Róm

höfuðborg Ítalíu

Róm eða Rómaborg (ítalska og latína: Roma) er höfuðborg Ítalíu og höfuðstaður héraðsins Latíum. Miðborg Rómar er sérstakt sveitarfélag, Comune di Roma Capitale. Íbúar eru rúmleg 2,8 milljónir á 1.285 km2. Róm er því fjölmennasta sveitarfélag Ítalíu og þriðja fjölmennasta borg Evrópusambandsins ef miðað er við íbúa innan borgarmarka. Á höfuðborgarsvæði Rómar búa rúmlega 4,3 milljónir sem gerir það að þriðja stærsta borgarsvæði Ítalíu.[1] Róm er staðsett um miðja vesturströnd Ítalíuskaga á bökkum fljótsins Tíber. Vatíkanið, minnsta ríki heims,[2] er sjálfstætt ríki innan borgarmarka Rómar og eina dæmið um ríki innan borgar. Róm er stundum nefnd sjöhæðaborgin og líka „borgin eilífa“.[3] Róm er almennt álitin vagga vestrænnar kristni og miðstöð kaþólsku kirkjunnar.[4][5][6]

Róm
Roma (ítalska)
Fáni Rómar
Skjaldarmerki Rómar
Róm er staðsett í Ítalía
Róm
Róm
Hnit: 41°53′36″N 12°28′58″A / 41.89333°N 12.48278°A / 41.89333; 12.48278
Land Ítalía
HéraðLatíum
Stofnun21. apríl 753 f.Kr.
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriRoberto Gualtieri (PD)
Flatarmál
 • Samtals1.285 km2
Hæð yfir sjávarmáli
21 m
Mannfjöldi
 (2019)
 • Samtals2.860.009
 • Þéttleiki2.236/km2
TímabeltiUTC+01:00 (CET)
 • SumartímiUTC+02:00 (CEST)
Póstnúmer
00100; 00118 til 00199
Svæðisnúmer06
Vefsíðacomune.roma.it
August Fischer (1895)
Hringleikahúsið í Róm (Kólosseum)

Borgin stendur við Tíberfljót og reis upphaflega á sjö hæðum á vestri bakka fljótsins gegnt Tíbereyju; Palatínhæð, Aventínhæð, Kapítólhæð, Kvirinalhæð, Viminalhæð, Eskvinalhæð, Janikúlumhæð. Hún umlykur borgríkið Vatíkanið þar sem höfuðstöðvar kaþólsku kirkjunnar eru og aðsetur páfans, æðsta stjórnanda hennar. Þar var til forna höfuðborg rómverska heimsveldisins, og þar með menningarleg höfuðborg Miðjarðarhafssvæðisins. Róm er stundum kölluð „borgin eilífa“.

Í dag búa í Róm rúmar tvær og hálf milljónir manna. Borgarstjóri er Roberto Gualtieri. Öll stjórnsýsla ítalska ríkisins, utan héraðsþing sjálfstjórnarhéraðanna fimm er í borginni. Höll forseta lýðveldisins er í Kvirinalhöll, sem áður var bústaður páfa. Að auki hýsir borgin ýmsar mikilvægar alþjóðastofnanir, eins og Alþjóða matvælastofnunina (FAO).

Heiti breyta

Samkvæmt arfsögn Rómverja um uppruna borgarinnar dregur borgin nafn sitt af Rómúlusi, stofnanda og fyrsta konungi borgarinnar.[7] Þó getur vel verið að Rómúlus hafi fengið nafn sitt frá borginni.[8] Í gegnum tíðina hafa komið fram ýmsar tilgátur um uppruna nafnsins, meðal annars:

  • Rumon eða Rumen er fornt nafn á Tíber, dregið af grísku sögninni ῥέω hreó „að flæða“.
  • Af etrúska orðinu 𐌓𐌖𐌌𐌀 ruma af rótinni *rum- „geirvarta“ sem vísun í arfsögnina um úlfynjuna sem ól Rómúlus og Remus eða form Palatínhæðar og Aventínhæðar.
  • Af gríska orðinu ῥώμη hróme „styrkur“.

Borgin hefur fengið ýmis auknefni í gegnum tíðina eins og Urbs Aeterna „borgin eilífa“, Caput fidei „höfuðborg trúarinnar“, og Caput mundi „höfuðborg heimsins“.

Á íslensku er Róm kvenkynsorð, en var haft í hvorugkyni hér áður fyrri (annaðhvort skrifað Róm eða Rúm). Þá var sagt að fara til Róms, ekki til Rómar. Róm er nú til dags oftast skrifað Rómar í eignarfalli. Róma er gamalt heiti á Róm. En stundum var Róma haft aðeins um borgarsvæðið norðan við Tíber (sem á íslensku var nefnd Tífur).

Róma heitir fyrir (norðan) Tífur, en Latran fyrir sunnan, en þó allt Rómaborg.

Rétt er að skrifa Rómaborg, en ekki Rómarborg (og engin dæmi um það í orðabókum) og er nefnd skilgreinandi samsetning. Eða bandstafssamsetning, eftir því hvernig menn líta á samsetninguna.

