Múhameð

Arabískur trúarleiðtogi og stofnandi íslamstrúar

Múhameð (محمد Muhammad) er, samkvæmt íslam, síðasti spámaður Guðs á jörðinni. Hann var uppi frá 570 til 632. Markar fæðing hans eins konar nýja tíma í Mið-Austurlöndum þar sem hann fæðist um svipað leiti og fornöldinni lýkur. Múhameð er sá spámaður sem Allah sendi síðastan, en áður hafði hann sent Adam, Nóa, Móse og Jesú.[1] Múhameð taldi sig kominn til að fullkomna verk eldri spámanna og taldi sig upphaflega til kristinna og gyðinga.

Múhameð
Arabísk leturtákn sem tákna nafn Múhameðs.
Fæddur
Muḥammad ibn `Abd Allāh

570
Dáinn8. júní 632
Þekktur fyrirAð boða íslamstrú

Ef litið er á Kóraninn sem verk Múhameðs, en ekki guðs, tryggir það honum sess sem skapara mikils menningarafreks.[2]

Múhameð lagði mesta áherslu á gjafmildi, greiðasemi, lausn fanga og ættrækni. Hann var mjög á móti útburði meybarna, sækir hann það til kristinna nágranna sinna og gyðinga.[3]

Dauða Múhameðs bar brátt að og því hafði hann ekki valið eftirmann sinn og síðan hafa staðið deilur á milli hópa múslima um hver hann sé.[1]

Uppvaxtarár Múhameðs

breyta

Múhameð spámaður fæddist 20. apríl árið 570 í Mekka, faðir hans hafði dáið áður en hann fæddist svo hann var alinn upp af afa sínum Abd al-Muttalib.

Móðir Múhameðs dó þegar hann var 6 ára gamall og afi hans þegar hann var 8 ára. Eftir að afi hans dó var honum komið í fóstur hjá frænda sínum Abu Talib voldugum ættbálkahöfðingja í Mekka.

Múhameð var af Hasjimætt, sem er hliðarætt Kúreisj-ættbálks sem var voldugasta ættin í Mekka.[1] Ættin var voldug í krafti verslunar og réð yfir helgidóminum Kaba.[3] Arabía byggði sterklega á ættartengslum á þessum tíma.

Múhameð átti seinna eftir að fylgja frænda sínum í verslunarleiðangra og fræðast um umheiminn. Múhameð giftist auðugri ekkju sem hét Khadijah árið 595, og eignaðist með henni sex börn, tvo syni sem dóu í æsku og fjórar dætur. Aðeins eitt barnanna, hún Fatíma, eignaðist barn og er hún ættmóðir Sjía-manna. Múhameð átti margar konur eftir að Kadisja dó.[1] Öll börnin voru fædd áður en hann byrjaði að kenna íslam.

Byrjar að kenna íslam

breyta

Samkvæmt kennisetningum íslamstrúar fékk Múhameð árið 610 vitrun frá erkienglinum Gabríel sem sagði honum að hann væri spámaður Guðs og bæri að breiða út boðskap hans. Þremur árum seinna byrjaði Múhameð að predika opinberlega í Mekka. Flestir sem á hann hlustuðu virtu hann ekki viðlits en nokkrir hlustuðu á hann og hann byrjaði að safna um sig litlum hóp fylgjenda.

Þegar fylgjendum Múhameðs fjölgaði fóru ættbálkaleiðtogarnir í Mekka að óttast að hann gæti ógnað stjórn þeirra yfir Mekka. Bæði kona Múhameðs og frændi dóu árið 619 en eftir dauða frændans naut hann ekki lengur verndar Hashim ættbálksins. Þá neyddist hann til að senda hluta þeirra í skjól til Konungsríkisins Aksúm sem er í dag á sama landsvæði og Eþíópía en sjálfur náði hann að leita skjóls innan ættar sinnar. Það kom að öll ættin hans var bannfærð.[1]

Múhameð taldi boðskap sinn samhljóða trú gyðinga en með því var hann að reyna að kaupa sér vinskap þeirra. Hann bauð kristnum og gyðingum að halda trú sinni ef þeir borguðu ákveðinn skatt, en það endaði með því að hann gerði allar eignir þeirra upptækar. En heiðingja vildi hann kúga til trúar.[1]

Þjóðernisvitund Múhameðs fer að aukast og hann býr til útvalningarsögu fyrir þjóð sína. Hann segir: „Hið helga stríð, dsjihad, sé hin fremsta skylda við Allah“. Hann sagði að trúin hafi brenglast hjá „ritþjóðunum“ og að það væri köllun hans að leiðrétta það. Hann fór að gera jafnmikið úr sérstöðu sinni gagnvart gyðingum og hann gerði úr hvað þeir voru líkir áður. Hann lýsti því yfir að íslam væri nýr átrúnaður og um leið þjóðleg arabísk trúarbrögð með því að nú áttu menn að snúa sér til Mekka þegar þeir bæðust fyrir en áður snéru þeir til Jerúsalem. Einnig var tíma föstunnar breytt, áður átti að fasta á friðþægingardegi Gyðinga en nú átti að fasta í mánuðinum ramadan, en í þeim mánuði sagði Múhameð að Kóraninn hafi verið opinberaður.[1]

Flóttinn frá Mekka

breyta

Árið 622 eftir fjölda hótana og ofsókna flúðu Múhameð og fylgjendur hans frá Mekka til Medina þar sem hann aflaði sér margra fylgismanna. Þessi flótti er kallaður Hijira, það er við þessa dagsetningu sem múslimar miða dagatal sitt EH (Eftir Hijira). Óvinsemd milli Mekka og Medina óx stöðugt, árið 624 réðst Múhameð með hóp 300 múslima á úlfaldalest frá Mekka. Árásin mistókst og íbúar í Mekka ákváðu að senda lítinn her til Medina til að útrýma múslimum.

