Hinrik 4. keisari

(Endurbeint frá Hinrik IV (HRR))

Hinrik IV (11. nóvember 1050 í Goslar7. ágúst 1106 í Liége) var konungur og keisari þýska ríkisins af Salier-ættinni. Hann þótti einn umdeildasti keisari miðalda og ríkti í hartnær hálfa öld, lengur en nokkur annar þjóðhöfðingi síns tíma. Hinrik er sennilega þekktastur fyrir deilur sínar við Gregoríus VII páfa og iðrunarferð sína til Canonssa.

Hinrik (krjúpandi) ræðir við Matthildi frá Toscana og Húgó ábóta frá klaustrinu Cluny

Æviágrip

breyta

Ungur konungur

breyta
 
Keisarahöllin í Goslar, fæðingarstaður Hinriks.

Hinrik fæddist í keisarahöllinni í Goslar árið 1050. Foreldrar hans voru hinn aldni keisari Hinrik III og eiginkona hans Agnes frá Poitou. Þegar Hinrik var aðeins þriggja ára, lét faðir hans kjörfurstana velja hann til meðkonungs sem ætti svo að taka við af sér. Ári síðar var hann svo krýndur til konungs í keisaraborginni Aachen, þá aðeins fjögurra ára gamall. 1056 lést svo hinn aldni Hinrik III í viðurvist Viktors II páfa. Páfi og kjörfurstarnir fóru þá með hinn 6 ára gamla Hinrik til Aachen, þar sem hann var formlega krýndur. En sökum ungs aldurs tók móðir hans, Agnes, við stjórnartaumunum. Sökum óánægju með stjórn hennar tóku sig nokkrir ríkisfurstar saman og gerðu uppreisn 1062 undir forystu Annos erkibiskup í Köln, sem var einn kjörfurstanna. Hann rændi Hinrik og setti hann í stofufangelsi hjá sér. Þannig náði Anno völdum í ríkinu og stjórnaði að eigin geðþótta, í nafni konungs. Þetta fyrirkomulag hélst í heilt ár, en þá var Hinrik látinn laus. Hann varð myndugur 1065.

Saxastríðin

breyta

Fyrsta stóra málið sem Hinrik varð að taka á var uppreisn saxa í norðurhluta ríkisins. Hinrik hélt inn í Saxland og taldi sér trú um að allt væri í lagi þar. Hann lét taka besta landið fyrir sig sjálfan, reisa kastalavirki til að geta haft stjórn á fólkinu og krafðist viðurværis fyrir her sinn. Saxar létu sér hins vegar ekki segjast. Þeir söfnuðu miklu liði og gerðu umsátur um konung er hann sat í virkinu Harzburg í Harsfjöllum. Hinriki tókst hins vegar að flýja í skjóli nætur. Sökum þess að fáir sem engir ríkisfurstar vildu aðstoða hann í þessum erjum, varð hann að fara alla leið suður til Worms til að vera óhultur. Næsta ár safnaði Hinrik liði og hélt til Saxlands á ný. Þar mætti honum miklu stærri saxneskur her. Hins vegar dró ekki til orrustu, þar sem báðir aðilar hikuðu. Þess í stað var sest niður og samið. Hinrik samþykkti allar kröfur saxa og hélt á braut. Virkin voru rifin niður, nema Harzburg, enda hvíldu ungur sonur og bróðir Hinriks í kirkjugarðinum þar. Hlutirnir snerust hins vegar þegar saxar tóku sig saman og rifu sjálfir niður Harzburg og svívirtu grafirnar. Þá safnaði Hinrik liði á ný og hélt á næsta ári aftur í herferð til Saxlands. Hann sigraði þá í orrustu við Homburg árið 1075. Saxar gáfust upp og létu af öllum kröfum sínum.

