Konungsríkið Kastilía

Konungsríkið Kastilía var sjálfstætt ríki á Pýreneaskaga á miðöldum og er nú hluti af Spáni. Nafnið kemur fyrst fram í heimildum um árið 800 og er dregið af því að þá var þetta svæði austurhluti konungsríkisins Astúríu og þar reis fjöldi kastala til að verja landamærin gegn Márum.

Skjaldarmerki Konungsríkisins Kastilíu.

Greifadæmið Kastilía

breyta

Svæðið var þá greifadæmi og fyrsti greifinn sem vitað er um var Rodrigo, um 850, og var hann lénsmaður Astúríukonunganna Ordoño 1. og Alfons 3. Eftir daga hans skiptist greifadæmið niður í minni lén en var sameinað að nýju 931 af Fernán Gonzalez greifa, sem gerði uppreisn gegn konungsríkinu León, sem hafði tekið við af Astúríu. Honum tókst að ná fram sjálfstæði og hann og afkomendur hans í karllegg stýrðu greifadæminu næstu öldina.

Jiménez-ætt

breyta

En þegar García Sanchez tók við árið 1017 var hann barn að aldri og Kastilíumenn samþykktu að gangast undir yfirráð Sanchos 3., konung Navarra, sem kvæntur var systur García. Þegar García var ráðinn af dögum 1028 gerði Sancho Ferdínand, yngri son sinn, að greifa í Kastilíu. Kona hans var Sancha af León, systir Bermudos 3. konungs þar. Eftir dauða Sanchos hófu Ferdínand og bróðir hans, García Sanchez 3., konungur Navarra, stríð við Bermudo og felldu hann. Ferdínand tók þá við völdum í León í nafni konu sinnar og kallaði sig konung León og Kastilíu. Var það í fyrsta sinn sem Kastilía kallaðist konungsríki.

Þegar Ferdínand 1. dó 1065 skiptu synir hans með sér ríkinu og varð Sancho 2. konungur Kastilíu, Alfons 6. konungur León og García konungur Galisíu, en systur þeirra fengu borgir í sinn hlut. Bræðurnir Sancho og Alfons gerðu seinna bandalag gegn García bróður sínum og skiptu Galisíu á milli sín. Varla var því lokið þegar Sancho snerist gegn Alfons og rak hann í útlegð með aðstoð El Cid og sameinaði ríkin þrjú að nýju. Urraca systir hans veitti meginhluta hers León skjól í borginni Zamora, sem hún réði. Sancho settist um borgina árið 1072 en var myrtur meðan á umsátrinu stóð og kastilíski herinn hvarf frá. Alfons 6. sneri þá aftur, settist í hásæti í León að nýju og varð nú einnig konungur Kastilíu og Galisíu.

Búrgundarætt

breyta
 
Ríkin á Pýreneaskaga árið 1210.

Á valdatíma Alfons 6. jukust samskipti Kastilíumanna við önnur evrópsk konungsríki og hann gifti þrjár dætur sínar frönskum aðalsmönnum. Ein þeirra, Urraca, sem gifst hafði Raymond af Búrgund en var orðin ekkja, settist í hásætið þegar faðir hennar lést og síðan tók sonur hennar, Alfons 7., sem hafði verið krýndur konungur Galisíu árið 1111, við ríkjum í Kastilíu og León árið 1126 og hófst þá valdaskeið Búrgundarættar. Hann skipti ríkinu milli sona sinna tveggja og varð Sancho 3. konungur Kastilíu árið 1157 en Ferdínand 2. varð konungur León og Galisíu.

Aðskilnaðurinn stóð þó ekki nema hálfa öld, Kastilía, León og Galisía sameinuðust aftur undir stjórn Ferdínands 3., sem var sonur Berengaríu Kastilíudrottningar og Alfons 9., konungs León, og voru undir einni stjórn eftir það. León og Galisía voru áfram sérstök konungsríki að nafninu til en konungshirðin og miðstöð valdanna var í Kastilíu frá 1230.

Á 12. öld var Kastilía ein helsta menningarmiðstöð Evrópu og má rekja það til ársins 1085, þegar Kastilíumenn náðu borginni Toledo, einni helstu menningarmiðstöð Mára, á sitt vald og kynntust þar mörgum stórmerkum bókmenntaverkum, fræðiritum og vísindaritum og gátu kynnt sér störf og fræði múslimskra vísindamanna. Þar var fjöldi íslamskra og grískra rita þýddur á latínu á næstu áratugum og fræðimenn komu víða að úr Evrópu til að læra og stunda rannsóknir í Toledo.

Jakobsvegurinn, pílagrímaleiðin til Santiago de Compostela lá líka um Kastilíu og León. Hann var fjölfarinn og því voru samskipti við Evrópu mikil.

Trastámara-ætt

breyta

Búrgundarættin er talin ríkja til 1369, þegar Pétur grimmi var drepinn af óskilgetnum hálfbróður sínum, Hinrik, eftir þriggja ára borgarastyrjöld. Hinrik varð þá konungur, hinn fyrsti af Trastámara-ætt, en John af Gaunt, sonur Játvarðar 3. Englandskonungs, gerði einnig kröfu til ríkis í nafni Konstönsu konu sinnar, sem var dóttir Péturs. Hinrik hélt þó krúnunni og erfðadeilunni lauk 1388 þegar Hinrik 3. sonarsonur hans gekk að eiga Katrínu af Lancaster, dóttur Johns og Konstönsu. Trastámara-ætt stýrði Kastilíu 1369-1504, Aragóníu 1369-1516, Navarra 1425-1479 og Napólí 1442-1501.

Árið 1469 giftust þau Ísabella 1. af Kastilíu og Ferdínand 2. af Aragóníu og sameinuðust ríkin tvö þegar faðir Ferdínands lést árið 1479 og hann erfði ríkið. Þar með má segja að Spánn hafi orðið til og dóttursonur þeirra, Karl 5., varð fyrsti eiginlegi konungur Spánar.

Tengt efni

breyta

Heimild

breyta