Maraþonhlaup

langhlaup sem er 42,195 km að lengd

Maraþonhlaup, eða bara maraþon er langhlaup að staðlaðri lengd kennt við borgina Maraþon á Grikklandi. Maraþonhlaup er 42,195 km langt og er það vegalengdin sem boðberi nokkur er sagður hafa hlaupið með skilaboð um sigur í bardaganum við Maraþon frá þeirri borg til Aþenu. Sagan segir að hann hafi ekkert stansað á leiðinni og hafi látist um leið og hann skilaði af sér boðunum.[1] Maraþon eru oft hlaupin um borgir og taka oft mjög margir þátt í hverju hlaupi. Þá eru oft hlaupin með til dæmis hálfmaraþon, þar sem hlaupinn er 21,1 km auk þess sem stundum er fjórðungur vegalengdarinnar hlaupinn. Meðal frægustu maraþonhlaupa heims eru þau sem fram fara í New York, London og Chicago.

Á Íslandi fara árlega fram fjögur maraþonhlaup. Félag maraþonhlaupara stendur fyrir tveimur hlaupum, öðru í mars (marsþon) og hinu í október (haustþon). Mývatnsmaraþon hefur verið þreytt síðan 1995 og Reykjavíkurmaraþon síðan 1989. Íslandsmet í maraþonhlaupi eiga Martha Ernst­dótt­ir, sem hljóp á 2:35:15 þann 26. september 1999 í Berlín, og Hlynur Andrésson, sem hljóp á 2:13:37 þann 21. mars 2021 í Dresden.[2] Tigst Assefa frá Eþíópíu á gildandi heimsmet kvenna sem hún setti þegar hún hljóp á 2:11:53 í Berlín haustið 2023.[3] Gildandi heimsmet karla er frá haustinu 2023 þegar Kelvin Kiptum frá Keníu hljóp á tímanum 2:00:35 í Chicago.[4] Eliud Kipchoge, einnig frá Keníu, á heiðurinn af fyrsta maraþonhlaupinu undir tveimur tímum, frá því þegar hann hljóp á 1:59:40 í Vín árið 2019.[5] Það hlaup var ekki háð í stöðluðu keppnisfyrirkomulagi, og því var tíminn ekki samþykktur sem heimsmet af Alþjóða frjálsíþróttasambandinu. Til dæmis var hlaupið ekki opið öðrum en Kipchoge, aðrir hlauparar mynduðu skjöld um hann til að minnka vindmótstöðu, og bíll ók fyrir framan hann á réttum hraða.

Magnús Guðbjörnsson hljóp maraþonhlaup fyrstur Íslendinga árið 1926. Hann hljóp þá frá Kambabrún vestur á Íþróttavöllinn í Reykjavík á 3:15:15. Ekki var þó um nákvæmlega mælda vegalengd að ræða, heldur var hlaupið áætlað rétt rúmur 41 km.

Fyrsta konan til að hlaupa maraþon, sem viðurkennt var af Alþjóða frjálsíþróttasambandinu, var Violet Piercy. Hún hljóp á tímanum 3:40:22 í London árið 1926. Á þeim tíma voru flest hlaup fyrir konur í Bretlandi takmörkuð við í mesta lagi 1000 metra, vegna þess að talið var að það væri heilsuspillandi fyrir konur að hlaupa lengri vegalengdir. Piercy sagði í viðtali við breska blaðið The Evening Standard eftir hlaupið að hún hefði viljað sýna að konur gætu stundað þrekvirki, rétt eins og karlmenn.[6]

Félag maraþonhlaupara heldur utan um árangur allra Íslendinga sem hlaupið hafa maraþon í löglegri keppni.

Tilvísanir

breyta
  1. Geir Þ. Þórarinsson. „Hversu langt var fyrsta maraþonhlaupið og hversu öruggar heimildir eru um að það hafi raunverulega verið hlaupið á meðal Forngrikkja?“. Vísindavefurinn 2.12.2010. http://visindavefur.is/?id=57327. (Skoðað 2.12.2010).
  2. „Sif - Afrekaskrá FRÍ“. sif.fri.is (enska). Sótt 31. maí 2023.
  3. „Marathon - women - senior - outdoor“. worldathletics.org. Sótt 24. september 2023.
  4. „Marathon - men - senior - outdoor“. worldathletics.org. Sótt 23. október 2023.
  5. „INEOS 1:59 Challenge“. INEOS 1:59 CHALLENGE (enska). Sótt 31. maí 2023.
  6. Schaverien, Anna (8. október 2021). „Overlooked No More: Violet Piercy, Pioneering Marathoner“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 31. maí 2023.

Tenglar

breyta