Saga Rómar breyta

Stofnun breyta

Fundist hafa fornleifar sem benda til mannabyggðar í Róm frá því fyrir 14.000 árum, en þykk búsetulög sem eru miklu yngri þekja mögulegar minjar frá steinöld.[9] Fundist hafa allt að 10.000 ára gömul steinverkfæri og leirmunir. Á grundvelli fornleifarannsókna hefur því verið haldið fram að Róm hafi þróast út frá byggðum hirðingja á Palatínhæð ofan við Forum Romanum. Á milli loka bronsaldar og upphafs járnaldar byggðust þorp efst á hverri hæð frá ströndinn til Kapítólhæðar. Vitað er að þorp byggðist upp á Kapítólhæð á 14. öld f.o.t.[10] Ekkert af þessum þorpum minnti samt á borg.[10] Í dag er almennt talið að borgin hafi orðið til við samruna nokkurra þorpa við það stærsta, efst á Palatínhæð.[10] Aukin framleiðni landbúnaðar gerði þennan samruna mögulegan og leiddi til þróunar iðnaðar og stjórnsýslu. Þessi þróun efldi síðan verslun við grísku nýlendurnar á Suður-Ítalíu, einkum Iskíu og Kúmae.[10] Fornleifar benda til þess að þróunin hafi átt sér stað á 8. öld f.o.t. og má túlka sem „stofnun“ borgar.[10] Ekkert bendir hins vegar til þess að meðvituð stofnun borgar hafi átt sér stað um miðja 8. öld f.o.t. eins og sögnin um Rómúlus heldur fram.[11]

 
Koparstytta af úlfynju með Rómúlus og Remus á brjósti.

Rómverjar til forna áttu sér nokkrar arfsagnir um stofnun borgarinnar. Sú þekktasta er sagan um Rómúlus og Remus, tvíbura sem úlfynja ól.[12] Þeir ákváðu að reisa borg, en eftir deilur drap Rómúlus bróður sinn og borgin var nefnd eftir honum. Samkvæmt annálariturum Rómar gerðist þetta 21. apríl 753 f.o.t.[13] Samkvæmt annarri arfsögn var borgin stofnuð af prinsi frá Tróju, Eneasi, sem flúði til Ítalíu og gerðist forfaðir júlísk-kládísku ættarinnar.[14] Rómverska skáldið Virgill samdi viðamikið sagnkvæði um Eneas á 1. öld f.o.t. Strabon rekur þriðju söguna þar sem borgin er arkadísk nýlenda sem Evander frá Pallene stofnaði. Strabon skrifar líka að rómverski sagnaritarinn Lucius Coelius Antipater hafi talið að Grikkir hefðu stofnað Róm.[15][16]

Konungsríki og lýðveldi breyta

Samkvæmt arfsögninni um Rómúlus, ríktu konungar yfir borginni næstu 244 árin, upphaflega af latneskum og sabínskum uppruna, en síðar af etrúskum ættum. Sjö sagnkonungar eru raktir í sögunum: Rómúlus, Núma Pompilíus, Túllus Hostilíus, Ancus Marcíus, Tarquiníus Priscus, Servíus Túllíus og Lúcíus Tarquiníus Súperbus.[13]

 
Hinar fornu keisarahallir á Palatínhæð.

Árið 509 f.o.t. ráku Rómverjar síðasta konunginn frá borginni og komu á fót lýðveldi með fámennisstjórn. Eftir það hófst tímabil innri átaka milli patrisía (aðalsmanna) og plebeia (smájarðeigenda) sem einkenndist af stöðugum stríðum við aðrar þjóðir Mið-Ítalíu: Etrúra, Volsca, Aequia og Marsa.[17] Eftir að Róm hafði náð yfirráðum yfir öllu héraðinu Latíum hóf lýðveldið stríð gegn Göllum, Oscurum-Samnítum og grísku nýlendunni Tarantó. Tarantó var í bandalagi með Pyrrhosi frá Epírus sem hugðist leggja undir sig Ítalíuskagann allan.[18]

Á 3. og 2. öld f.o.t. náði Rómaveldi yfirráðum yfir nær öllu Miðjarðarhafi og Balkanskaga eftir þrjú púnversk stríð (264-146 f.o.t.) gegn borgríkinu Karþagó, og þrjú makedónsk stríð (212-168 f.o.t.) gegn Makedóníu.[19] Fyrstu rómversku skattlöndin voru stofnuð á þessum tíma: Sikiley, Korsíka og Sardinía, Hispanía, Makedónía, Akkea og Afríka.[20]

