Þessi grein um sögu Kóreu fjallar um sögu kóresku þjóðarinnar fram að skiptingu landsins eftir seinni heimsstyrjöldina.

Fortíð

breyta
 
Kóreanskt leirker frá því um 4000 f.Kr.

Kórea er eitt af elstu menningarsvæðum í heimi. Elstu minjar um búsetu á Kóreuskaganum eru frá fornsteinöld, um 500 þúsund árum f.Kr. Nýsteinöld hófst um 6000 f.Kr. Elstu dæmi um leikerasmíði eru frá því um ár 7000 f.Kr, bronsöld er talin hefjast um 800 f.Kr. og járnöld um 400 f.Kr.[1]

Saga Kóreu er oft talin hefjast árið 2333 f.Kr. en samkvæmt miðaldaheimildum var Gojoseon-keisardæmið stofnað þá.[2] Ekki síst af landfræðilegum ástæðum varð Kórea tengiliður milli mennigarsvæða Japans og Kína en þar skapaðist um leið sjálfstætt menningasvæði. Meðal annars skapaðist sérstakt kóreskt letur sem enn er notað sem ekki er myndletur eins og kínversk tákn heldur hljóðtáknakerfi og nefnt er hangúl. Sejong keisari, sem upp var 1397 til 1450, hafði forgöngu um sköpun þessa leturs og var það tilbúið ár 1446.[3] Annars er elsta kóreska handritið sem varðveist hefur frá 704 f.Kr. og elsta prentaða verkið frá 1160.

Frá 304 f.Kr. réði konungsríkið Tjósen (Chosen, sem er það nafna sem Norður-Kórea notar um landið Kóreu, Suður-Kórea notar Hanguk) yfir Kóreuskaganum og stórum hluta Mansjúríu (sem nú er héraðið Heilongjing í Kína). Árið 108 f.Kr. féll konungsríkið fyrir Han-keisaradæminu í Kína, Kórea skiptist upp í þrjú leppríki Kína ár 57 f.Kr., Silla, Gogupyeo og Baekje. Það var ekki fyrr en 313 e.Kr. sem landið losnaði undan kínverskum yfirráðum.

Miðaldir og næstu aldir

breyta
 
Ein af fyrstu ljósmyndum frá Kóreu tekin 1863 og sýnir þrjá aðalsmenn, svo nefnda jangban

Búddismi varð að ríkistrúarbrögðum 535 en búddatrúboðar höfðu starfað í landinu frá 372. Árið 660 sameinaðist landið að nýju undir stjórn Silla konungsveldisins og næstu aldir voru uppgangstímar fyrir kóreska menningu og samfélag. Kórea stjórnaðist sem sjógunat á sama hátt og Japan á árunum 1170 til 1270. Herforingjar fóru með raunveruleg völd en konungar einungis sýndarvöld. Á áratugunum eftir 1230 varð landið eins konar leppríki fyrir Mongólaveldið og reyndu Mongólar í tvígang að hertaka Japan frá Kóreu en mistókast í bæði skiptin. Valdabarátta og innanlandsstríð í Kína upp úr 1294 höfðu einnig mikil áhrif á Kóreu.

Það var ekki fyrr en 1392 sem kóreska ríkið var í raun endurreist þegar Joseon-konungsættin tók völdin og gerði konfúsíanisma að ríkistrúarbrögðum. Þessi nýja ríkistrú hafði gífurleg mikil áhrif á kóreanska menningu og allt samfélagið. Grundvallaratriði konfúsíanisma hafa enn þann dag í dag afgerandi áhrif á menningu, stjórnmál og þjóðfélagið í heild í bæði Suður- og Norður-Kóreu. Þrátt fyrir að konfúsíanismi er uppruninn í Kína og hefur haft mikil áhrif á kínverskt samfélag þá eru áhrifin á kóreanska menningu miklu djúpstæðari. Menning og vísindi blómstruðu næstu tvær aldirnar og er þessi tími talinn gullöld Kóreu.[4] Á þessum tíma var konungur Kóreu formlega undirkonungur keisara Kína.

