Líf

eigind sem aðgreinir lífveru frá lífvana efni

Líf er sú eigind sem aðgreinir lífveru frá lífvana efni. Líf er þar af leiðandi eitt grunnhugtaka líffræðanna en er þó vandmeðfarið og síður en svo auðskilgreint. Skilgreining á lífi og því hvaða fyrirbrigði má telja til lífvera og hver ekki hefur oft verið deiluefni. Sem dæmi má nefna að ekki er ljóst hvort telja skuli veirur til lífvera. Í daglegu máli er sjaldnast gerður greinarmunur á eigindinni líf og hugtökum á borð við líferni og ævi lífveru en ekki er fjallað sérstaklega um þau hér.

Örverubreiður í kringum hver.

Skilgreining breyta

Hefðbundin skilgreining breyta

Engin ein skilgreining er til sem nær óyggjandi yfir allar lífverur en undanskilur allt lífvana efni. Almennt má þó telja þá veru lífveru sem uppfyllir öll eða að minnsta kosti flest eftirfarandi skilyrða.

 • Veran stundar efnaskipti, en í því felst að hún nærist og umbreytir efnaorku eða ljósorku í frumuhluta og önnur lífefni. Næringin eykur þannig vöxt hennar og gerir henni einnig kleift að nýta orku til annarrar starfsemi, svo sem hreyfingar og úrgangslosunar.
 • Veran vex, en í því felst að hún stundar lífsmíðandi (anabólísk) efnaskipti í ríkari mæli en niðurbrot (katabólísk efnaskipti). Vexti fylgir gjarnan að veran gengur í gegn um ákveðin þroskastig.
 • Samvægi: Veran bregst á einhvern hátt við áreiti og lagar sig að umhverfisaðstæðum.
 • Veran er fær um að æxlast, annað hvort kynlaust eða með kynæxlun (eða hvort tveggja).
 • Veran hefur erfðaefni sem getur tekið breytingum og borist milli kynslóða.

Undantekningar breyta

 • Múlasnar og önnur ófrjó dýr, þar sem þessar verur geta ekki fjölgað sér en teljast þó til lífs.
 • Hægt væri að skilgreina stjörnur eða eld sem lifandi þó svo að það sé ekki venjan.
 • Veira vex ekki, stundar engin efnaskipti og getur ekki fjölgað sér utan hýsils og er álitamál hvort sé talin til lífs eða ekki.

Uppruni lífs breyta

Líf er talið hafa orðið til á Jörðinni fyrir hér um bil 3,5 til 4 milljörðum ára[1][2]. Ljóst er að allar núlifandi lífverur stunda efnaskipti sem eru í meginatriðum sömu gerðar og hafa erfðaefni á formi kjarnsýrunnar DNA. Þessi atriði og ýmis fleiri styðja þá tilgátu að allar lífverur Jarðarinnar eigi sér sameiginlegan áa. Sjálfkviknun lífvera úr lífvana efni, sem um aldir var álitin útskýra tilurð lífvera, var afsönnuð af Louis Pasteur um miðja 19. öld. Hvernig líf kviknaði á Jörðinni í árdaga er enn að verulegu leyti ráðgáta, en þó hafa veigamiklir hlekkir í hinni löngu keðju atburða sem hlýtur að liggja frá ólífrænu efni til fullmótaðrar lífveru verið útskýrðir á sannfærandi hátt. Einkum ber í því samhengi að nefna tilraun þeirra Stanley Miller og Harolds Urey[3][4], en þeir sýndu fram á myndun ýmissa lífrænna efna, þar á meðal amínósýra úr ólífrænu efni við afoxandi aðstæður líkt og álitið er að hafi verið til staðar á Jörðinni í árdaga. Kenningum sem leitast við að útskýra uppruna lífsins má í grófum dráttum skipta í tvo flokka, eftirmyndunarkenningar og efnaskiptakenningar eftir því hvort er álitið hafa komið til sögunnar fyrst, eiginleikinn til eftirmyndunar (sbr. eftirmyndun erfðaefnis) eða efnaskipta[1].

Heimildir breyta

 1. 1,0 1,1 Guðmundur Eggertsson (2003). „Uppruni lífs“. Náttúrufræðingurinn. 71: 145–152.
 2. Staley, Andrew D. (2007). Microbial Life, 2. útg. Sinauer Associates, Inc. ISBN 978-0-87893-685-4.
 3. Miller, Stanley L. (1953). „Production of Amino Acids Under Possible Primitive Earth Conditions“. Science. 117: 528–529. PMID 13056598.
 4. Miller, Stanley L.; Harold C. Urey (1959). „Organic Compound Synthesis on the Primitive Earth“. Science. 130: 245–251. PMID 13668555.

Tengt efni breyta

Tenglar breyta

 
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni
 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu