Sjórán
Sjórán er rán sem fram fer á sjó eða á skipum við ströndina. Sjórán eru fremur algeng á vissum hafsvæðum og er tap vegna þeirra talið nema milli 13 og 16 milljörðum Bandaríkjadala árlega. Sjórán eru sérstaklega algeng milli Indlandshafs og Kyrrahafs, úti fyrir strönd Sómalíu, í Malakkasundi og við Singapúr. Þótt enn komi fyrir að ráðist sé á báta og skip undan strönd Norður-Afríku og í Karíbahafinu er það fremur sjaldgæft vegna markvissrar baráttu flota og strandgæslu á þessum hafsvæðum.
Fríbýttari eða kapari er gamalt heiti á sjóræningja sem rænir her- og kaupskip óvinveittrar þjóðar í umboði konungs (kaparabréf), einkum á 16., 17. og 18. öld. Slíkir sjóræningjar gátu hlotið frægð og vegsemd hjá því ríki sem þeir störfuðu fyrir. Sem dæmi má nefna sir Francis Drake sem rændi spænsk skip í Karíbahafinu og Magnus Heinason í Færeyjum sem fékk kaparabréf til að ráðast gegn enskum og hollenskum sjóræningjaskipum sem herjuðu á eyjarnar.