Frá upphafi til 2. aldar f.o.t. tókust tveir hópar aðalsmanna á um völdin: optimates, íhaldsmenn í rómverska öldungaráðinu, og populares, sem reiddu sig á stuðning plebeia. Á sama tíma urðu gjaldþrot smábænda og stofnun stórra plantekra með þrælum til þess að mikill fjöldi fólks hraktist til borgarinnar. Stöðug stríð leiddu til stofnunar atvinnuhers, sem reyndist síðan herforingjum sínum hollari en lýðveldinu. Af þessum ástæðum einkenndust seinni helmingur 2. aldar og 1. öldin f.o.t. af bæði innri og ytri átökum. Eftir misheppnaðar umbótatilraunir Tíberíusar og Gaiusar Gracchusar,[21] og stríðið gegn Júgúrta,[21] hófst borgarastyrjöld Súllu sem herforinginn Súlla sigraði.[21] Þriðja þrælastríðið í Róm hófst svo með uppreisn Spartacusar,[22][22] og fyrsta þríveldið fylgdi á eftir, þar sem Júlíus Caesar, Pompeius og Marcus Licinius Crassus, tóku völdin.[22]

 
Trajanusartorg.

Með því að leggja Gallíu undir Rómaveldi varð Caesar mjög valdamikill og vinsæll sem leiddi til borgarastyrjaldar Caesars gegn öldungaráðinu og Pompeiusi. Eftir sigur gerðist Caesar einræðisherra ævilangt.[22] Hann var myrtur eftir samsæri innan öldungaráðsins og við tók annað þríveldið þar sem Octavíanus (frændi og erfingi Caesars), Markús Antóníus og Marcus Aemilius Lepidus tóku við völdum. Á eftir fylgdi borgarastyrjöld milli Octavíanusar og Antóníusar.[23]

Keisaradæmið breyta

Árið 27 f.o.t. varð Octavíanus princeps civitatis og tók upp titilinn Ágústus. Þar með varð til eins konar tvíveldi prins og öldungaráðs.[23] Í valdatíð Nerós keisara eyðilögðust tveir þriðju hlutar borgarinnar í brunanum mikla og ofsóknir gegn kristnum mönnum hófust.[24][25][26] Rómaveldi var keisaraveldi de facto og náði mestri útbreiðslu á 2. öld, á valdatíð Trajanusar. Róm var þá nefnd caput mundi „höfuðborg heimsins“. Fyrstu tvær aldirnar ríktu keisarar af júlísk-kládísku ættinni,[27] flavísku ættinni (sem reistu hringleikahúsið Kólosseum),[27] og antonísku ættinni.[28] Á þessum tíma breiddist kristni út um allt keisaraveldið og jafnvel út fyrir það.[29] Á valdatíð antonísku ættarinnar náði Rómaveldi sinni mestu útbreiðslu, frá Atlantshafi í vestri að Efrat í austri, og frá Bretlandi í norðri til Egyptalands í suðri.[28]

 
Forum Romanum eru leifarnar af því sem áður var miðja Rómaveldis til forna.[30]
 
Súla Trajanusar.

Eftir lok valdatíðar severísku ættarinnar árið 235 hófst 50 ára tímabil sem er þekkt sem þriðju aldar kreppan. Á þeim tíma gerðu margir herforingjar valdaránstilraunir og reyndu að tryggja sér völd í héruðum sem þeir voru settir yfir frá veiku miðstjórnarvaldi í Róm. Á þeim tíma kom Gallaveldið svokallaða upp og uppreisnir Zenóbíu og föður hennar sem reyndu að verjast innrásum Persa. Sum svæði Rómaveldis, eins og Bretland, Spánn og Norður-Afríka, urðu fyrir litlum áhrifum frá þessum óstöðugleika. Efnahag heimsveldisins hnignaði og verðbólga varð til þess að stjórnin gjaldfelldi peninga til að mæta kostnaði. Germanar, austan við Rínarfljót og norðan við Balkanskagann, hófu ránsferðir inn í lönd Rómaveldis frá miðri 3. öld. Sassanídaveldið gerði nokkrar innrásir úr austri, en voru sigraðir að lokum.[31]

Díócletíanus keisari hóf endurreisn miðstjórnarvaldsins. Hann batt enda á prinsipatið og stofnaði fjórveldið til að auka völd ríkisins. Einkenni á stjórn hans voru fordæmalaus afskipti ríkisvaldsins, með skattheimtu allt niður á þorp, sem áður hafði verið bundin við borgir. Hann kom á verðstýringu til að reyna að hafa hemil á verðbólgunni, en það entist illa. Hann og eftirmaður hans, Konstantínus mikli, komu á héraðsstjórnum og breyttu þannig stjórnkerfinu og tóku herstjórnarvald af landstjórum. Eftir það var herstjórn og borgaraleg stjórn aðskilin. Landstjórarnir báru ábyrgð á skattheimtu og að sjá herjum fyrir vistum, sem aftur dró úr sjálfstæði herjanna. Díócletíanus settist að í Nikómedíu í austurhluta Rómaveldis, en Maximíanus ríkti yfir vesturhlutanum frá Mediolanum.[31] Árið 292 skipaði hann tvo yngri keisara, Konstantínus sem ríkti frá Trier, og Galerius sem ríkti frá Sirmium á Balkanskaga.[31]

 
Píramídi Cestiusar og Árelíusarmúrarnir.

