Kalífi er veraldlegur valdsmaður í múslimalöndum sem talinn er þiggja vald sitt frá Allah. Fyrsti kalífinn var Abu Bakr sem var tengdafaðir Múhameðs spámanns. Upphaflega vísaði orðið kalífi til andlegs leiðtoga múslima en merking orðsins í arabísku er „sá sem kemur í staðinn fyrir þann sem er horfinn á braut eða dáinn“.

Frá stofnun íslamstrúar var kalífi íslams jafnan æðsti valdsmaður hinna ýmsu íslömsku stórvelda og um leið trúarlegur leiðtogi og sameiningartákn allra múslima. Frá árinu 1517 voru soldánar Tyrkjaveldis einnig kalífar íslams. Árið 1922 var soldánaveldið hins vegar lagt niður og lýðveldi stofnað í Tyrklandi. Höfuð Ósman-valdaættarinnar fengu áfram að kalla sig kalífa og vera trúarleiðtogar án pólitískra valda um skeið en árið 1924 ákvað forseti Tyrklands, Mústafa Kemal Atatürk, að leysa einnig upp kalífadæmið. Síðasta kalífanum, Abdúl Mejid 2., var síðan skipað að yfirgefa Tyrkland.[1]

Frá árinu 1924 hefur enginn lögmætur kalífi starfað meðal múslima en margir hafa þó gert tilkall til kalífatignarinnar og látið sig dreyma um að endurreisa kalífadæmið. Leiðtogi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, Abu Bakr al-Baghdadi, lýsti sjálfan sig til að mynda kalífa íslams árið 2014. Flestir múslimar viðurkenndu þó ekki tilkall hans eða eftirmanna hans og telja það ekki standast trúarreglur.[2][3]

Heimild breyta

  • Þórunn Jónsdóttir (10. apríl 2002). „Hver er munurinn á kalífa, kóngi og keisara?“. Vísindavefurinn. Sótt 1. maí 2024.
  • Andri Már Hermannsson; Arnþór Daði Guðmundsson; Bjarki Kolbeinsson; Ólöf Rún Gunnarsdóttir. „Hverjir voru helstu leiðtogar íslams strax eftir dauða Múhameðs?“. Vísindavefurinn. Sótt 28. mars 2024.
Tilvísanir
  1. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 113-114.
  2. Bogi Þór Arason (27. september 2014). „Maðurinn sem kallar sig kalífa“. mbl.is. Sótt 1. febrúar 2019.
  3. „Afturhvarf til kalifadæmis?“. RÚV. 2014. Sótt 1. febrúar 2019.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.