Grikkland hið forna

Grikkland hið forna vísar til hins grískumælandi heims í fornöld. Það er ekki eingöngu notað um það landsvæði sem Grikkland nær yfir í dag, heldur einnig lönd þar sem grískumælandi fólk bjó í fornöld: Kýpur og Eyjahafseyjar, Jóníu í Litlu Asíu (í dag hluti Tyrklands), Sikiley og Suður-Ítalíu (nefnt Stóra-Grikkland eða Magna Graecia í fornöld) og ýmsar grískar nýlendur, til dæmis í Kolkis (við botn Svartahafs), IllyríuBalkanskaga við strönd Adríahafs), í Þrakíu, Egyptalandi, Kýrenæku (í dag Líbýa), suðurhluta Gallíu (í dag Suður-Frakkland), á austan- og norðaustanverðum Íberíuskaga, í Íberíu (í dag Georgíu) og Táris (í dag Krímskagi).

Wikipedia
Wikipedia
Grikkland hið forna um miðja 6. öld f.Kr.

Tímaskeið Grikklands hins forna nær frá því að grískumælandi menn settust fyrst að í Grikklandi á 2. árþúsundi f.Kr. til loka fornaldar og upphafs kristni (kristni varð til áður en fornöld lauk, en kristin menning er venjulega ekki talin til klassískrar fornaldarmenningar Grikklands). Flestir sagnfræðingar telja að í Grikklandi hinu forna liggi rætur vestrænnar menningar. Grísk menning hafði mikil áhrif á Rómaveldi, sem miðlaði menningunni áfram til margra landa Evrópu. Aukinheldur hafði enduruppgötvun Vestur-Evrópubúa á forngrískri menningu á 14.17. öld afgerandi áhrif á evrópska menningu. Hún hefur haft gríðarlega mikil áhrif á tungumál, stjórnmál, menntun, heimspeki, vísindi og listir Vesturlanda. Hún var megininnblástur endurreisnarinnar í Vestur-Evrópu og hafði aftur mikil áhrif á ýmsum nýklassískum skeiðum á 18. og 19. öld í Evrópu og Norður-Ameríku.

Tímabil

breyta

Menn hafa ekki komið sér saman um nein ákveðin ártöl sem marki upphaf eða endi fornaldarmenningar Grikklands. Áður fyrr var miðað við upphaf Ólympíuleikanna árið 776 f.Kr., en flestir nútímasagnfræðingar eru nú orðnir afhuga því. Flestir skilgreina tímabilið þannig að það nái aftur til Mýkenumenningarinnar, sem hófst um 1600 f.Kr. en leið undir lok um 1150 f.Kr. Aftur á móti telja margir að hin áhrifamikla mínóíska menning, sem blómstraði einkum á Krít (og er einnig nefnd Krítarmenningin), en einnig á meginlandi Grikklands á undan Mýkenumenningunni, hafi verið svo frábrugðin grískri menningu síðari tíma að hana beri að flokka út af fyrir sig. Blómaskeiði mínóísku menningarinnar lauk á 14. öld f.Kr., en menningin leið þó ekki endanlega undir lok fyrr en um 1200 f.Kr., skömmu fyrir endalok Mýkenumenningarinnar. Eigi að síður er Mýkenumenningin gjarnan talin með Grikklandi hinu forna en ekki mínóísk menning.

Við endalok Mýkenumenningarinnar (og upphaf járnaldar) hefjast svokallaðar myrkar aldir í sögu Grikklands (1100800 f.Kr.) en þær einkennast af stöðnun og hnignun.[1] Nýlendutíminn (800500 f.Kr.) tekur við af myrku öldunum.[2] Klassíski tíminn (490323 f.Kr.) er talinn gullöld grískrar menningar.[3] Helleníski tíminn fylgdi í kjölfar klassíska tímans og er venjulega talinn ná allt fram til ársins 31 f.Kr. þegar her Oktavíanusar sigraði her Markúsar Antoníusar og Kleópötru við Aktíum (en er stundum talinn enda árið 146 f.Kr. þegar Rómverjar náðu í reynd yfirráðum yfir Grikklandi).[4]

Eftir lok helleníska tímans er oft talað um grísk-rómverskan tíma og grísk-rómverska menningu, en óljóst er við hvað skal miða endalok grískrar fornaldar. Upphaf miðalda er oft miðað við „fall“ vestrómverska ríkisins árið 476 þegar síðasta keisara Rómar, Rómúlusi Ágústusi, var steypt af stóli. Það hafði hins vegar ekki afgerandi áhrif á Grikkland sem var hluti austrómverska ríkisins, sem féll ekki fyrr en árið 1453. Margir miða við lok 3. aldar e.Kr., en þá er komið fram á síðfornöld. Eftir þann tíma fór í hönd hningnunarskeið í grískum bókmenntum, samtímis uppgangi kristninnar sem telst ekki til grískrar fornaldarmenningar. Einnig mætti miða við árið 640 e.Kr. þegar Arabar náðu grísku borginni Alexandríu í Egyptalandi á sitt vald.[5]

Sögulegt yfirlit

breyta

Uppruni

breyta

Talið er að Grikkir hafi komið suður eftir Balkanskaga úr norðri í nokkrum bylgjum frá þriðja árþúsundi f.Kr. Síðasta bylgjan var hin svonefnda „innrás“ Dóra. Tímabilið frá 1600 f.Kr. til um 1100 f.Kr. kallast mýkenskur tími. Á þessum tíma á Agamemnon, konungur í Mýkenu, að hafa leitt grískan her til Tróju, setið um borgina og lagt hana í rúst. Frá því segir meðal annars í Hómerskviðum. Tíminn frá 1100 f.Kr. til 8. aldar f.Kr. er nefndur „myrku aldirnar“ í sögu Grikklands en engar ritaðar heimildir eru varðveittar frá þessum tíma. Fornleifar frá þessum tíma eru einnig fátæklegar. Í síðari tíma heimildum á borð við Heródótos, Pásanías og Díodóros frá Sikiley eru stundum stutt yfirlit yfir sögu tímabilsins og konungar taldir upp.

Ris Grikklands

breyta
 
Meyjarhofið í Aþenu var byggt á 5. öld f.Kr.

