Egyptaland hið forna

siðmenning frá Norðaustur-Afríku

Egyptaland hið forna var fornt siðmenningarsamfélag sem þróaðist á bökkum Nílarfljóts í Norðaustur-Afríku og náði hvað mestri útbreiðslu á 2. árþúsundinu f.Kr. á tímabili sem er kallað nýja ríkið. Ríkið náði frá Nílarósum í norðri allt suður að Jebel Barkal við fjórðu flúðirnar í Níl. Á vissum tímum náði veldi Egypta yfir suðurhluta þess sem kallað hefur verið Austurlönd nær, strönd Rauðahafs, Sínaískaga og Vestureyðimörkina (sem nú skiptist milli Egyptalands og Líbýu, aðallega kringum vinjarnar).

Pýramídi Khafres og Sfinxinn í Gíza frá 3. árþúsundi f.Kr.

Menning Forn-Egypta stóð í um þrjú og hálft árþúsund. Hún hófst með sameiningu ríkjanna í Nílardal um 3150 f.Kr. og er ýmist talin hafa liðið undir lok þegar Rómaveldi lagði ríkið undir sig árið 30 f.Kr. sem varð upphafið að gagngerum breytingum í stjórnkerfi og trúarbrögðum landsins, eða þegar Rasídúnar lögðu Egyptaland undir sig árið 642. Skömmu fyrir það hurfu síðustu merkin um iðkun fornegypskra trúarbragða. Sögu Egyptalands hins forna er skipt í þrjú megintímabil og þrjú millitímabil sem talin eru hafa einkennst af óstöðugleika í stjórn landsins: gamla ríkið, fyrsta millitímabilið, miðríkið, annað millitímabilið, nýja ríkið og þriðja millitímabilið. Eftir þriðja millitímabilið tók síðtímabilið við þegar Akkamenídaríkið lagði landið undir sig. Því lauk með landvinningum Alexanders mikla, en þá tóku grískættaðir Ptólemajar við völdum í Egyptalandi. Rómverjar, undir stjórn Octavíanusar, lögðu Egyptaland Ptólemaja undir sig 30 f.Kr. og gerðu það að rómversku skattlandi.

Undirstaða ríkisins var frjósemi Nílardalsins sem stafaði af reglulegum flóðum í ánni. Bygging áveitna og umframframleiðsla sem þær gerðu mögulega var ein orsök þess að til varð háþróað samfélag með ríkistrúarbrögðum, ritmáli, verslun og her. Stjórnsýsla var í höndum skrifara, presta og landstjóra en efstur sat konungurinn, faraó, sem talinn var guðaættar í hinum flóknu fornegypsku trúarbrögðum.

Íburðarmikil hof, grafhýsi og minnismerki úr steini eru meðal þess sem einkennir menningu Forn-Egypta og bera vitni um þróaða steinsmíði og verkfræði. Forn-Egyptar þróuðu líka stærðfræði, einfalda og áhrifaríka læknisfræði, áveitukerfi og jarðyrkjuaðferðir, fyrstu plankabátana svo vitað sé, aðferðir til að gljá leir og nýjar bókmenntagreinar og gerðu elsta þekkta friðarsamninginn við Hittíta, frá 1259 f.Kr. Fornegypsk menning hefur haft víðtæk áhrif um allan heim. Trúarbrögð Forn-Egypta, byggingarlist og myndlist höfðu mikil áhrif á bæði Grikki og Rómverja, og hin stóru minnismerki, hofbyggingar og píramídar hafa verið mönnum innblástur fram á okkar daga. Fornleifarannsóknir og ráðning ritmáls Forn-Egypta eftir aldamótin 1800 veittu nýja innsýn í þennan menningarheim. Egypsk fræði fást við rannsóknir á sögu og menningu Forn-Egypta.

Saga breyta

Frjósöm flóðslétta Nílar hefur verið undirstaða lífs á því svæði frá upphafi mannkynssögunnar.[1] Þar gátu menn hafið fasta búsetu með landbúnaði og flóknara stjórnkerfi sem varð ein undirstaða þróunar siðmenningar.[2] Nútímamenn sem lifðu af veiðum og söfnun settust þar að undir lok pleistósen, fyrir um 120.000 árum. Seint á fornsteinöld varð hið þurra loftslag Norður-Afríku enn þurrara og heitara svo byggðin takmarkaðist við fljótið og næsta nágrenni þess.

