Mexíkó

land í Norður-Ameríku
(Endurbeint frá Mexico)

Mexíkó (spænska: México; nahúamál: Mēxihco), formlega Mex­íkóska ríkja­sam­band­ið (spænska: Estados Unidos Mexicanos), er land í sunnanverðri Norður-Ameríku. Mexíkó á landamæri að Bandaríkjunum í norðri, Kyrrahafinu í vestri og suðri, Mexíkóflóa og Karíbahafi í austri og Belís og Gvatemala í suðaustri. Landið þekur tæplega tvær milljónir ferkílómetra og er 13. stærsta land heims að flatarmáli. Landið er það fimmta stærsta í Norður- og Suður-Ameríku. Íbúafjöldi er talinn vera yfir 129 milljónir og er landið því 10. fjölmennasta land heims, fjölmennasta spænskumælandi land heims og næstfjölmennasta land Rómönsku Ameríku á eftir Brasilíu. Landið er sambandsríki 31 fylkis, auk höfuðborgarinnar, Mexíkóborgar, sem er ein fjölmennasta borg heims. Aðrar stórar borgir í Mexíkó eru meðal annars Guadalajara, Monterrey, Puebla, Toluca, Tijuana og León.

Mex­íkóska ríkja­sam­band­ið
Estados Unidos Mexicanos
Fáni Mexíkó Skjaldarmerki Mexíkó
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Himno Nacional Mexicano
Staðsetning Mexíkó
Höfuðborg Mexíkóborg
Opinbert tungumál spænska (de facto)
Stjórnarfar lýðveldi

Forseti Claudia Sheinbaum
Sjálfstæði frá Spáni
 • Lýst yfir 16. september 1810 
 • Viðurkennt 28. desember 1836 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
14. sæti
1.972.550 km²
2,5
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
10. sæti
129.150.971
61/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 2.715 millj. dala (11. sæti)
 • Á mann 21.362 dalir (64. sæti)
VÞL (2021) 0.758 (86. sæti)
Gjaldmiðill Pesói
Tímabelti UTC-8 til -5
Þjóðarlén .mx
Landsnúmer +52

Skipulegan landbúnað í Mexíkó fyrir landafundina má rekja aftur til um 8.000 f.Kr. og landið er talið vera ein af sex vöggum siðmenningar í heiminum. Í Mexíkó komu upp mörg háþróuð menningarríki Mið-Ameríku, eins og Toltekar, Olmekar, Teotihuakar, Sapótekar, Majar og Astekar, fyrir komu Evrópubúa þangað. Árið 1521 lagði Spænska heimsveldið landið undir sig og gerði að nýlendu með höfuðstöðvar í stórborginni Mexíkó-Tenochtitlan. Landið var hluti af Varakonungdæminu Nýja-Spáni. Rómversk-kaþólska kirkjan lék stórt hlutverk í stjórn nýlendunnar eftir að milljónir íbúa snerust til kristni, þótt Karl 3. Spánarkonungur hafi rekið Jesúíta frá landinu seint á 18. öld. Landið varð sjálfstætt eftir sigur í sjálfstæðisstríði Mexíkó árið 1821. Eftir það tók rósturtími við sem einkenndist af miklum ójöfnuði og tíðum stjórnmálabreytingum. Stríð Bandaríkjanna og Mexíkó 1846-1848 leiddi til þess að landið missti stóran hluta af norðurhéruðum sínum til Bandaríkjanna. Auk þess gekk Mexíkó í gegnum kökustríðið, stríð Mexíkó og Frakklands, tvö keisaradæmi og einræði Porfirio Díaz á 19. öld. Mexíkóska byltingin 1910 leiddi til nýrrar stjórnarskrár 1917 og upphafs flokksræðis sem stóð meginhlutann af 20. öld þar til sigrar stjórnarandstöðunnar leiddu til lýðræðisumbóta á 10. áratugnum. Frá 2006 hafa hörð átök staðið yfir milli ríkisstjórnarinnar og glæpagengja sem hafa dregið 120.000 manns til dauða.

Mexíkó er nú með 11. mestu landsframleiðslu heims með kaupmáttarjöfnuði og þá 15. mestu að nafnvirði. Efnahagur Mexíkó byggist mjög á viðskiptum við Bandaríkin í gegnum USMCA-fríverslunarsamninginn. Árið 1994 varð Mexíkó fyrsta land Rómönsku Ameríku með aðild að OECD. Landið er skilgreint af Heimsbankanum sem efri-miðtekjuland og margir greinendur telja það til nýiðnvæddra landa. Landið er stórveldi í sínum heimshluta og oft talið til nývelda, ásamt Kína, Brasilíu, Evrópusambandinu, Rússlandi og Indlandi. Landið á flestar færslur á Heimsminjaskrá UNESCO af löndum Rómönsku Ameríku og er í sjöunda sæti á heimsvísu. Mexíkó er eitt af sautján löndum heims þar sem líffjölbreytni er hlutfallslega langmest. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Mexíkó ár hvert. Árið 2018 var landið sjötta mesta ferðamannaland heims með 39 milljón heimsóknir. Mexíkó er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, G-20 og Kyrrahafsbandalaginu.