Á 8. öld f.Kr. lauk myrku öldunum í sögu Grikklands, sem höfðu gengið í hönd eftir fall Mýkenumenningarinnar. Grikkir höfðu glatað þekkingu sinni á ritmálinu sem þeir bjuggu yfir áður, línuletri B, en í staðinn löguðu þeir fönikískt letur að eigin þörfum og bjuggu til grískt stafróf. Frá því um 800 f.Kr. eru til ritaðar heimildir. Grikkland var ekki stjórnmálaleg heild og skiptist upp í mörg sjálfstæð borgríki.[6] Á þessu má finna landfræðilegar skýringar: sérhver eyja, sérhver dalur og slétta eru einangruð frá nágrannabyggðum annaðhvort af hafinu eða fjallgörðum.

Velmegun jókst og Grikkjum fjölgaði umfram það sem landrými leyfði (samkvæmt Mogens Herman Hansen fjölgaði Grikkjum meira en tífalt frá 800 f.Kr. til 350 f.Kr., frá því að vera um 700.000 yfir í að vera um 8-10 milljónir talsins).[7] Um 750 f.Kr. hófst 250 ára langur nýlendutími í sögu Grikklands. Grikkir þurftu land og þeir stofnuðu nýlendur úti um allt.[8] Í austri stofnuðu þeir fyrstu nýlendurnar í Litlu-Asíu (í dag Eyjahafsströnd Tyrklands). Þá stofnuðu þeir nýlendur á Kýpur og við strendur Þrakíu, við Marmarahaf og suðurströnd Svartahafs. Að endingu náðu grískar nýlendur alla leið norðaustur til Úkraínu. Í vestri stofnuðu þeir nýlendur við strendur Adríahafs (þar sem í dag eru Albanía og Serbía), á Sikiley og Suður-Ítalíu, þá í Suður-Frakklandi, á Korsíku og jafnvel Norðaustur-Spáni. Grikkir stofnuðu einnig nýlendur í Norður-Afríku, Egyptalandi og Líbýu. Borgirnar Sýrakúsa, Napólí, Marseille og Istanbúl eiga rætur að rekja til grískra nýlendubyggða: Sýrakúsu, Neapólis, Massilíu og Býzantíon.

Á 6. öld f.Kr. var Grikkland orðið að mál- og menningarsvæði sem var miklu stærra en Grikkland nútímans. Grískar nýlendur lutu ekki stjórn móðurborganna, en héldu oft tengslum við þær, bæði trúarlegum og viðskiptalegum. Jafnt heima sem að heiman skipulögðu Grikkir sig í sjálfstæð samfélög og borgríkið (polis) varð grundvallareining grískrar stjórnsýslu.

Á þessum tíma voru miklar efnahagslegar framfarir í Grikklandi og í nýlendunum og jókst einkum verslun og iðnaður. Lífsgæði jukust einnig töluvert. Sumar rannsóknir benda til þess að meðalstærð grískra heimila hafi fimmfaldast á tímabilinu frá 800 f.Kr. til 300 f.Kr.

Gríska hagkerfið var, á efnahagslegum hátindi sínum á 4. öld f.Kr., það þróaðasta í heimi. Sumir sagnfræðingar telja það hafa verið eitt best þróaða hagkerfi heims allt fram að iðnbyltingunni. Þetta sést meðal annars á meðaldaglaunum grískra verkamanna. Þau voru um fjórum sinnum hærri (í korni talið um 13 kg) en laun egypskra verkamanna (um 3 kg).

Stjórnmál

breyta
 
Sólon

Upphaflega voru grísku borgríkin konungdæmi en mörg þeirra voru afar lítil og hugtakið „konungur“ (basileus) getur gefið villandi mynd af valdhöfunum. Völdin voru að verulegu leyti hjá fámennum hópum landeigenda, enda var ávallt skortur á og mikil eftirspurn eftir landi. Þessir landeigendur urðu að aðli sem barðist oft innbyrðis um jarðnæði. Um svipað leyti varð til stétt verslunarmanna (eins og ráða má af tilurð myntpeninga um 680 f.Kr.). Í kjölfarið urðu stéttaátök tíð í stærri borgum. Frá 650 f.Kr. varð aðallinn að berjast til að verða ekki velt úr sessi og til að missa ekki völdin til konunga (tyrranos; orðið getur þýtt konungur eða harðstjóri).

Á 6. öld f.Kr. voru nokkur borgríki orðin ráðandi í Grikklandi: Aþena, Sparta, Kórinþa og Þeba.[9] Þau höfðu öll náð völdum yfir sveitunum í kringum sig og smærri borgum í nágrenni við sig. Aþena og Kórinþa voru orðin mikil sjóveldi og verslunarveldi að auki. Aþena og Sparta urðu keppinautar í stjórnmálum en metingur þeirra stóð lengi og hafi mikil áhrif á grísk stjórnmál.

Í Spörtu hélt landeignaraðallinn völdum og treysti þau með stjórnarskrá Lýkúrgosar (um 650 f.Kr.).[10] Sparta komst undir varanlega herstjórn með tveimur konungum. Sparta drottnaði yfir öðrum borgríkjum á Pelópsskaga, að Argos og Akkeu undanskildum.

Í Aþenu var konungdæmið hins vegar lagt niður árið 683 f.Kr. og umbætur Sólons komu á hófstilltri stjórn aðalsins.[11] Aðalsmenn misstu síðar völdin í hendur harðstjórans Peisistratosar og sona hans, sem gerðu borgina að miklu sjó- og verslunarveldi. Þegar sonum Peisistratosar var velt úr sessi kom Kleisþenes á fyrsta lýðræði heims í Aþenu (500 f.Kr.). Þjóðfundur allra frjálsra borgara (karla) fór með völdin. Þó ber að hafa í huga að einungis hluti af karlmönnum borgarinnar höfðu borgararéttindi, þrælar, frelsingjar og aðfluttir nutu ekki stjórnmálaréttinda.

Persastríðin

breyta

Í Jóníu (í dag Eyjahafsströnd Tyrklands) gátu grísku borgríkin, þeirra á meðal miklar menningarmiðstöðvar á borð við Míletos og Halikarnassos, ekki haldið sjálfstæði sínu og komust undir stjórn Persaveldis á síðari helmingi 6. aldar f.Kr. Árið 499 f.Kr. gerðu Grikkir uppreisn, jónísku uppreisnina, og Aþena kom þeim, ásamt öðrum grískum borgum, til hjálpar.[12]

Dareios I Persakonungur bældi uppreisnina niður og að því loknu, árið 490 f.Kr., sendi hann flota til meginlands Grikklands til að refsa Grikkjunum. Persarnir stigu fæti á Attíkuskaga en grískur her, undir stjórn aþenska herforingjans Míltíadesar sigraði þá í orrustunni við Maraþon.