Eftir afsögn Díócletíanusar og Maximíanusar árið 305 og röð átaka milli eftirmanna þeirra var fjórveldið lagt niður. Konstantínus mikli hóf miklar umbætur á stjórnkerfi Rómaveldis. Hann kom á trúfrelsi, líka fyrir kristna, og fyrirskipaði að eigum kirkjunnar sem gerðar hefðu verið upptækar skyldi skilað. Hann fjármagnaði sjálfur byggingu margra kirkna. Hann gerði bæinn Býsantíum að aðsetri sínu. Bærinn fékk síðar nafnið Konstantínópel og varð höfuðborg Austrómverska ríkisins.[32]

Kristni samkvæmt Níkeujátningunni varð opinber trúarbrögð keisaradæmisins árið 380, með Þessalóníkutilskipuninni sem var undirrituð af þremur keisurum, Gratíanusi, Valentiníanusi 2. og Þeódósíusi 2.. Þeódósíus var síðasti keisarinn sem ríkti yfir sameinuðu keisaraveldi. Eftir dauða hans árið 395 skiptu synir hans, Arkadíus og Honoríus Rómaveldi í Vestrómverska ríkið og Austrómverska ríkið. Stjórnarsetur Vestrómverska ríkisins var flutt til Ravenna eftir umsátrið um Mílanó árið 402. Á 5. öld bjuggu flestir keisarar Vestrómverska ríkisins samt í Róm.[32]

Róm missti þannig hlutverk sitt sem miðstöð stjórnsýslu keisaradæmisins. Árið 410 var borgin rænd af Vísigotum undir stjórn Alaríks,[33] en flestar byggingar sluppu óskaddaðar. Páfarnir létu reisa stórar dómkirkjur í borginni, eins og Santa Maria Maggiore, en íbúafjöldinn hafði minnkað úr 800.000 í um 500.000 þegar borgin var rænd í annað sinn, í þetta sinn af Vandölum undir stjórn Genseríks.[34] Veikir keisarar 5. aldar megnuðu ekki að stöðva hnignun ríksins og 22. ágúst árið 476 sagði síðasti keisara Vestrómverska ríkisins, Rómúlus Ágústúlus, af sér.[32] Fólksfækkun í borginni stafaði meðal annars af minnkandi kornflutningum frá Norður-Afríku, frá 440, og skorti á vilja yfirstéttarinnar til að styrkja korngjafir til almennings. Samt sem áður var lögð töluverð vinna í að viðhalda stórbyggingum í miðborginni, á Palatínhæð og stærstu böðunum sem héldu áfram starfsemi fram að umsátri Gota árið 537. Böð Konstantínusar á Kvirinalhæð voru löguð árið 443 og skemmdir á þeim ýktar í frásögnum.[35] Samt hafði borgin á sér yfirbragð hnignunar vegna fólksflótta sem skildi eftir stór óbyggð svæði. Íbúafjöldi var komin niður í 500.000 árið 452 og 100.000 árið 500. Eftir umsátur Gota árið 537 hrundi íbúafjöldinn niður í 30.000 en hafði aftur vaxið í 90.000 þegar Gregoríus mikli varð páfi.[36] Fólksfækkunin fór saman við hrun borgarlífs í Vestrómverska ríkinu á 5. og 6. öld, með örfáum undantekningum. Dreifing á korni til fátækra hélt áfram á 6. öld og kom líklega í veg fyrir að fólksfækkunin yrði meiri.[37]

Miðaldir breyta

 
Mynd frá 15. öld sem sýnir Vísigota ræna Róm árið 410.

Eftir hrun Vestrómverska ríkisins árið 476 var Róm fyrst undir stjórn Ódóakers og varð síðan hluti af ríki Austurgota þar til Austrómverska ríkið lagði hana undir sig eftir sigur í Gotastríðinu. Í stríðinu var borgin tvisvar lögð í rúst, fyrst árið 546 og síðan árið 550. Íbúafjöldinn var þá kominn niður í nokkra tugi þúsunda.[38] Borgin hafði breyst í aðskildar húsaþyrpingar sem risu eins og eyjar innan um rústir og garða.[39]

Eftir innrás Langbarða á Ítalíu var borgin að nafninu til undir stjórn Austrómverska ríkisins, en í reynd naut páfi sjálfstæðis með því að reiða sig á víxl á stuðning Býsantíum, Franka og Langbarða.[40] Árið 729 gaf Langbarðakonungurinn Liutprand páfa bæinn Sutri í Latíum, sem markar upphafið að veraldlegum yfirráðum kirkjunnar.[40] Þegar Pípinn stutti hafði sigrað Langbarða árið 756 gaf hann páfa eftir stjórn hertogadæmisins Rómar og exarkatsins Ravenna. Þar með varð Páfaríkið til.[40] Frá þessum tíma tókust þrjú öfl á um yfirráð yfir borginni: páfinn, aðallinn (ásamt herstjórum, dómurum, öldungaráðinu og íbúum) og Frankakonungur, sem einnig var konungur Langbarða, patrisíi og keisari.[40] Átök kirkjuveldisins, lýðveldisins og keisaraveldisins einkenndu lífið í Róm á miðöldum.[40] Á jólanótt árið 800 var Karlamagnús krýndur keisari Heilaga rómverska ríkisins af páfanum Leó 3. Þessi þrjú öfl komu þá í fyrsta sinn saman.[40]

 
Hluti af mynd Rafaels sem sýnir krýningu Karlamangúsar í gömlu Péturskirkjunni.

