Flotinn ósigrandi (spænska: Grande y Felicísima Armada eða Armada Invencible) var spænskur herfloti sem sendur var til Englands árið 1588 til að steypa Elísabetu 1. af stóli. Tilgangurinn var að binda enda á stuðning Englendinga við uppreisnarmenn í Spænsku Niðurlöndum og stöðva sjórán þeirra í Karíbahafi. Flotinn var undir stjórn Alonso Pérez de Guzmán, hertoga af Medina Sidonia. Flotinn taldi 151 skip, þar af 28 herskip, með samtals 8.000 sjómenn og 18.000 hermenn. Skipin lögðu úr höfn í Lissabon 28. maí og komust í landsýn við Englandsströnd 19. júlí. Enski flotinn, sem taldi fleiri skip en færri fallbyssur, beið þeirra í Plymouth. Enski flotinn nýtti sér meiri hreyfanleika og tókst að hrekja spænska flotann inn Ermarsund og brjóta hann upp í Calais og Gravelines. Eftir orrustuna við Gravelines 29. júlí þar sem Spánverjar misstu fimm skip ákvað Guzmán að snúa aftur til Spánar með því að sigla norður fyrir Skotland. Í þeirri ferð kostuðu stormar í Norður-Atlantshafi Spánverja yfir 60 skip og 5000 menn. Leifar flotans komu aftur til Spánar í lok september 1588.

Enskt málverk sem sýnir ensk og spænsk skip.