Tíu árum síðar sendi sonur Dareiosar, Xerxes I., miklu stærri her landleiðina til Grikklands. Spartverski konungurinn Leonídas I. tafði framgöngu persneska hersins við Laugaskörð en Persar höfðu á endanum sigur á spartverska hernum. Xerxes hélt áfram til Attíkuskaga, þar sem hann tók Aþenu og brenndi hana. Aþeningar höfðu flúið borgina sjóleiðina. Undir stjórn Þemistóklesar sigruðu þeir persneska flotann við Salamis. Ári síðar sigruðu Grikkir, undir stjórn spartverska herforingjans Pásaníasar, Persa endanlega við Plataju.

Aþenski flotinn veitti þá persneska flotanum eftirför á Eyjahafi og árið 478 f.Kr. náðu þeir borginni Býzantíon. Aþena myndaði nú bandalag með öllum eyríkjunum og nokkrum bandamönnum á meginlandinu og kallaði það Deleyska sjóbandalagið af því að fjárhirslur bandalagsins voru á eynni Delos. Spartverjar tóku á hinn bóginn upp einangrunarstefnu og leyfðu Aþenu að koma á fót sjó- og verslunarveldi sínu í friði.

Gullöld Aþenu

breyta
 
Períkles

Í kjölfar Persastríðanna varð Aþena allsráðandi í grískum stjórnmálum. Veldi Aþenu var óskorað á sjó en Aþena var einnig helsta viðskiptaveldi Grikklands, þótt Kórinþa veitti verðuga samkeppni. Mesti stjórnmálamaður þessa tíma var Períkles, sem veitti fjármununum sem aðildarríki Deleyska sjóbandalagsins greiddu til þess að byggja upp Aþenu, meðal annars Meyjarhofið og aðra minnisvarða í borginni. Um miðja 5. öld f.Kr. var sjóbandalagið orðið að aþensku veldi og til marks um það voru fjárhirslur bandalagsins fluttar frá Delos í Meyjarhofið árið 454 f.Kr.

Auður Aþenu laðaði hæfileikaríkt fólk hvaðanæva að úr Grikklandi og skóp einnig auðuga yfirstétt sem studdi við listamenn. Aþenska ríkið studdi einnig menntun og listir, einkum byggingarlist. Aþena varð miðstöð grískra bókmennta, heimspeki (sjá gríska heimspeki) og lista (sjá gríska leikritun). Margar af þekktustu persónum vestrænnar menningar bjuggu í Aþenu á þessum tíma: harmleikjaskáldin Æskýlos, Sófókles og Evripídes, gamanleikjaskáldið Aristófanes,[13] heimspekingarnir Anaxagóras, Sókrates, Platon og Aristóteles,[14] sagnaritararnir Heródótos, Þúkýdídes og Xenófón,[15] skáldin Símonídes og myndhöggvarinn Feidías.[16] Borgin varð, með orðum Períklesar, „skóli Grikklands“.

Önnur ríki Grikklands sættu sig í fyrstu við forystu Aþenu í áframhaldandi átökum við Persa, en eftir að íhaldsmaðurinn Kímon hrökklaðist frá völdum árið 461 f.Kr. varð heimsvaldastefna Aþenu sífellt opinskárri. Eftir sigur Grikkja í orrustunni við Evrýmedon árið 466 f.Kr. voru Persar ekki lengur ógn og sum ríki, eins og Naxos, reyndu að ganga úr Deleyska sjóbandalaginu, en voru neydd til að láta af slíkum tilraunum. Hinir nýju leiðtogar Aþenu, Períkles og Efíaltes, létu afskiptalaust að samskipti Aþenu og Spörtu versnuðu og árið 458 f.Kr. braust út stríð. Eftir nokkurra ára átök hafði valdajafnvægið þó lítið breyst og samið var um 30 ára frið milli Deleyska sjóbandalagsins og Pelópsskagabandalagsins (þ.e. Spörtu og bandamanna hennar). Á sama tíma var síðasta orrustan milli Grikkja og Persa, sjóorrusta, háð við Salamis á Kýpur. Í kjölfar hennar var samið um frið, Kallíasarfriðinn svonefnda, árið 450 f.Kr. milli Grikkja og Persa.

Pelópsskagastríðið

breyta
 
Alkibíades

Árið 431 f.Kr. braust út stríð að nýju milli Aþenu og Spörtu og bandamanna þeirra.[17] Heimildum ber ekki saman um tilefni stríðsins. Aftur á móti eru fornir sagnaritarar (Þúkýdídes og Plútarkos) sammála um þrjár meginorsakir stríðsins. Fyrir stríðið kom upp deila milli Kórinþu og einnar af nýlendum hennar, Korkýru (í dag Korfú) og Aþena blandaði sér í málið. Skömmu síðar kom upp deila milli Kórinþu og Aþenu um yfirráð yfir Pótidaju, sem leiddi á endanum til þess að Aþeningar sátu um Pótidaju. Að lokum gáfu Aþeningar út nokkrar efnahagslegar tilskipanir sem eru þekktar sem „Megörutilskipanirnar“ en samkvæmt þeim var borgin Megara beitt viðskiptaþvingunum. Ríki Pelópsskagabandalagsins sökuðu Aþenu um að brjóta gegn friðarsamningum þrjátíu ára friðarins með öllum áðurnefndum gjörðum sínum og Sparta lýsti yfir stríði á hendur Aþenu.

Margir sagnfræðingar telja þetta einungis vera tylliástæðu fyrir stríðinu. Þeir færa rök fyrir því að undirliggjandi orsakir hafi verið síaukinn pirringur Spartverja og bandamanna þeirra vegna yfirgangs Aþenu í grískum stjórnmálum. Stríðið varði í 27 ár, að hluta til vegna þess að Aþena (sjóveldi) og Sparta (hernaðarveldi á landi) áttu erfitt með að ná tökum hvor á annarri.

Hernaðaráætlun Spörtu var í upphafi sú að gera innrás á Attíkuskaga, en Aþeningar gátu hörfað inn fyrir borgarmúrana. Plága braust út í Aþenu meðan á umsátrinu stóð og olli miklu mannfalli. Períkles var meðal þeirra sem létust. Á sama tíma setti aþenski flotinn menn á land á Pelópsskaga og vann sigur í orrustunum við Nápaktos (429 f.Kr.) og Pýlos (425 f.Kr.). En hvorugur aðilinn gat unnið fullnaðarsigur.