Elstu menningarsamfélög breyta

 
Dæmigerð krukka frá Naqada II-menningunni, skreytt með myndum af gasellum.

Fyrir tíma fyrstu konungsættanna var loftslag í Egyptalandi mun rakara en það er í dag. Stór svæði í Egyptalandi voru þakin gresju með stökum trjám þar sem stórar hjarðir klaufdýra gengu um og bitu. Á öllum svæðum var miklu meiri gróður en nú og stórir flokkar vatnafugla höfðust þar við. Egyptar lifðu af veiðum og hófu kvikfjárrækt á þessum tíma.[3]

Um mitt 6. árþúsundið f.Kr. má greina nokkur aðgreind menningarsamfélög meðal lítilla ættbálka í Nílardal, sem lifðu á landbúnaði og kvikfjárrækt og skildu eftir sig einkennandi leirker og persónulega muni á borð við perlur, kamba og armbönd. Stærst þessara samfélaga í suðurhluta Nílardals var Badarimenningin sem er líklega upprunnin í Vestureyðimörkinni. Badarimenningin er þekkt fyrir vandaða leirmuni, steinverkfæri og notkun á kopar.[4]

Á eftir Badarimenningunni kom Naqada-menningin, sem skiptist í Naqada I, Naqada II og Naqada III.[5] Á þeim tíma tóku Egyptar að flytja inn hrafntinnu frá Eþíópíu til að búa til hnífa og aðra nytjahluti.[6][7] Á tíma Naqada II-menningarinnar (um 3600-3350 f.Kr.) hófst verslun við Botnalönd og Mesópótamíu.[8] Á tíma Naqada-menningarinnar þróaðist samfélagið í Nílardalnum úr dreifbýlu bændasamfélagi í öflug miðstýrð smáríki. Leiðtogar Naqada III-menningarinnar komu sér upp höfuðborg, fyrst í Nekhen og síðan í Abýdos, og stækkuðu ríki sitt meðfram fljótinu í norðurátt.[9] Þeir áttu viðskipti við Núbíumenn í suðri, eyðimerkursamfélögin í Vestureyðimörkinni og samfélög Mið-Austurlanda í austri.[10]

Efnismenning Naqada-tímabilsins ber vitni um aukinn auð og völd yfirstéttarinnar með meiri fjölbreytni og fáguðum persónulegum munum á borð við kamba, smástyttur, máluð leirker, vandaða skrautvasa, snyrtispjöld og skartgripi úr gulli, lapis og fílabeini. Þeir þróuðu leirgljáa sem var notaður í mörg þúsund ár til að skreyta bolla, skartgripi og styttur.[11] Seint á þessu tímabili koma fram elstu dæmin um rittákn sem áttu eftir að þróast út í helgirúnir Forn-Egypta.[12]

Fyrstu konungsættirnar (um 3150–2686 f.Kr.) breyta

 
Narmerspjaldið segir frá sameiningu ríkjanna tveggja.[13]

Tímabil elstu konungsættanna í Egyptalandi fer nokkurn veginn saman við tíma Súmer, Akkad og Elam í Mesópótamíu. Á 3. öld f.Kr. skráði egypski presturinn Maneþon lista yfir konunga landsins frá þeim fyrsta, Menes, að hans eigin tíma, og skipti þeim milli 30 konungsætta. Þessi flokkun hans er enn notuð. Hann hóf listann á konungi að nafni Meni (Menes á grísku) sem hann áleit að hefði fyrstur sameinað Efra Egyptaland og Neðra Egyptaland í eitt ríki.[14]

