Eyjaálfa

Heimsálfa

Eyjaálfa er heimsálfa sem nær yfir Kyrrahafseyjar. Nákvæm skilgreining svæðisins sem heimsálfan nær yfir er ekki til sökum þess hversu stór hluti hennar er haf. Til hennar eru oft talin Ástralía og nálægar eyjar: Papúa, Nýja Sjáland og ýmsar smærri Kyrrahafseyjar. Stundum er Eyjaálfu skipt í heimshlutana Melanesíu, Míkrónesíu og Pólýnesíu. Stundum eru öll Ástralasía og Malajaeyjar talin hluti af Eyjaálfu.

Eyjaálfa samkvæmt algengri skilgreiningu

Fyrstur til að stinga upp á því að gera þennan heimshluta að heimsálfu var dansk-franski landfræðingurinn Conrad Malte-Brun árið 1812. Franska heitið sem hann stakk upp á, Océanie, er dregið af gríska orðinu ὠκεανός ókeanos sem merkir „haf“. Hann sá fyrir sér að svæðið næði frá Malakkasundi í vestri að strönd Ameríku í austri og skiptist í fjóra heimshluta: Pólýnesíu (Bandaríska Samóa, Cooks-eyjar, Páskaeyja, Franska Pólýnesía, Hawaii, Nýja Sjáland, Níve, Norfolkeyja, Pitcairn, Samóa, Tókelá, Tonga, Túvalú, Wallis- og Fútúnaeyjar, Rotuma), Míkrónesíu (Palá, Míkrónesía, Kíribatí, Maríanaeyjar, Marshalleyjar, Nárú, Wake-eyja), „Malasíu“ (Indónesía, Filippseyjar, Singapúr, Brúnei, Austur-Tímor og Austur-Malasía) og Melanesíu (Ástralía, Vanúatú, Salómonseyjar, Fídjieyjar og Papúa-Nýja Gínea).

Nú eru Malajaeyjar oftar taldar til Asíu. Nýja Sjáland, Ástralía og Nýja Gínea ásamt nálægum eyjum eru oft flokkuð saman sem Ástralasía innan Eyjaálfu. Vistfræðilega er Ástralasía sérstakt vistsvæði aðgreint frá Indómalajasvæðinu í norðvestri og Eyjaálfusvæðinu í norðaustri.

Tenglar

breyta
  • „Hvað eru margir íbúar í allri Eyjaálfu?“. Vísindavefurinn.


   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.