Eftir nokkurra ára stríð samdi aþenski stjórnmálamaðurinn Níkías um frið sem við hann er kenndur, árið 421 f.Kr.

Árið 418 f.Kr. brutust þó út átök að nýju milli Spörtu og bandamanna Aþenu í Argos og rofnaði þá friðurinn milli Aþenu og Spörtu. Sparta sigraði sameiginlegan her Aþenu og bandamanna hennar í Orrustunni við Mantineu. Stríðsæsingamenn komust aftur til valda í Aþenu í kjölfarið. Leiðtogi þeirra var Alkibíades. Árið 415 f.Kr. sannfærði Alkibíades Aþeninga um að senda herlið til Sýrakúsu, bandamanna Spörtu á Sikiley. Þótt Níkías hafi verið fullur efasemda um Sikileyjarleiðangurinn var honum falið að stjórna leiðangrinum ásamt Alkibíadesi. Þegar Alkibíades var borinn sökum í hneykslismáli flúði hann til Spörtu og sannfærði Spartverja um að senda hjálparsveitir til Sýrakúsu. Afleiðingin varð sú að leiðangurinn misheppnaðist algerlega og allt herlið Aþenu var þurrkað út. Níkías var tekinn höndum og tekinn af lífi.

Þegar hér er komið sögu hafði Sparta byggt upp flota (með hjálp Persa) og ógnaði nú yfirráðum Aþenu á sjó. Spartverjar áttu framúrskarandi herforingja að nafni Lýsandros. Hann hernam Hellusund og kom þannig í veg fyrir að Aþena gæti flutt inn korn frá Svartahafsbotnum. Aþeningar sáu nú fram á hungursneyð og sendu síðustu skip sín gegn Lýsandrosi, sem vann afgerandi sigur í orrustunni við Ægospotamí (405 f.Kr.). Aþena hafði nú misst flota sinn og var nærri gjaldþrota. Árið 404 f.Kr. leituðu Aþeningar friðar og sem vænta mátti setti Sparta ströng skilyrði fyrir friði. Aþena missti borgarmúra sína, flota sinn og allar eigur sínar erlendis. Andlýðræðisleg öfl tóku völdin í Aþenu með stuðningi Spörtu.

Veldi Spörtu og Þebu

breyta

Við lok Pelópsskagastríðsins var Sparta valdamesta borgríki Grikklands en þröngsýni spartversku hernaðarelítunnar reyndist Spörtu fjötur um fót. Innan nokkurra ára höfðu lýðræðissinnar á ný náð völdum í Aþenu og öðrum borgum. Árið 395 f.Kr. viku spartversk stjórnvöld Lýsandrosi úr starfi og Sparta tapaði yfirráðum sínum á sjó. Aþena, Argos, Þeba og Kórinta kepptu við Spörtu um yfirráð, en Þeba og Kórinta höfðu áður verið bandalagsríki Spörtu í Kórintustríðinu, sem lauk árið 387 f.Kr. án sigurs. Sama ár kom Sparta öðrum grískum borgríkjum rækilega á óvart með Antalkídasarsáttmálanum við Persa, en samkvæmt honum létu Spartverjar Persum eftir grísku borgirnar í Jóníu og á Kýpur. Þannig var ávinningnum af aldargömlum sigri Grikkja á Persum fórnað. Sparta reyndi síðan að veikja veldi Þebu, sem leiddi til stríðs þar sem Þeba myndaði bandalag með fyrrum óvinum Spörtu, Aþenu.

Þebversku hershöfðingjarnir Epamínondas og Pelopídas unnu afgerandi sigur í orrustunni við Levktra 371 f.Kr. Í kjölfar orrustunnar lauk stórveldistíma Spörtu en stórveldistími Þebu hófst. Aþena endurheimti að miklu leyti þau völd sem hún hafði áður haft vegna þess að stórveldistími Þebu stóð ekki lengi. Þegar Epamínondas féll í orrustunni við Mantineu 362 f.Kr. missti borgin mesta leiðtoga sinn og eftirmenn hans létu leiðast út í tíu ára langt stríð gegn Fókis sem hafði ekkert upp úr sér. Árið 346 f.Kr. leituðu Þebverjar til Filippusar II. í Makedóníu og báðu hann um hjálp í átökunum gegn Fókis og blönduðu þannig Makedóníu í grísk stjórnmál í fyrsta sinn.

Uppgangur Makedóníu

breyta

Konungdæmið Makedónía varð til á 7. öld f.Kr. Það kom lítið við sögu í grískum stjórnmálum fyrir 5. öld f.Kr. Filippus konungur Makedóníu var metnaðargjarn maður sem hlaut menntun sína í Þebu. Í upphafi 4. aldar f.Kr. vildi hann auka ítök sín á Grikklandi. Einkum vildi hann fá viðurkenningu sem nýr leiðtogi Grikklands í baráttunni fyrir því að frelsa grísku borgríkin í Litlu-Asíu undan stjórn Persa. Með því að taka borgirnar Amfipolis, Meþone og Potidaja náði hann völdum yfir gull- og silfurnámum Makedóníu. Með þessu varð hann sér úti um auðlindir sem hann gat nýtt til að gera draum sinn að veruleika.

 
Filippos II frá Makedóníu

Filippus náði yfirráðum yfir Þessalíu 352 f.Kr. og Þrakíu og árið 348 f.Kr. réð hann yfir öllu landsvæðinu norðan Laugaskarða (Þermopylai). Hann nýtti auð sinn til að múta grískum stjórnmálamönnum og kom á fót „makedónskum stjórnmálaflokki“ í öllum grískum borgríkjum. Afskipti hans af stríðinu milli Þebu og Fókis færðu honum mikla virðingu og gáfu honum tækifæri á að ná miklum áhrifum í grískum stjórnmálum. Aþenski stjórnmálamaðurinn Demosþenes hvatti Aþeninga til þess að standa gegn áhrifum Filippusar í frægum ræðum (filippísku ræðunum).

Árið 339 f.Kr. mynduðu Þeba og Aþena bandalag gegn síauknum áhrifum Filippusar. Filippus réðst gegn þeim og hélt inn í Grikkland og sigraði bandalagsríkin í orrustunni við Kæróneu árið 338 f.Kr. Venjulega er litið svo á að hnignun borgríkisins hafi hafist eftir ósigurinn við Kæróneu, enda þótt borgríkin hafi að mestu leyti verið sjálfstæð ríki allt þar til Rómverjar náðu yfirráðum.

