Austrómverska keisaradæmið

(Endurbeint frá Austrómverska ríkið)

Austrómverska keisaradæmið (oft einnig kallað Býsansríkið eða Miklagarðsríkið) var ríki sem varð til þegar Rómaveldi var varanlega skipt í tvennt, árið 395.[1] Hitt ríkið var kallað það vestrómverska.

Austrómverska keisaradæmið þegar það var stærst, árið 550.

SagaBreyta

Skipting Rómaveldis í austur og vestur átti rætur sínar að rekja til ársins 285 þegar Díókletíanus og Maximíanus skiptu með sér völdum. Ríkið var sameinað á ný undir einn keisara árið 324 þegar Konstantínus mikli stóð uppi sem sigurvegari í baráttu við Licinius. Árið 330 gerði Konstantínus Konstantínópel (sem áður hét Býsantíon) að nýrri höfuðborg Rómaveldis og varð borgin síðan höfuðborg Austrómverska ríkisins. Eftir dag Konstantínusar stýrðu Rómaveldi ýmist einn, tveir eða þrír keisarar í senn. Árið 394 tryggði Þeódósíus 1. stöðu sína sem keisari yfir öllu heimsveldinu en þegar hann lést árið 395 var ríkinu skipt í austur og vestur á milli sona hans Arkadíusar og Honoríusar. Þessi skipting Rómaveldis reyndist varanleg og stjórnaði hvor keisarinn sínum helmingi allt þar til vestrómverska keisaradæmið leið undir lok árið 476 og það austrómverska stóð eitt eftir.

Ríkið var víðfeðmast á valdatíma Jústiníanusar 1., sem var keisari á árunum 527 – 565, en hann stefndi að því að vinna á sitt vald öll þau landsvæði sem áður höfðu tilheyrt Rómaveldi. Þessu markmiði sínu náði Jústiníanus ekki, en honum tókst þó, með hjálp Belisaríusar, helsta hershöfðingja síns, að vinna Norður-Afríku úr höndum Vandala og Ítalíu af Austgotum. Fljótlega eftir dauða Jústiníanusar fór ríkið þó að dragast saman aftur því árið 568 réðust Langbarðar inn á Ítalíuskaga og hertóku stóran hluta hans.

Á 7. öld misstu Austrómverjar allt sitt land fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku í hendur Araba. Auk þess hirtu Búlgarar af þeim stór landsvæði á Balkanskaganum.

Ríkið fór aftur að stækka undir stjórn Leó 3. (717 – 741) og á næstu öldum styrkti það stöðu sína á Balkanskaga og í Anatólíu. Veldi þess náði nýjum hæðum á stjórnarárum Basileiosar 2. (976 – 1025) og náði á þeim tíma frá Suður-Ítalíu í vestri til Armeníu í austri.

Eitt stærsta áfallið sem Austrómverska keisaradæmið varð fyrir í sögu sinni var þegar krossfarar fjórðu krossferðarinnar, sem voru á leið til Egyptalands, flæktust inn í deilur á milli Feneyinga og Austrómverja. Afleiðing þessa varð sú að krossfararnir réðust inn í Austrómverska ríkið og hertóku Konstantínópel árið 1204. Krossfararnir stofnuðu þá ríki með höfuðborg í Konstantínópel sem kallað hefur verið Latneska keisaradæmið og stóð til ársins 1261. Þrjú önnur ríki urðu til á þeim svæðum sem áður tilheyrðu Austrómverska ríkinu. Voldugast þeirra var Keisaradæmið í Níkeu sem náði Konstantínópel aftur á sitt vald árið 1261 og endurreisti þar með Austrómverska keisaradæmið.

Keisaradæmið stóð til allt fram til ársins 1453 (þó í verulega smækkaðri mynd væri), þegar Tyrkir náðu loks Konstantínópel. Það var helsta vígi rétttrúnaðarkirkjunnar, enda patríarkinn í Konstantínópel opinberlega „fremstur meðal jafningja“ af leiðtogum kirkjunnar.

TilvísanirBreyta

  1. stundum er miðað við stofnun Konstantínópel eða Miklagarðs árið 330 og stundum er miðað við árið 476 þegar vestrómverska ríkið féll og einungis austrómverska ríkið stóð eftir
   Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.