Mannkynssaga er saga mannkyns sem hefst á fornsteinöld, en jarðsaga er saga jarðarinnar, þar á meðal saga lífs áður en maðurinn kom til. Sá tími sem engar ritheimildir eru til um er kallaður forsögulegur tími en með skrift og rituðum heimildum hefst sögulegur tími.[a] Forsögulegur tími hefst á fornsteinöld en upphaf nýsteinaldar markast af landbúnaðarbyltingunni (milli 8000 og 5000 f.o.t.) í frjósama hálfmánanum. Á bronsöld þróuðust stór menningarríki sem eru kölluð vagga siðmenningar: Mesópótamía, Egyptaland hið forna og Indusdalsmenningin.

Lógaritmískur skali sem sýnir mannfjöldaþróun á jörðinni frá upphafi nýsteinaldar.

Hefðbundin sagnaritun skiptir sögu ólíkra heimshluta í ólík tímabil. Til dæmis er algengt að notast við konungsættir til að afmarka söguleg tímabil eins og gert er í sögu Kína. Í mörgum heimshlutum eru til einhvers konar „klassísk“ tímabil, „miðtímabil“ og „nútími“, en þessi tímabil ná gjarnan yfir ólík tímaskeið. Í sögu Indlands nær til dæmis „klassíska“ tímabilið frá 230 f.o.t. til 1200 e.o.t., „miðtímabil“ frá 1200 til um 1600 og nýöld frá 1600 til okkar daga. Í sögu Ameríku nær „klassíska“ tímabilið frá 200 til 900 þegar Majar mynduðu stór menningarríki, en tímabilið frá 900 til upphafs landvinningatímans 1519 er kallað „síðklassíska“ tímabilið. Í samtímanum tvinnast saga ólíkra heimshluta saman vegna hnattvæðingarinnar.

Mannkynssagan nær yfir um 2,8 milljón ár, frá því ættkvíslin Homo kom fyrst fram á sjónarsviðið til okkar daga. Fyrir um 300.000 árum þróuðust nútímamenn og allar aðrar tegundir af ættkvíslinni dóu smám saman út. Landbúnaðarbyltingin átti sér stað fyrir um 12.000 árum og um 7.000 árum síðar tóku menn að notast við ritmál svo sögulegur tími er í raun agnarlítill hluti af mannkynssögunni í árum talið.

Fjölmargar vísindagreinar fást við rannsóknir á sögu mannsins. Meðal þeirra helstu eru sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, málvísindi og erfðafræði.

Forsögulegur tími

breyta
 
Lucy“, fyrsta beinagrindin af Australopithecus afarensis sem fannst, var aðeins 1,06 metrar á hæð.[1]

Þróun mannsins

breyta

Fyrir 7-5 milljón árum síðan greindist ættkvíslin homininae frá mannöpum í Afríku.[2][3][4][5] Eftir að tegundin greindist frá simpönsum þróaðist tvífætlingsstaða hjá fyrstu suðuröpum (Australopithecus), hugsanlega sem aðlögun að gresjulandslagi í stað skóga.[6][7] Forverar manna tóku að nota frumstæð steinverkfæri fyrir um það bil 3,3 milljónum ára.[8] Sumir steingervingafræðingar hafa stungið upp á 3,39 milljón árum, byggt á beinum frá Dikiki í Eþíópíu sem bera merki um skurði,[9] þótt aðrir dragi það í efa.[10] Það myndi þá marka upphaf fornsteinaldar, miklu fyrr en áður var talið.[11][12]

Ættkvíslin Homo þróaðist frá ættkvísl suðurapa.[13] Elstu minjar um ættkvíslina eru 2,8 milljón ára gömul bein (LD 350-1) frá Eþíópíu,[14] og elsta manntegundin sem lýst hefur verið er Homo habilis sem kom fram fyrir 2,3 milljón árum.[15] Helsti munurinn á Homo habilis og Australopithecus er að heili hinna fyrrnefndu var 50% stærri.[16] H. erectus kom fram á sjónarsviðið fyrir 2 milljón árum[17] og var fyrsta manntegundin sem ferðaðist út fyrir Afríku til Evrasíu.[18] Hugsanlega fyrir 1,5 milljón árum, en örugglega fyrir 250.000 árum, tóku menn að kveikja elda til upphitunar og matreiðslu.[19][20]

Fyrir um 500.000 árum greindist ættkvíslin Homo í margar tegundir frummanna, eins og neanderthalsmenn í Evrópu, denisovmenn í Síberíu, og hina smáu flóresmenn í Indónesíu.[21][22] Þróun mannsins var ekki einfalt línulegt eða sundurgreint ferli, og fól í sér blöndun frummanna og nútímamanna.[23][24] Erfðarannsóknir hafa sýnt fram á að blöndun tiltölulega aðgreindra manntegunda hafi verið algeng í þróunarsögu mannsins.[25] Slíkar rannsóknir benda til þess að mörg gen úr neanderthalsmönnum sé að finna hjá nær öllum hópum fólks utan Afríku sunnan Sahara. Neanderthalsmenn og aðrar manntegundir, eins og denisovmenn, gætu hafa skilið eftir allt að 6% af erfðaefni sínu í nútímamönnum.[26][27]

Elstu nútímamenn

breyta

Manntegundin Homo sapiens kom fram á sjónarsviðið í Afríku fyrir 300.000 árum. Hún þróaðist út frá tegundinni Homo heidelbergensis.[28][29][30] Næstu árþúsund hélt þróunin áfram og fyrir um 100.000 árum voru menn farnir að nota skartgripi og okkur til að skreyta líkama sinn.[31] Fyrir um 50.000 árum tóku menn að grafa hina látnu, nota kastvopn og ferðast um höf og vötn.[32] Ein mikilvægasta breytingin (sem ekki er hægt að tímasetja með vissu) var þróun tungumálsins, sem bætti samskiptahæfni manna til mikilla muna.[33] Elstu merki um listræna tjáningu er að finna í hellamálverkum og útskurði í bein, stein og tennur, sem hefur verið túlkað sem merki um andatrú[34] eða sjamanisma.[35] Elstu hljóðfæri sem fundist hafa (fyrir utan mannsröddina) eru beinflautur frá Júrafjöllum í Þýskalandi og eru um 40.000 ára gamlar.[36][37] Steinaldarmenn voru veiðimenn og safnarar og lifðu flökkulífi.[38]

 
Útbreiðsla mannsins um jörðina miðað við tilgátuna um suðræna dreifingu.

Flutningar nútímamanna frá Afríku áttu sér stað í nokkrum bylgjum fólksflutninga, sem hófust fyrir 194.000 til 177.000 árum.[39] Viðtekin skoðun meðal fræðimanna er að fyrstu bylgjurnar hafi dáið út og að allir nútímamenn utan Afríku séu afkomendur sama hóps sem fluttist þaðan fyrir 70.000-50.000 árum síðan.[40][41][42] H. sapiens fluttist til allra meginlandanna og stærri eyja og kom til Ástralíu fyrir 65.000 árum,[43] Evrópu fyrir 45.000 árum,[44] og Ameríku fyrir 21.000 árum.[45] Þessir fólksflutningar áttu sér stað á síðustu ísöld, þegar mörg af þeim svæðum sem í dag eru hlýtempruð voru óbyggileg vegna kulda.[46][47] Undir lok ísaldarinnar, fyrir um 12.000 árum, höfðu menn náð að breiðast út til nær allra svæða jarðar sem voru laus við ís.[48] Útbreiðsla manna fór saman við fjöldaútdauðann á kvarter og útdauða neanderthalsmanna[49] sem líklega stöfuðu af loftslagsbreytingum, athöfnum manna, eða blöndu af þessu tvennu.[50][51]

Upphaf landbúnaðar

breyta

Um 10.000 f.o.t. markar landbúnaðarbyltingin upphaf grundvallarbreytinga á lífsháttum manna á nýsteinöld.[52] Landbúnaður hófst á mismunandi tímum á mismunandi svæðum[53] og á sér minnst 11 upprunastaði.[54] Kornrækt og húsdýrahald hófust í Mesópótamíu að minnsta kosti um 8500 f.o.t. og fólust í ræktun hveitis, byggs, kinda og geita.[55] Menn tóku að rækta hrísgrjón við Yangtze-fljót í Kína um 8000-7000 f.o.t. og hirsi kann að hafa verið ræktað við Gulá um 7000 f.o.t.[56] Svín voru mikilvægasta húsdýrið í Kína.[57] Í Sahara í Afríku ræktaði fólk dúrru og aðrar jurtir á milli 8000 og 5000 f.o.t. og aðrar miðstöðvar landbúnaðar voru í hálendi Eþíópíu og regnskógum Vestur-Afríku.[58] Ræktun nytjaplantna hófst í Indusdal um 7000 f.o.t. og tekið var að rækta nautgripi um 6500 f.o.t.[59] Ræktun dvergkúrbíts í Suður-Ameríku byrjaði að minnsta kosti fyrir 8500 f.o.t. og örvarrót var ræktuð í Mið-Ameríku um 7800 f.o.t.[60] Kartöflur voru fyrst ræktaðar í Andesfjöllum þar sem lamadýr voru gerð að húsdýrum.[61][62] Sumir telja líklegt að konur hafi leikið lykilhlutverk í þróun nytjaplantna.[63][64]

 
Útskorin súla frá Göbekli Tepe.

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um orsakir landbúnaðarbyltingarinnar.[65] Sumar þeirra telja að fólksfjölgun hafi fengið fólk til að leita nýrra leiða til að afla matar. Samkvæmt öðrum kenningum var fólksfjölgun afleiðing fremur en orsök betri aðferða við öflun matvæla.[66] Aðrir orsakaþættir sem hafa verið nefndir eru loftslagsbreytingar, skortur á úrræðum, og hugmyndafræði.[67] Umbreytingin skapaði umframmagn matvæla sem hægt var að nota til að halda uppi fólki sem tók ekki beinan þátt í að afla þeirra.[68] Þar með skapaðist grundvöllur fyrir þéttari byggð og fyrstu borgir og ríki urðu til.[69]

Borgirnar urðu miðstöðvar fyrir viðskipti, iðnað og stjórnmál.[70] Þær mynduðu gagnkvæm tengsl við sveitirnar í kring, þaðan sem þær fengu matvæli, en gáfu í staðinn afurðir iðnframleiðslu og stjórnsýslu.[71][72] Elstu borgir sem fundist hafa eru Çatalhöyük og Jeríkó, sem gætu hafa orðið til á 10. eða 9. árþúsundinu f.o.t.[73][74][75] Hirðingjasamfélög sem flökkuðu með hjarðir húsdýra þróuðust á þurrkastöðum sem hentuðu illa til jarðræktar, eins og á Evrasíusteppunni og Sahelsvæðinu í Norður-Afríku.[76] Átök milli hirðingja og bænda með fasta búsetu hafa blossað upp með reglulegu millibili í mannkynssögunni.[77] Nýsteinaldarmenn dýrkuðu forfeður, helgistaði eða goðmögn sem líktust mönnum.[78] Hofbyggingarnar í Göbekli Tepe í Tyrklandi, frá 9500–8000 f.o.t.,[79] eru dæmi um trúarlega byggingarlist frá nýsteinöld.[80]

Málmvinnsla kom fyrst fram með gerð verkfæra og skrautmuna úr kopar um 6400 f.o.t.[81] Gull- og silfurvinnsla fylgdu í kjölfarið, aðallega sem efni í skartgripi.[82] Elstu minjar um gerð brons, sem er málmblanda kopars og tins, eru frá því um 4500 f.o.t.[83] Bronsvinnsla varð þó ekki algeng fyrr en á þriðja árþúsundinu f.o.t.[84]

Fornöld

breyta

Vöggur siðmenningar

breyta
 
Píramídarnir í Gísa, Egyptalandi.

Á bronsöld þróuðust borgir og flókin siðmenningarsamfélög.[85][86] Þau fyrstu risu í kringum stórfljót, fyrst í Mesópótamíu um 3300 f.o.t., milli ánna Tígris og Efrat.[87][88] Þar á eftir kom Egyptaland hið forna við Níl um 3200 f.o.t.[89][90] Caral-Supe-menningin í Perú kom fram um 3100 f.o.t.[91] Indusdalsmenningin í Pakistan og Norður-Indlandi um 2500 f.o.t.,[92][93][94] og Kína til forna við Jangtse og Gulá um 2200 f.o.t.[95]

Þessi samfélög áttu nokkur einkenni sameiginleg, eins og miðstýrt stjórnkerfi, flókið hagkerfi og félagslega lagskiptingu, og aðferðir til að halda skrár.[96] Í þessum samfélögum þróaðist ný tækni eins og hjólið,[97] stærðfræði,[98] bronsvinnsla,[99] seglskip,[100] leirkerahjólið,[99] ofin klæði,[101] gerð stórbygginga,[101] og ritmálið.[102] Fjölgyðistrú þróaðist í kringum hofbyggingar, þar sem prestar framkvæmdu fórnarathafnir.[103]

 
Áletrun með fleygrúnum frá Tyrklandi.

