldar í menningu og listum, samfélagi og stjórnmálum.[10]
Sverrir Kristjánsson, sagnfræðingur, sagði um rómantísku stefnuna í grein sinni um Bjarna Thorarensen, sem nefndist: Fannhvítur svanur:
Rómantíska stefnan, svo sem hún birtist í upphafi 19. aldar, var tvíhverf í eðli sínu og öllum háttum: hún var andsvar tilfinninga og skáldlegs hugarflugs við flatbotna skynsemisstefnu og nytjatrú, tefldi fram kug og þjóðtungu gegn heimsborgarahætti 18. aldar. Í pólitískum og félagslegum efnum var hún einnig svo tvíbent, að oft brá til beggja vona, hvort hún yrði þjónusta afturhalds eða tendraði neista byltingar, enda dæmin til um hvorutveggja. Í heimi listarinnar gekk hún sér, einkum í Þýskalandi, til húðar í taumlausri einstaklingshyggju og sénídýrkun, svo hátt varð flug hennar, að hún eygði ekki lengur þann jarðneska veruleika, sem var þó hennar móðurskaut. |
Tilvísanir
breyta- ↑ Damrosch, Leopold (1985). Adventures in English Literature (enska). Orlando, Florida: Holt McDougal. bls. 405–424. ISBN 0153350458.
- ↑ Encyclopædia Britannica. Romanticism. Retrieved 30 January 2008, from Encyclopædia Britannica Online. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. október 2005. Sótt 24. ágúst 2010.
- ↑ Casey, Christopher (30. október 2008). „"Grecian Grandeurs and the Rude Wasting of Old Time": Britain, the Elgin Marbles, and Post-Revolutionary Hellenism“. Foundations. Volume III, Number 1. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. maí 2009. Sótt 14. maí 2014.
- ↑ Morrow, John (2011). Stedman Jones, Gareth; Claeys, Gregory (ritstjórar). Romanticism and political thought in the early 19th century (PDF). bls. 39–76. doi:10.1017/CHOL9780521430562. ISBN 978-0-511-97358-1. Sótt 10. september 2017.
- ↑ Coleman, Jon T. (2020). Nature Shock: Getting Lost in America. Yale University Press. bls. 214. ISBN 978-0-300-22714-7.
- ↑ Barnes, Barbara A. (2006). Global Extremes: Spectacles of Wilderness Adventure, Endless Frontiers, and American Dreams (enska). Santa Cruz: University of California Press. bls. 51.
- ↑ Hamilton, Paul (2016). The Oxford Handbook of European Romanticism (enska). Oxford: Oxford University Press. bls. 170. ISBN 978-0-19-969638-3.
- ↑ Blechman, Max (1999). Revolutionary Romanticism: A Drunken Boat Anthology (enska). San Francisco, CA: City Lights Books. bls. 84–85. ISBN 0-87286-351-4.
- ↑ "'A remarkable thing,' continued Bazarov, 'these funny old Romantics! They work up their nervous system into a state of agitation, then, of course, their equilibrium is upset.'" (Ivan Turgenev, Fathers and Sons, chap. 4 [1862])
- ↑ Szabolcsi, B. (1970). „The Decline of Romanticism: End of the Century, Turn of the Century-- Introductory Sketch of an Essay“. Studia Musicologica Academiae Scientiarum Hungaricae. 12 (1/4): 263–289. doi:10.2307/901360. JSTOR 901360.