Mínóísk menning
Mínóísk menning eða Krítarmenningin var menningarsamfélag á eynni Krít á Eyjahafi. Tími mínóískrar menningar nær aftur til um 7000 f.Kr. en blómstraði einkum á tímabilinu frá 2700 f.Kr. til 1450 f.Kr. þegar Mýkenumenningin varð ríkjandi á svæðinu. Mínóísk menning var bronsaldarmenning. Bronsaldarsamfélög við Miðjarðarhafið áttu mikil samskipti sín á milli og því er stundum erfitt að greina að hvaða marki mínóísk menning varð fyrir áhrifum frá nágrönnum sínum og höfðu áhrif á þá. Mínóískri menningu er oft lýst sem mæðraveldi.
Hugtakið „mínóísk menning“ bjó til breski fornleifafræðingurinn Sir Arthur Evans. Það vísar til Mínosar konungs í grískri goðafræði, sem lét byggja mikið völundarhús á Krít. Evans taldi sig hafa fundið það í Knossos.
Byggingarlist
breytaMínóar reistu margar fagrar hallir úr kalksteinum og sandsteinum. Elstu hallirnar voru líkast til reistar í lok frummínóíska tímabilsins. Hallirnar voru afar glæstar, þær eldri voru gjarna U-laga, aðeins á einni hæð, með stóru torgi í miðjunni en þær voru þó mun minni en seinni tíma hallirnar. Seinni tíma hallirnar voru stærri og höfðu múr úr sandsteini á vesturhliðinni. Höll Mínosar í Knossos er líklega eitt þekktasta dæmið um seinni tíma hallir Mínóa, byggð á miðmínóíska tímanum en uppgötvuð í kringum aldamótin 1900 af breska fornleifafræðingnum Sir Arthur Evans. Annað merkilegt við byggingarlist mínóa eru hinar svokölluðu „öfugu“ súlur. Þetta voru súlur úr viði, víðar að ofan en mjóar að neðan og gjarna málaðar rauðar.
Myndlist
breytaÝmis listaverk frá tímum mínóa hafa fundist, en best varðveittu listaverkin eru hallirnar með sínu fínu listaverkum og leirmunum og styttum. Það hefur vakið athygli manna að freskur frá tímum mínósku menningarinnar sýna bæði konur og karla, en slíkt var alls ekki algengt annars staðar í heiminum á bronsöld. Vísindamenn hafa sett fram þá kenningu að þessar freskur hafi eitthvað að gera með trúarbrögð mínóa, að þeir hafi trúað á gyðjur. Það vekur einnig athygli að karlmenn voru málaðir með rauðbrúnum lit en konur hvítum. Eitt slíkt málverk sýnir bæði kynin að stunda nautaat, en það gefur til kynna að staða kvenna hafi verið betri en í öðrum löndum að því leyti að þær fengu að koma fram opinberlega.
Leirgerðarlist
breytaGlæsilegir leirmunir frá mínóska tímanum hafa einnig fundist. Líkt og í nútíma list hefur list Krítverja þróast og fengið að njóta sín. Vafningar, þríhyrningar, krossar og fiskabeinsmynstur einkenna leirmuni frummínóa. En á miðmínóska tímabilinu þótti glæsilegt að skreyta leirmunina með náttúrulegum myndum s.s. fuglum, fiskum og liljum. Á síðmínóska tímabilinu var enn í tísku að nota blóma- og dýramyndir, en þó var fjölbreytnin ríkjandi.
Ritlist
breytaMínóar notuðu letur sem er kallað línuletur A og er af semískum uppruna. Fundist hafa fornar leirskífur með þessu letri, svokallaðir Feistosdiskar frá tímum mínósku menningarinnar. Línuletur A er talið elsta gríska letrið og enn hefur ekki tekist að ráða það. Hins vegar hefur tekist að ráða línuletur B, sem er einnig af semískum ættum og skylt línuletri A, en það voru Jónar eða hinir svokölluðu Mýkenumenn sem notuðu það.
Íþróttir
breytaÍþróttir með nautum var afar vinsæl íþrótt hjá Krítverjum líkt og hjá Grikkjum, Egyptum og öðrum þjóðum. Á tímum mínóa stunduðu bæði stúlkur og piltar þessa íþrótt, sem fólst í því að stökkva yfir reiðan tudda. Íþróttamaðurinn stendur þá fyrir framan nautið sem ræðst gegn honum, grípur um hornin og stekkur yfir það. Byggðir voru glæsilegir leikvangar fyrir þessa íþrótt við hallirnar, en slíkt sýnir okkur hve vinsæll leikur þetta var. Þessi íþrótt er talin vera frumgerð af nútíma nautaati.
Heimildir
breyta- „Bull-Leaping Fresco“. Wikipedia, the free encyclopedia., sótt þann 7. febrúar 2014
- Cartwright, Mark. „,Minoan Pottery“., sótt þann 9. febrúar 2014
- Guðmundur J. Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson, Þættir úr sögu vestrænnar menningar, Fornöldin frá steinöld til 476 e.Kr. Hið íslenzka bókmenntafélag (Reykjavík, 1998)
- „Minoan Civilization“. Wikipedia, the free encyclopedia., sótt þann 7. febrúar 2014
- „The Palace of Minos at Knossos“. Geymt 12 apríl 2014 í Wayback Machine, sótt þann 9. febrúar 2014