Filippus reyndi að heilla Aþeninga með gjöfum en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann kom á fót Kórintubandalaginu og tilkynnti að hann myndi ráðast gegn Persíu til þess að frelsa grísku borgríkin og hefna fyrir innrásir Persa á öldinni sem leið. En áður en hann gat komið áformum sínum í verk var hann ráðinn af dögum árið 336 f.Kr.

Veldi Alexanders mikla

breyta

Tvítugur sonur Filippusar, Alexander, tók við af föður sínum. Hann hóf þegar í stað undirbúning að því að hrinda í framkvæmd áformum föður síns. Hann fór til Kórintu þar sem grísku borgríkin viðurkenndu hann sem leiðtoga Grikkja en hélt síðan norður til að gera her sinn reiðubúinn. Herinn sem hann hélt með til Persíu var í meginatriðum makedónskur, en margir hugsjónamenn frá öðrum borgríkjum gengu í hann. En þegar Alexander var önnum kafinn í Þrakíu barst honum fregn um uppreisn grísku borgríkjanna. Hann hélt suður í skyndi, hertók Þebu og jafnaði borgina við jörðu, öðrum grískum borgum til viðvörunar.

Árið 334 f.Kr. hélt Alexander til Litlu-Asíu og sigraði Persa við ána Graníkos. Þar með réð hann yfir jónísku strandlengjunni og fór sigurför um grísku borgirnar sem hann hafði frelsað. Þegar hann hafði útkljáð mál í Litlu-Asíu hélt hann suður á bóginn gegnum Kilikíu inn í Sýrland, þar sem hann sigraði Dareios III. í orrustunni við Issos 333 f.Kr. Þá hélt hann í gegnum Fönikíu til Egyptalands, sem hann náði á sitt vald án mikillar mótspyrnu. Egyptar tóku vel á móti honum sem frelsara undan kúgun Persa.

Dareios var nú fús til þess að semja um frið og Alexander hefði getað haldið heim sigri hrósandi. En hann var staðráðinn í að leggja undir sig Persíu og gerast sjálfur herra hennar. Hann hélt í norðaustur gegnum Sýrland og Mesópótamíu og sigraði Dareios aftur í orrustunni við Gágamela 331 f.Kr. Dareios flúði og var drepinn af eigin þegnum. Alexander var nú herra yfir öllu Persaveldi og tók borgirnar Súsa og Persepólis án mótspyrnu.

 
Veldi Alexanders mikla

En grísku borgríkin höfðu ekki gefist upp við að reyna að komast undan stjórn Makedóníu. Í orrustunni við Megalópólis árið 331 f.Kr. sigraði Antipater, fulltrúi Alexanders, Spartverja, sem höfðu neitað að ganga í Kórintubandalagið og viðurkenna yfirráð Makedóníu.

Alexander hélt lengra í austur, þangað sem nú eru Afganistan og Pakistan, allt að Indusdalnum, og 326 f.Kr. hafði hann náð til Punjab-héraðs. Hann hefði getað lagt leið sína niður meðfram Ganges alla leið til Bengal hefði ekki herinn, sem var fullviss um að hann væri á endimörkum heimsins, neitað að fara lengra. Alexander sneri aftur nauðugur viljugur og lést úr hitasótt í Babýlon árið 323 f.Kr.

Veldi Alexanders leystist upp skömmu eftir andlát hans en landvinningar hans breyttu Grikklandi varanlega. Þúsundir Grikkja ferðuðust með honum eða á eftir honum til að nema land eða flytjast til nýrra grískra borga sem hann hafði stofnað. Mikilvægust þessara borga var Alexandría í Egyptalandi. Grískumælandi konungdæmi voru stofnuð í Egyptalandi, Sýrlandi, í Íran og Baktríu. Helleníski tíminn var hafinn.

Samfélag

breyta

En helstu einkennin á forngrísku samfélagi voru skiptingin í frjálsborna menn og þræla, ólík staða kynjanna, tiltölulega lítil stéttaskipting á grundvelli ætternis og mikilvægi trúarbragða. Lifnaðarhættir í Aþenu voru dæmigerðari fyrir það en einkennileg samfélagsgerð Spörtu.

Samfélagsgerð

breyta

Einungis frjálsir menn höfðu full borgaraleg réttindi í borgríkinu.[18] Í flestum borgríkjum fylgdu engin lagaleg forréttindi hárri samfélagsstöðu, ólíkt því sem var í Róm. Til dæmis fylgdu engin forréttindi því að fæðast inn í tiltekna fjölskyldu. Stundum sáu tilteknar fjölskyldur um opinberar trúarathafnir, en venjulega fylgdu því engin völd. Í Aþenu var íbúum skipt í fjórar stéttir eftir efnahag. Fólk gat skipt um stétt ef það eignaðist fé. Í Spörtu hlutu allir karlkyns borgarar titilinn „jafningi“ ef þeir luku menntun sinni. Konungar Spörtu, sem voru tveir og sáu um herstjórn og trúmál í borginni, komu úr tveimur tilteknum fjölskyldum.

Þrælar höfðu hvorki völd né stöðu.[19] Þeir áttu rétt á að stofna fjölskyldu og eiga eignir, en höfðu engin pólitísk réttindi. Um 600 f.Kr. hafði vinnuþrælkun breiðst út um allt Grikkland. Á 5. öld f.Kr. voru þrælar um þriðjungur alls fólksfjöldans í sumum borgríkjum. Þrælar utan Spörtu gerðu nær aldrei uppreisn af því að þeir voru af mjög fjölbreyttu þjóðerni og of dreifðir til að geta tekið höndum saman.

Flestar fjölskyldur áttu þræla sem sáu um heimilið og almenna vinnu. Jafnvel fátækar fjölskyldur gátu átt einn eða tvo þræla. Eigendum var ekki frjálst að berja eða drepa þræla sína. Eigendur lofuðu oft að veita þrælum sínum frelsi síðar meir til að hvetja þrælana til að leggja harðar að sér. Ólíkt því sem gerðist í Róm hlutu þrælar sem var veitt frelsi ekki borgararéttindi. Í staðinn urðu þeir hluti af stétt réttindalausra þegna, ásamt aðfluttu fólki frá öðrum löndum eða öðrum borgríkjum sem bjó í borginni.