Skrift auðveldaði stjórnsýslu borga, tjáningu hugmynda, og varðveislu upplýsinga.[104] Hún gæti hafa þróast með sjálfstæðum hætti að minnsta kosti á fjórum stöðum: í Mesópótamíu um 3300 f.o.t.,[105] Egyptalandi um 3250 f.o.t.,[106][107] Kína um 1200 f.o.t.,[108] og Mið-Ameríku um 650 f.o.t.[109] Til eru eldri ummerki um frumskrift, en elsta þekkta ritkerfið eru fleygrúnir frá Mesópótamíu. Þær þróuðust út frá myndletri sem smám saman varð óhlutbundnara.[110][111] Önnur útbreidd ritkerfi voru helgirúnir Egypta og indusskrift.[112] Í Kína var fyrst tekið að nota ritmál á tímum Shang-veldisins, 1766-1045 f.o.t.[113][114]

Árnar og höfin auðvelduðu flutninga, sem ýtti undir viðskipti með vörur, hugmyndir og nýja tækni.[115][116] Ný hernaðartækni sem kom fram á bronsöld, eins og riddaralið á tömdum hestum, og stríðsvagnar, gerðu herjum kleift að færa sig milli staða hraðar en áður.[117][118] Verslun varð sífellt mikilvægari og borgarsamfélög þróuðu iðnað sem reiddi sig á hráefni frá fjarlægum löndum. Til varð net verslunarleiða og hnattvæðing fornaldar hófst.[119] Sem dæmi, þá notaðist bronsframleiðsla í Suðvestur-Asíu við innflutt tin sem gat borist þangað alla leið frá Englandi.[120]

Vexti borga fylgdi oft stofnun ríkja og stórvelda.[121] Egyptaland skiptist upphaflega í Efra- og Neðra-Egyptaland, en löndin tvö voru sameinuð í eitt ríki í öllum Nílardalnum um 3100 f.o.t.[122] Um 2600 f.o.t. voru borgirnar Harappa og Mohenjo-daro reistar í árdal Indusfljótsins.[123][124] Saga Mesópótamíu einkenndist af stríðum milli borgríkja, sem skiptust á að fara með forræði yfir landinu.[125] Frá 25. til 21. aldar f.o.t. risu stórveldi Akkadíu og Súmer á þessu svæði.[126] Mínóíska menningin kom fram á eynni Krít um 2000 f.o.t. og er sögð vera fyrsta siðmenningarsamfélagið í Evrópu.[127]

Næstu árþúsundin risu samfélög af þessu tagi um allan heim.[128] Um 1600 f.o.t. hóf Mýkenumenningin að þróast á Grikklandi.[129] Hún blómstraði fram að Bronsaldarhruninu sem reið yfir mörg samfélög við Miðjarðarhaf milli 1300 og 1000 f.o.t.[130] Undirstöður indverskrar menningar (meðal annars hindúasiður) voru lagðar á Vedatímabilinu, 1750-600 f.o.t.[131] Frá um 550 f.o.t. urðu til mörg sjálfstæð konungsríki og lýðveldi á Indlandsskaga sem eru þekkt sem Mahajanapada-ríkin.[132]

 
Risahöfuð frá tímum Olmeka.

Þjóðir sem töluðu bantúmál hófu að breiðast út um miðja og sunnanverða Afríku frá 3000 f.o.t.[133] Þessi útþensla og samskipti þeirra við aðrar þjóðir urðu til þess að breiða út blandaðan búskap og járnvinnslu í Afríku sunnan Sahara, og leiddu til þróunar samfélaga eins og Nok-menningarinnar þar sem Nígería er nú um 500 f.o.t.[134] Lapita-menningin varð til á Bismarck-eyjum nærri Nýju-Gíneu um 1500 f.o.t. og nam land á mörgum fjarlægum eyjum Eyjaálfu, allt að Samóa, fyrir 700 f.o.t.[135]

Í Ameríku kom Norte Chico-menningin fram í Perú um 3100 f.o.t.[91] sem reisti stórbyggingar í borginni Caral, frá 2627-1977 f.o.t.[136][137] Chavín-menningin er stundum talin vera fyrsta Andesríkið,[138] með miðstöð við hofbyggingarnar í Chavín de Huantar.[139] Önnur mikilvæg ríki sem urðu til á þessum slóðum eru Moche-menningin sem lýsti athöfnum daglegs lífs með leirmyndum, og Nazca-menningin, sem gerði risavaxnar dýramyndir á yfirborð Nazca-eyðimerkurinnar (Nazca-línurnar).[140] Um 1200 f.o.t. kom ríki Olmeka fram í Mið-Ameríku.[141] Það er þekkt fyrir stór steinhöfuð sem Olmekar hjuggu út í basalt.[142] Olmekar þróuðu líka fyrsta miðameríska dagatalið sem seinni tíma menningarríki, eins og Majar og Astekar, tóku upp.[143] Í Norður-Ameríku þróuðust samfélög veiðimanna og safnara þar sem ríkti meiri jöfnuður. Þessi samfélög ræktuðu líka nytjajurtir eins og sólblóm í smáum stíl.[144] Þau reistu stóra moldarhauga, eins og Watson Brake (4000 f.o.t.) og Poverty Point (3600 f.o.t.) í Louisiana.[145]

Öxulöld

breyta
 
Standandi Búdda frá Gandhara, 2. öld.

Tímabilið frá 800 til 200 f.o.t. var nefnt öxulöld af þýska heimspekingnum Karl Jaspers[146] með vísun í það hversu margar mikilvægar heimspekilegar og trúarlegar hugmyndir komu fram á þeim tíma, á ólíkum stöðum að mestu óháð hver annarri.[147] Konfúsíusismi í Kína,[148] búddatrú og jainismi á Indlandi,[149] og eingyðistrú gyðinga, hófust allar á þessu tímabili.[150] Sóróismi hófst fyrr í Persíu (hugsanlega um 1000 f.o.t.), en varð að formlegum trúarbrögðum í ríki Akkamenída á öxulöld.[151] Ný heimspeki kom fram á Grikklandi á 5. öld f.o.t. með hugsuðum á borð við Platon og Aristóteles.[152] Fyrstu Ólympíuleikarnir voru haldnir árið 776 f.o.t. og marka upphaf klassískrar fornaldar.[153] Árið 508 f.o.t. var lýðræðisleg stjórnskipun tekin upp í fyrsta sinn, í Aþenu.[154]

Þær hugmyndir sem komu fram á öxulöld mótuðu hugmynda- og trúarbragðasögu heimsins. Konfúsíusismi var einn af þremur skólum sem urðu ríkjandi í kínverskri hugmyndasögu, ásamt daóisma og löghyggju.[155] Konfúsíska hefðin leitaðist við að þróa stjórnvisku byggða á hefðum fremur en ströngum lögum.[156] Konfúsíusismi breiddist síðar út til Kóreu og Japans.[157] Búddatrú náði til Kína á 1. öld[158] og breiddist hratt út. Á 7. öld voru 30.000 búddahof í Norður-Kína.[159] Búddatrú varð ríkjandi trúarbrögð í stórum hluta Suður-, Suðaustur- og Austur-Asíu.[160] Gríska heimspekin[161] breiddist út um Miðjarðarhafið, og náði allt til Indlands, frá 4. öld f.o.t., eftir landvinninga Alexanders mikla frá Makedóníu.[162] Bæði kristni og íslam þróuðust síðar út frá gyðingdómi.[163]

Staðbundin stórveldi

breyta

Á þúsund ára tímabili milli 500 f.o.t. og 500 e.o.t. risu nokkur ríki sem náðu meiri stærð en áður þekktist. Þjálfaðir atvinnuhermenn, hugmyndafræði og þróuð stjórnsýsla gerðu keisurum kleift að stýra stórum ríkjum þar sem fjöldi íbúa gat náð tugum milljóna.[164] Á sama tíma þróuðust langar verslunarleiðir, sérstaklega siglingaleiðir í Miðjarðarhafi, Indlandshafi og Silkivegurinn um Asíu.[165]

 
Lágmynd af persneskum og medískum hermönnum í Persepólis, Akkamenídaríkinu, á 5. öld f.o.t.

Medar áttu þátt í falli Assýríu ásamt Skýþum og Babýlónum.[166] Höfuðborg Assýríu, Níneve, var rænd af herjum Meda árið 612 f.o.t.[167] Í kjölfar Medaveldisins fylgdu nokkur írönsk ríki, þar á meðal ríki Akkamenída (550-330 f.o.t.),[168] Parþaveldið (247 f.o.t.-224 e.o.t.),[169][170] og ríki Sassanída (224–651).[171]

Tvö stórveldi risu þar sem nú er Grikkland. Seint á 5. öld f.o.t. stöðvuðu nokkur grísk borgríki framrás Akkamenída inn í Evrópu í Persastríðunum. Gullöld Aþenu fylgdi í kjölfarið þar sem lagðar voru margar af undirstöðum vestrænnar siðmenningar. Meðal þess var gríska leikhúsið.[172][173][174] Stríðin leiddu til stofnunar Delosbandalagsins árið 477 f.o.t.[175] Aþena varð stórveldi 454-404 f.o.t. en beið ósigur fyrir bandalagi annarra ríkja undir forystu Spörtu í Pelópsskagastríðinu.[176] Filippus Makedóníukonungur sameinaði grísku borgríkin í Kórintubandalaginu og sonur hans, Alexander mikli (356-323 f.o.t.), stofnaði heimsveldi sem náði allt til Indlands.[177][178] Veldi Alexanders klofnaði í nokkur ríki undir stjórn díadóka eftir lát hans. Í þessum ríkjum breiddist hellensk menning út.[179] Hellenska tímabilið stóð frá 323 f.o.t. til ársins 31 f.o.t. þegar Egyptaland Ptólemaja féll í hendur Rómverja.[180]

Rómverska lýðveldið var stofnað í Evrópu á 6. öld f.o.t.[181] og hóf útþenslu sína á 3. öld f.o.t.[182] Lýðveldið breyttist í rómverska keisaradæmið undir stjórn Ágústusar keisara. Á þeim tíma höfðu Rómverjar náð yfirráðum yfir nær öllu Miðjarðarhafi.[183] Rómaveldi hélt útþenslu sinni áfram og náði hátindi sínum í valdatíð Trajanusar (53-117) þegar ríkið náði frá Englandi til Mesópótamíu.[184] Á eftir fylgdu tvær aldir sem kenndar eru við Rómarfrið þar sem þær einkenndust af friði, velmegun og stöðugleika í stórum hluta Evrópu.[185] Kristni varð lögleg í valdatíð Konstantínusar 1. árið 313, eftir þriggja alda ofsóknir gegn kristnum mönnum í Rómaveldi. Árið 380 varð kristni einu löglegu trúarbrögðin í keisaradæminu. Þeódósíus 1. bannaði heiðin trúarbrögð 391-392.[186]

Chandragupta Maurya stofnaði Maurya-veldið í Suður-Asíu (320–185 f.o.t.) sem blómstraði undir stjórn Ashoka mikla.[187][188] Frá 4. öld til 6. aldar var Guptaveldið við lýði á tíma sem nefndur hefur verið gullöld Indlands til forna.[189] Á þeim tíma ríkti stöðugleiki þar sem menning hindúa og búddatrúarmanna blómstraði. Á sama tíma urðu framfarir í vísindum og stærðfræði.[190] Þrjú Dravídaríki komu fram á Suður-Indlandi: Chera-veldið, Chola-veldið og Pandya-veldið.[191]

 
Súlur Ashoka reistar af keisara Maurya-veldisins á Indlandi.

