Hindúasiður eða hindúatrú (सनातन धर्म; venjulega kallað Sanātana Dharma, gróflega þýtt sem „trúin sem endist“) eru þriðju fjölmennustu trúarbrögð heims. Þau eru einnig meðal elstu trúarbragða sem enn eru iðkuð, komin af sömu rót og trúarbrögð Forngrikkja, Rómverja og norrænna manna. Þau má rekja til indó-evrópsku Vedamenningarinnar um 2000 f.Kr.. Það er þó ekki svo að segja að hindúasiður eins og hann kemur fyrir núna sé gamall, heldur hefur hann breyst mikið í gegnum tíðina með hinum ýmsu breytingum á Indlandsskaganum þar sem trúarbrögðin hafa alltaf verið langmest iðkuð. Hindúasiður er í raun lífsviðhorf frekar en trúarbrögð, að minnsta kosti í hefðbundnum vestrænum skilningi. Í hindúasið eru margir guðir og flokkast trúarbrögðin því sem fjölgyðistrú en mikilvægara atriði en að dýrka guðina er samt að lifa vel, og ná að lokum nirvana með endurholdgun: hinu endanlega stigi sem markar þann áfanga þegar einstaklingurinn losnar úr lífinu. Hindúasiður nútímans er oftast flokkaður í saivisma, shaktisma, vaishnavisma og smarthisma. Upp úr hindúasið má svo segja að trúarbrögðin búddatrú, jainismi og síkismi hafi sprottið en saman mynda þessi fjögur trúarbrögð flokk dharma-trúarbragða.

Om, eða Aum, helgasta orð hindúatrúar.

Flest form hindúasiðar eru fjölgyðistrú. Sumir velja sér einn af mörgum guðum eða gyðjum úr trúarbrögðunum til að trúa á.

 Uppruni hindúasiðar

breyta
 
Hindúamusteri í Penang í Malasíu.

Hindúatrú er elstu trúarbrögð nútímans. Trúin er upprunin í Indusdal í austurhluta Pakistan sem áður fyrr var hluti af Indlandi þar sem 83% íbúanna eru hindúar. Fyrir mörg þúsund árum bjó fólk í stórum borgum í Indusdal. Borgirnar voru háþróaðar á þess tíma mælikvarða, voru með vatnsveitukerfi, brunna og sorphirðu. Fornleifafræðingar hafa sýnt fram á að samfélag borganna hafi verið vel skipulagt og tæknivætt þótt margt sé enn á huldu.

Þjóð sem kallaði sig Aría og bjó norðan við Indusdal fluttist á svæðið og blandaðist íbúunum sem fyrir voru. Sanskrít þróaðist sem ritmál. Sanskrít er skyld öðrum indóevrópskum tungumálum sem töluð eru í dag, til dæmis grísku, ensku og íslensku.

Fyrir mörgum árum var hindúatrú öðruvísi en við þekkjum hana í dag. Hindúar lögðu mikla áherslu á að tilbiðja náttúruguði; til dæmis eldguð, regnguð og guð jarðargróðurs. Elstu helgirit hindúa, Vedaritin, voru rituð fyrir um 2500-3500 árum síðan, á tímum Vedamenningarinnar.

Spámenn eins og Búddha og Mahavira gagnrýndu ríkjandi valda- og stéttakerfi hindúa og efuðust einnig um ákveðna þætti átrúnaðarins. Búddha og Mahavira höfðu mikil áhrif og trúin tók því miklum breytingum á þeirra tíma. Miðpunktur trúarinnar þá voru skyldur einstaklingsins sem nefndust Dharma. Mikilvægustu og helstu helgiritin voru skrifuð á þessum tíma, en fram að því hafði þekkingin borist munnlega.

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.