Vísindaskáldskapur

Vísindaskáldskapur er tegund af skáldskap þar sem vísindi, sérstaklega ímynduð framtíðartækni, leika stórt hlutverk í sögunni. Meðal efnis sem kemur fyrir í vísindaskáldskap eru tímaferðalög, vélmenni, geimferðir, hliðarheimar og geimverur. Vísindaskáldsögur gerast oft í framtíðinni og/eða í geimnum. Söguheimur vísindaskáldsagna er gjarnan einhvers konar blanda af útópíu og dystópíu.

Myndskreyting fyrir sögu H. G. Wells, Innrásin frá Mars.

Vísindaskáldskapur tilheyrir grein furðusagna eins og fantasíur, en hann á sér fornar rætur. Elsta vísindaskáldsagan er stundum talin vera Sönn saga eftir Lúkíanos frá Samosötu sem var uppi á 2. öld. Vísindabyltingin á 17. öld og Upplýsingin á 18. öld gátu af sér fjölmargar skáldsögur sem fengust við möguleika hinna nýju raunvísinda og uppgötvanir í stjörnufræði, oft í þeim tilgangi að gagnrýna samtímamenningu höfundanna. Meðal þessara sagna eru Somnium Johannesar Keplers og smásagan „The Blazing World“ eftir Margaret Cavendish. Iðnbyltingin á 19. öld og örar tækniframfarir höfðu áhrif á fjölmarga rithöfunda eins og Mary Shelley (Frankenstein) og Edgar Allan Poe (Ævintýri Artúrs Gordons Pym). Franski rithöfundurinn Jules Verne var sá fyrsti sem gerði vísindaskáldskap að eins konar sérgrein. Hann er stundum kallaður „faðir vísindaskáldsögunnar“ ásamt hinum gríðarlega afkastamikla H. G. Wells og lúxemborgíska útgefandanum Hugo Gernsback.

Meðal annarra þekktra höfunda vísindaskáldsagna má nefna Edgar Rice Burroughs, Isaac Asimov, Frank Herbert, Philip K. Dick, Ursula K. Le Guin og William Gibson.

Fjölmargar vinsælar kvikmyndir hafa fengist við vísindaskáldskap. Meðal þeirra þekktustu eru Tunglferðin (1902), Metropolis (1927), Solaris (1961), 2001: A Space Odyssey (1968), Apaplánetan (1968), Stjörnustríð (1977), Blade Runner (1982) og Fylkið (1999). Vinsælar sjónvarpsþáttaraðir sem fást við vísindaskáldskap eru meðal annars Í ljósaskiptunum (frá 1959), Doctor Who (frá 1963), Star Trek (frá 1966) og The X-Files (1993-2002).

  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.