Í Kína batt Qin Shi Huang enda á öld hinna stríðandi ríkja með því að sameina Kína í Qin-veldið (221-206 f.o.t.).[192][193] Qin Shi Huang aðhylltist löghyggjuskólann og kom á áhrifaríku stjórnkerfi með hæfum embættismönnum í stað aðalsins.[194] Harka Qin-veldisins leiddi til uppreisna og falls keisaradæmisins.[195] Á eftir því kom Hanveldið (202 f.o.t.-220 e.o.t.) sem sameinaði löghyggjuna og konfúsíusisma.[196][197] Hanveldið var sambærilegt að stærð og áhrifum við Rómaveldi á hinum enda Silkivegarins.[198] Efnahagsuppgangur leiddi til landvinninga í Mongólíu, Mið-Asíu, Mansjúríu, Kóreu og Norður-Víetnam.[199] Líkt og hjá öðrum stórveldum fornaldar urðu miklar framfarir í stjórnsýslu, menntun, vísindum og tækni í Kína Hanveldisins.[200][201] Á þeim tíma tók fólk að nota leiðarsteina (forvera áttavitans) og pappír (tvær af kínversku uppfinningunum fjórum).[202][203]

 
Axúmóbeliskan í Eþíópíu.

Konungsríkið Kús blómstraði í Norðaustur-Afríku vegna viðskipta við Egypta og þjóðir sunnan Sahara.[204] Það ríkti yfir Egyptalandi sem tuttugasta og fimmta konungsættin frá 712 til 650 f.o.t. og hélt svo velli sem verslunarveldi í kringum borgina Meróe fram á fjórðu öld.[205] Á 1. öld var konungsríkið Aksúm stofnað þar sem Eþíópía er nú og myndaði stórt verslunarveldi við Rauðahaf sem náði yfir bæði Suður-Arabíu og Kús.[206] Konungar Aksúm slógu peninga og reistu gríðarstóra einsteinunga yfir grafir keisara.[207]

Í Ameríku urðu líka til staðbundin stórveldi allt frá 2500 f.o.t.[208] Í Mið-Ameríku þróuðust stór þjóðfélög eins og ríki Sapóteka (700 f.o.t.-1521 e.o.t.)[209][210] og Maja, sem náði hátindi sínum á klassíska tímabilinu (um 250-900),[211] og hélt velli út allt síðklassíska tímabilið.[212] Borgríki Maja urðu smám saman fleiri og stærri og menning þeirra breiddist út um Júkatanskaga og til nærliggjandi svæða.[213] Majar þróuðu ritmál og notuðust við núll í útreikningum.[214] Vestan við Maja, í miðhluta Mexíkó, blómstraði stórborgin Teotihuacan sem stýrði verslun með hrafntinnu.[215] Veldi hennar var mest um 450 e.o.t. þegar íbúar voru milli 125 og 150.000 og borgin því ein sú stærsta í heimi.[216]

Þróun tækni í fornöld gekk í bylgjum.[217] Oft komu tímabil þar sem tækniþróun var mjög hröð, eins og grísk-rómverska tímabilið við Miðjarðarhafið.[218] Talið er að grísk vísindi, tækni og stærðfræði hafi náð hátindi sínum á helleníska tímabilinu. Frá þeim tíma eru tæki eins og Antikyþera-sólkerfislíkanið.[219] Á milli komu tímabil hnignunar, eins og þegar Rómaveldi tók að hnigna.[220] Tvær mikilvægustu tækninýjungar þessa tíma voru pappír (Kína á 1. og 2. öld)[221] og ístaðið (Indland á 2. öld f.o.t. og Mið-Asía á 1. öld).[222] Báðar þessar nýjungar breiddust hratt um heiminn. Í Kína tók fólk að gera silki og Kínverjar réðust í stórar byggingaframkvæmdir eins og Kínamúrinn og Kínaskurðinn.[223] Rómverjar voru líka mikilhæfir steinsmiðir. Þeir fundu upp steinsteypu, fullkomnuðu aðferðir við gerð boga og reistu kerfi áveita til að flytja vatn til borga sinna.[224][225]

Í flestum fornaldarsamfélögum var þrælahald stundað.[226] Þetta var sérstaklega áberandi í Aþenu og Rómaveldi þar sem þrælar voru stórt hlutfall íbúa og undirstaða efnahagslífsins.[227] Algengt var að samfélagsskipanin byggðist á feðraveldi þar sem karlar höfðu meiri völd en konur.[228]

Hnignun, fall og endurreisn

breyta

Algeng vandamál sem stórveldi fornaldar stóðu frammi fyrir voru viðhald stórra herja og miðlægrar stjórnsýslu.[229] Í Róm og Kína Hanveldisins tók ríkinu að hnigna og árásir barbara við landamærin flýttu fyrir upplausn innanlands.[229] Borgarastyrjöld braust út í Hanveldinu árið 220 og leiddi til þriggja ríkja tímabilsins, meðan Rómaveldi skiptist um sama leyti í þriðju aldar kreppunni.[230] Evrasískir hirðingjar á hestum ríktu yfir stórum hlutum evrasíska meginlandsins.[231] Ístaðið og bogaskyttur á hestbaki gerðu þeim kleift að ógna samfélögum sem byggðust á fastri búsetu.[232]

Á 4. öld klofnaði Rómaveldi til frambúðar í vestur- og austurhluta undir sitt hvorum keisaranum.[233] Vestrómverska keisaradæmið féll í hendur Germana undir forystu Ódóakers árið 476.[233] Austrómverska keisaradæmið, þekkt sem Býsantíum, stóð miklu lengur.[234] Keisaraveldin í Kína risu og hnigu með reglulegu millibili, en ólíkt stórveldunum við Miðjarðarhafið, var landið alltaf sameinað á ný.[235] Eftir fall Austur-Hanveldisins og hrun ríkjanna þriggja, gerðu hirðingjar innrás úr norðri og hröktu marga kínverska þjóðflokka á flótta til suðurs.[236]

Síðklassíska tímabilið

breyta
 
Ægisif í Istanbúl er tákn fyrir menningu Austrómverska ríkisins.

Frá því seint á 20. öld hefur verið vaxandi tilhneiging til að notast við hugtök á borð við „síðklassíska tímabilið“ yfir tímabilið frá um 500 til um 1500, til að forðast hugtakið „miðaldir“, sem tengist fyrst og fremst sögu Evrópu.[237] Áður hefur síðfornöld verið notað um tímabil í sögu Evrópu sem nær frá um 250 til 600.[238][239] Upphaf tímabilsins markast af hruni nokkurra stórvelda fornaldar, eins og Hanveldisins í Kína (220), Vestrómverska keisaradæmisins í Evrópu (476), Guptaveldisins á Indlandi (543) og Sassanída í Íran (651).

Frá 10. öld til 13. aldar stóð hlýskeið miðalda á norðurhveli jarðar, sem leiddi til fólksfjölgunar í Evrópu og Asíu.[240] Litla ísöldin fylgdi í kjölfarið og svarti dauði sem olli mikilli fólksfækkun. Á þessum tíma var byssupúður fundið upp í Kína og prentun breiddist út í Asíu.[241][242]

Síðklassíska tímabilið nær yfir landvinninga múslima, gullöld íslam og upphaf og útbreiðslu þrælaverslunar Araba. Á eftir fylgdu innrásir Mongóla og stofnun Tyrkjaveldis í Vestur-Asíu.[243] Þetta er tímabil indversku miðríkjanna fyrir stofnun íslömsku ríkjanna í Suður-Asíu.[244]

Í Vestur-Afríku risu Malíveldi og Songhaíveldið og auðguðust á Saharaversluninni.[245] Arabar stofnuðu borgir meðfram strönd Austur-Afríku þar sem verslun blómstraði með gull, perlur, krydd og þræla. Svahílí þróaðist vegna tengsla Afríku við verslun á Indlandshafi.[246]

Í Kína komu á þessum tíma upp Suiveldið, Tangveldið, Songveldið, Júanveldið og Mingveldið.[247] Verslunarleiðir um Indlandshaf og Silkivegurinn um Góbíeyðimörkina viðhéldu tengslum Austur- og Suðaustur-Asíu við Evrópu.[217] Á sama tíma náðu menningarríki í Norður-Ameríku, eins og Mississippimenningin,[248] Astekar,[249] Majar[250] og Inkar, hátindi sínum.[251]

Vestur- og Mið-Asía

breyta
 
Ajloun-kastali, Jórdaníu.

Fyrir útbreiðslu íslam á 7. öld ríktu Austrómverska keisaradæmið og Sassanídar yfir Mið-Austurlöndum og tókust þar á um yfirráð yfir umdeildum landsvæðum.[252] Átökin voru jafnframt menningarleg, þar sem kristin menning Býsantíum, tókst á við sóróíska menningu Persa.[253] Með uppgangi íslam kom nýr samkeppnisaðili til sögunnar, sem brátt varð voldugri en bæði keisaraveldin.[254]

Múhameð, stofnandi íslam, hóf landvinninga múslima á 7. öld.[255] Hann stofnaði nýtt sameinað ríki á Arabíuskaga sem stækkaði hratt undir stjórn Rasídúna og Úmajada. Þessir landvinningar náðu hámarki þegar yfirráð múslima náðu yfir þrjár heimsálfur (Asíu, Afríku og Evrópu) árið 750.[256] Á tímum Abbasída stóð gullöld íslam sem einkenndist af menntun, vísindum og tækniframförum, þar sem íslömsk heimspeki, íslömsk myndlist og íslamskar bókmenntir blómstruðu.[257][258] Íslamskir menntamenn varðveittu og þróuðu áfram þekkingu og tækni Grikkja og Persa,[259] lærðu pappírsframleiðslu af Kínverjum[260] og tóku upp tugakerfið frá Indlandi.[261] Á sama tíma gerðu þeir nýjar uppgötvanir á mörgum sviðum, eins og með algebru Al-Khwarizmis og heimspeki Avicenna.[262] Íslömsk siðmenning breiddist út með landvinningum og verslun.[263] Kaupmenn áttu þátt í að breiða út íslam í Kína, Indlandi, Suðaustur-Asíu og Afríku.[264]

Yfirráð Araba í Mið-Austurlöndum tóku enda um miðja 11. öld þegar Seljúkar, tyrkísk þjóð sem fluttist suður á bóginn frá Mið-Asíu, kom til skjalanna.[265] Vegna landvinninga Seljúka í Litlu-Asíu og Botnalöndum hófu Evrópubúar krossferðir gegn þeim. Krossferðirnar voru nokkrar skipulegar herfarir gerðar í þeim tilgangi að endurheimta landsvæði úr höndum múslima, sérstaklega Landið helga.[266] Á endanum mistókst ætlunarverkið, en krossferðirnar veiktu Austrómverska ríkið verulega, sérstaklega rán Konstantínópel árið 1204.[267] Snemma á 13. öld gerði nýr innrásarher, Mongólar, árásir á Mið-Austurlönd. Árásirnar bundu enda á gullöld íslam, en að lokum tóku Tyrkir við og stofnuðu Tyrkjaveldi þar sem Tyrkland er nú, um 1299.[268][269]

 
Stórmoskan í Kairouan, Túnis, stofnuð árið 670.

Steppuhirðingjar frá Mið-Asíu ógnuðu enn kyrrsetusamfélögum á síðklassíska tímabilinu, en stóðu líka frammi fyrir innrásum Araba og Kínverja.[270] Á tímum Sui-veldisins (581–618) stækkaði Kína og náði inn í Mið-Asíu.[271] Kínverjar mættu þar tyrkískum þjóðum sem voru þá orðnar ríkjandi í þeim heimshluta.[272][273] Í byrjun einkenndust samskiptin af samvinnu, en árið 630 hóf Tangveldið hernað gegn Tyrkjum með því að leggja undir sig hluta Ordoseyðimerkurinnar.[274] Á 8. öld barst íslam til svæðisins og varð brátt eina trú flestra íbúa, þótt búddatrú héldi enn stöðu sinni í austri.[275] Frá 9. öld til 13. aldar skiptist Mið-Asía milli nokkurra öflugra ríkja eins og Samanída,[276] Seljúka,[277] og Khwarazm-veldisins. Öll þessi ríki féllu undir stjórn Mongóla á 13. öld.[278] Árið 1370 náði tyrkísk-mongólski herforinginn Tímúr að leggja svæðið undir sig og stofna Tímúrveldið.[279] Þetta heimsveldi hrundi skömmu eftir lát Tímúrs,[280] en afkomendur hans héldu völdum á litlu kjarnasvæði í Mið-Asíu og Íran.[281] Þar átti Tímúrendurreisnin í myndlist og byggingarlist sér stað.[282]

Evrópa

breyta
 
Gotneska dómkirkjan Notre-Dame de Paris í Frakklandi.