Borgríkin sjálf áttu einnig þræla. Þessir opinberu þrælar voru sjálfstæðari en þrælar í einkaeign og bjóu í eigin heimilum og önnuðust sérhæfð störf. Í Aþenu voru þrælar hins opinbera meðal annars þjálfaðir í að vera á varðbergi gagnvart fölsuðum peningum en hofþrælar þjónuðu guði tiltekins hofs.

Í Spörtu var sérstök tegund þræla sem nefndir helótar. Helótar voru grískir stríðsfangar í eigu ríkisins en lánaðir út til fjölskyldna. Þeir sáu um jarðrækt og unnu húsverk svo að konurnar gætu einbeitt sér að því að ala upp hraust börn. Karlarnir vörðu tíma sínum í þjálfun sem hoplítar og stunduðu hernað. Eigendur helóta voru þeim strangir og helótarnir gerðu oft uppreisn.

Daglegt líf

breyta

Daglegt líf í grísku borgríkjunum hélst lengi óbreytt.[20] Fólk sem bjó innan borgarmarkanna bjó í lágum sambýlishúsum eða einbýlishúsum eftir því hvernig fjárhagur þess var. Íbúðarhús, opinberar byggingar og hof voru byggð í kringum torgið (agora). Fólk bjó einnig í smærri þorpum og á sveitasetrum um sveitir landsins. Í Aþenu bjó meirihluti fólksins utan borgarmarkanna (giskað er á að af 400.000 íbúum hafi 160.000 manns búið innan borgarmúranna, en það er mikil borgarmyndun miðað við óiðnvætt samfélag).

Venjulegt grískt heimili var einfalt miðað við nútímaheimili. Á heimilinu voru svefnherbergi, geymslur og eldhús umhverfis innri garð. Meðalstærð heimilis var um 230 á 4. öld f.Kr. og var það töluvert stærra en híbýli annarra samfélaga, sem bendir til betri hags borgaranna.

Á heimili bjuggu hjón ásamt börnum sínum en venjulega engir aðrir ættingjar. Karlar unnu fyrir fjölskyldunni en konur héldu heimilið og sáu um þrælana. Þrælarnir sóttu vatn í krukkur úr opinberum brunnum, elduðu, þrifu og höfðu auga með börnunum. Karlar höfðu aðskilin herbergi til að taka á móti gestum vegna þess að karlkyns gestir máttu ekki vera í herbergjum þar sem konur og börn vörðu tíma sínum. Auðugir karlar buðu stundum vinum sínum í heimsókn í samdrykkjur. Olíulampar voru notaðir til lýsingar en á lömpunum var ólífuolía. Húsin voru hituð með því að brenna kol. Húsgögn voru einföld og fá, oftast aðeins stólar, borð og rekkjur.

 
Kringlukastarinn eftir Mýron, endurgerð frá 2. öld e.Kr.

Flestir Grikkir unnu við landbúnað, ef til vill 80% fólksfjöldans, sem er svipað hlutfall og í flestum óiðnvæddum samfélögum. Jarðvegur í Grikklandi er sjaldan frjósamur og úrkoma stopul. Rannsóknir benda til þess að veðurfar hafi lítið breyst frá því í fornöld. Því þurfti að líkindum oft að grisja og plægja. Nautgripir voru nýttir til að plægja akra en flest var unnið með berum höndum. Grískir bændur reyndu að eiga korn afgangs til að geta lagt af mörkum á hátíðum og til að geta keypt leirker, fisk, salt og málmhluti.

Forngrískur matur var einnig fábrotinn. Fátækt fólk át einkum bygggraut með lauk, ávexti og ost eða ólífuolíu. Fáir átu kjöt reglulega, nema þegar dýrum var fórnað á opinberum hátíðum. Bakarar seldu nýbökuð brauð daglega. Vín þynnt með vatni var algengasti drykkurinn.

Grískur fatnaður tók litlum breytingum í gegnum tímann. Bæði karlar og konur klæddust stuttum kyrtlum. Kyrtlarnir voru oft litríkir. Um mittið hafði fólk belti. Í köldu veðri klæddist fólk kápum og hafði húfur eða hatta en í heitu veðri klæddist það sandölum í stað leðurstígvéla. Konur báru skartgripi og settu á sig andlitsfarða - einkum púður sem gerði húðina ljósari álitum. Karlar létu sér vaxa skegg þar til Alexander mikli kom af stað þeirri tísku að raka sig.

Forngrísk læknislist var afar takmörkuð. Hippókrates átti mikinn þátt í því að skilja að hjátrú og læknismeðferð á 5. öld f.Kr. Jurtameðferð var beitt til að draga úr sársauka og læknar gátu framkvæmt uppskurði í einhverjum tilvikum. En þeir áttu engin ráð gegn sýkingum svo að jafnvel áður heilbrigðir einstaklingar gátu dáið mjög skyndilega úr sýkingu óháð aldri.

Karlar stunduðu líkamsrækt á hverjum degi til að halda sér hraustum og reiðubúnum til að gegna herþjónustu. Næstum því hvert einasta borgríki átti að minnsta kosti einn líkamsræktarsal, þar sem einnig var baðaðstaða, fyrirlestrasalur og garður. Í flestum borgum (að Spörtu undanskilinni) máttu einungis karlar æfa í líkamsræktarsölunum og menn voru naktir þegar þeir æfðu. Hátíðir á vegum ríkisins veittu afþreyingu og skemmtun. Guðirnir voru heiðraðir með keppnum í tónlist, leiklist og kveðskap. Aþeningar montuðu sig af því að í þeirra borg væri hátíð næstum því annan hvern dag. Stórar samgrískar hátíðir voru haldnar í Ólympíu, Delfí, Nemeu og Isþmíu. Íþróttamenn og tónlistarmenn sem sigruðu í þessum keppnum gátu orðið ríkir og frægir. Dýrasta og vinsælasta keppnisgreinin var kappreiðar.

Menntun

breyta

Lengst af í fornaldarsögu Grikklands var menntun ekki á vegum hins opinbera, nema í Spörtu. Á helleníska tímanum stofnuðu sum borgríki opinbera skóla. Einungis auðugar fjölskyldur höfðu efni á að ráða kennara. Drengir lærðu að lesa, skrifa og vitna í bókmenntir. Þeir lærðu einnig að syngja og leika á hljóðfæri og hlutu þjálfun í íþróttum til að undirbúa þá fyrir herþjónustu. Þeir námu ekki til að undirbúa sig fyrir starf, heldur til að verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Stúlkur lærðu einnig að lesa, skrifa og einfaldan reikning svo þær gætu séð um heimilið. Þær hlutu nánast aldrei menntun eftir barnæsku.