Sameining alls landsins í eitt ríki virðist hafa gerst á mun lengri tíma en sagnaritarar Egypta héldu fram, og engar samtímaheimildir eru til um konung að nafni Menes. Sumir fræðimenn telja að sagnkonungurinn Menes gæti verið Narmer, sem er sýndur í konungsskrúða á Narmerspjaldinu sameina tákn landanna tveggja.[15] Á þessum tíma, sem hófst í kringum árið 3000 f.Kr., náðu fyrstu konungsættirnar völdum yfir Neðra Egyptalandi með höfuðborg í Memfis þar sem þær gátu stjórnað frjósömu landsvæði Nílarósa og jafnframt ríkt yfir verslunarleiðum til Botnalanda. Aukin völd konunga þessa tímabils birtast í stórum mastöbum, grafhýsum úr leirsteinum sem þeir reistu sér ásamt hofbyggingum við Abýdos. Hofin voru ætluð til trúarathafna þar sem hinn látni konungur var dýrkaður sem guð.[16] Með því að tengja embættið við trúna á þennan hátt vildu konungarnir tryggja völd sín yfir landi, vinnu og auðlindum sem voru undirstaða þróunar ríkisins.[17]

Gamla ríkið (2686–2181 f.Kr.) breyta

 
Stytta af Khafre sem lét reisa stóra pýramídann í Gísa.

Á tímum gamla ríkisins áttu sér stað miklar framfarir á sviði byggingarlistar, myndlistar og tækni. Undirstaða framfara var aukin framleiðni í landbúnaði og fólksfjölgun í kjölfarið, og þróun miðstjórnarvaldsins.[18] Pýramídarnir í Gísa og Sfinxinn í Gísa voru reist á tímum gamla ríkisins. Undir stjórn vesírsins voru skattar innheimtir og notaðir til að fjármagna áveitur til að auka uppskeru. Bændur voru þvingaðir til að vinna byggingarvinnu og dómskerfi var komið á til að tryggja frið.[19]

Þegar stjórnsýslan óx varð til ný stétt skrifara og embættismanna. Þeir fengu landareignir frá konungi í skiptum fyrir þjónustu. Konungarnir gáfu líka landareignir fyrir hofbyggingar og grafhýsi, til að tryggja dýrkun konungsins eftir dauða hans. Fræðimenn telja að með tímanum hafi þetta leitt til hnignunar þar sem hagkerfið gat ekki staðið undir stóru miðstjórnarvaldi.[20] Afleiðingin var að það dró úr völdum konungsins og héraðsstjórar sem ríktu yfir fylkjum Egyptalands fengu aukið sjálfstæði. Við það bættust þurrkar á milli 2200 og 2150 f.Kr.[21] Talið er að þá hafi hafist 140 ára tímabil hungursneyðar og átaka sem er þekkt sem fyrsta millitímabilið.[22]

Fyrsta millitímabilið (2181–2055 f.Kr.) breyta

Eftir að miðstjórnarvaldið í Egyptalandi hrundi með gamla ríkinu kom upp kreppa þar sem fylkisstjórar gátu ekki lengur reitt sig á konunginn og í kjölfarið fylgdi matarskortur og hungursneyðir, átök og lítil borgarastríð. Þrátt fyrir þetta áttu sum fylkin blómaskeið á þessum tíma, þar sem þau þurftu ekki lengur að greiða skatt til konungsins. Sum fylkin urðu því auðugri en áður, sem sést á veigameiri gröfum hjá öllum stéttum.[23] Handverksfólk tók upp aðferðir og myndmál sem áður tilheyrðu konungsættinni, og skrifarar þróuðu bókmenntir sem einkenndust af bjartsýni og frumleika.[24]

Fylkisstjórarnir tóku brátt að keppa um landsvæði og völd. Um 2160 f.Kr. höfðu ráðamenn í Herakleopolis Magna náð yfirráðum í Neðra Egyptalandi í norðri, meðan önnur ætt, Intef-ættin í Þebu, náði völdum í Efra Egyptalandi í suðri. Völd Intef-ættarinnar uxu og hún stækkaði ríki sitt til norðurs þar til stríð milli ríkjanna varð óumflýjanlegt. Um árið 2055 f.Kr. náðu herir Þebu undir stjórn Mentúhóteps 2. að sigra herinn frá Herakleopolis og sameina löndin tvö. Þar með hófst ný efnahagsleg og menningarleg endurreisn sem er þekkt sem miðríkið.[25]

Miðríkið (2134–1690 f.Kr.) breyta

 
Tréstytta með rauða kórónu Neðra Egyptalands; líklega Amenemhat 2. eða Senúsret 2..