Ármiðaldir í Evrópu einkenndust af fólksfækkun, dreifbýlisvæðingu og árásum barbara, sem allt hófst í síðfornöld.[283] Barbarar stofnuðu ný ríki þar sem Vestrómverska ríkið stóð áður.[284] Þrátt fyrir miklar samfélagslegar og stjórnarfarslegar breytingar, nýttu flest nýju konungsríkin sér stofnanir frá tímum Rómaveldis.[285] Kristni breiddist út um Vestur-Evrópu, og klausturlífi voru stofnuð.[286] Allt frá því á 4. öld hefur kristni leikið stórt hlutverk við að móta menningu, gildi og stofnanir vestrænnar siðmenningar.[287] Á 8. öld stofnuðu Frankar Karlungaveldið sem náði yfir megnið af Vestur-Evrópu.[288] Karlungaveldið stóð til 9. aldar þegar nýir innrásarherir Víkinga, Magýara og Araba, tóku að herja á það.[289] Á Karlungatímabilinu þróaðist nótnaskrift (neume) í kirkjum og varð grundvöllur nútímanótnaskriftar.[290] Garðaríki stækkaði frá höfuðstaðnum Kænugarði og varð stærsta Evrópuríkið seint á 10. öld. Árið 988 tók Valdimar gamli upp kristinn rétttrúnað sem ríkistrú.[291][292]

 
Lýstur upphafsstafur úr frönsku handriti frá 13. öld sem sýnir þrjár stéttir miðalda: klerka, riddara og bændur.

Hámiðaldir hófust eftir árþúsundaskiptin 1000. Á þeim tíma jókst íbúafjöldi Evrópu þar sem framfarir í samgöngutækni og landbúnaðarframleiðslu leiddu til aukinnar verslunar og uppskeru.[293] Komið var á lénskerfi sem hafði mikil áhrif á samfélagið. Landeigendur reistu herragarða, en bændur urðu leiguliðar sem bjuggu í þorpum og greiddu leigu og inntu af hendi vinnu fyrir landeigendur. Riddarar og annar lágaðall voru bundnir hærra settum aðalsmönnum með lénsskyldu þar sem þeir inntu af hendi herskyldu fyrir réttinn til að innheimta leigu af tilteknu landi.[294] Konungsríki urðu stærri og miðstýring jókst á ný, eftir valddreifingu sem fylgdi upplausn Karlungaveldisins.[295] Árið 1054 átti kirkjusundrungin sér stað, þar sem kristin kirkja klofnaði í vestræna kaþólska kirkju og austræna rétttrúnaðarkirkju, sem jafnframt fól í sér menningarlegan klofning í Vestur- og Austur-Evrópu.[296] Krossferðirnar, herfarir kristinna manna til að vinna Landið helga af múslimum, leiddu til stofnunar nokkurra Krossfararíkja í Mið-Austurlöndum.[297] Ítalskir kaupmenn fluttu inn þræla til að starfa við heimilisstörf eða við sykurvinnslu.[298] Skólaspeki var ríkjandi stefna í heimspeki og háskólar voru stofnaðir. Bygging dómkirkja í gotneskum stíl er eitt af því sem helst einkennir byggingarlist þessa tímabils í Evrópu.[299] Á miðöldum hófst þéttbýlisvæðing í Norður- og Vestur-Evrópu, sem hélt áfram til upphafs árnýaldar á 16. öld.[300]

Innrásir Mongóla í Evrópu hófust árið 1236. Mongólar lögðu Garðaríki undir sig og réðust stuttlega inn í Pólland og Ungverjaland.[301] Stórhertogadæmið Litáen gerðist bandamaður Mongóla, en hélt sjálfstæði sínu og myndaði konungssamband við Pólland seint á 14. öld.[302] Síðmiðaldir einkenndust af erfiðleikum og áföllum.[303] Farsóttir og stríð urðu til þess að íbúafjöldi Vestur-Evrópu hrundi.[304] Talið er að svartidauði einn og sér hafi leitt til dauða 75 til 200 milljóna á aðeins þremur árum, frá 1347 til 1350.[305][306] Svartidauði var ein af mannskæðustu farsóttum mannkynssögunnar. Hann hófst í Asíu og náði Miðjarðarhafi og Vestur-Evrópu seint á 5. áratug 14. aldar.[307] Þar olli hann dauða tugmilljóna á sex árum. Talið er að fjórðungur til þriðjungur íbúafjöldans hafi dáið úr farsóttinni.[308]

Afríka

breyta

Á 7. öld hvarf Austrómverska veldið frá Norður-Afríku og Berbaríkin féllu í hendur múslima.[309] Frá 10. öld féllu lönd Araba í Afríku undir kalífadæmi Fatímída sem ríktu frá Egyptalandi. Á 12. öld tóku Ajúbídar við og enn síðar Mamlúkaveldið á 13. öld.[310] Í Magreb og Vestur-Sahara ríktu Almoravídar frá 11. öld[311] þar til Almóhadar lögðu svæðið undir sig á 12. öld.[312] Þegar veldi Almóhada hrundi tóku Marínídar við í Marokkó, konungsríkið Tlemcen í Alsír og Hafsídar í Túnis.[313] Í Núbíu tóku kristnu ríkin Makúría, Alodía og Nobatía við af fornaldarríkinu Kús. Á 7. öld lagði Makúría Nobatíu undir sig og varð ríkjandi á svæðinu. Ríkið stóð af sér innrás múslima.[314] Síðar tók ríkinu að hnigna og við tók borgarastríð og fólksflutningar Araba til Súdan. Á 15. öld hafði ríkið leyst upp, en Soldánsdæmið Funj tók við.[315]

 
Ein af ellefu klettakirkjum sem gerðar voru í tíð Zagwe-ættar í Eþíópíu.

Við Horn Afríku breiddist íslam út meðal Sómala, meðan konungsríkinu Aksúm hnignaði frá 7. öld eftir að múslimar lögðu verslun á Rauðahafi undir sig. Aksúm féll á 10. öld.[316] Á 12. öld komst Zagwe-ætt til valda og tókst á við Soldánsdæmið Shewa og Konungsríkið Damot.[317] Á 13. öld varpaði Salómonsætt Zagwe-ætt af stóli og Shewa vék fyrir Walashma-ætt og Soldánsdæminu Ifat.[318] Eþíópía sigraði Ifat og lagði múslimaríkin undir sig.[319] Soldánsdæmið Ajuran kom upp á austurströnd Horns Afríku og lagði undir sig verslun á Indlandshafi.[320] Soldánsdæmið Adal tók við af Ifat og lagði undir sig mikið af löndum múslima.[321]

Í Vestur-Afríku myndaðist Ganaveldið á 3. öld, en frá 7. öld ríkti Gaóveldið austan við það.[322][323] Eftir að Almóravídar lögðu undir sig höfuðborgina Aoudaghost snerist Gana til íslam á 11. öld.[324] Innrásir Almóravída og loftslagsbreytingar leiddu til þess að Sosso-veldið lagði Ganaveldið undir sig á 13. öld.[325] Skömmu síðar lagði Malíveldi Sosso undir sig og auðgaðist á Saharaversluninni.[326] Mossi-ríkin voru stofnuð sunnan við það.[327] Í austri ríkti Kanem-Bornúveldið frá 6. öld og teygði áhrif sín yfir Hausa-ríkin.[328][329] Á 15. öld hrundi Malíveldið og Songhaíveldið með höfuðborg í Gao varð ráðandi á svæðinu.[330]

 
Bronsmynd frá Benín í Nígeríu.

Mörg konungsríki og keisaradæmi blómstruðu við strönd Vestur-Afríku, eins og ríki Jórúba, Ife-veldið og Oyo-veldið,[331] ríki Igbóa Konungsríkið Nri,[332] ríki Edóa Benínveldið (þekkt fyrir fagrar bronsmyndir),[333] ríki Dagomba konungsríkið Dagbon,[334] og ríki Akana Bonoman.[335] Þessi ríki komust í samband við Portúgala á 15. öld sem markar upphaf þríhyrningsverslunarinnar með þræla á Atlantshafi.

Í árdal Kongófljóts voru þrjú stór ríkjabandalög ráðandi á 13. öld: Sjö ríki Kongo dia Nlaza, Mpemba og eitt undir forræði Vungu.[336] Á 14. öld varð Konungsríkið Kongó ríkjandi á svæðinu.[337] Austan við það var Lubaveldið stofnað í Upembalægðinni á 15. öld.[338] Norðan við Stóru vötnin kom Kitaraveldið upp á 11. öld. Það er þekkt fyrir algjöran skort á ritheimildum. Það hrundi á 15. öld eftir að Lúóar hófu að flytjast til svæðisins.[339]

Á Svahílíströndinni blómstruðu borgríki sem lifðu af Indlandshafsversluninni. Þau tóku smám saman upp íslamstrú og þar kom Soldánsdæmið Kilwa upp á 10. öld.[340][341] Ástrónesar settust að á Madagaskar frá 5. öld til 7. aldar og byggðu samfélög sín á hugmyndinni um hasina.[342] Í árdal Sambesífljóts var Konungsríkið Mapungubwe stofnað á 11. öld. Konungsríkið Simbabve tók við af því á 13. öld og síðan Mútapaveldið á 15. öld.[343]

Suður-Asía

breyta
 
Chennakeshava-hofið, Belur í Karnataka.

Eftir fall Guptaveldisins árið 550, skiptist Norður-Indland milli nokkurra minni ríkja.[344] Fyrstu innrásir múslima á Indlandsskaga enduðu með því að Umayya-kalífadæmið lagði undir sig mest af því svæði sem í dag er Pakistan.[256] Framsókn Araba stöðvaðist þar, en íslam breiddist út með arabískum kaupmönnum meðfram vesturströnd Indlands.[246] Á 9. öld hófust átök um stjórn Norður-Indlands milli Gurjara-Pratihara-ættar, Palaveldisins og Rashtrakuta-ættar.[345]

Síðklassísk konungsveldi á Suður-Indlandi töldu meðal annars Chalukya-ætt, Hoysala-veldið og Chola-veldið.[346] Bókmenntir, byggingarlist, höggmyndalist og málaralist blómstruðu við hirðir konunganna.[347] Meðal annarra ríkja sem komu fram á Suður-Indlandi á þessum tíma voru Bahmani-soldánsdæmið og Vijayanagara-veldið.[348]

Eyjaálfa

breyta

Afkomendur Lapítamenningarinnar, Pólýnesar, námu land á stórum hluta Fjarlægu Eyjaálfu frá um 1000.[349] Þeir sigldu á tvíbytnum sem voru allt að 37 metrar á lengd og báru allt að 50 manns auk búsmala.[350] Þeir settust að á hundruðum eyja, eins og Markgreifaeyjum, Hawaii, Páskaeyju og Nýja-Sjálandi.[351]

Tu'i Tonga-veldið var stofnað á 10. öld og hóf útþenslu eftir 1250.[352] Tongversk menning, tungumál og yfirráð breiddust út um austurhluta Melanesíu, Míkrónesíu og miðhluta Pólýnesíu á þessum tíma.[353] Hún hafði áhrif á 'Uvea, Rotuma, Fútúna, Samóaeyjar, og Niue, auk einstakra eyja og hluta af Míkrónesíu, Vanúatú og Nýju-Kaledóníu.[354] Vísbendingar eru um verslun milli Makassara og frumbyggja í Norður-Ástralíu fyrir komu Evrópubúa.[355] Samfélög frumbyggja Ástralíu byggðust á áunnum stöðum, meðan samfélög Pólýnesa voru höfðingjadæmi sem gengu í arf.[356]

Austur-Asía

breyta

Eftir sundrungartímabil var Kína sameinað á ný undir Sui-veldinu árið 589.[357] Þegar Tangveldið (618–907) tók við hófst gullöld sem einkenndist af pólitískum stöðugleika og efnahagsuppgangi, þar sem bókmenntir og listir blómstruðu. Frá þeim tíma eru Tangljóðin eftir Li Bai og Du Fu.[358][359] Sui-veldið og Tangveldið komu á keisaralegum prófum þar sem stjórnunarstöður voru veittar mönnum sem stóðust erfitt próf í konfúsískri hugsun og klassískum kínverskum bókmenntum.[360][361] Kína átti í samkeppni við Tíbetveldið (618-842) um yfirráð yfir svæðum í Innri-Asíu.[362] Tangveldið klofnaði að lokum og við tók tími fimm konungsætta og tíu konungsríkja sem stóð í hálfa öld þar til Songveldið sameinaði stóran hluta landsins á ný.[363] Þrýstingur frá hirðingjum í norðri fór vaxandi.[364] Um 1127 var Norður-Kína undir stjórn Jurchena eftir Jin-Song-stríðin og Mongólar lögðu síðan allt Kína undir sig árið 1279.[365] Eftir um eina öld af yfirráðum Mongóla tóku Kínverjar aftur völdin þegar Mingveldið var stofnað árið 1368.[364]

 
Orrusta í innrás Mongóla í Japan árið 1281.