Staðamálin

breyta

Aðeins skömmu síðar gaus upp næsta stóra málið, staðamálin í ríkinu. Deilur spruttu upp milli páfa og konungs um embætti biskupanna. Oftar en ekki voru biskuparnir ekki bara þjónar kirkjunnar, heldur einnig ríkisfurstar. Þannig voru erkibiskuparnir í Köln, Trier og Mainz samtímis kjörfurstar. Konungur vildi því eðlilega hafa nokkur áhrif á hvaða menn klæddu þessi embætti. Páfarnir sömuleiðis. Á þessum tíma tíðkaðist nokkuð að menn keyptu sér embætti, bæði af páfa og af keisara, allt eftir því hver væri sterkari aðilinn hverju sinni. Báðir aðilar settu auk þess menn í embætti sem voru þeim hliðhollir. Aðstæðurnar urðu mjög alvarlegar þegar Hinrik setti mann í embætti erkibiskups Milano sem Alexander II páfi hafði áður bannfært. 1073 varð Gregoríus VII páfi í Róm. Hann var ákaflega mótfallin því að konungur skyldi fetta fingur í það hvaða menn yrðu biskupar. Hann hóf að semja við Hinrik um málið, en þegar það skilað engum árangri lét páfi bannfæra ráðgjafa konungs. Hinrik hefndi sín á því að setja aftur mann í embætti erkibiskups í Milano sem var honum hliðhollur, án þess að ráðfæra sig við páfa. Eftir harðort mótmælabréf frá páfa hélt Hinrik ríkisþing í Worms 1076. Á þessu þingi samþykktu allir biskupar tillögu konungs að setja Gregoríus páfa af. Biskuparnir rituðu í bréfi að Gregoríus hafi ekki hlotið páfakjör á hefðbundinn hátt, heldur hafi almenningur gert hann að páfa. Auk þess hafi konungur ríkisins vald til að setja páfa af eða á. Gregoríus brást illa við þessum tíðindum. Hann lýsti því samstundis yfir að Hinrik væri settur af sem konungur og bannfærði hann að auki. Eftir þennan gjörning yfirgáfu margir ríkisfurstar og biskupar Hinrik.

Iðrunarförin til Canossa

breyta

Ríkisfurstarnir gerðu Hinrik grein fyrir því að ef hann væri ekki búinn að leysa sín mál við Gregoríus páfa fyrir febrúar næsta árs, myndu þeir velja annan konung yfir sér. Sjálfur safnaði páfi liði og hélt norður til fundar við kjörfurstana til að vera viðstaddur nýtt konungskjör sem fara átti fram í Ágsborg. Nú var Hinrik í vondum málum. Hinrik tók skjóta ákvörðun. Hann hélt af stað með litlu liði til móts við páfa, yfir snæviþakin Alpafjöll í janúar. Páfi frétti af komu hans og leitaði skjóls í kastalavirkinu Canossa í Appenínafjöllum. Hinrik kom til Canossa 25. janúar 1077 og klæddist iðrunarfötum. Í fjóra heila daga þurfti Hinrik að iðrast þannig og bíða í kuldanum eftir svari páfa. Loks hleypti páfi honum inn og leysti hann úr bannfæringunni, aðeins fimm dögum áður en frestur kjörfurstanna var liðinn. För Hinriks varð víðfræg. Aldrei áður hafði konungur þýska ríkisins þurft að lúta svo lágt. Hvort Hinrik raunverulega iðraðist eða hvort þetta var aðeins pólitískur gjörningur hjá honum er erfitt að meta. Fræðimenn seinni tíma telja að iðrunarförin hafi styrkt Hinrik sem konung, en til langframa veikt konungdóminn í ríkinu.

Gagnkonungar

breyta

Þrátt fyrir sátt páfa og konungs funduðu kjörfurstarnir í mars 1077 og leystu Hinrik konung af. Jafnframt kusu þeir Rúdolf frá Rheinfelden sem nýjan konung. Rúdolf hét því að gera ekkert tilkall til krúnunnar fyrir afkomendur sína og skipta sér ekki af embættissetningu biskupa. Rúdolf þessi gekk í sögubækurnar sem gagnkonungur og var alla tíð duglítill konungur. Hann er oft ekki einu sinni nefndur í upptalningum á konungum og keisurum þýska ríkisins. Hinrik sá sitt óvænna og safnaði liði til að berjast við nýja mótstöðumanninn. Auk þess setti hann ríkisbann á Rúdolf, sem flúði til Saxlands þrátt fyrir stuðning meirihluta kjörfurstanna. Í Saxlandi fóru fram tvær orrustur, við Mellrichstadt 1078 og við Merseburg 1080. Í báðum orrustum sigraði Rúdolf, en særðist þó í seinni orrustunni. Hann missti hægri höndina og fékk banvænt sár í kviði. Bandamenn Hinriks höfðu hátt um það að það væri Guðs vilji að Hinrik ætti að vera konungur, enda væri töpuð hægri hönd réttlát refsing fyrir krúnuræningja. Kjörfurstarnir hikuðu. Eftir heilt ár komu þeir saman og kusu Hermann frá Salm sem nýjan konung. Samtímis því hafði Hinrik farið til Ítalíu á fund Klemens III páfa, sem krýndi hann til keisara þýska ríkisins. Hann kom því tvíefldur heim. 1085 réðist hann inn í Saxland með álitlegan her. Hermann flúði bardagalaust til Danmerkur, en sneri þaðan að ári. Hann sigraði Hinrik í orrustunni við Pleichfeld við Main og náði að vinna Würzburg. En hann náði ekki að fylgja þessu eftir. Æ fleiri furstar viðurkenndu nú Hinrik sem réttkjörin konung og keisara. Hermann lét lífið í hólmgöngu stuttu seinna.