Konungar miðríkisins endurheimtu stöðugleika og velmegun ríkisins, sem varð til þess að myndlist, bókmenntir og byggingarlist blómstruðu, og bygging stórra hofbygginga hófst á ný.[26] Mentúhótep 2. og eftirmenn hans af elleftu konungsættinni ríktu frá Þebu, en þegar vesírinn Amenemhat 2. tók við konungdómi við upphaf tólftu konungsættarinnar um 1985 f.Kr., flutti hann höfuðborgina til Itjtawy í Faiyum.[27] Þar hófu konungarnir umfangsmikla landheimtu og byggingu áveitu til að auka framleiðni í landbúnaði. Herinn lagði auk þess undir sig meira land í Núbíu þar sem voru auðugar grjót- og gullnámur. Við austurmörk Nílarósa reistu verkamenn mikil varnarvirki sem voru kölluð „Konungsmúrinn“, til að verja landið fyrir árásum óvina úr austri.[28]

Þegar yfirráð miðstjórnarvaldsins yfir auðæfum landsins voru tryggð, fjölgaði fólki og listir og trúariðkun blómstruðu. Ólíkt gamla ríkinu þar sem trúarathafnir snerust aðeins um efstu lög samfélagsins, sjást ummerki um persónulega trúrækni einstaklinga af alþýðustétt.[29] Bókmenntir frá tímum miðríkisins eru ritaðar af öryggi og fágun.[24] Í lágmyndum og mannamyndum tímabilsins, sem náðu nýjum hæðum tæknilegrar fullkomnunar, sjást fíngerð persónuleg einkenni.[30]

Síðasti stórkonungur miðríkisins, Amenemhat 3., leyfði semískumælandi landnemum frá Kananslandi að setjast að í Nílarósum vegna skorts á vinnuafli fyrir námavinnslu og byggingarframkvæmdir á hans vegum. Þessar miklu framkvæmdir, ásamt flóðum í Níl á seinni ríkisárum hans, íþyngdu efnahag ríkisins og hrundu af stað löngu hnignunartímabili sem leiddi til annars millitímabilsins á tíma þrettándu og fjórtándu konungsættanna. Á þeim tíma náðu landnemarnir frá Kanan meiri völdum yfir Nílarósum og komust loks til valda í Egyptalandi sem Hyksosarnir.[31]

Annað millitímabilið (1674–1549 f.Kr.) breyta

Um 1785 f.Kr. hafði dregið úr völdum konunga miðríkisins og fólk frá Vestur-Asíu, sem Egyptar nefndu Hyksos („erlendir ráðamenn“), tók völdin í Egyptalandi og setti upp höfuðborg í Avaris. Konungar miðríkisins hröktust til Þebu og neyddust til að greiða Hyksoskonungunum skatt.[32] Hyksosarnir tóku upp egypska stjórnhætti og tóku sér konungsnafn. Þeir komu með nýja hernaðartækni, eins og samsetta boga og stríðsvagna.[33]

Konungarnir í Þebu hröktust suður á bóginn og voru á milli steins og sleggju, með Hyksosana í norðri og bandamenn þeirra í Núbíu, Konungsríkið Kús, í suðri. Eftir margra ára skattgreiðslur tókst Þebu að hefja stríð gegn Hyksosunum sem tók yfir 30 ár og stóð til 1555 f.Kr.[32] Konungarnir Sekenjenre 2. og Kamósis gátu að lokum sigrað Núbíumenn í suðri, en tókst ekki að sigra Hyksosana. Eftirmanni Kamósiss, Amósis 1., tókst að hrekja Hyksosana frá Egyptalandi. Hann stofnaði nýja konungsætt og í nýja ríkinu sem á eftir fylgdi lögðu konungarnir áherslu á uppbyggingu og skipulag hersins. Þeir reyndu að þenja út landamæri ríkisins til austurs og leggja undir sig Austurlönd nær.[34]

Nýja ríkið (1549–1069 f.Kr.) breyta

 
Gullgríman úr gröf Tútankamons.