Lítill hluti drengja hélt menntun sinni áfram eftir barnæsku. Til dæmis má nefna herskóla Spartverja. Á táningsárum námu þeir heimspeki, en hún var hugsuð sem siðferðismenntun fyrir lífið, og mælskufræði svo þeir gætu flutt góðar og sannfærandi ræður fyrir dómstólum eða á þingi. Á klassíska tímanum var þessi menntun nauðsynleg sérhverjum metnaðarfullum ungum manni. Samskipti auðugra drengja við eldri lærimeistara var snar þáttur í menntun þeirra.[21] Unglingurinn lærði af því að fylgjast með lærimeistara sínum ræða um stjórnmál á torginu, með því að aðstoða hann við að rækja borgaralegar skyldur sínar, með því stunda æfingar með honum í líkamsræktinni og með því að fylgja honum á samdrykkjur. Ríkustu nemendurnir héldu áfram í framhaldsnám í skóla í einhverri stórborg. Frægir kennarar ráku þessa skóla. Meðal frægra skóla í Aþenu voru Akademían og Lykeion.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Um Grikkland á myrku öldunum, sjá Finley (1991) 19-28, og Finley (2002).
  2. Um nýlendutímann, sjá Finley (1991), 30-53; George Forrest, „Greece: The History of the Archaic Period“ hjá John Boardman, Jasper Griffin og Oswyn Murray (ritstj.), The Oxford History of Greece and the Hellenistic World (1986/1991/2002), 13-46.
  3. Um klassíska tímann í sögu Grikklands, sjá Kitto (1991), 109-135; Finley (1991), 54-93; Simon Hornblower, „Greece: The History of the Classical Period“ hjá John Boardman, Jasper Griffin og Oswyn Murray (ritstj.), The Oxford History of Greece and the Hellenistic World (1986/1991/2002), 142-176; Oswyn Murray „Life and Society in Classical Greece“ í sama riti, 240-276.
  4. Um helleníska tímann, sjá Walbank (1981); Finley (1991), 170-179; Simon Price, „The History of the Hellenistic Period“ hjá John Boardman, Jasper Griffin og Oswyn Murray (ritstj.), The Oxford History of Greece and the Hellenistic World (1986/1991/2002), 364-389; Robin Lane Fox, „Hellenistic Culture and Literature“ í sama riti, 390-420; Jonathan Barnes, „Hellenistic Philosophy and Science“ í sama riti, 421-446; Roger Ling, „Hellenistic and Greco-Roman Art“ í sama riti, 447-474.
  5. Geir Þ. Þórarinsson, „Hver er saga grískrar heimspeki?“ Geymt 8 janúar 2006 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 19.8.2005. (Skoðað 10.12.2006).
  6. Finley (1991), 16-17.
  7. Hansen (2006).
  8. Sjá Finley (1991), 36-40.
  9. Sjá Kitto (1991), 79-109.
  10. Finley (1991), 40-41. Um sögu Spörtu, sjá Forrest (1968). Einnig Geir Þ. Þórarinsson, „Hvar var Sparta? Er einhver borg í dag sem hét áður Sparta?“[óvirkur tengill]. Vísindavefurinn 10.7.2006. (Skoðað 10.12.2006).
  11. Finley (1991), 42-43.
  12. Um Persastríðin, sjá Souza (2003) og Green (1996).
  13. Um gríska leiklist, sjá Peter Levi, „Greek Drama“ hjá John Boardman, Jasper Griffin og Oswyn Murray (ritstj.), The Oxford History of Greece and the Hellenistic World (1986/1991/2002), 177-213. Um harmleikjaskáldin, sjá Kitto (1973) og Finley (1991), 99-106. Um gamanleikjaskáldin, sjá Finley (1991), 106-110.
  14. Um Anaxagóras, sjá Barnes (1982), 318-341; Kirk, Raven, & Schofield (1983), 352-384. Um Sókrates, sjá Vlastos (1991); Vlastos (1971); og Brickhouse og Smith (1994). Um Platon, sjá Annas (2003) og Kraut (1999). Einnig „Plato“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy og Geir Þ. Þórarinsson, „Hver var Platon?“ Geymt 8 janúar 2006 í Wayback Machine, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“[óvirkur tengill], Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 8.12.2006). Um Aristóteles, sjá Barnes (2000); Ackrill (1981); Barnes (1999). Einnig: „Aristotle: General Introduction“ Geymt 8 maí 2009 í Wayback Machine hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy og Ólafur Páll Jónsson, „Hver var Aristóteles?“ Geymt 21 apríl 2005 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 21.6.2004. (Skoðað 8.12.2006).
  15. Um sagnaritarana, sjá Oswyn Murray, „Greek Historians“ hjá John Boardman, Jasper Griffin og Oswyn Murray (ritstj.), The Oxford History of Greece and the Hellenistic World (1986/1991/2002), 214-239; Finley (1991), 110-116.
  16. Um gríska list og byggingarlist, sjá John Boardman, „Greek Art and Architecture“ hjá John Boardman, Jasper Griffin og Oswyn Murray (ritstj.), The Oxford History of Greece and the Hellenistic World (1986/1991/2002), 330-363. Um gríska höggmyndalist á klassíska tímanum, sjá Boardman (1985) og Finley (1991), 160-166.
  17. Um Pelópsskagastríðið, sjá Bagnall (2004), Kagan (2003) og Janus (1969). Einnig Skúli Sæland, „Hvað voru Pelópsskagastríðin?“ Geymt 3 september 2005 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 27.10.2004. (Skoðað 10.12.2006).
  18. Um gríska borgríkið, sjá Hansen (2006a). Einnig: Kitto (1991), 64-79 og 152-169; Finley (1991), 54-93;
  19. Um þrælahald til forna, sjá Finley (1968).
  20. Sjá Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig var daglegt líf og venjur Forngrikkja?“. Vísindavefurinn 4.9.2008. (Skoðað 4.9.2008).
  21. Um forngríska samkynhneigð, sjá Dover (1968) og Laurin (2005).