Árið 846 reyndu Arabar að ráðast yfir borgarmúrana án árangurs, en rændu þess í stað gömlu Péturskirkjuna og Pálskirkjuna, sem stóðu utan þeirra.[41] Þegar veldi Karlunga tók að hnigna börðust nokkrar aðalsfjölskyldur við páfann, keisarann og hver aðra, um völd. Á þessum tíma náðu fylgdarkonan Theodora og Marozia dóttir hennar völdum og urðu mæður nokkurra páfa, og Crescentíus yngri barðist gegn keisurunum Ottó 2. og Ottó 3.[42] Eftir þetta tímabil var ákveðið að kardinálar skyldu ráða kjöri páfa. Gregoríus 7. hóf skrýðingardeiluna gegn keisaranum Hinriki 4.[42] Í kjölfarið var Róm rænd og brennd af Normönnum Robert Guiscard sem komu þangað tl að styðja páfann sem sat í gíslingu í Castel Sant'Angelo.[42]

Stjórn borgarinnar sjálfrar var í höndum öldungaráðsmanns (senatore) eða aðalsmanns (patrizio). Á 12. öld þróaðist þessi stjórn út í sveitarfélag undir stjórn auðmanna, eins og þá tóku við stjórn bæja og borga alls staðar í Evrópu.[42] Lúsíus 2. páfið barðist gegn sveitarstjórn Rómar og Evgeníus 3. hélt þeirri baráttu áfram. Sveitarfélagið naut stuðnings umbótamunksins Arnaldos frá Brescia.[43] Þegar páfi lést tók Hadríanus 4. hann til fanga sem markaði endalok sjálfstæðis sveitarfélagsins.[43] Innósentíus 3. lagði öldungaráðið niður og skipaði sjálfur öldungaráðsmanns sem heyrði undir páfa.[43]

Mikilvægi páfa í Vestur-Evrópu fór vaxandi og hann gegndi oft hlutverki sáttasemjara milli kristinna valdhafa.[44][45] Árið 1266 var Karl af Anjou skipaður öldungaráðsmaður af páfa, á leið sinni suður að berjast gegn Hohenstaufen-ættinni. Hann stofnaði Sapienza-háskólann í Róm.[43] Á þessum tíma voru stöðugar erjur milli voldugustu ætta borgarinnar: Annibaldi-ættar, Caetani-ættar, Colonna-ættar, Orsini-ættr og Conti-ættar, sem víggirtu sig í kastölum sínum sem reistir voru á grunni eldri rómverskra bygginga.[43]

Bónifasíus 8., af Caetani-ætt, var síðasti páfinn sem hélt fram sjálfstæði kirkjunnar. Hann hóf krossferð gegn Colonna-ættinni og boðaði til fyrsta kristniafmælisins árið 1300, sem dró milljónir pílagríma til Rómar.[43] Franski konungurinn Filippus fagri lét handtaka hann og drepa í Anagni.[43] Síðan var nýr páfi kjörinn samkvæmt vilja Frakka og páfastóll fluttur til Avignon (1309-1377).[46] Eftir þetta komst plebeiinn Cola di Rienzo til valda í Róm.[46] Hann vildi endurreisa Rómaveldi en íbúar höfnuðu umbótum hans.[46] Cola flúði þá en sneri aftur í fylgdarliði kardinálans Albornoz sem átti að endurreisa vald kirkjunnar á Ítalíu.[46] Cola komst þannig aftur til valda um stutt skeið, en var brátt tekinn af lífi af æstum múg. Albornoz tók þá við völdum í borginni. Árið 1377 var páfastóll aftur fluttur til Rómar þegar Gregoríus 11. varð páfi.[46] Það leiddi til Páfaklofningsins og næstu 40 árin gerðu tveir aðilar tilkall til páfadóms.[46]

Nýöld breyta

 
Kort af Róm frá 1575 sýnir helstu kennileiti borgarinnar.
 
Fontana della Barcaccia eftir Gian Lorenzo Bernini frá 1629.

Árið 1418 var Páfaklofningurinn leystur á kirkuþinginu í Konstanz og Marteinn 5. var kjörinn páfi í Róm.[46] Þessu fylgdi friðartími sem markar upphaf endurreisnarinnar í Róm.[46] Páfarnir á fyrri hluta 16. aldar unnu ötullega að því að efla og fegra borgina og réðu fjölda listamanna.[46]

Á þessum tíma fluttist þungamiðja ítölsku endurreisnarinnar frá Flórens til Rómar. Frá þessum tíma eru Péturskirkjan, Sixtínska kapellan, Ponte Sisto (fyrsta brúin yfir Tíber frá fornöld). Meðal þeirra listamanna sem páfarnir réðu til Rómar voru helstu nöfn þess tíma, eins og Michelangelo, Perugino, Raffaello Sanzio (Rafael), Ghirlandaio, Luca Signorelli, Botticelli og Cosimo Rosselli.