Orðið Mēxihco kemur úr málinu nahúatl og var notað yfir kjarnasvæði Astekaveldisins, það er Mexíkódal og héruðin þar í kring. Íbúar þar voru kallaðir Mexíkar. Almennt er talið að þjóðarheitið sé dregið af staðarheitinu, þótt það gæti hafa verið á hinn veginn. Uppruni heitisins er óviss en stungið hefur verið upp á að það sé dregið af einu af nöfnum stríðsguðsins Huitzilopochtli, Mexitl, eða mánaguðsins Metztli. Á nýlendutímanum þegar Mexíkó (ásamt núverandi suðurríkjum Bandaríkjanna) var kallað Nýi Spánn, var þetta svæði umdæmið Mexíkó, og þegar Nýi Spánn fékk sjálfstæði varð það Mexíkófylki. Þegar hið skammlífa Mexíkóska keisaradæmi var stofnað 1821 dró það nafn sitt af höfuðborginni, Mexíkóborg. Nafninu var haldið þegar Bandaríki Mexíkó voru stofnuð 1823 og æ síðan.

Frumbyggjaveldi

breyta
 
Sólarpýramídinn í hinu forna borgríki Teotihuacan sem var 6. stærsta borg heims á hátindi sínum (frá 1. til 5. aldar).
 
Hof Kukulcáns (El Castillo) í Majaborginni Chichen Itza.
 
Veggmálverk eftir Diego Rivera af Tenochtitlan, stærstu borg Ameríku á þeim tíma.

Forsaga Mexíkó nær þúsundir ára aftur í tímann. Elstu ummerki um mannabyggð í Mexíkó eru brot af steinverkfærum við leifar af varðeldi í Mexíkódal sem hafa verið greindir um 10.000 ára gamlir með kolefnisgreiningu.[1] Í Mexíkó voru þróuð fyrstu ræktunarafbrigði maíss, tómata og strengjabauna, sem sköpuðu umframmagn landbúnaðarafurða. Það skapaði aðstæður fyrir þróun frá samfélögum veiðimanna og safnara (frumindíána) til þorpa sem hófst um 5000 f.o.t.[2] Aldirnar á eftir þróuðust maísræktunin og innfædd trúarbrögð og tvítugakerfið, sem breiddust út um Mið-Ameríku frá Mexíkó.[3] Á þessum tíma urðu þorpin þéttbýlli og þar varð til stéttaskipting með stétt handverksfólks og höfðingjaveldi. Öflugustu leiðtogarnir höfðu bæði trúarleg og pólitísk völd og stóðu fyrir byggingu stórra trúarmiðstöðva.[4]

Elstu siðmenningarsamfélög Mexíkó voru samfélög Olmeka sem blómstruðu við strönd Mexíkóflóa frá því um 1500 f.o.t. Menningarleg áhrif Olmeka breiddust um Mexíkó, til Chiapas, Oaxaca og Mexíkódals. Þaðan komu sérstæðar trúarlegar og listrænar hefðir.[5] Þetta frumtímabil Mið-Ameríkumenningarinnar er talið með sex vöggum siðmenningar. Seinna byggðu samfélög Maja og Sapóteka miðstöðvar í Calakmul og Monte Albán. Á þessum tíma urðu fyrstu miðamerísku ritkerfin til meða Epi-Olmeka og Sapóteka. Þau þróuðust út í myndletur Maja. Elstu sagnaritin eru frá þessum tíma. Rithefðin hélt velli um skeið eftir hernám Spánverja 1521 og innfæddir skrifarar héldu áfram að nota myndletur samhliða latínuletri.[6][7]