Keisaraveldi Japan var komið á á 3. öld og miðstýrt ríki þróaðist á Yamato-tímabilinu (um 300-710).[366] Búddatrú barst til landsins þar sem áherslan var á að taka upp kínverska menningu og konfúsíusisma.[367] Á Naratímabilinu (710-794) komu fram sérstakar japanskar bókmenntir auk myndlistar og byggingarlistar sem kennd eru við Nara.[368][369] Á Heian-tímabilinu (794–1185) náði keisaraveldið hátindi sínum, en í kjölfarið risu aðalsættir sem héldu einkaheri og samúræja.[370] Á Heian-tímabilinu skrifaði Murasaki Shikibu Sögu Genji sem er stundum talin fyrsta skáldsaga heims.[371] Frá 1185 til 1868 ríktu öflugir héraðshöfðingjar (daimyo) og herstjórar (sjógun) eins og Ashikaga-veldið og Tokugawa-veldið.[372][373] Á þessum tíma voru raunveruleg völd keisarans nær engin.[374] Kaupmenn efldust á sama tíma.[375] Á þessum tíma kom fram listastefnan ukiyo-e með prentmyndum úr viði sem upphaflega voru af frægum hirðmeyjum.[376]

Saga Kóreu á síðklassíska tímabilinu einkennist af endalokum þriggja konungsríkja Kóreu, þar sem ríkin Goguryeo, Baekje og Silla börðust um yfirráð.[377] Þessu tímabili lauk þegar Silla lagði Baekje undir sig árið 660 og sigraði Goguryeo árið 668.[378] Þetta markar upphaf tímabils norðurríkja og suðurríkja, með sameinað Silla í suðri og Balhae (arftaka Goguryeo) í norðri.[379] Árið 892 hófst tími síðari konungsríkjanna þriggja þar sem Goryeo kom fram sem öflugasta ríkið og sameinaði allan skagann undir sinni stjórn árið 936.[380] Konungsættin Goryeo ríkti til 1392, en þar á eftir tók við Jóseonætt[381] sem ríkti yfir skaganum næstu 500 ár.[382]

Í Mongólíu sameinaði Djengis Khan hina ýmsu mongólsku og tyrkísku ættflokka undir einu merki árið 1206.[383][384] Mongólaveldið stækkaði þar til það náði yfir allt Kína og Mið-Asíu, auk stórra hluta Rússlands og Mið-Austurlanda. Það varð stærsta samfellda heimsveldi sögunnar.[385] Eftir lát Möngke Khan árið 1259[386] skiptist Mongólaveldið í fjögur ríki: Júanveldið í Kína, Chagatai-kanatið í Mið-Asíu, Gullnu horduna í Austur-Evrópu og Rússlandi, og Ilkanatið í Íran.[387][388]

Ameríka

breyta
 
Stjörnuskoðunarstöð frá tímum Maja í Chichen Itza, Mexíkó.

Á þessum tíma reis Mississippi-menningin í Norður-Ameríku þar sem Bandaríkin eru nú, um árið 950.[389] Einkenni þess menningarskeiðs er stórt þéttbýli í Cahokia.[390] Forn-Púeblóar og forverar þeirra á 9.-13. öld reistu sér stóra varanlega bæi, þar á meðal steinbyggingar sem voru stærstu steinmannvirki Norður-Ameríku fram á 19. öld.[391]

Í Mið-Ameríku hrundi samfélagið í kringum borgina Teotihuacan og Majahrunið átti sér stað.[392] Astekaveldið lagði síðar undir sig stóra hluta Mið-Ameríku á 14. og 15. öld.[393]

Á 15. öld reis Inkaveldið í Suður-Ameríku.[251] Höfuðborgin var í Cusco, en ríkið náði yfir Andesfjöll og var stærsta stórveldi sögu Ameríku fyrir komu Evrópumanna.[394] Ríki Inka einkenndist af velmegun og tækniþróun, útbreiddu vegakerfi og þróaðri steinsmíði.[395]

Árnýöld

breyta

Árnýöld er tímabilið sem fylgir miðöldum í sögu Evrópu og nær ýmist til 1789 eða 1800, eftir því hvort miðað er við frönsku byltinguna eða upphaf iðnbyltingar. Algengt er að miða upphaf tímabilsins við ýmis ártöl á bilinu frá 1450 til 1500 sem markast af tilteknum stórviðburðum. Meðal þeirra eru fall Konstantínópel í hendur Tyrkjaveldis, útbreiðsla prentunar, og landkönnun Evrópumanna í Ameríku og meðfram strönd Afríku.[396] Á þessum tíma breyttist hernaður, og stærð herja á landi og sjó fór vaxandi, auk þess sem notkun byssupúðurs breiddist út.[397][398] Á árnýöld var sáð fræjum hnattvæðingar,[399] fram komu miðstýrð skrifræðisríki,[400] og kapítalismi í sinni elstu mynd.[401] Evrópuveldin hófu að leggja undir sig stóra hluta heimsins og stofnuðu sjóveldi: fyrst portúgalska heimsveldið og spænska heimsveldið; og síðar franska heimsveldið, breska heimsveldið og hollenska heimsveldið.[402][403] Skoðanir eru skiptar milli sagnfræðinga um ástæðurnar fyrir uppgangi Evrópu, sem bandaríski sagnfræðingurinn Samuel Huntingdon nefndi „aðgreininguna miklu“ árið 1996.[404]

 
Japönsk mynd af portúgölskum karkara, skipsgerð sem varð undirstaða heimsverslunar á höfunum.

Á árnýöld komu fram fyrstu kapítalísku hagkerfin, fyrst í norðurítölsku lýðveldunum og asískum hafnarborgum.[405] Evrópuríkin tóku upp hagstjórn byggða á merkantílisma sem átti að efla móðurlandið á kostnað nýlendanna.[406][407] Undir lok 15. aldar komu Portúgalar sér upp verslunarstöðum við strendur Afríku, Asíu og í Brasilíu, þar sem þeir keyptu gull, krydd og þræla.[408] Á 17. öld voru stofnuð evrópsk verslunarfélög eins og Breska Austur-Indíafélagið árið 1600 og Hollenska Austur-Indíafélagið árið 1602.[409] Á sama tíma dró úr bændaánauð í Evrópu og áhrif kaþólsku kirkjunnar minnkuðu.[410]

Landafundatímabilið var fyrsta tímabilið í mannkynsssögunni þar sem umfangsmikil menningarleg, efnisleg og líffræðileg skipti milli gamla heimsins og nýja heimsins áttu sér stað. Þetta hófst seint á 15. öld þegar Portúgal og Kastilía sendu fyrstu könnunarleiðangrana til Ameríku. Kristófer Kólumbus kom þangað fyrstur árið 1492. Kólumbíuskiptin og hnattrænn samruni héldu áfram með landvinningum Evrópubúa í Ameríku. Þau fólu í sér umfangsmikla flutninga á jurtum, dýrum, matvælum, fólki (þrælum þar á meðal), smitsjúkdómum og menningu milli austurhvels jarðar og vesturhvels jarðar.[411] Kólumbíuskiptin voru einn afdrifaríkasti viðburður heimssögunnar og höfðu víðtæk áhrif á bæði vistkerfi og landbúnað.[412] Nytjajurtir sem bárust frá Ameríku með evrópskum sæförum ollu fólksfjölgun um allan heim.[413]

Vestur- og Mið-Asía

breyta

Tyrkjaveldi náði brátt völdum um öll Mið-Austurlönd eftir að það lagði Konstantínópel undir sig árið 1453. Sá atburður markar endalok Austrómverska ríkisins og þar með hins eiginlega Rómaveldis.[414][415] Safavídar náðu völdum í Persíu árið 1501.[416] Árið 1736 tóku Afsjarídar við af þeim; svo Zand-ætt árið 1751 og Qajar-ætt árið 1794.[417] Safavídar gerðu sjía íslam að ríkistrú Persíu og greindu landið þar með trúarlega frá nágrannaríkjum sem aðhylltust súnní íslam.[418] Tyrkjaveldi, Safavídar og Mógúlveldið á Indlandi eru þekkt sem púðurveldin af því þau tóku snemma að hagnýta skotvopn í hernaði.[419] Á 16. öld lögðu Tyrkir undir sig alla Norður-Afríku, fyrir utan Marokkó þar sem Saadi-ætt náði völdum á sama tíma, og síðan Alawi-ætt á 17. öld.[420][421][422] Undir lok 18. aldar hóf Rússneska keisaradæmið að leggja Kákasus undir sig.[423] Úsbekakanatið tók við af Tímúrveldinu sem ríkjandi stórveldi í Mið-Asíu.[424]

Evrópa

breyta
 
Flórens er fæðingarborg ítölsku endurreisnarinnar.

Árnýöld í Evrópu einkenndist af mikilli hugmyndafræðilegri gerjun. Endurreisnin, „endurfæðing“ menningar klassískrar fornaldar, hófst á Ítalíu á 14. öld og stóð fram á 16. öld. Endurreisnin fól í sér enduruppgötvun vísinda, menningar og tækni fornaldar, á sama tíma og Evrópa efldist efnahagslega.[425] Þetta tímabil er aðallega þekkt fyrir framfarir í listum, arkitektúr og verkfræði.[426] Nokkur af helstu verkum endurreisnarinnar eru kvæði Petrarcas, Tídægra Giovanni Boccaccio; og málverk, höggmyndir og prentmyndir Leonardo da Vinci og Albrecht Dürer (sem tilheyrir norrænu endurreisninni).[426] Siðbótin fylgdi í kjölfar endurreisnarinnar með umbótum Lúthers. Siðbótin varð til þess að mótmælendatrú breiddist út um Norður-Evrópu.[427]

Endurreisnin leiddi til aukins áhuga á rannsóknum á manninum og náttúrunni (húmanisma).[428] Skömmu síðar hófst vísindabyltingin með áherslu á rannsóknir með beinum athugunum og tilraunum.[429][430] Hin nýju raunvísindi urðu innblástur fyrir nýjar nálganir í félagsmálum og stjórnmálum hjá hugsuðum upplýsingarinnar eins og John Locke og Immanuel Kant.[431][432] Samhliða þessari þróun dró úr áhrifum kirkjunnar.[433] Prentunin sem hófst í Evrópu árið 1440 átti stóran þátt í útbreiðslu nýrra hugmynda.[434][435][436]

 
Wittenberg þar sem siðbótin hófst.

Auk þeirra samfélagsbreytinga sem fylgdu kapítalisma og nýlendustefnu, upplifðu Evrópubúar árnýaldar aukið vald ríkisins.[437] Einvaldir konungar í Frakklandi, Rússlandi, ríki Habsborgara, og Prússlandi komu á miðstýrðum ríkjum, með öflugum herjum og skrifræði undir stjórn konungsins.[438] Ívan grimmi var fyrsti tsar Rússlands. Hann lagði undir sig kanöt tyrkískra þjóðflokka í austri og breytti Rússlandi þannig í stórveldi sem að lokum tók við af Pólsk-litáíska samveldinu sem öflugasta ríki Austur-Evrópu.[439][440] Ríki Vestur-Evrópu háðu harða samkeppni á sviði verslunar og hernaðar og áttu í nær stöðugu innbyrðis stríði.[441] Helstu styrjaldir þessa tímabils voru þrjátíu ára stríðið, spænska erfðastríðið, sjö ára stríðið og frönsku byltingarstríðin.[442] Franska byltingin sem hófst árið 1789 lagði grunninn að frjálslyndu lýðræði með því að steypa konunginum af stóli. Hún var undanfari valdatöku Napóleons og Napóleonsstyrjaldanna í byrjun 19. aldar.[443][444][445]

Afríka sunnan Sahara

breyta

Við Horn Afríku hófst útþensla Orómóa á 16. öld, sem veikti Eþíópíska keisaradæmið og olli hruni Adal-soldánsdæmisins. Geledi-soldánsdæmið tók við af Ajuran-soldánsdæminu.[446] Seint á 19. öld og í byrjun 20. aldar stækkaði Eþíópía hratt.[447]

Í Vestur-Afríku gerði Marokkó innrás í Songhæveldið seint á 16. öld.[448] Bamanaveldið tók við af Songhæ. Uppreisnir Fúlana hófust á 18. öld og leiddu til stofnunar Sokoto-kalífatsins, Massínaveldisins og Tukulorveldisins.[449][450][451] Í regnskógabeltinu var Asanteveldið stofnað þar sem nú er Gana.[452] Milli 1515 og 1800 voru milljónir Afríkubúa hnepptar í þrældóm og fluttar yfir hafið í Atlantshafsversluninni.[453]