Páfastóll varð á sama tíma alræmdur fyrir spillingu. Margir páfar eignuðust börn og stunduðu frændhygli og símonsku. Spillinginn og kostnaðurinn við uppbyggingu borgarinnar áttu þátt í því að siðaskiptin hófust í Norður-Evrópu, og síðan gagnsiðbótin í kjölfarið. Forríkur páfastóll umbreytti borginni í miðstöð lista, bókmennta, mennta og menningar. Róm gat keppt við aðrar helstu borgir Evrópu hvað varðar auðlegð, mikilfengleika, listir, vísindi og byggingarlist.

Yfirbragð Rómar tók miklum breytingum á endurreisnartímabilinu. Borgin náði hápunkti dýrðar sinnar í valdatíð Júlíusar 2. (1503-1513) og eftirmanna hans, Leó 10. og Klemens 7., sem báðir voru af Medici-ættinni.

 
Kjötkveðjuhátíð í Róm, um 1650.

Á þessu 20 ára tímabili varð Róm ein af helstu miðstöðvum myndlistar í heimi. Gamla Péturskirkjan, sem Konstantínus mikli hafði reist[47] og var þá í niðurníðslu, var rifin og ný kirkja reist. Listamenn á borð við Ghirlandaio, Perugino, Botticelli og Bramante reistu kirkjuna San Pietro in Montorio og hófu endurnýjun Vatíkansins. Rafael varð einn af frægustu listamönnum Ítalíu vegna starfa sinna í Róm. Hann vann freskur í Villa Farnesina og sölum Rafaels í Páfahöllinni, auk margra annarra frægra verka. Michelangelo hóf að skreyta loftið á sixtínsku kapellunni og vann fræga styttu af Móses fyrir grafhvelfingu Júlíusar 2.

Efnahagur Rómar var öflugur, meðal annars vegna tengsla páfa við bankamenn frá Toskana, þar á meðal Agostino Chigi sem var líka vinur Rafaels og listunnandi. Rafael gerði fyrstu áætlunina fyrir varðveislu fornminja í borginni. Borgin var rænd í fyrsta sinn í yfir 500 ár árið 1527 í stríði Cognac-bandalagsins. Málaliðar Karls 5. rændu og rupluðu í borginni og bundu þar með enda á blómatíma endurreisnarinnar.[46]

Gagnsiðbótin hófst með kirkjuþinginu í Trento árið 1545 sem átti að bregðast við siðaskiptunum í Norður-Evrópu. Siðaskiptin urðu til þess að kirkjan missti völd sín, líka í kaþólskum löndum.[46] Seinni páfar reyndu að gera Róm að miðstöð umbótakirkju og létu reisa ný minnismerki um páfadóm.[48] Páfar og kardinálar 17. og 18. aldar héldu áfram að reisa og stækka hallir sínar með íburðarmiklum skreytingum.[48]

Aðalsfjölskyldurnar í Róm (Barberini-ætt, Pamphili-ætt, Chigi-ætt, Rospigliosi-ætt, Altieri-ætt og Odescalchi-ætt) kepptu sín á milli um páfastól og þegar þær komu sínum páfa að stundaði hann oft frændhygli í stórum stíl. Páfarnir reistu risavaxnar barokkhallir fyrir ættingja sína.[48] Þegar upplýsingin náði til Rómar studdi páfastóll við fornleifarannsóknir og reyndi að bæta kjör fátækra í borginni.[46] Árið 1773 neyddu veraldleg yfirvöld í Evrópu páfa til að banna Jesúítaregluna.[46]

Nútíminn breyta

Undir lok 18. aldar var hið skammlífa rómverska lýðveldi (1798-1800) stofnað undir áhrifum frá frönsku byltingunni. Páfaríkið var endurreist árið 1800, en undir stjórn Napóleons var borgin gerð að sýslu (département) innan franska keisaradæmisins: fyrst sem Tíbersýsla (1808-1810), og síðan Rómarsýsla (1810-1814). Eftir fall Napóleons var Páfaríkið aftur endurreist eftir Vínarþingið 1814.

Árið 1849 var annað rómverskt lýðveldi stofnað byltingarárið 1848. Tveir af helstu leiðtogum sameiningar Ítalíu, Giuseppe Mazzini og Giuseppe Garibaldi, börðust fyrir lýðveldið.