Faraóar nýja ríkisins náðu að byggja upp ríkidæmi af áður óþekktri stærðargráðu með því að styrkja landamærin og stjórnmálatengsl við nágrannaríki, eins og Mitanniveldið, Assýríu og Kanansland. Herfarir Tútmósiss 1. og barnabarns hans, Tútmósiss 3., stækkuðu áhrifasvæði faraóanna og sköpuðu stærra heimsveldi en nokkru sinni áður í sögu Egyptalands. Frá Mernepta notuðust konungarnir við titilinn „faraó“.

Á milli þeirra ríkti drottningin Hatsjepsút sem faraó. Hún hóf stórar byggingaframkvæmdir til að endurreisa hof sem Hyksosarnir höfðu eyðilagt, og sendi leiðangra til Púnt og Sínaí.[35] Þegar Tútmósis 2. lést árið 1425 f.Kr. náði Egyptaland frá landamærum Konungsríkisins Niya í norðvesturhluta Sýrlands, að fjórðu flúðunum í Níl í Núbíu. Með þessu tryggði ríkið verslunarleiðir með mikilvægan efnivið eins og brons og við.[36]

Faraóar nýja ríkisins reistu stór hof til að heiðra guðinn Amún í miðstöð dýrkunar hans í Karnak. Þeir reistu líka minnisvarða til að minna á afrek sín, bæði raunveruleg og ímynduð. Hofið í Karnak er stærsta hof sem reist hefur verið í Egyptalandi.[37]

Um árið 1350 f.Kr. var stöðugleika ríkisins ógnað þegar Amenhótep 4. tók við völdum og hóf röð róttækra umbóta. Hann breytti nafni sínu í Akenaten, hélt fram dýrkum sólskífunnar, Aten, sem æðsta guðs og hafnaði dýrkun annarra guða. Hann flutti höfuðborgina til nýbyggðu borgarinnar Akenaten (í dag Amarna).[38] Borgin byggðist á nýjum trúarbrögðum, atenisma, og nýrri tegund myndlistar, amarnalistar. Eftir lát hans hurfu Egyptar fljótt frá dýrkun Atens og endurreistu hin hefðbundnu trúarbrögð. Næstu faraóar, Tútankamon, Ay og Hóremheb, reyndu að eyða öllum ummerkjum um villutrú Akenatens. Valdatíð hans er í dag kölluð Amarnatímabilið.[39]

 
Fjórar risavaxnar styttur af Ramses 2. standa við innganginn að hofi hans í Abú Simbel.

Um 1279 f.Kr. komst Ramses 2. til valda. Hann er líka þekktur sem „Ramses mikli“. Hann reisti fleiri hof, styttur og einsteinunga, og eignaðist fleiri börn, en nokkur annar faraó í sögunni. Sagt er að hann hafi eignast yfir 100 börn.[40] Ramses var herkonungur sem leiddi her sinn gegn Hittítum í orrustunni um Kadesh (þar sem Sýrland er í dag). Þegar átökin leiddu til þráteflis féllst hann á fyrsta friðarsamning sögunnar (sem vitað er um) 1258 f.Kr.[41]

Vegna auðæfa Egyptalands varð landið að skotmarki fyrir innrásartilraunir, sérstaklega frá Líbíu (Berbum) í vestri og sæþjóðunum í norðri. Fræðimenn hafa gert sér í hugarlund að sæþjóðirnar hafi verið bandalag sjóræningja frá Eyjahafi og Miðjarðarhafi. Í byrjun stóðst herlið Egypta þessar árásir, til dæmis í orrustunni um Perire, en á endanum missti Egyptaland lönd sín í suðurhluta Kananslands til Assýringa. Innanlandsvandamál eins og spilling, grafarrán og óeirðir við lok nítjándu konungsættar veiktu ríkið innan frá. Æðstuprestar Amúns í Þebu náðu að safna til sín miklum auðæfum og völdum sem á endanum varð til þess að landið klofnaði og þriðja millitímabilið hófst.[42]

Þriðja millitímabilið (1069–653 f.Kr.) breyta

Eftir andlát Ramsesar 11. árið 1078 f.kr. tók Smendes við völdum yfir norðurhluta Egyptalands og ríkti frá borginni Tanis. Suðurhlutinn var í reynd undir stjórn æðstupresta Amúns (21. og 22. konungsætt) sem viðurkenndu Smendes aðeins að nafninu til.[43] Á þessu tímabili höfðu Líbíumenn sest að í vesturhluta Nílarósa og höfðingjar þeirra tóku völdin undir stjórn Sjosjenks 1. árið 945 f.Kr. Hann stofnaði líbísku konungsættina eða Búbastiskonungsættina sem ríkti í um tvær aldir. Sjosjenk náði líka völdum í suðurhlutanum með því að skipa fjölskyldumeðlimi í valdastöður meðal prestanna. Stjórn Líbíumanna hnignaði þegar aðrar konungsættir komu fram í Leontopolis í norðri og Kús í suðri.