Boðskapur Múhameðs féll vel að hugmyndum gyðinga sem bjuggu í Medina. Það var litið alvarlegum augum hjá Aröbum að Múhameð skyldi flytja til Medina því með því varð bræðralag trúarinnar æðra ættartengslum. Í þessum nýju heimkynnum Múhameðs fóru stjórnmálahæfileikar hans að segja til sín og náði hann á skömmum tíma nær öllum völdum í sínar hendur. Hann kom því þannig fyrir að öllum málum skyldi skotið til Allah og spámanns hans.[1]

15. mars árið 624 börðust múslimar og íbúar Mekka nálægt Badr. Þó að herlið Mekka væri tvöfalt fjölmennara tókst múslimum að vinna sigur.

Snýr vörn í sókn

breyta

Múslimar álitu að sigurinn við Badr hefði unnist fyrir tilskipan Allah, eftir sigurinn rak Múhameð alla gyðinga út úr borginni og eftir það voru nánast allir íbúar Medina múslimar.

Árið 625 réðst Abu Sufyan hershöfðingi frá Mekka á Medina með 3000 menn, þó að Abu Sufyan hefði unnið bardagann þá missti hann of marga menn til þess að elta múslimana inn í Medina.

Árið 627 réðst Abu Sufyan aftur á Medina, hann fékk hjálp frá gyðingaættbálknum Banu Qurayza sem Múhameð hafði rekið út úr Medina. En Múhameð hafði látið grafa skurð í kringum Medina og tókst að verjast öllum árásum Abu Sufyan.

Eftir bardagann var öllum karlmönnum og táningsdrengjum úr Banu Qurayza ættbálknum slátrað og konurnar og börnin voru seld sem þrælar.

Allah bauð að það ætti að brjóta alla til hlýðni við sig og söfnuð sinn.[1] „Berjizt við þá, unz lokið er áþján og trúin á Allah ríkir öllum ofar. Láti þeir af, er Allah kunnugt um gerðir þeirra; en snúi þeir við, skuluð þér vita, að Allah mun vernda yður. Hann er hjálparhellan og verndarinn bezti.“[4]

Snýr aftur til Mekka

breyta

Árið 628 voru múslimar orðnir svo voldugir að Múhameð þorði að snúa aftur til Mekka sem friðsamur pílagrímur. Með honum í för voru 1600 múslimar. Eftir nokkrar samningaviðræður var samningur undirritaður í smábænum al-Hudaybiyah nálægt Mekka, sem gaf múslimum leyfi til að ferðast til Mekka í pílagrímsferðir. Samingurinn var rofinn árið 630 og Múhameð réðst á Mekka með yfir 10.000 menn. Þegar íbúar Mekka sáu fjölda liðsmanna Múhameðs þá gáfust þeir upp án nokkurrar mótspyrnu. Átta árum eftir að Múhameð flúði frá Mekka sneri hann aftur sem sigurvegari.

632 í sinni síðustu för til Mekka hélt hann ræðu á fjallinu Arafat þar sem hann hvatti menn sína til sáttvísi, hófsemdar í hefndum og að fara vel með konur sínar. Hann sagði að allir múslimar væru bræður. Í þessari för fylgdu honum þúsundir manna alls staðar af Arabíu til Mekka og er löggild fyrirmynd síðari pílagrímsferða múslima.[1]

Múhameð dó 8. júní árið 632, 63 ára gamall eftir skammvinn veikindi (talið er að hann hafi þjáðst af malaríu). Rúmum 100 árum eftir dauða hans höfðu múslimar lagt undir sig stór landsvæði allt frá miðausturlöndum til Spánar.

Þegar múslimar hófu útrás út af Arabíuskaga og lögðu undir sig Mið-Austurlönd og Norður-Afríku þá slepptu þeir því að herja á Axum-ríki. Þjóðsagan segir að það sé vegna þess að Múhameð sjálfur hafi sagt að láta eigi þá í friði í þakklætisskyni fyrir hjálpina fyrrum.[5]

Er arabar lögðu undir sig lönd þá fóru þeir fram undir svörtum fána líkt og liðsmenn ISIS gera í dag, enda telja þeir sig vera réttkjörna arftaka Múhameðs.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 Sigurbjörn Einarsson (1994). Trúarbrögð mannkyns. Skálholt. ISBN 9979826290.
  2. Jón Ormur Halldórsson (1993). Íslam Eðli og áhrif trúarbragða. Heimskringla. ISBN 9979305053.
  3. 3,0 3,1 Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (2000). Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur. ISBN 9979550007.
  4. Helgi Hálfdánarson þýddi (2003). Kóraninn. Mál og menning.
  5. Fréttablaðið (8. nóvember 2014). bls. 48. {{cite book}}: |title= vantar (hjálp)
  6. Morgunblaðið. 9. nóvember 2014. bls. 6.