Eftir stofnun konungsríkisins Ítalíu 1861 var Flórens gerð að tímabundinni höfuðborg, en Róm var gerð að yfirlýstri höfuðborg þótt hún tilheyrði enn Páfaríkinu. Síðustu leifar Páfaríkisins voru á þeim tíma varðar af frönsku setuliði sem Napóleon 3. hélt þar úti. Árið 1870 voru þessar hersveitir kallaðar til Frakklands þegar stríð Frakka og Prússa hófst. Ítalskar hersveitir gátu þá lagt Róm undir sig og héldu inn í borgina gegnum gat í borgarmúrunum við Porta Pia. Við hertökuna lýsti páfi, Píus 9., sig fanga í Vatíkaninu og neitaði að viðurkenna ítalska ríkið, hótaði jafnvel bannfæringu þeim sem tækju þátt í kosningum á Ítalíu. Málið var óleyst þar til Lateran-samningarnir voru gerðir milli páfa og ríkisstjórnarinnar (undir stjórn fasista) árið 1929. Árið 1871 var höfuðborgin flutt frá Flórens til Rómar.[49] Árið 1870 bjuggu 212.000 í borginni, allir innan borgarmarkanna frá því í fornöld, og árið 1920 var íbúafjöldinn 660.000. Stór hluti íbúa bjó þá utan múranna fyrir norðan og í kringum Vatíkanið handan árinnar.

Skömmu eftir fyrri heimsstyrjöld komust fasistar til valda og Benito Mussolini afnam lýðræðið í reynd árið 1926. Hann lýsti yfir stofnun nýs heimsveldis. Undir stjórn Mussolinis var ráðist í ýmsar róttækar og mjög umdeildar breytingar á borginni, gömul hverfi rifin til að skapa pláss fyrir breiðgötur og torg sem hæfðu nútímahöfuðborg, en borgin hafði vaxið mjög hratt eftir að hún var gerð að höfuðborg. Borgin átti að bera merki um endurreisn fornrar frægðar.[50] Á millistríðsárunum náði íbúafjöldi borgarinnar einni milljón, skömmu eftir 1930.

Í seinni heimsstyrjöld varð borgin fyrir miklum loftárásum, en var þó ekki eyðilögð. Sprengjuárásir á San Lorenzo-hverfið urðu til þess að 3.000 létust og 11.000 særðust, og 1.500 þeirra létust síðar.[51] Hún féll í hendur bandamanna 4. júní 1944 eftir stutt tímabil þýskrar hersetu (stjórn fasista féll 1943).

Eftir stríðið óx borgin hratt og gekk í gegnum blómaskeið á tímum ítalska efnahagsundursins á 6. áratugnum. Á þessum tíma varð Róm þekkt sem kvikmyndaborg, með stórmyndum á borð við Ben Húr, Quo Vadis, Gleðidagar í Róm og Hið ljúfa líf, sem teknar voru í kvikmyndaverunum Cinecittà. Vöxtur borgarinnar hélt áfram fram á miðjan 9. áratuginn þegar yfir 2,8 milljónir bjuggu í borginni. Síðan þá hefur fólki fækkað vegna flutninga til nágrannasveitarfélaga sem eru orðin úthverfi í borginni.

