Francisco Franco

Spænskur hershöfðingi og einræðisherra (1892-1975)

Francisco Paulino Hermenegildo Teódulo Franco y Bahamonde (4. desember 189220. nóvember 1975) betur þekktur sem Francisco Franco var einræðisherra á Spáni á árunum 1936/39 til 1975. Spænska borgarastyrjöldin hófst með uppreisn sem hann leiddi, og lauk árið 1939 með sigri Francos og manna hans, sem nefndir voru falangistar.

Francisco Franco
Caudillo Spánar
Í embætti
1. október 1936 – 20. nóvember 1975
ForsætisráðherraHann sjálfur
Luis Carrero Blanco
Carlos Arias Navarro
ForveriManuel Azaña (sem forseti)
EftirmaðurJóhann Karl 1. (sem konungur)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur4. desember 1892
Ferrol, Galisíu, Spáni
Látinn20. nóvember 1975 (82 ára) Madrid, Spáni
StjórnmálaflokkurFET y de las JONS
MakiCarmen Polo
TrúarbrögðKaþólskur
BörnCarmen Franco
HáskóliFótgönguliðaháskóli Toledo
StarfHermaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Franco var afar umdeildur bæði innan og utan Evrópu. Stuðningsmenn hans hrósa honum fyrir andstöðu hans gegn kommúnisma, efnahagsstefnu hans, stuðning við spænskar hefðir og spænska konungdæmið. Gagnrýnendur líta helst á hann sem harðsvíraðan einræðisherra sem beitti ofbeldi gegn andófsmönnum og öllu sem ekki þótti nógu spænskt, beitti útrýmingarbúðum og nauðungarvinnu og studdi við bakið á Öxulveldunum.

Æviágrip

breyta

Francisco Franco fæddist árið 1892 í Ferrol í Galisíu og var sonur gjaldkera í spænska flotanum. Hann hafði sjálfur ætlað sér að ganga í flotann en þegar inntökuprófum í flotann var skyndilega hætt ákvað hann þess í stað að ganga í landherinn. Hann gekk í herskólann í Toledo og var gerður liðsforingi af lægstu gráðu árið 1910. Þegar Franco var 19 ára var hann sendur til þess að gegna fjögurra ára herþjónustu í Melilla í Marokkó. Árið 1927 var hann skipaður yfirmaður spænska herskólans í Saragossa.[1]

Franco var íhaldsmaður og konungssinni sem var mótfallinn því þegar konungdæmið var lagt niður og lýðveldi stofnað á Spáni árið 1931. Franco vakti fyrst athygli þjóðarinnar þegar hann var sendur ásamt útlendingaherdeildinni frá Marokkó og spænska flughernum til þess að kveða niður uppreisn námuverkamanna í Astúríu. Í átökunum féllu um 1300-5000 uppreisnarmenn og enn fleiri voru fangelsaðir. Franco varð fyrir vikið hetja í augum spænskra hægrimanna en skúrkur í augum vinstrimanna um alla Evrópu.[1]

Í kosningum árið 1936 tapaði bandalag hægrisinnaðra íhaldsmanna fyrir vinstriflokkum. Franco ráðlagði forsætisráðherra fráfarandi hægristjórnarinnar að lýsa yfir neyðarsástandi til þess að koma í veg fyrir að vinstristjórn gæti tekið við völdum á Spáni. Eftir þessu var ekki farið og þegar stjórn vinstrimanna tók við lét Manuel Azaña, nýr forseti lýðveldisins, Franco taka við valdalítilli liðsforingjastöðu á Kanaríeyjum til þess að refsa honum fyrir framgöngu sína í Astúríu.[1]

Spænska borgarastyrjöldin (1936–1939)

breyta

Eftir að vinstristjórnin tók við völdum fóru Franco og aðrir hershöfðingjar að leggja á ráðin um valdarán. Þeir létu til skarar skríða þann 17.–18. júlí 1936 en mistókst að ná öllu landinu undir sig. Niðurstaðan varð sú að norðurhluti Spánar var áfram undir stjórn lýðveldissinna en hershöfðingjarnir stofnuðu þjóðernissinnaða alræðisstjórn í suðurhlutanum.[1] Þar með voru línurnar dregnar að spænsku borgarastyrjöldinni.