Í árdal Kongófljóts háði Konungsríkið Kongó þrjár styrjaldir gegn Portúgölum sem hófu að leggja Angóla undir sig. Því lyktaði með hernámi Ndongo á 17. öld.[454] Austan við það reis Lundaveldið sem ríkjandi afl á svæðinu.[455] Það féll í hendur Chokwe-a á 19. öld.[456] Norðan við Stóru vötnin stóðu konungsríkin Bunyoro-Kitara, Búganda og Konungsríkið Rúanda meðal annarra.[457]

Portúgalar lögðu líka undir sig Soldánsdæmið Kilwa á 16. öld þegar þeir hófu hernám Mósambíkur. Þeir biðu ósigur gegn Ómanveldinu sem lagði Svahílíströndina undir sig.[458] Frá 16. öld komu Imerina og ríki Betsileóa og Sakalava fram á Madagaskar.[459] Imerina lagði megnið af eyjunni undir sig á 19. öld.[460] Í árdal Sambesífljóts tók Rozvi-veldið við af Mútapaveldinu,[461] en ríkið Maravi stóð við Malavívatn norðan við það.[462] Mthwakazi tók svo við af Rozvi.[463] Miklu sunnar hófu Hollendingar landnám í sunnanverðri Afríku á 16. öld, en misstu það síðar til Breta.[464] Á 19. öld mynduðu Hollendingar nokkur Búalýðveldi á sama tíma og styrjaldir og fólksflutningar einkenndu sögu innfæddra þjóða á tímabili sem nefnist Mfecane og leiddu til stofnunar nýrra afrískra konungsríkja.[465]

Suður-Asía

breyta
 
Taj Mahal á Indlandi var reist á fyrri hluta 17. aldar.

Á Indlandsskaga var Mógúlveldið stofnað af Babúr árið 1526. Það stóð í tvær aldir eftir það.[466] Það ríkti í fyrstu yfir norðvesturhlutanum, en lagði svo nær allt meginlandið undir stjórn múslima seint á 17. öld.[467] Aðeins syðstu héruðin héldu sjálfstæði sínu.[468] Árið 1674 hóf Marattaveldið á vesturströndinni baráttu gegn Mógúlveldinu undir stjórn Shivajis.[469] Marattaveldið vann smám saman stærra landsvæði af Mógúlveldinu, sérstaklega eftir stríð Mógúlveldisins og Marattaveldisins 1680-1707.[470]

Undir lok 15. aldar kom síkismi fram, byggður á kenningum tíu síkagúrúa.[471][472] Árið 1799 stofnaði Ranjit Singh Síkaveldið í Púnjab.[473][474]

Austur-Asía

breyta
 
Hluti Kínamúrsins.

Árið 1644 tók Tjingveldið við af Mingveldinu.[475] Tjingveldið var síðasta kínverska keisaraveldið og stóð til 1912.[476] Í Japan stóð Azuchi–Momoyama-tímabilið frá 1568 til 1600, en þar á eftir kom Edótímabilið sem stóð til 1868.[477] Á þessum tíma var kóreska Jóseonættin við völd og ríkti til 1910. Á 16. og 17. öld hrundu Kóreumenn innrásum frá bæði Japan og Kína.[478] Aukin verslun við Evrópuveldin hafði mikil áhrif á samfélag í Kína og Japan á þessum tíma, sérstaklega verslun við Portúgala í Maká og Hollendinga í Nagasaki.[479] Bæði löndin tóku síðar upp einangrunarstefnu til að takmarka erlend áhrif.[480]

Suðaustur-Asía

breyta

Árið 1511 unnu Portúgalir sigur á Malakka þar sem nú eru Malasía og Súmatra í Indónesíu.[481] Portúgalir náðu þannig mikilvægri verslunarleið við Malakkasund þar til Hollendingar sigruðu þá árið 1641.[409] Soldánsdæmið Johor á suðurodda Malakkaskaga varð stærsta verslunarveldi þessa heimshluta.[482]

Nýlendur Evrópubúa í Suðaustur-Asíu stækkuðu jafnt og þétt þegar Hollendingar tóku að leggja Hollensku Austur-Indíur undir sig, Portúgalir náðu völdum á Tímor og Spánverjar á Filippseyjum.[483]

Eyjaálfa

breyta

Lönd Eyjaálfu urðu líka fyrir áhrifum vegna siglinga Evrópubúa þangað, allt frá hnattsiglingu Ferdinand Magellan 1519-1522 sem kom að landi á Maríanaeyjum og fleiri Kyrrahafseyjum.[484] Abel Tasman sigldi til Ástralíu, Nýja-Sjálands og nærliggjandi eyja frá 1642 til 1644.[485] James Cook náði fyrstur Evrópubúa, svo vitað sé, til Hawaii í leiðöngrum sínum milli 1768 og 1779[486] Árið 1788 var fyrsta nýlenda Breta í Ástralíu stofnuð.[487]

Ameríka

breyta

Mörg Evrópuveldi kepptust um að leggja Ameríku undir sig. Í mörgum tilvikum voru innfæddir íbúar myrtir eða hraktir á brott og Evrópumenn lögðu stórveldi Asteka og Inka undir sig.[488][489] Sjúkdómar sem Evrópubúar báru með sér til Nýja heimsins ollu miklum hörmungum í samfélögum Ameríku. Sumir sagnfræðingar telja að 60-90 milljónir hafi látist fyrir 1600 og íbúafjöldinn hafi dregist saman um 90-95%.[490] Í sumum tilvikum var það beinlínis stefna nýlendustjórna að fremja þjóðarmorð á frumbyggjum álfunnar.[491][492][493] Spánn, Portúgal, Bretland og Frakkland gerðu tilkall til stórra landsvæða, hófu landnám með plantekruræktun og fluttu þangað fjölda afrískra þræla.[494] Það hafði meðal annars þau áhrif að ýmsir þættir afrískrar menningar fluttust til Ameríku, meðal annars matarhefðir, tónlist og dans.[495] Portúgal gerði tilkall til Brasilíu, en Spánn lagði aðra hluta Suður-Ameríku og suðurhluta Norður-Ameríku undir sig.[496] Spánverjar grófu eftir og fluttu út gríðarlegt magn gulls og silfurs, sem leiddi til verðbólgu í Vestur-Evrópu á 16. og 17. öld.[497]

Í Norður-Ameríku lagði Bretland undir sig austurströndina, en Frakkar settust að í miðju landi.[498][499][500] Rússar héldu til norðvesturhéraðanna þar sem þeir stofnuðu sína fyrstu nýlendu í Alaska árið 1784.[501][502] Þeir stofnuðu líka Fort Ross í Kaliforníu árið 1812.[503] Frakkar misstu nýlendur sínar í Ameríku til Englands og Spánar eftir sjö ára stríðið (1756–1763).[504][505] Þrettán nýlendur Breta í Ameríku lýstu yfir sjálfstæði sem Bandaríkin árið 1776. Það var formlega staðfest með Parísarsáttmálanum 1783 sem batt enda á frelsisstríðið.[506] Árið 1791 gerðu afrískir þrælar byltingu á Haítí í frönsku nýlendunni Saint-Domingue. Frakkar unnu nýlendur sínar aftur frá Spáni árið 1800, en seldu þær til Bandaríkjanna með Louisiana-kaupunum 1803.[507]

Nútíminn

breyta

Langa 19. öldin

breyta

Langa nítjánda öldin hefst venjulega á frönsku byltingunni árið 1789 og stendur fram að upphafi fyrri heimsstyrjaldar árið 1914.[508][509] Á þessum tíma breiddist iðnbyltingin út um allan heim, sem markar mestu umbyltingu lífshátta mannkyns frá landbúnaðarbyltingunni á nýsteinöld.[510] Iðnbyltingin hófst í Bretlandi um 1770. Þar komu fram nýir framleiðsluhættir; verksmiðjan, fjöldaframleiðsla og vélvæðing, svo hægt var að framleiða fleiri hluti hraðar og með minni vinnu en áður var mögulegt.[511]

Iðnvæðingin hafði í för með sér aukin lífsgæði um allan heim, en olli líka átökum milli verksmiðjueigenda og verkafólks út af launum og vinnuaðstæðum.[512] Samhliða iðnvæðingunni hófst hnattvæðing, stóraukin efnahagsleg, stjórnmálaleg og menningarleg tengsl milli ólíkra heimshluta.[513][514] Hnattvæðingin sem hófst snemma á 19. öld stafaði af bættri samgöngutækni eins og járnbrautum og gufuskipum.[515]

 
Heimsveldin árið 1898.

Evrópuveldin misstu nýlendur sínar í Suður-Ameríku eftir frelsisstríðin í Rómönsku Ameríku á fyrri hluta 19. aldar,[516] en juku völd sín annars staðar þar sem iðnvæðingin gaf þeim öflugt forskot gagnvart öðrum heimshlutum.[517] Bretar lögðu Indlandsskaga undir sig, auk Búrma, Malaja, Norður-Borneó, Hong Kong og Aden; Frakkar hernámu Franska Indókína; og Hollendingar tryggðu sér yfirráð yfir Indónesíu.[518] Bretar lögðu líka undir sig Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjáland og Suður-Afríku, og þangað fluttust stórir hópar breskra landnema.[519]

Rússar lögðu undir sig stór landsvæði í Síberíu.[520] Bandaríkin luku við útþenslu sína í vesturátt og tryggðu sér yfirráð yfir landsvæði sem náði frá Atlantshafi að Kyrrahafsströndinni.[521]

Seint á 19. öld og í byrjun þeirrar 20. stóð önnur iðnbyltingin í Evrópu. Á þeim tíma kepptust Evrópuveldin um að leggja Afríku undir sig.[522] Aðeins Eþíópía og Líbería héldu sjálfstæði sínu.[523] Mörg grimmdarverk tengdust nýlendustjórn Evrópubúa í Afríku, eins og stjórn Belgísku Kongó og þjóðarmorðið í Namibíu.[524][525]

Samkeppni milli Evrópuveldanna átti þátt í mótun þjóðríkja þegar samfélög tóku að skilgreina sig sem þjóðir og krefjast sjálfstjórnar.[526] Þjóðernishyggja breiddist líka út um heiminn á 19. og 20. öld.[527][528] Fyrsta bylgja lýðræðisvæðingar gekk yfir milli 1828 og 1926 þegar lýðræðislegt stjórnarfar var tekið upp í 33 ríkjum.[529]

Þrælahald var afnumið víðast hvar á 19. öld, og leigujarðir komust í eigu bænda.[530][531] Seint á 19. öld hófst barátta fyrir kosningarétti kvenna[532] sem leiddi til þess að stjórnmálaþátttaka kvenna jókst[533] og konur fengu meira aðgengi að menntun og öðrum störfum en heimilisstörfum.[534]

 
Fyrsta flugvélin hóf sig á loft 17. desember 1903.