Tengt efni breyta

Tilvísanir breyta

  1. „Principal Agglomerations of the World“. Citypopulation. janúar 2017. Afrit af uppruna á 4. júlí 2010. Sótt 6. apríl 2012.
  2. „What is the smallest country in the world?“. History.com (enska). Afrit af uppruna á 27. september 2018. Sótt 27. september 2018.
  3. „Why Is Rome Called The Eternal City?“. 27. september 2021. Afrit af uppruna á 16. september 2021. Sótt 16. september 2021.
  4. Beretta, Silvio (2017). Understanding China Today: An Exploration of Politics, Economics, Society, and International Relations. Springer. bls. 320. ISBN 9783319296258.
  5. B. Bahr, Ann Marie (2009). Christianity: Religions of the Wold. Infobase Publishing. bls. 139. ISBN 9781438106397.
  6. R. D'Agostino, Peter (2005). Rome in America: Transnational Catholic Ideology from the Risorgimento to Fascism. Univ of North Carolina Press. ISBN 9780807863411.
  7. Romulus and Remus. 25. nóvember 2014. Afrit af uppruna á 17. mars 2015. Sótt 9. mars 2015.
  8. Cf. Jaan Puhvel: Comparative mythology. The Johns Hopkins University Press, Baltimore and London 1989, p. 287.
  9. Heiken, G., Funiciello, R. and De Rita, D. (2005), The Seven Hills of Rome: A Geological Tour of the Eternal City. Princeton University Press.
  10. 10,0 10,1 10,2 10,3 10,4 Coarelli (1984) p. 9
  11. Wilford, John Nobel (12. júní 2007). „More Clues in the Legend (or Is It Fact?) of Romulus“. The New York Times. Afrit af uppruna á 17. apríl 2009. Sótt 11. ágúst 2008.
  12. Livy (1797). The history of Rome. George Baker (trans.). Printed for A.Strahan.
  13. 13,0 13,1 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 73.
  14. Livy (2005). The Early History of Rome. Penguin Books Ltd. ISBN 978-0-14-196307-5.
  15. „Strabo, Geography, book 5, chapter 3, section 3“. www.perseus.tufts.edu. Afrit af uppruna á 1. mars 2021. Sótt 21. febrúar 2021.
  16. „LacusCurtius • Strabo's Geography — Book V Chapter 3“. penelope.uchicago.edu. Afrit af uppruna á 29. maí 2021. Sótt 20. febrúar 2021.
  17. Kinder & Hilgemann 1964, bls. 77.
  18. Kinder & Hilgemann 1964, bls. 79.
  19. Kinder & Hilgemann 1964, bls. 81–83.
  20. Kinder & Hilgemann 1964, bls. 81–85.
  21. 21,0 21,1 21,2 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 89.
  22. 22,0 22,1 22,2 22,3 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 91.
  23. 23,0 23,1 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 93.
  24. „The Great Fire of Rome | Background | Secrets of the Dead | PBS“. Secrets of the Dead (bandarísk enska). 29. maí 2014. Afrit af uppruna á 4. apríl 2019. Sótt 7. apríl 2019.
  25. Society, National Geographic (18. júní 2014). „Great Fire of Rome“. National Geographic Society (enska). Afrit af uppruna á 30. mars 2019. Sótt 7. apríl 2019.
  26. Freeman, Charles (mars 2014). Egypt, Greece, and Rome : civilizations of the ancient Mediterranean (Third. útgáfa). Oxford. ISBN 978-0-19-965191-7. OCLC 868077503.
  27. 27,0 27,1 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 97.
  28. 28,0 28,1 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 99.
  29. Kinder & Hilgemann 1964, bls. 107.
  30. „The Roman Forum“. World History Encyclopedia. 18. janúar 2012. Afrit af uppruna á 20. apríl 2021. Sótt 22. ágúst 2019.
  31. 31,0 31,1 31,2 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 101.
  32. 32,0 32,1 32,2 Kinder & Hilgemann 1964, bls. 103.
  33. Kinder & Hilgemann 1964, bls. 115.
  34. Kinder & Hilgemann 1964, bls. 117.
  35. Rome, An Urban History from Antiquity to the Present, Rabun Taylor, Katherine W. Rinne and Spiro Kostof, 2016 pp. 160–179
  36. Rome, Profile of a City: 321–1308, Richard Krautheimer, p. 165
  37. Rome, Urban History, pp. 184–185
  38. Tellier, Luc-Normand (2009). Urban World History: An Economic and Geographical Perspective. PUQ. bls. 185. ISBN 978-2-7605-2209-1. Afrit af uppruna á 13. maí 2016. Sótt 29. október 2015.
  39. Norman John Greville Pounds. An Historical Geography of Europe 450 B.C.–A.D. 1330. p. 192.
  40. 40,0 40,1 40,2 40,3 40,4 40,5 Bertarelli 1925, bls. 19.
  41. „Italian Peninsula, 500–1000 A.D.“. The Metropolitan Museum of Art. 5. desember 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. desember 2008. Sótt 22. ágúst 2019.
  42. 42,0 42,1 42,2 42,3 Bertarelli 1925, bls. 20.
  43. 43,0 43,1 43,2 43,3 43,4 43,5 43,6 Bertarelli 1925, bls. 21.
  44. Faus, José Ignacio Gonzáles. "Autoridade da Verdade – Momentos Obscuros do Magistério Eclesiástico". Capítulo VIII: Os papas repartem terras – Pág.: 64–65 e Capítulo VI: O papa tem poder temporal absoluto – Pág.: 49–55. Edições Loyola. ISBN 85-15-01750-4. Embora Faus critique profundamente o poder temporal dos papas ("Mais uma vez isso salienta um dos maiores inconvenientes do status político dos sucessores de Pedro" – pág.: 64), ele também admite um papel secular positivo por parte dos papas ("Não podemos negar que intervenções papais desse gênero evitaram mais de uma guerra na Europa" – pág.: 65).
  45. Snið:CathEncy
  46. 46,00 46,01 46,02 46,03 46,04 46,05 46,06 46,07 46,08 46,09 46,10 46,11 46,12 Bertarelli 1925, bls. 22.
  47. Basilica of St. Peter. 1. febrúar 1912. Afrit af uppruna á 10. janúar 2010. Sótt 3. febrúar 2010.
  48. 48,0 48,1 48,2 Bertarelli 1925, bls. 23.
  49. Pope Pius IX. Afrit af uppruna á 8. mars 2017. Sótt 3. febrúar 2010.
  50. Cederna, Antonio (1979). Mussolini urbanista (ítalska). Bari: Laterza. bls. passim.
  51. Baily, Virginia (25. júlí 2015). „How the Nazi occupation of Rome has gripped Italy's cultural imagination“. The Guardian. Sótt 5. janúar 2022.

Heimildir breyta

  • Kinder, Hermann; Hilgemann, Werner (1964). Dtv-Atlas zur Weltgeschichte (þýska). 1. árgangur. Dtv. OCLC 887765673.

Tenglar breyta

   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.