Heimildir og ítarefni

breyta
Fyrirmynd greinarinnar var „Ancient Greece“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 23. júlí 2006.
  • Ackrill, J.L., Aristotle the Philosopher (Clarendon Press, 1981).
  • Annas, Julia, Plato: A Very Short Introduction (Oxford University Press, 2003).
  • Bagnall, Nigel, The Peloponnesian War: Athens, Sparta, and the Struggle for Greece (Thomas Dunne Books, 2004).
  • Barnes, Jonathan, Aristotle: A Very Short Introduction (Oxford University Press, 2000).
  • Barnes, Jonathan, The Cambridge Companion to Aristotle (Cambridge University Press, 1999).
  • Barnes, Jonathan, The Presocratic Philosophers (Routledge, 1982).
  • Boardman, John, Greek Sculpture: The Classical Period (Thames & Hudson, 1985).
  • Boardman, John, Griffin, Jasper og Murray, Oswyn (ritstj.), The Oxford History of Greece and the Hellenistic World (Oxford University Press, 1986/1991(2002).
  • Brickhouse, Thomas C. og Smith, Nicholas D., Plato's Socrates (Oxford University Press, 1994).
  • Dover, K.J., Greek Homosexuality (Harvard University Press, 1968).
  • Finley, M.I. (ritstj.), Slavery in Classical Antiquity (Cambridge University Press, 1968).
  • Finley, M.I., The Ancient Greeks (Penguin, 1991).
  • Finley, M.I., The World of Odysseus (New York Review of Books, 2002).
  • Forrest, W.G., A History of Sparta 950-192 B.B. (Norton, 1968).
  • Freeman, Charles, Egypt, Greece and Rome (Oxford University Press, 1996).
  • Grant, Michael, The Rise of the Greeks (Collier Books, 1987).
  • Green, Peter, The Greco-Persian Wars (University of California Press, 1996).
  • Hansen, Mogens Herman, Polis: An Introduction to the Ancient Greek City-State (Oxford University Press, 2006a).
  • Hansen, Mogens Herman, The Shotgun Method: The Demography of the Ancient Greek City-state Culture (University of Missouri Press, 2006b).
  • Hardy, W.G., The Greek and Roman World (Schenkman Publishing Company, Inc., 1960).
  • Janus, Eric S., The Outbreak of the Peloponneasian War (Cornell University Press, 1969).
  • Kagan, Donald, The Peloponnesian War (Viking, 2003).
  • Kirk, G.S., Raven, J.E. & Schofield, M., The Presocratic Philosophers (2. útg.) (Cambridge University Press, 1983).
  • Kitto, H.D.F., Greek Tragedy (Routledge, 1973).
  • Kitto, H.D.F., The Greeks (Penguin, 1991).
  • Kraut, Richard (ritstj.), The Cambridge Companion to Plato (Cambridge University Press, 1999).
  • Laurin, Joseph R., Homosexuality in Ancient Athens (Trafford, 2005).
  • Ober, Josiah, Mass and Elite in Democratic Athens: Rhetoric, Ideology, and the Power of the People (Princeton University Press, 1989).
  • Ober, Josiah, The Athenian Revolution: Essays on Ancient Greek Democracy and Political Theory (Princeton University Press, 1996).
  • Ober, Josiah, Political Dissent in Democratic Athens: Intellectual Critics of Popular Rule (Princeton University Press, 1998).
  • Souza, Philip, The Greek and Persian Wars 499-386 BC (Osprey Publishing, 2003).
  • Vlastos, Gregory (ritstj.), Socrates: A Collection of Critical Essays (University of Notra Dame Press, 1971).
  • Vlastos, Gregory, Socrates: Ironist and Moral Philosopher (Cornell University Press, 1991).
  • Walbank, F.W., The Hellenistic World (Harvard University Press, 1981).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • Hagsaga Grikklands hins forna Geymt 2 maí 2006 í Wayback Machine
  • „Hvernig var daglegt líf og venjur Forngrikkja?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvar og hvernig voru grísku guðirnir dýrkaðir til forna?“. Vísindavefurinn.
  • „Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku goðin?“. Vísindavefurinn.
  • „Var algengt að Forngrikkir ættu í ástarsamböndum við unga drengi?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvernig var uppeldi og menntun Forngrikkja háttað?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku?“. Vísindavefurinn.


Grikkland hið forna breyta
Tímabil: Eyjahafsmenningin | Mýkenumenningin | Myrku aldirnar í sögu Grikklands | Nýlendutíminn í sögu Grikklands | Klassíski tíminn | Helleníski tíminn | Rómverski tíminn í sögu Grikklands
Staðir: Alexandría | Antíokkía | Aþena | Delfí | Eyjahaf | Hellusund | Kórinþa | Laugaskörð | Makedónía | Míletos | Mýkena | Ólympía | Pergamon | Sparta | Trója | Þeba
Líf: | Efnahagur | Hernaður | Landbúnaður | Leikritun | Leirkeragerð | List | Læknisfræði | Lög | Mataræði | Ólympíuleikarnir | Samkynhneigð | Vændi | Þrælahald
Bókmenntir: Hómer | Hesíódos | Arkílokkos | Týrtajos | Semónídes | Alkman | Mímnermos | Saffó | Alkajos | Anakreon | Þeognis | Símonídes | Pindaros | Bakkýlídes | Æskýlos | Sófókles | Evripídes | Aristófanes | Heródótos | Þúkýdídes | Xenofon | Þeókrítos | Kallímakkos | Pólýbíos | Plútarkos | Lúkíanos
Heimspeki: Þales | Anaxímandros | Anaxímenes | Pýþagóras | Herakleitos | Parmenídes | Zenon frá Eleu | Prótagóras | Empedókles | Anaxagóras | Demókrítos | Sókrates | Díogenes | Platon | Aristóteles | Pyrrhon | Zenon | Epikúros
Vísindi og fræði: Hippókrates | Evdoxos | Þeófrastos | Aristarkos frá Samos | Evklíð | Eratosþenes | Aristófanes frá Býzantíon | Aristarkos frá Samóþrake | Arkímedes | Díonýsíos Þrax | Heron | Galenos | Apolloníos Dyskolos
Stjórnmálamenn: Lýkúrgos | Sólon | Peisistratos | Kleisþenes | Þemistókles | Kímon | Períkles | Efíaltes | Kleon | Alkibíades | Krítías | Demosþenes | Filippos II | Alexander mikli
Atburðir: Trójustríðið | Persastríðin | Orrustan við Maraþon | Orrustan við Salamis | Orrustan við Plataju | Pelópsskagastríðið | Sikileyjarleiðangurinn | Orrustan við Kæróneu | Orrustan við Issos | Orrustan við Pydna
Byggingar: Akrópólishæð | Artemisarhofið | Hadríanusarboginn | Hefæstosarhofið | Kólossos | Leikhúsið í Epidáros | Meyjarhofið | Seifsstyttan í Ólympíu