Víða um heim hófu ríki iðnvæðingu og stjórnarfarslegar umbætur til að bregðast við ásælni Evrópuveldanna.[535] Meiji-endurreisnin í Japan leiddi til stofnunar nýlenduveldis Japana, meðan tanzimat-umbæturnar í Tyrkjaveldi náðu ekki að stöðva hnignun ríkisins.[536] Kína náði nokkrum árangri með Sjálfsstyrkingarhreyfingunni, en varð fyrir miklu áfalli þegar Tapiping-uppreisnin, mannskæðasta borgarastyrjöldin í sögu landsins, braust út 1850. Talið er að 20 til 30 milljónir hafi látið lífið í uppreisninni.[537][538]

Undir lok 19. aldar urðu Bandaríkin stærsta hagkerfi heims.[539] Tækniframfarir sem tengjast annarri iðnbyltingunni, eins og raforka, sprengihreyfillinn, og framleiðsla á færibandi, juku enn á framleiðni.[540] Tækniþróunin skapaði líka nýjar leiðir fyrir listræna tjáningu með ljósmyndun, hljóðupptökum og kvikmyndum.[541]

Hröð iðnvæðing hafði í för með sér iðnaðarmengun og hnignun náttúrulegs umhverfis.[542] Flug með loftbelgjum hófst seint á 18. öld og í upphafi 20. aldar þróuðu Wright-bræður fyrstu flugvélina.[543][544]

Þegar 20. öldin hófst stóð Evrópa á hátindi auðs og valda.[545] Stór hluti heimsins var undir stjórn evrópskra nýlenduvelda, eða undir sterkum áhrifum frá þeim með Evrópuvæðingu ríkja eins og Bandaríkjanna og Japan.[546] Fljótlega molnaði þó úr þessum heimsveldum eftir því sem fleiri þjóðríki um allan heim öðluðust sjálfstjórn og við tók ný og fjölbreyttari heimsmynd.[547]

