Karlungar voru konungsætt Frankaríkisins frá 751 þar til ríkinu var skipt með Verdun-samningnum árið 843. Karlungar ríktu síðan í ríkjunum þremur sem urðu til við samninginn; í Frakklandi þar til Kapetingar tóku við 987, í miðríkinu Lóþaringen til 887 og í hinu Heilaga rómverska ríki til 911.

Stofnandi ættarveldisins er venjulega talinn Arnúlfur af Metz, biskup af Metz á síðari hluta 7. aldar. Hann varð valdamikill eftir að hafa stutt Klóþar II í að sameina konungsríki Franka (Ástrasíu, Nevstríu og Búrgúndí). Sonur hans, Ansugisel, giftist Beggu, dóttur Pípins eldra, hallarbryta og varð sjálfur bryti eftir hann. Sonur hans Pípinn II náði völdum í ríkjunum þremur og sigraði konunginn, Þjóðrík III þegar hann reyndi að bola honum frá. Þar með var embætti hallarbrytans orðinn í raun valdamesta embætti ríkisins.

Sonur Pípins, Karl hamar, náði svo miklum vinsældum (hjá páfa, meðal annarra) eftir sigur hans yfir márum í orrustunni við Poitiers 732 að syni hans, Pípin III tókst að velta síðasta Mervíkingnum úr sessi og verða Frankakonungur 751.

Sonur Pípins III og þekktasti konungur Karlunga, Karl mikli eða Karlamagnús, varð konungur eftir bróður sinn Karlóman árið 771. Sonur hans, Lúðvík guðhræddi, reyndi að sætta metnað þriggja sona sinna, en eftir dauða hans börðust þeir innbyrðis sem endaði með skiptingu ríkisins samkvæmt Verdun-samningum 843.

Ættarveldi Karlunga

breyta