Opna aðalvalmynd

Púertó Ríkó (formlegt heiti: Samveldið Púertó Ríkó; spænska: Estado Libre Asociado de Puerto Rico, enska: Commonwealth of Puerto Rico) er sérstakt sambandssvæði innan Bandaríkjanna, austan við Dóminíska lýðveldið og vestan við Jómfrúaeyjar í norðausturhluta Karíbahafs.

Estado Libre Asociado de Puerto Rico
Commonwealth of Puerto Rico
Fáni Púertó Ríkó Skjaldamerki Púertó Ríkó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Joannes Est Nomen Eius
(latína: Jóhannes er nafn hans)
Þjóðsöngur:
La Borinqueña
Staðsetning Púertó Ríkó
Höfuðborg San Juan
Opinbert tungumál spænska, enska
Stjórnarfar Samveldisland

Landstjóri Wanda Vázquez Garced
Bandarísk yfirráð
 - Afsal frá Spáni 10. desember 1898 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
162. sæti
9.104 km²
1,6
Mannfjöldi
 - Samtals (2018)
 - Þéttleiki byggðar
136. sæti
3.195.153
351/km²
VLF (KMJ)
- Samtals
- á mann
áætl. 2018
129,908 millj. dala (75. sæti)
39.763 dalir (29. sæti)
VÞL (2015) 0.845 (40. sæti)
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur (USD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .pr
Landsnúmer 1-787 og 1-939

Eyjaklasinn er hluti Stóru-Antillaeyja, á milli Dóminíska lýðveldisins og Bandarísku Jómfrúaeyja. Aðaleyjan er Púertó Ríkó en eyjaklasanum tilheyra líka minni eyjar og rif, þar á meðal Mona, Vieques og Culebra. Höfuðborgin og stærsta borg landsins er San Juan. Íbúar eru 3,2 milljónir. Spænska og enska eru opinber tungumál stjórnsýslunnar, þótt spænska sé ríkjandi. Þar er hitabeltisloftslag og því tiltölulega jafn hiti árið um kring.

Taínóindíánar voru upprunalegir íbúar eyjarinnar. Kristófer Kólumbus gerði tilkall til eyjarinnar fyrir hönd Spánar í annarri ferð sinni til Ameríku 19. nóvember 1493. Spánverjar stofnuðu nýlendu á eyjunni og hnepptu frumbyggja hennar í þrældóm. Spánn hélt eyjunni næstu fjórar aldirnar þrátt fyrir tilraunir Hollendinga, Breta og Frakka til að leggja hana undir sig. Eftir ósigur Spánar í stríði Spánar og Bandaríkjanna létu þeir eyjarnar af hendi við Bandaríkjamenn með Parísarsáttmálanum 1898. Árið 1917 fengu íbúar Púertó Ríkó bandarískan ríkisborgararétt og 1948 fengu þeir rétt til að kjósa eigin landstjóra. Árið 1952 fékk Púertó Ríkó eigin stjórnarskrá sem sjálfstætt ríki í frjálsu sambandi við Bandaríkin en ríkið er samt sem áður innan lögsögu Bandaríkjaþings þar sem Púertó Ríkó hefur áheyrnarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkur Púertó Ríkó hefur barist fyrir sjálfstæðu ríki.

Efnahagur Púertó Ríkó byggist fyrst og fremst á iðnaðarframleiðslu. Landið er fátækara en fátækasta fylki Bandaríkjanna, Mississippi, en samanborið við Rómönsku Ameríku er það með mestu landsframleiðsluna. 41% íbúa eru undir alþjóðlegum fátæktarmörkum. Snemma árs 2017 lenti stjórn landsins í skuldavanda þegar útistandandi ríkisskuldabréf náðu 70 milljörðum á sama tíma og atvinnuleysi var 12,4%. Skuldin hafði safnast upp vegna áratugalangrar efnahagskreppu. Bandaríkjaþing skipaði nefnd til að hafa umsjón með endurskipulagningu efnahags Púertó Ríkó í upphafi ársins. Í september sama ár gekk fellibylurinn María á land og olli gríðarlegu tjóni. Björgunaraðgerðir gengu hægt til að byrja með og um 200.000 íbúar höfðu flutt til Flórída í nóvember.

  Þessi Bandaríkja-tengda grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.