 
Styttur af tveimur faraóum 25. konungsættar og fleiri konungum Kús.[44]

Um 727 gerði konungur Kús, Píje, innrás í Egyptaland. Hann náði völdum í Þebu og loks í Nílarósum og stofnaði 25. konungsættina.[45] Einn konungur ættarinnar, Taharka, náði að skapa heimsveldi sem var næstum jafn stórt og nýja ríkið. Faraóar 25. konungsættar reistu og endurreistu hofbyggingar og minnismerki eftir öllum árdal Nílar, þar á meðal í Memfis, Karnak, Kawa og Jebel Barkal.[46] Á þessum tíma hófst bygging núbískra pýramída í stórum stíl.[47][48][49]

Undir lok þriðja millitímabilsins dró úr orðspori Egyptalands sem stórveldis. Bandamenn Egypta voru komnir á áhrifasvæði Assýríu og um 700 f.Kr. varð stríð milli stórveldanna óumflýjanlegt. Á milli 671 og 667 hófst innrás Assýríu í Egyptaland. Ríkisár bæði Taharkas og eftirmanns hans, Tanútamúns, einkenndust af stöðugum átökum við Assýríumenn. Þótt Egyptar næðu að vinna mikilvæga sigra í byrjun tókst Assýringum að lokum að hrekja faraóana frá Kús aftur til Núbíu, leggja Memfis undir sig og ræna hof Þebu.[50]

Síðtímabilið (653–332 f.Kr.) breyta

Assýríumenn skildu stjórn Egyptalands eftir í höndum landstjóra sem urðu þekktir sem konungarnir í Saís, eða tuttugasta og sjötta konungsættin. Um 652 f.Kr. hrakti konungurinn Psamtik 1. Assýríumenn frá Egyptalandi með aðstoð grískra málaliða sem mynduðu fyrsta flota Forn-Egypta. Grísk áhrif breiddust út þegar þeir stofnuðu borgríkið Naukratis í Nílarósum. Í valdatíð konunganna í Saís varð stutt efnahagslegt og menningarlegt blómaskeið, en árið 525 f.Kr. hófu Persar innrás í Egyptaland undir stjórn Kambýsess 2. Þeim tókst að lokum að hernema faraóinn Psamtik 3. í orrustunni um Pelúsíum. Kambýses 2. tók upp titilinn faraó, en stýrði Egyptalandi frá Íran í gegnum satrap (landstjóra). Á 5. öld f.Kr. voru gerðar nokkrar uppreisnir gegn persneskum yfirráðum, án þess að Egyptar næðu að losa sig undan yfirráðum þeirra að fullu.[51]

Egyptaland, Kýpur og Föníkía voru sett saman í sjötta landstjóraumdæmi Akkamenídaveldisins. Þetta fyrsta tímabil persneskra yfirráða í Egyptalandi varð þekkt sem tuttugasta og sjöunda konungsættin. Því lauk árið 402 f.Kr. þegar Egyptar fengu sjálfstæði á ný undir röð innlendra konungsætta. Síðasta konungsætt þessa tímabils, þrítugasta konungsættin, reyndist vera síðasta innlenda konungsætt Egyptalands hins forna. Henni lauk í valdatíð Nektanebos 2. Persar náðu að leggja landið aftur undir sig um stutt skeið (þrítugasta og fyrsta konungsættin) árið 343 f.Kr., en skömmu síðar gafst persneski landstjórinn Mazaces upp fyrir Alexander mikla án átaka.[52]

Ptólemajaveldið (332–30 f.Kr.) breyta

 
Andlitsmynd af Ptólemajosi 6. Fílómetor með tvöfalda kórónu Egyptalands á höfði.