Ítalíuferðir

breyta
 
Hinrik IV og Klemens III páfi sitja saman

Árið 1080 bannfærði Gregor páfi Hinrik á nýjan leik. Að þessu sinni brást Hinrki allt öðruvísi við en síðast. Hann hélt kirkjuþing í Bressanone (þýska: Brixen) í Tírol ásamt meirihluta biskupa frá þýska ríkinu og Langbarðalandi. Þar var erkibiskupinn Wibert frá Ravenna kjörinn sem gagnpáfi og tók hann sér nafnið Klemens III. Eftir að hafa barið á Rúdolf gagnkonungi, fór Hinrik til Rómar þar sem hann sat í heil þrjú ár um borgina. Á milli neyddist hann til að hörfa til Norður-Ítalíu af ýmsum ástæðum. En Róm féll loks 31. mars 1084. Klemens III komst því formlega til valda og krýndi Hinrik og eiginkonu hans, Bertu, til keisara og keisaraynju. Á meðan hafði Gregoríus VIII lokað sig af í virkinu Englaborg (Castel Angelo) í Róm og beið eftir liðsauka frá normönnum og márum. Þegar þeir komu, yfirgaf Hinrik Róm og hélt heim. Normannar og márar frelsuðu að vísu Gregor, en þeir rændu og rupluðu borgina og kveiktu í henni. Gregor yfirgaf því borgina einnig og lést í Salerno ári síðar. 1090 fór Hinrik aftur til Ítalíu til að berjast gegn bandalagi sem myndast hafði við nýjan páfa (eftirmanns Gregors), sem kallaði sig Úrbanus II. Nýi páfinn bannfærði Hinrik, í þriðja sinn. Um páskaleytið 1091 var Hinrik búinn að hertaka borgina Mantua. En þá yfirgaf stríðslukkan hann. Óvinir hans lokuðu Alpaskörðunum og króuðu keisarann þannig af á Norður-Ítalíu í þrjú ár. Þetta reyndist erfiður tími fyrir hann, enda yfirgaf sonur hans, Konráður, hann, þrátt fyrir að hafa verkið krýndur sem meðkonungur. Hinrik komst ekki til baka í ríki sitt fyrr en 1097.

Fall Hinriks

breyta
 
Hinrik IV gerir son sinn, Hinrik, að meðkonungi sínum

Það var ekki margt sem Hinrik afrekaði eftir þetta. Hann setti Konráð son sinn af og lét krýna yngri son sinn, Hinrik, sem meðkonung. Árið 1100 lést Klemens páfi. Samfara því hafði Paskalis II verið gagnpáfi og bannfærði hann Hinrik enn á ný 1102, í fjórða sinn. Við þetta ráðgerði Hinrik að fara í pílagrímsferð til landsins helga og losa sig þannig af bannfæringunni. En uppreisn Hinriks, sonar hans, gerði þessi áform að engu. Hinn ungi Hinrik snerist á sveif með óvinum föður síns og gekk til liðs við Paskalis páfa vegna þess að hann óttaðist að verða ekki viðurkenndur konungur eftir daga föður síns. Síðla árið 1105 lét hinn ungi Hinrik loka föður sinn inni í virkinu Böckelheim og neyddi hann til að segja af sér. Sjálfur tók hann ríkisdjásnin og tók við konungdómi af föður sínum sem Hinrik V. Kjörfurstarnir létu sér þetta vel líka. Hinum aldna Hinrik tókst að flýja stuttu seinna og safna liði. Á tímabili lá við borgarastyrjöld. Á hvítasunnu var hinn aldni konungur í Liége. Þar veiktist hann hastarlega og lést eftir nokkurra mánaða legu árið 1107. Hann var hvílir í dómkirkjunni í Speyer.

Fjölskylda

breyta

Hinrik IV var tvíkvæntur. 1066 kvæntist hann Bertu frá Torino. Þau áttu 5 börn:

Aðalheiður (f. 1070) dó 9 ára gömul
Hinrik (f. 1071) dó sem ungbarn
Agnes (f. 1072) átti fyrst Friðrik I hertoga af Sváfalandi, en síðar Leópold III markgreifa af Austurríki
Konráður (f. 1074) var meðkonungur til 1098.
Hinrik (f. 1086) konungur og keisari þýska ríkisins sem Hinrik V, kvæntist Matthildi frá Englandi

1089 kvæntist Hinrik Aðalheiði frá Kiev. Þeim var ekki barna auðið.

Heimildir

breyta

Höfer, Manfred. Die Kaiser und Könige der Deutschen, Bechtle 1994. Fyrirmynd greinarinnar var „Heinrich IV. (HRR)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júlí 2010.


Fyrirrennari:
Hinrik III
Keisari þýska ríkisins
(10561105)
Eftirmaður:
Hinrik V