Þetta tímabil endað 1592 þegar Japanir gerðu misheppnaða innrás í landið. Fleiri innrásartilraunir fylgdu næstu árin, sú síðasta 1598. Japönum tókst ekki að ná landinu undir sig en rændu og ruppluðu allt að landmærunum að Kína og Kórea náði sér aldrei eftir þetta.

Konungar Kóreu reyndu að loka landinu gagnvart öllum ríkjum nema Kína frá 1637 og tókst það að mestu í meir en tvær aldir.

Nútími

breyta

Á síðari helmingi 19. aldar var mikill uppgangur í Japan, efnahags- og herðnaðarlega. Árið 1876 þvinguðu Japanir ráðamenn Kóreu að opna landið að nýju fyrir umheiminum. Eftir að Japanir höfðu borið sigur yfir keisaradæmi Tjingveldisins í Kína í styrjöldinni 1894-1895 höfðu þeir sig enn meir frammi gagnvart Kóreu og öðrum löndum í Austur-Asíu. Formleg yfirráð Kínakeisara yfir kóreska konungsríkinu voru afnumin 1894 en við tóku raunveruleg japönsk yfirráð. Þrátt fyrir andstöðu valdamanna og sérlega Min Myongsong drottningar (sem Japanir myrtu 1895[5]) og það að landið var gert að keisaradæmi 1897 var yfirgangur Japana slíkur að ekkert gat hindrað að Kórea var gert að japönsku verndarsvæði 1905 og síðan að formlegri nýlendu 1910.

Yfirráð Japan og skipting Kóreu

breyta
 
Kóreskir kynlífsþrælar

Japanir byggðu upp iðnað og samgöngukerfi í Kóreu en mikil harðneskja einkenndi yfirráð þeirra.[6] Í rauninni reyndu japönsk yfirvöld að útýma kóreskri menningu. Öllum Kóreumönnum var gert að taka upp japönsk nöfn[7] og japanska gerð að eina leyfilega kennslumálinu í öllu menntakerfinu og einnig í öllum fjölmiðlum. Samskipti Japana og Kóreumanna versnaði til muna þegar seinni heimsstyrjöldin hófst. Fjöldi Kóreumanna voru fluttir til Japans nánast sem þrælar til að vinna í hernaðariðnaðinum og tugir þúsunda voru neyddir til að berjast í japanska hernum.[8] Þar að auki var fjöldi kvenna, flestra á unglingsaldri, neyddar í kynlífsþrælkun fyrir japanska hermenn. Ekki er vitað með vissu hversu margar þær voru, fjöldi sagnfræðinga telja þær hafi verið um 200 þúsund en japanskir sagnfræðingar telja að þær hafi verið um 20 þúsund og kínverskir sagnfræðingar 410 þúsund.[9]

Fjöldi Kóreumanna, þar á meðal fjölskylda Kim Il Sung, flúði til Kína og Rússlands á þeim áratugum sem Japanir stjórnuðu landinu og stunduðu skæruhernað gegn þeim, bæði á Kóreuskaganum og í Mansjúríu allt frá 1931.

Í lok seinni heimsstyrjaldinnar árið 1945 þegar Japanir voru að því komnir að gefast upp sendu Sovétríkin að norðan og Bandaríkin að sunnan herlið inn á Kóreuskagann. Þessar hersveitir mættust við 38. breiddargráðuna og skiptu þar með upp landinu í það sem síðar varð Norður- og Suður-Kórea. Ætlunin var að landið yrði eitt og sameinað sjálfstætt ríki, en kalda stríðið gerði að það varð þó fljótt ljóst að svo yrði ekki. Þann 15. ágúst 1948 var Lýðveldið Kórea stofnað með Syngman Rhee sem fyrsta forseta og 9. september sama ár var Alþýðulýðveldið Kórea stofnað med Kim Il Sung í forsæti og þar með var landinu skipt í norður og suður við 38. breiddargráðuna.