Árið 332 f.Kr. lagði Alexander mikli Egyptaland undir sig eftir litla mótstöðu frá Persum og var fagnað sem frelsara af Egyptum. Eftirmenn Alexanders, hinir makedónsku Ptólemajar, stýrðu landinu samkvæmt egypskum hefðum frá nýrri höfuðborg, Alexandríu. Borgin varð miðstöð hellenískra yfirráða í Egyptalandi, menntunar og menningar. Þar reis meðal annars bókasafnið í Alexandríu sem hluti af háskólanum Múseion.[53] Vitinn í Alexandríu var eitt af sjö undrum veraldar. Ptólemajarnir lögðu áherslu á verslun og arðbær fyrirtæki, eins og framleiðslu á papýrus.[54]

Hellenísk menning ruddi ekki egypskri menningu úr vegi og Ptólemajarnir studdu aldagamlar hefðir til að tryggja völd sín meðal almennings. Þeir reistu ný hof í egypskum stíl, fjármögnuðu trúariðkanir og tóku sjálfir að sér hlutverk faraóa. Nýjar hefðir urðu til við samruna fornegypskra trúarbragða og forngrískra trúarbragða og nýir guðir, eins og Serapis, urðu til. Forngrísk myndlist hafði áhrif á hefðbundna egypska myndlist. Þrátt fyrir þetta stóðu Ptólemajarnir oft frammi fyrir uppreisnum innfæddra, ættardeilum og ógninni af múgnum í Alexandríu sem myndaðist eftir lát Ptólemajosar 4..[55] Rómaveldi tók auk þess að sýna landinu meiri áhuga eftir því sem það varð háðara korninnflutningi þaðan. Uppreisnir innfæddra Egypta, valdabrölt stjórnmálamanna og voldugir óvinir í Austurlöndum nær, ógnuðu stjórn Ptólemajanna. Að lokum sendi Rómaveldi herlið þangað til að tryggja hagsmuni sína í landinu.[56]

Rómverska tímabilið (30 f.Kr. – 641 e.Kr.) breyta

 
Múmíumyndirnar frá Fayum eru vitnisburður um samruna egypskrar og rómverskrar menningar.

Egyptaland varð skattland innan Rómaveldis árið 30 f.Kr. eftir ósigur Markúsar Antóníusar og drottningar Ptólemaja, Kleópötru 7., í orrustunni við Actium gegn Oktavíanusi sem seinna varð Rómarkeisari (Ágústus). Rómverjar voru háðir korninnflutningi frá Egyptalandi og rómverski herinn, undir stjórn umdæmisstjóra sem var skipaður af keisaranum, sá um að berja niður uppreisnir, innheimta skatta og stöðva ræningja sem voru orðnir landlægt vandamál á þessum tíma.[57] Alexandría varð enn mikilvægari en áður sem áfangastaður á verslunarleiðum til austurlanda þaðan sem dýrar munaðarvörur voru fluttar til Rómaborgar.[58]

Rómverjar voru ekki jafn umburðarlyndir og Grikkir gagnvart trúarbrögðum Egypta, en sumar hefðir eins og múmíugerð og dýrkun hefðbundinna guða héldu áfram.[59] Málaðar andlitsmyndir á múmíum var listgrein sem blómstraði á þessum tíma og sumir rómverskir keisarar létu gera myndir af sér í gervi faraóa, þótt það væri aldrei í sama mæli og hjá Ptólemajum. Keisararnir bjuggu ekki í Egyptalandi og tóku ekki að sér að framkvæma þær helgiathafnir sem tengdust dýrkun faraóanna. Stjórnsýslan var á hendi Rómverja og útilokaði innfædda Egypta.[59]