Tilvísanir

breyta
  1. Jungers 1988, bls. 227–231
  2. Bulliet et al. 2015a, bls. 1
  3. Christian 2011, bls. 150
  4. Dunbar 2016, bls. 8
  5. Wragg-Sykes 2016, bls. 183–184
  6. Dunbar 2016, bls. 8, 10
  7. Lewton 2017, bls. 117
  8. Harmand 2015, bls. 310–315
  9. McPherron et al. 2010, bls. 857–860
  10. Domínguez-Rodrigo & Alcalá 2016, bls. 46–53
  11. de la Torre 2019, bls. 11567–11569
  12. Stutz 2018, bls. 1–9
  13. Strait 2010, bls. 341
  14. Villmoare et al. 2015, bls. 1352–1355
  15. Spoor et al. 2015, bls. 83–86
  16. Bulliet et al. 2015a, bls. 5
  17. Herries et al. 2020
  18. Dunbar 2016, bls. 10
  19. Gowlett 2016, bls. 20150164
  20. Christian 2015, bls. 11
  21. Christian 2015, bls. 400n
  22. Dunbar 2016, bls. 11
  23. Hammer 2013, bls. 66–71
  24. Yong 2011, bls. 34–38
  25. Ackermann, Mackay & Arnold 2015, bls. 1–11
  26. Reich et al. 2010, bls. 1053–1060
  27. Abi-Rached et al. 2011, bls. 89–94
  28. Hublin et al. 2017, bls. 289–292
  29. Fagan & Durrani 2021, 3. Enter Homo Sapiens (c. 300,000 Years Ago and Later)
  30. Coolidge & Wynn 2018, bls. 5
  31. Christian 2015, bls. 319
  32. Christian 2015, bls. 319–320, 330, 354
  33. Christian 2015, bls. 344–346
  34. McNeill & McNeill 2003, bls. 17–18
  35. Christian 2015, bls. 357–358, 409
  36. Morley 2013, bls. 42–43
  37. Svard 2023, bls. 23
  38. Christian 2015, bls. 22
  39. Weber et al. 2020, bls. 29–39
  40. Christian 2015, bls. 283
  41. O'Connell et al. 2018, bls. 8482–8490
  42. Posth et al. 2016, bls. 827–833
  43. Clarkson et al. 2017, bls. 306–310
  44. Christian 2015, bls. 283
  45. Bennett 2021, bls. 1528–1531
  46. Christian 2015, bls. 316
  47. Pollack 2010, bls. 93
  48. Christian 2015, bls. 400
  49. Christian 2015, bls. 321, 406, 440–441
  50. Koch & Barnosky 2006, bls. 215–250
  51. Christian 2015, bls. 406
  52. Lewin 2009, bls. 247
  53. Stephens et al. 2019, bls. 897–902
  54. Larson et al. 2014, bls. 6139–6146
  55. McNeill 1999, bls. 11
  56. Barker & Goucher 2015, bls. 325, 336
  57. Barker & Goucher 2015, bls. 323
  58. Bulliet et al. 2015a, bls. 21
  59. Barker & Goucher 2015, bls. 265
  60. Barker & Goucher 2015, bls. 518
  61. Barker & Goucher 2015, bls. 85
  62. Bulliet et al. 2015a, bls. 202
  63. Adovasio, Soffer & Page 2007, bls. 243, 257
  64. Graeber & Wengrow 2021
  65. Barker & Goucher 2015, bls. 218
  66. Barker & Goucher 2015, bls. 95
  67. Barker & Goucher 2015, bls. 216–218
  68. Roberts & Westad 2013, bls. 34–35
  69. Lewin 2009, bls. 247
  70. Yoffee 2015, bls. 313, 391
  71. Barker & Goucher 2015, bls. 193
  72. Yoffee 2015, bls. 313–316
  73. McNeill 1999, bls. 13
  74. Rael 2009, bls. 113
  75. Ganivet 2019, bls. 25
  76. Barker & Goucher 2015, bls. 161–162, 172–173
  77. Bulliet et al. 2015a, bls. 99
  78. Bulliet et al. 2015a, bls. 19
  79. Kinzel & Clare 2020, bls. 32–33
  80. Barker & Goucher 2015, bls. 224
  81. Bulliet et al. 2015a, bls. 21
  82. Bulliet et al. 2015a, bls. 21
  83. Radivojevic et al. 2013, bls. 1030–1045
  84. Headrick 2009, bls. 30–31
  85. McClellan & Dorn 2006, bls. 41
  86. Roberts & Westad 2013, bls. 46
  87. Stearns & Langer 2001, bls. 21
  88. Roberts & Westad 2013, bls. 53
  89. Bard 2000, bls. 63
  90. Roberts & Westad 2013, bls. 70
  91. 91,0 91,1 Benjamin 2015, bls. 563
  92. Graeber & Wengrow 2021, bls. 314
  93. Chakrabarti 2004, bls. 10–13
  94. Allchin & Allchin 1997, bls. 153–168
  95. Ropp 2010, bls. 2
  96. Bulliet et al. 2015a, bls. 23
  97. Headrick 2009, bls. 32
  98. Roberts & Westad 2013, bls. 59
  99. 99,0 99,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 35
  100. Roberts & Westad 2013, bls. 91
  101. 101,0 101,1 McNeill 1999, bls. 16
  102. McNeill 1999, bls. 18
  103. Johnston 2004, bls. 13, 19
  104. Roberts & Westad 2013, bls. 43–46
  105. Yoffee 2015, bls. 118
  106. Regulski 2016
  107. Wengrow 2011, bls. 99–103, The Invention of Writing in Egypt
  108. Boltz 1996, bls. 191, Early Chinese Writing
  109. Fagan & Beck 1996, bls. 762
  110. Roberts & Westad 2013, bls. 53–54
  111. Tignor et al. 2014, bls. 49, 52
  112. Robinson 2009, bls. 38
  113. Bulliet et al. 2015a, bls. 80
  114. Yoffee 2015, bls. 136
  115. Abulafia 2011, bls. xvii, passim
  116. Benjamin 2015, bls. 89
  117. Bulliet et al. 2015a, bls. 35
  118. Christian 2011, bls. 256
  119. Tignor et al. 2014, bls. 48–49
  120. Headrick 2009, bls. 31
  121. Graeber & Wengrow 2021, bls. 362
  122. Bard 2000, bls. 57–64
  123. Yoffee 2015, bls. 320
  124. Bulliet et al. 2015a, bls. 46
  125. Yoffee 2015, bls. 257
  126. McNeill 1999, bls. 36–37
  127. Bulliet et al. 2015a, bls. 56
  128. McNeill 1999, bls. 46–47
  129. Price & Thonemann 2010, bls. 25
  130. Benjamin 2015, bls. 331
  131. Roberts & Westad 2013, bls. 116–122
  132. Singh 2008, bls. 260–264
  133. Benjamin 2015, bls. 646–647
  134. Benjamin 2015, bls. 648
  135. Benjamin 2015, bls. 617
  136. Benjamin 2015, bls. 562
  137. Shady Solis, Haas & Creamer 2001, bls. 723–726
  138. Benjamin 2015, bls. 564
  139. Graeber & Wengrow 2021, bls. 389
  140. Benjamin 2015, bls. 565
  141. Nichols & Pool 2012, bls. 118
  142. Brown 2007, bls. 150
  143. Brown 2007, bls. 150–153
  144. Benjamin 2015, bls. 539–540
  145. Benjamin 2015, bls. 540–541
  146. Benjamin 2015, bls. 101
  147. Baumard, Hyafil & Boyer 2015, bls. e1046657
  148. McNeill & McNeill 2003, bls. 67
  149. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 665
  150. Benjamin 2015, bls. 115
  151. Benjamin 2015, bls. 304
  152. McNeill & McNeill 2003, bls. 73–74
  153. Short 1987, bls. 10
  154. Dunn 1994
  155. Benjamin 2015, bls. 9
  156. Benjamin 2015, bls. 439
  157. Bulliet et al. 2015a, bls. 314
  158. Paine 2011, bls. 273
  159. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 453, 456
  160. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 467–475
  161. Stearns & Langer 2001, bls. 63
  162. Stearns & Langer 2001, bls. 70–71
  163. Bulliet et al. 2015a, bls. 63
  164. Burbank 2010, bls. 56
  165. Bulliet et al. 2015a, bls. 229, 233
  166. Benjamin 2015, bls. 238, 276–277
  167. Roberts & Westad 2013, bls. 110
  168. Benjamin 2015, bls. 279
  169. Benjamin 2015, bls. 286
  170. Bulliet et al. 2015a, bls. 248
  171. Bulliet et al. 2015a, bls. 248
  172. Strauss 2005, bls. 1–11
  173. Dynneson 2008, bls. 54
  174. Goldhill 1997, bls. 54
  175. Martin 2000, bls. 106–107
  176. Benjamin 2015, bls. 353
  177. Tignor et al. 2014, bls. 203
  178. Burstein 2017, bls. 57–58
  179. Benjamin 2015, bls. 283–284
  180. Hemingway & Hemingway 2007
  181. Benjamin 2015, bls. 337–338
  182. Kelly 2007, bls. 4–6
  183. Bulliet et al. 2015a, bls. 149, 152–153
  184. Beard 2015, bls. 483
  185. McEvedy 1961
  186. Williams & Friell 2005, bls. 105
  187. Kulke & Rothermund 1990, bls. 61, 71
  188. Benjamin 2015, bls. 488–489
  189. Benjamin 2015, bls. 502–505
  190. Benjamin 2015, bls. 503–505
  191. Bulliet et al. 2015a, bls. 187
  192. Benjamin 2015, bls. 416
  193. Bulliet et al. 2015a, bls. 160
  194. Benjamin 2015, bls. 415
  195. Benjamin 2015, bls. 417
  196. Benjamin 2015, bls. 417
  197. Bulliet et al. 2015a, bls. 160
  198. Bulliet et al. 2015a, bls. 143
  199. Gernet 1996, bls. 119, 121, 126, 130
  200. Bulliet et al. 2015a, bls. 165, 169
  201. Gernet 1996, bls. 138
  202. Merrill & McElhinny 1983, bls. 1
  203. Seow 2022, bls. 351
  204. Bulliet et al. 2015a, bls. 92
  205. Bulliet et al. 2015a, bls. 94–95
  206. Benjamin 2015, bls. 651–652
  207. Iliffe 2007, bls. 41
  208. Fagan 2005, bls. 390, 396
  209. Flannery & Marcus 1996, bls. 146
  210. Whitecotton 1977, bls. 26, LI.1–3
  211. Coe 2011, bls. 91
  212. Benjamin 2015, bls. 560
  213. Benjamin 2015, bls. 557–558
  214. Bulliet et al. 2015a, bls. 208
  215. Benjamin 2015, bls. 555
  216. Bulliet et al. 2015a, bls. 204
  217. 217,0 217,1 Benjamin 2015, bls. 122
  218. Benjamin 2015, bls. 134
  219. Kosso & Scott 2009, bls. 51
  220. Benjamin 2015, bls. 133
  221. Benjamin 2015, bls. 142–143
  222. Headrick 2009, bls. 59
  223. Benjamin 2015, bls. 145
  224. Benjamin 2015, bls. 136
  225. Deming 2014, bls. 174
  226. Benjamin 2015, bls. 80
  227. Benjamin 2015, bls. 79–80
  228. Kent 2020, bls. 6
  229. 229,0 229,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 170–172
  230. Bulliet et al. 2015a, bls. 158, 170
  231. Benjamin 2015, bls. 10
  232. Benjamin 2015, bls. 248, 264
  233. 233,0 233,1 Benjamin 2015, bls. 14
  234. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 562, 583
  235. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 513
  236. Bulliet et al. 2015a, bls. 165
  237. Stearns 2017
  238. Bowersock, Brown & Grabar 1999
  239. Rapp & Drake 2014
  240. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 334
  241. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 317
  242. Ackermann et al. 2008b, bls. xxiv
  243. Shaw 1976, bls. 13
  244. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 215
  245. Bulliet et al. 2015a, bls. 379, 393
  246. 246,0 246,1 Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 393
  247. Bulliet et al. 2015a, bls. 297, 336, 339
  248. Bulliet et al. 2015a, bls. 214
  249. Bulliet et al. 2015a, bls. 395
  250. Bulliet et al. 2015a, bls. 205
  251. 251,0 251,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 397
  252. Hourani 1991, bls. 5, 11
  253. Bulliet et al. 2015a, bls. 249–250
  254. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 385
  255. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 387–389
  256. 256,0 256,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 255
  257. Benjamin 2015, bls. 295
  258. Mirsepassi & Fernée 2014, bls. 182
  259. Benjamin 2015, bls. 295
  260. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 26
  261. Benjamin 2015, bls. 149
  262. Tiliouine, Renima & Estes 2016, bls. 37, 41
  263. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 156–157, 393
  264. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 393–394
  265. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 373–374
  266. Bulliet et al. 2015a, bls. 292–93
  267. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 162, 579
  268. Shaw 1976, bls. 13
  269. Kuran 2023, bls. 11
  270. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 365–366, 401, 516
  271. Bulliet et al. 2015a, bls. 297–298
  272. Ebrey, Walthall & Palais 2006, bls. 113
  273. Xue 1992, bls. 149–152, 257–264
  274. Xue 1992, bls. 226–227
  275. Pillalamarri 2017
  276. Tor 2009, bls. 279–299
  277. Ṭabīb et al. 2001, bls. 3–4
  278. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 371
  279. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 247–248
  280. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 248
  281. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 354
  282. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 355
  283. Brown 2007, bls. 128, 136
  284. Benjamin 2015, bls. 384–385
  285. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 158
  286. Bulliet et al. 2015a, bls. 282, 285
  287. McNeill 2010, bls. 204
  288. Deanesly 2019, bls. 339–355, The Carolingian Conquests
  289. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 159
  290. McNeill & Pomeranz 2015b, bls. 205
  291. Bulliet et al. 2011, bls. 250
  292. Brown, Anatolios & Palmer 2009, bls. 66
  293. Bulliet et al. 2015a, bls. 289
  294. Bulliet et al. 2015a, bls. 280–281
  295. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 496–497
  296. Bideleux & Jeffries 1998, bls. 48
  297. Bulliet et al. 2015a, bls. 293
  298. Phillips 2017, bls. 665–698
  299. McNeill & McNeill 2003, bls. 146
  300. Bentley & Ziegler 2008, bls. 595
  301. Bulliet et al. 2015a, bls. 324
  302. Bulliet et al. 2015a, bls. 335
  303. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 246–248
  304. Aberth 2001
  305. Dunham 2008
  306. BBC 2001
  307. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 60
  308. McNeill & McNeill 2003, bls. 120
  309. Mones 1988a
  310. Hrbek 1988a
  311. Hrbek 1988b
  312. Saidi 1984
  313. Hrbek 1984
  314. Jakobielski 1988
  315. Kropacek 1984
  316. Mekouria 1988
  317. Tamrat 1984, bls. 423, 431
  318. Tamrat 1977, bls. 123–134, 140
  319. Tamrat 1977, bls. 143
  320. Dalziel & MacKenzie 2016
  321. Tamrat 1977, bls. 149
  322. Gestrich 2019
  323. Dalziel & MacKenzie 2016
  324. Conrad & Fisher 1983
  325. McIntosh 2008
  326. Niane 1984
  327. Dalziel & MacKenzie 2016, bls. 1–2
  328. Dalziel & MacKenzie 2016, bls. 1–6
  329. Mahdi 1984
  330. Ly-Tall 1984
  331. Akintoye 2010
  332. Onwuejeogwu 1980
  333. Dalziel & MacKenzie 2016, bls. 1–6
  334. „Dagbon History: Kings, Towns, and Cultural Legacy“ (bandarísk enska). 25. mars 2024. Sótt 6 október 2024.
  335. Hargrove 2024
  336. Thornton 2020, bls. 24–25
  337. Thornton 2020
  338. Vansina 1984
  339. Buchanan 1974
  340. Masao 1988
  341. Matveiev 1984
  342. Randrianja 2009, bls. 43, 52–53
  343. Fagan 1984
  344. Bulliet et al. 2015a, bls. 189–90
  345. Keay 2000, bls. 192
  346. Keay 2000, bls. 168, 214–15, 251
  347. Keay 2000, bls. 169, 213, 215
  348. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 169
  349. Benjamin 2015, bls. 621–22
  350. Bulliet et al. 2015a, bls. 406–07
  351. Benjamin 2015, bls. 622
  352. Burley 1998, bls. 368–9, 375
  353. Kirch & Green 2001, bls. 87
  354. Geraghty 1994, bls. 236–239, Linguistic Evidence for the Tongan Empire
  355. MacKnight 1986, bls. 69–75
  356. McNiven 2017, bls. 603–604, 629
  357. Benjamin 2015, bls. 426
  358. Ning 2023, bls. 203–204
  359. Lewis 2009, bls. 1
  360. Benjamin 2015, bls. 453
  361. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 118
  362. Whitfield 2004, bls. 193
  363. Lorge 2015, bls. 4–5
  364. 364,0 364,1 Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 532
  365. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 528, 534
  366. Henshall 1999, bls. 11–12
  367. Benjamin 2015, bls. 426, 428–430, 454–5
  368. Totman 2002, bls. 64–79
  369. Henshall 2012, bls. 24–52
  370. Bulliet et al. 2015a, bls. 316–317
  371. Huffman 2010, bls. 29, 35
  372. Bulliet et al. 2015a, bls. 346–347
  373. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 485
  374. Bulliet et al. 2015b, bls. 720
  375. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 222
  376. Huffman 2010, bls. 67
  377. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 517–518
  378. Ackermann et al. 2008e, bls. 464
  379. Naver
  380. The Association of Korean History Teachers 2005, bls. 113
  381. Bulliet et al. 2015a, bls. 345
  382. Bulliet et al. 2015b, bls. 550
  383. McNeill & McNeill 2003, bls. 120
  384. Butt 2005, bls. 128
  385. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 534–5
  386. Stearns & Langer 2001, bls. 153
  387. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 535
  388. O'Brien 2002, bls. 99}}
  389. Benjamin 2015, bls. 546–547
  390. Yoffee 2015, bls. 437
  391. Fagan 2005, bls. 35
  392. Bulliet et al. 2015a, bls. 205, 208
  393. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 622
  394. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 638
  395. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 644, 658
  396. Wiesner-Hanks 2021, § Creating 'Early Modern'
  397. Wiesner-Hanks 2021, bls. 12
  398. Ackermann et al. 2008c, bls. xxxv–xxxvi
  399. Martell 2010, bls. 52–53
  400. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 449
  401. Wiesner-Hanks 2021, bls. 12
  402. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 455
  403. Stearns 2010, bls. 37–38
  404. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 16
  405. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 192
  406. Bulliet et al. 2015b, bls. 448, 460, 501
  407. Horn 2016, bls. 68–69
  408. Kazeroony 2023, § European Colonialism
  409. 409,0 409,1 Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 194
  410. Bulliet et al. 2015b, bls. 448, 460, 501
  411. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015b, bls. 103–134
  412. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 38
  413. Christian 2011, bls. 383
  414. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 417
  415. Ackermann et al. 2008c, bls. xv
  416. Axworthy 2008, bls. 121
  417. Axworthy 2008, bls. 171
  418. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 469
  419. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 456
  420. Vesely 1992
  421. Cherif 1992
  422. El Fasi 1992
  423. Bulliet et al. 2015b, bls. 626
  424. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 358
  425. Bulliet et al. 2015a, bls. 363, 368
  426. 426,0 426,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 365–368
  427. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015b, bls. 338–339, 345
  428. Tignor et al. 2014, bls. 426–427
  429. Roberts & Westad 2013, bls. 683–685
  430. Bulliet et al. 2015b, bls. 436
  431. Bulliet et al. 2015b, bls. 444
  432. Bristow 2023, Lead Section
  433. Schulman 2011, bls. 1–2
  434. Headrick 2009, bls. 85
  435. Bulliet et al. 2015b, bls. 436
  436. Chrisp 2016, bls. 267
  437. Bulliet et al. 2015b, bls. 452
  438. Bulliet et al. 2015b, bls. 455, 535, 591, 670
  439. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 165
  440. Davies 2005, bls. 313, 386
  441. Bulliet et al. 2015b, bls. 455
  442. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015b, bls. 41, 44, 47, 343
  443. Stearns 2010, bls. 41
  444. Ackermann et al. 2008d, bls. xxxi
  445. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 529
  446. Haberland 1992
  447. Pankhurst 1989
  448. Abitbol 1992
  449. Batran 1989
  450. Last 1989
  451. Ly-Tall 1989
  452. Boahen 1989
  453. Bulliet et al. 2015b, bls. 512
  454. Vansina 1992
  455. Nzieme 1992
  456. Vellut 1989
  457. Webster 1992
  458. Salim 1992
  459. Kent 1992
  460. Mutibwa 1989
  461. Bhila 1992
  462. Phiri 1992
  463. Isaacman 1992
  464. Denoon 1992
  465. Ncgongco 1992
  466. Stein 2010, bls. 159
  467. Lal 2001
  468. Bulliet et al. 2015b, bls. 529
  469. Wolpert 1997, bls. 115
  470. Osborne 2020, bls. 992, 1005
  471. Singh 2000, bls. 17
  472. Haigh 2009, bls. 30
  473. Keay 2000, bls. 410–411, 420
  474. Grewal 1998, bls. 99
  475. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 116
  476. McNeill & McNeill 2003, bls. 247
  477. Henshall 1999, bls. 41, 49, 60, 66
  478. Bulliet et al. 2015b, bls. 545–546, 550
  479. Bulliet et al. 2015b, bls. 541, 544
  480. Bulliet et al. 2015b, bls. 554–555, 704
  481. Yoffee 2015, bls. 74
  482. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015b, bls. 257
  483. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 200, 276, 381–382
  484. Paine 2013, bls. 402–403
  485. Serle 1949
  486. Siler 2012, bls. xxii
  487. Matsuda 2012, bls. 161
  488. Stearns 2010, bls. 37–38
  489. Burbank & Cooper 2021, bls. 163–164
  490. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 39, 66
  491. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 430
  492. Blackhawk et al. 2023, bls. 38
  493. Kiernan, Lemos & Taylor 2023, bls. 622
  494. Bulliet et al. 2015b, bls. 475
  495. Stearns 2010, bls. 137
  496. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 277
  497. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015b, bls. 216–229
  498. Ackermann et al. 2008c, bls. xxi
  499. Wiesner 2015, § Colonization, Empires, and Trade
  500. Springer 2023, bls. 1157
  501. Wheeler 1971, bls. 441
  502. Gilbert 2013, bls. 44
  503. Chapman 2002, bls. 36
  504. Bulliet et al. 2015b, bls. 482
  505. Wiesner 2015, § Colonization, Empires, and Trade
  506. Tindall & Shi 2010, bls. 219, 254
  507. Tindall & Shi 2010, bls. 352
  508. Haynes, Hough & Pilbeam 2023, bls. 43
  509. Berger 2008, bls. xvii
  510. Bulliet et al. 2015b, bls. 562
  511. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 137
  512. Bulliet et al. 2015b, bls. 584–585
  513. McNeill & Pomeranz 2015b, bls. 490
  514. Babones 2008, bls. 146
  515. O'Rourke & Williamson 2002, bls. 23–50
  516. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 529, 532
  517. Bulliet et al. 2015b, bls. 563
  518. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 336
  519. Bulliet et al. 2015b, bls. 532, 676–678, 692
  520. Bulliet et al. 2015b, bls. 448
  521. Greene 2017, bls. xii
  522. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 562
  523. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 532
  524. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 429
  525. Schoppa 2021, bls. 2
  526. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 306, 310–311
  527. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 312
  528. Stearns 2010, bls. 41–44
  529. Huntington 1991, bls. 15–16
  530. McNeill & Pomeranz 2015b, bls. 112
  531. Stearns 2010, bls. 42
  532. Schoppa 2021, bls. 35
  533. Schoppa 2021, bls. 95
  534. Christian 2011, bls. 448
  535. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 390–392
  536. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 370, 386, 388, 390–391
  537. Meyer-Fong 2013, bls. 1
  538. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 390, 623
  539. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 600, 602
  540. Landes 1969, bls. 235
  541. McNeill & Pomeranz 2015b, bls. 210, 249–250, 254
  542. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 80
  543. Ackermann et al. 2008a, bls. xxxiii
  544. Curley 2011, bls. ix
  545. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 206
  546. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 313–314
  547. McNeill & Pomeranz 2015a, bls. 306

Heimildir

breyta
   Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.