Kóreustríðið

breyta

Kóreustríðið braust út með innrás Norður-Kóreu yfir 38. breiddargráðuna 25. júní 1950 og lauk með vopnahléi 27. júlí 1953. Sovétríkin tóku ekki þátt í starfsemi Sameinuðu þjóðanna á þessum tíma og vesturveldin fengu þess vegna meirihluta fyrir stuðningi við Suður-Kóreu. Í raun var það einkum Bandaríkjaher sem barðist undir fána Sameinuðu þjóðanna með Suður-Kóreumönnum.

Kínverjar sendu her til aðstoðar Norður-Kóreu þegar hersveitir undir fána Sameinuðu þjóðanna nálguðust landamærin við Kína.

Stríðinu lauk með jafntefli og eftir það var skiptingin milli Norður- og Suður-Kóreu nokkurn vegin sú sama og fyrir stríðið. Í stríðinu dóu meira en 2,5 milljónir manna, allt að helmingur óbreyttir kóreskir borgarar. Kóreustríðið er gjarnan talið fyrstu vopnuðu átök Kalda stríðsins.[10] Formlega er einungis vopnhlé milli Norður- og Suður-Kóreu og eru enn sendifulltrúar Sameinuðu þjóðanna sem fylgjast með að það sé ekki brotið.

Bæði kóresku ríkin hafa haft sameiningu ríkjanna sem mikilvæg stefnumál allt frá endalokum Kóreustríðsins en líkurnar eru ekki stórar enda hafa ríkishlutarnir þróast á gjörólíkan hátt, menningarlega, stjórnmálalega og ekki síst efnahagslega.

Tilvísanir

breyta
  1. Yi Seon-bok and G A Clark. 1983. „Observations on the Lower and Middle Paleolithic of Northeast Asia“. Current Anthropology 24(2): 181–202.
  2. Carter J. Eckert, el., „Korea, Old and New: A History“, 1990, 2
  3. http://www.korean.go.kr/eng_hangeul/setting/002.html The National Academy of the Korean Language The Background of the invention of Hangeul.
  4. The Academy of Korean Studies, 2005, 168–173.
  5. Andre Schmid, 2002, 72; The Academy of Korean Studies, 2005, 43
  6. James Hoare, Susan Pares, 1988, 50–67.
  7. Miyata, Setsuko (宮田 節子) (1992). Creating Surnames and Changing Given Names (創氏改名). Tokyo: Akashi-shoten (明石書店). ISBN 4-7503-0406-9.
  8. Keizo Yamawaki (山脇 啓造) (1994). Japan and Foreign Laborers: Chinese and Korean Laborers in the late 1890s and early 1920s (近代日本と外国人労働者―1890年代後半と1920年代前半における中国人・朝鮮人労働者問題). Tokyo: Akashi-shoten (明石書店). ISBN 4-7503-0568-5.
  9. „Comfort-Women.org“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. nóvember 2009. Sótt 15. apríl 2012.
  10. Millet (2009).

Heimildir

breyta
  • Millet, Allan R., „Korean War“, Britannica Online Encyclopedia, 26. apríl 2009.
  • Miriam T. Stark (2005). Archaeology Of Asia. Boston: Blackwell Publishing. ISBN 1-4051-0212-8.
  • S.C.Yang (1999). The North and South Korean political systems: A comparative analysis. Seoul: Hollym. ISBN 1-56591-105-9.
  • Michael J. Seth (2006). A Concise History of Korea. Lanham: Rowman & Littlefield. ISBN 0-7425-4005-7, 9780742540057.
  • James Hoare, Susan Pares (1988). Korea: an introduction. New York: Routledge. ISBN 0-7103-0299-1, 9780710302991.
  • The Academy of Korean Studies (2005). Korea through the Ages Vol 1 & Vol. 2. Seoul: The Editor Publishing Co.. ISBN 89-7105-544-8.
  • Michael Edson Robinson (2007). Korea's twentieth-century odyssey. Honolulu: University of Hawaii Press. ISBN 0-8248-3174-8, 9780824831745.
  • Kenneth B. Lee (1997). Korea and East Asia: the story of a Phoenix. Santa Barbara: Greenwood Publishing Group. ISBN 0-275-95823-X, 9780275958237.

Tenglar

breyta