Frá miðri fyrstu öld tók kristni að festa rætur í Egyptalandi. Í byrjun var hún álitin enn ein trúarbrögðin sem hægt var að aðhyllast, en kristnir menn reyndust ósveigjanlegri en aðrir og reyndu að snúa fólki frá iðkun fornegypskra og forngrískra trúarbragða sem ógnaði innlendum hefðum. Afleiðingin var ofsóknir yfirvalda gegn kristnum sem náði hápunkti með hreinsunum Díókletíanusar árið 303. Að lokum vann kristnin samt.[60] Árið 391 setti kristni keisarinn Þeódósíus 1. lög sem bönnuðu heiðnar athafnir og kváðu á um lokun heiðinna hofa.[61] Í Alexandríu hófust uppþot gegn heiðnum trúarbrögðum þar sem myndir og hof voru eyðilögð.[62] Vegna þessa voru hin hefðbundnu egypsku trúarbrögð í stöðugri varnarstöðu. Þótt almenningur talaði áfram egypska tungumálið hvarf þekkingin á helgirúnum smám saman þegar gamla prestastéttin dróst saman. Egypsku hofin voru gerð að kirkjum eða yfirgefin í eyðimörkinni.[63]

Þegar Rómaveldi klofnaði á 4. öld var Egyptaland á áhrifasvæði Austrómverska keisaradæmisins með höfuðborg í Konstantínópel. Áhrif Rómaveldis minnkuðu og Egyptaland var fyrst hernumið af Sassanídum 618-628 og síðan af Rasídúnum 639-641 sem markar bæði endalok yfirráða Rómaveldis og þess tímabils sem er almennt talið til Egyptalands hins forna.

Tilvísanir breyta

  1. Shaw (2003), bls. 17, 67–69.
  2. Shaw (2003), bls. 17.
  3. Ikram (1992), bls. 5.
  4. Hayes (1964), bls. 220.
  5. Kemp (1989), bls. 14.
  6. Aston, Harrell & Shaw (2000), bls. 46–47.
  7. Aston (1994), bls. 23–26.
  8. Ataç (2014), bls. 424–425.
  9. Shaw (2003), bls. 61.
  10. Shaw (2003), bls. 61; Ataç (2014), bls. 424–425.
  11. Nicholson & Peltenburg (2000), bls. 178–179.
  12. Allen (2000), bls. 1.
  13. Robins (2008), bls. 32.
  14. Clayton (1994), bls. 6.
  15. Clayton (1994), bls. 12–13.
  16. Shaw (2003), bls. 70.
  17. Early Dynastic Egypt (2001).
  18. James (2005), bls. 40.
  19. Shaw (2003), bls. 102.
  20. Shaw (2003), bls. 116–117.
  21. Hassan (2011).
  22. Clayton (1994), bls. 69.
  23. Shaw (2003), bls. 120.
  24. 24,0 24,1 Shaw (2003), bls. 146.
  25. Clayton (1994), bls. 29.
  26. Shaw (2003), bls. 148.
  27. Clayton (1994), bls. 79.
  28. Shaw (2003), bls. 158.
  29. Shaw (2003), bls. 179–182.
  30. Robins (2008), bls. 90.
  31. Shaw (2003), bls. 188.
  32. 32,0 32,1 Ryholt (1997), bls. 310.
  33. Shaw (2003), bls. 189.
  34. Shaw (2003), bls. 224.
  35. Clayton (1994), bls. 104–107.
  36. James (2005), bls. 48.
  37. Bleiberg (2005), bls. 49-50.
  38. Aldred (1988), bls. 259.
  39. O'Connor & Cline (2001), bls. 273.
  40. Clayton (1994), bls. 146.
  41. Tyldesley (2001), bls. 76–77.
  42. James (2005), bls. 54.
  43. Cerny (1975), bls. 645.
  44. Bonnet (2006), bls. 128.
  45. Shaw (2003), bls. 345.
  46. Bonnet (2006), bls. 142–154.
  47. Mokhtar (1990), bls. 161–163.
  48. Emberling (2011), bls. 9–11.
  49. Silverman (1997), bls. 36–37.
  50. Shaw (2003), bls. 358.
  51. Shaw (2003), bls. 383.
  52. Shaw (2003), bls. 385.
  53. Shaw (2003), bls. 405.
  54. Shaw (2003), bls. 411.
  55. Shaw (2003), bls. 418.
  56. James (2005), bls. 62.
  57. James (2005), bls. 63.
  58. Shaw (2003), bls. 426.
  59. 59,0 59,1 Shaw (2003), bls. 422.
  60. Shaw (2003), bls. 431.
  61. Chadwick (2001), bls. 373.
  62. MacMullen (1984), bls. 63.
  63. Shaw (2003), bls. 445.

Heimildir breyta