Prestur er sá aðili sem hefur öðlast vígslu eða önnur sambærileg réttindi innan trúarbragða til að annast guðsþjónustur eða helgihald fyrir trúbræður sína. Prestsembættið finnst innan margra trúarbragða þó nafngiftir geti verið ólíkar eftir trúarhefðum. Prestar eru almennt álitnir vera í góðu sambandi við almættið og leitar fólk oft til presta til að fá ráðgjöf í andlegum málefnum sem og öðrum.

Í kristni liggja tvö grísk orð að baki orðinu prestur. Annars vegar presbyteros (πρεσβυτερος-öldungur), sem er orðsifjafræðilega skylt íslenska orðinu prestur og hins vegar hiereus (ιερευς) sem vísar til þeirra sem önnuðust fórnir þær meðal gyðinga sem lýst er í Gamla testamentinu. Merking orðsins (þ.e. hiereus) breyttist nokkuð í Nýja testamentinu þar sem Jesú Kristi er lýst sem æðsta presti (Heb. 2.17), meðalgöngumanns milli Guðs og manna.

Meðal mótmælenda er mikilsverðasta hlutverk prestsins í helgihaldi það að annast útdeilingu sakramentanna (skírn og kvöldmáltíðarsakramentið). Í mótmælendatrú mega bæði karlar og konur gegna prestsembætti en því er öðruvísi farið innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar. Þar mega einungis karlmenn gegna embætti prests og skulu lifa einlífi. Í báðum kirkjudeildum er hlutverk presta í helgihaldi mun veigameira en meðal mótmælenda enda eru sakramenti mun fleiri og helgihald allt umfangsmeira.

Tengt efni

breyta