Franco var ekki helsti leiðtogi valdaránsmannanna í upphafi, en svo fór að flestir félagar hans létu lífið snemma í styrjöldinni: José Sanjurjo lést í flugslysi í Lissabon í júlí 1936, Manuel Goded Llopis lést eftir misheppnað áhlaup á Barselóna í ágúst sama ár, og Emilio Mola lét sömuleiðis lífið í flugslysi á leið til Vitoria-Gasteiz í júní 1937. Eftir dauða hinna hershöfðingjanna varð Franco fljótt óskoraður leiðtogi þjóðernissinnanna í stríðinu. Ávallt hafa orðrómar verið á kreiki um að Franco hafi komið keppinautum sínum fyrir kattarnef en engar sannanir hafa verið færðar fram.[2]

Franco sótti stuðning til ýmissa hópa og erlendra stjórnvalda, sér í lagi til Þýskalands Hitlers og Ítalíu Mussolinis. Spænski lýðveldisherinn sótti hins vegar stuðning til spænskra kommúnista og stjórnleysingja, til Sovétríkjanna, Mexíkó og til alþjóðlegra sjálfboðaliða. Franco fór sjálfur fram á mannskæða sprengjuárás á Guernica árið 1937. Eftir dauðsfall hálfrar milljónar manna vann Franco stríðið árið 1939. Hann stofnaði einræðisríki sem hann skilgreindi sem alræðisstjórn.[3] Franco lýsti sjálfan sig þjóðhöfðingja og ríkisstjórnarleiðtoga með titlinum El caudillo, viðurnefni sem svipaði mjög til titlanna Il duce (Mussolini) og Der Führer (Hitler) en öll merkja viðurnefnin einfaldlega „foringinn“. Í apríl 1937 sameinaði Franco fasista- og íhaldsflokka Spánar ásamt konungssinnum í flokkinn FET y de las JONS og bannaði starfsemi allra annarra stjórnmálaflokka.

Valdatíð (1939–1975)

breyta

Eftir valdatöku sína kom Franco á hvítri ógnarstjórn þar sem allt að 400.000 pólitískir andstæðingar hans voru fangelsaðir eða drepnir[4][5][6][7][8] með nauðungarvinnu og aftökum. Þrátt fyrir að vera formlega hlutlaus í seinni heimsstyrjöldinni aðstoðaði Franco Öxulveldin á margvíslegan hátt; hann leyfði þýskum og ítölskum skipum að nota spænskar hafnir, lak upplýsingum í þýsku leyniþjónustuna, flutti út ýmis stríðsgögn til Þýskalands og leyfði spænskum sjálfboðaliðum að berjast ásamt Þjóðverjum gegn Sovétmönnum til ársins 1944. Þegar Hitler bað Franco um að ganga formlega inn í styrjöldina við hlið Öxulveldanna gaf Franco honum hins vegar langan kröfulista, meðal annars um að Spánn skyldi fá í sinn hlut alla frönsku Marokkó, Kamerún og Gíbraltar. Hitler gat ekki orðið við bónum Francos og lét síðar falla þau orð að hann kysi heldur að láta „draga úr sér þrjár eða fjórar tennur en að eiga aðrar níu stunda viðræður við Franco“.[1]

Kommúnistar og aðrir andófsmenn til vinstri kölluðu stjórn Francos „fasíska“ en fræðimenn seinni tíma telja stjórn hans fremur til íhaldssamrar alræðisstjórnar.[9][10][11][12] Kaþólska kirkjan hlaut verulega aukin völd á stjórnartíð Francos eftir að völd hennar höfðu verið skert á lýðveldistímanum. Jesúítar fengu að snúa aftur til Spánar, hjónaskilnaður var bannaður, trúarbragðafræðsla var gerð að skyldufagi í öllum skólum og prestar fengu á ný ríkuleg fjárframlög frá hinu opinbera.[1]

Spánn einangraðist mjög á alþjóðavísu í nærri því heilan áratug eftir seinni heimsstyrjöldina. Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar var Spánn í fyrstu útilokaður frá öllum stofnunum þeirra og aðildarríkin hvött til þess að kalla heim sendiherra sína frá Spáni.[1] Á sjötta áratugnum mildaðist ríkisstjórn Francos ögn og leyfði takmarkað skoðanafrelsi.[13] Í kalda stríðinu var Franco einna fremstur meðal andkommúnista á alþjóðavísu; því hlaut ríki hans aðstoð vesturveldanna og var jafnvel boðið að ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið. Seint á fimmta áratugnum og á þeim sjötta urðu ýmsar efnahagsumbætur undir Franco þar sem hann opnaði spænska efnahagskerfið og eftirlét frjálslyndum ráðherrum umsjá yfir fjármálunum.[14]

 
Grafhýsi Franco var í Valle de los caidos. Fangar úr borgarastríðinu voru látnir byggja það.

Franco lést árið 1975, þá 82 tveggja ára. Hann endurreisti konungdæmið áður en hann dó og gerði Jóhann Karl 1. að eftirmanni sínum. Konungurinn kom að lýðræðisvæðingu Spánar sem var lokið með þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá árið 1978 þar sem Spánn var gerður að þingbundnu konungdæmi.

Endurgreftrun Francos

breyta

Árið 2018 lýsti nýr forsætisráðherra Spánar úr röðum sósíalista, Pedro Sánchez, því yfir að ríkisstjórn hans hygðist láta flytja líkamsleifar Francos úr grafhýsi hans í Dal hinna föllnu.[15] Grafhýsið er í námunda við minnisvarða sem Franco lét vígja árið 1959.[16] Þann 24. október árið 2019 var lík Francos grafið upp og flutt í kirkjugarðinn Mingorrubio El Pardo í Madríd, þar sem Franco var endurgreftraður við hlið eiginkonu sinnar, Carmenar Polo.[17]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Francisco Franco“. Samvinnan. 1. apríl 1969. Sótt 18. janúar 2019.
  2. Jackson, Gabriel, The Spanish Republic and the Civil War 1931-39, New Jersey, 1967.
  3. El "ideal supremo" totalitario de Franco que bendicen con dinero público los académicos de la Historia. Elplural.com. 26. maí 2012.
  4. Sinova, J. (2006) La censura de prensa durante el franquismo [Ritstkoðunin á tíma Franco-stjórnarinnar]. Random House Mondadori.
  5. Lázaro, A. (2001). „James Joyce's Encounters with Spanish Censorship, 1939–1966“. Joyce Studies Annual (enska). 12: 38. doi:10.1353/joy.2001.0008.
  6. Rodrigo, J. (2005) Cautivos: Campos de concentración en la España franquista, 1936–1947, Editorial Crítica.
  7. Gastón Aguas, J. M. & Mendiola Gonzalo, F. (eds.) Los trabajos forzados en la dictadura franquista: Bortxazko lanak diktadura frankistan.
  8. Duva, J. (November 9, 1998) "Octavio Alberola, jefe de los libertarios ajusticiados en 1963, regresa a España para defender su inocencia". Diario El País
  9. De Menses, Filipe Ribeiro Franco and the Spanish Civil War, p. 87, Routledge
  10. Gilmour, David, The Transformation of Spain: From Franco to the Constitutional Monarchy, p. 7 1985
  11. Payne, Stanley Fascism in Spain, 1923–1977, p. 347, 476 1999 Univ. of Wisconsin Press
  12. See Miguel-Anxo Murado, a journalist, who complains about historians at "F is for Franco but not for fascist, apparently"
  13. Stanley G. Payne, The Franco Regime, 1936–1975, pp.625-628
  14. Reuter, Tim (19. maí 2014). „Before China's Transformation, There Was The 'Spanish Miracle'. Forbes Magazine. Sótt 22. ágúst 2017.
  15. „Ætla að fjarlægja jarðneskar leifar Francos“. RÚV. 30. júlí 2018. Sótt 18. janúar 2019.
  16. Atli Ísleifsson (19. júní 2018). „Ætla sér að flytja líkamsleifar Franco úr Dal hinna föllnu“. Vísir. Sótt 18. janúar 2019.
  17. Bjarni Pétur Jónsson (24. október 2019). „Líkamsleifar Francos fluttar í óþökk afkomenda“. RÚV. Sótt 25. október 2019.


Fyrirrennari:
Manuel Azaña
(sem forseti Spánar)
Caudillo Spánar
(1. október 193620. nóvember 1975)
Eftirmaður:
Jóhann Karl 1.
(sem konungur Spánar)