Á hátindi klassíska tímabilsins reis borgin Teotihuacan í miðju Mexíkó og varð miðpunktur hernaðar- og verslunarveldis sem náði suður til landa Maja og í norður. Íbúar Teotihuacan voru um 150.000 og reistu einhverja stærstu pýramída Ameríku.[8] Teotihuacán féll um árið 600 e.o.t. og þá tók við tími samkeppni nokkurra valdamiðstöðva í Mið-Mexíkó, eins og Xochicalco og Cholula. Á þessum tíma fluttust Nahúar suður til Mið-Ameríku frá norðrinu og náðu pólitískum og menningarlegum undirtökum í miðhlutanum þar sem þeir ruddu burt fólki sem talaði oto-mangue-mál. Snemma á póstklassíska tímabilinu (um 1000-1519) ríktu Toltekar yfir Mið-Mexíkó, Mixtekar yfir Oaxaca og Majar í Chichén Itzá og Mayapán. Undir lok þessa tímabils náðu Mexíkar yfirráðum og stofnuðu borgina Tenochtitlan þar sem Mexíkóborg stendur nú. Veldi þeirra náði frá miðhluta Mexíkó að landamærum Gvatemala.[9] Alexander von Humboldt átti þátt í að gera heitið Astekar vinsælt sem yfirheiti yfir allar þær þjóðir sem tengdust ríki Mexíka og þríveldabandalaginu.[10] Árið 1843 var þetta heiti almennt tekið upp eftir útgáfu bókar William H. Prescott, þar á meðal af mexíkóskum fræðimönnum sem notuðu það til að aðgreina Mexíkóa nútímans frá Mexíkóum tímabilsins fyrir hernám Spánverja. Þessi hugtakanotkun hefur verið umdeild frá síðari hluta 20. aldar.[11]

Astekaveldið var óformlegt bandalag borgríkja því þeir höfðu ekki bein völd yfir þeim löndum sem þeir sigruðu, heldur létu sér nægja að heimta af þeim skatt. Ríkið var ekki samfellt, því löndin sem það náði yfir tengdust ekki öll. Suðursvæðið Soconusco var til dæmis ekki samtengt miðsvæðinu. Astekar settu staðbundna höfðingja aftur á valdastól eftir að þeir höfðu sigrað borgríkin og skiptu sér ekki af stjórn þeirra meðan þeir greiddu þeim skatt.[12] Astekarnir í Mið-Mexíkó komu sér þannig upp veldi byggðu á skattlöndum sem náði yfir megnið af miðhluta landsins.[13] Astekar voru þekktir fyrir miklar mannfórnir. Þeir forðuðust að drepa andstæðinga á vígvellinum og mannfall í bardögum þeirra var miklu minna en hjá Spánverjum sem reyndu að drepa sem flesta í orrustum.[14] Mannfórnahefðin í Mið-Ameríku leið undir lok eftir hernám Spánverja á 16. öld, þegar önnur frumbyggjaríki voru smám saman lögð undir nýlenduveldi þeirra.[15]

Frá nýlendutímanum og fram á 21. öld hefur menning frumbyggja skipt miklu máli fyrir mótum mexíkóskrar sjálfsmyndar. Mannfræðisafn Mexíkó í Mexíkóborg er helsta safn muna frá því fyrir innrásina. Sagnfræðingurinn Enrique Florescano hefur kallað það þjóðargersemi og þjóðartákn.[16] Mexíkóski nóbelsverðlaunahafinn Octavio Paz sagði að safnið upphefði Mexíkó-Tenochtitlan þannig að safnið umbreyttist í hof.[17] Mexíkó hefur sóst eftir alþjóðlegri viðurkenningu þessa menningararfs og á fleiri staði á Heimsminjaskrá UNESCO en nokkuð annað ríki í heimshlutanum. Hugmyndin um þróað ríki frumbyggja í Nýja heiminum fyrir komu Evrópumanna hefur líka haft áhrif á evrópska heimspeki.[18]

Hernám og nýlendutími (1519-1821)

breyta
 
Áhlaup Cortés á Teocalli (málverk frá 1848).

Spænska heimsveldið hafði stofnað nýlendur í Karíbahafi frá 1493 en hóf ekki að kanna austurströnd Mexíkó fyrr en á öðrum áratug 16. aldar. Spánverjar komust fyrst að tilvist Mexíkó í leiðangri Juan de Grijalva árið 1518. Hernám Astekaveldisins hófst árið eftir þegar Hernán Cortés tók land við strönd Mexíkóflóa og stofnaði spænsku borgina Veracruz. Um 500 landvinningamenn, með hesta, fallbyssur, sverð og byssur, höfðu tæknilega yfirburði yfir stríðsmenn innfæddra, en lykillinn að sigri Spánverja voru samningar þeirra við óánægð borgríki (altepetl) sem gengu í lið með þeim gegn þríveldabandalagi Asteka. Annað sem skipti sköpum fyrir sigur Cortés var túlkurinn hans, Malinche, Nahúakona sem hafði verið þræll og Spánverjar fengu að gjöf. Hún lærði fljótt spænsku og gaf þeim hernaðarlega mikilvægar upplýsingar um það hvernig haga ætti samskiptum við innfædda bandamenn og óvini.[19]

Hernámið var mjög vel skrásett frá ýmsum sjónarhornum. Til eru frásagnir spænska leiðtogans, Cortés[20] og margar frásagnir frá öðrum spænskum þátttakendum, eins og Bernal Díaz del Castillo.[21][22] Eins eru til frásagnir innfæddra á spænsku, nahúatl og myndasögur eftir bandamenn Spánverja, mest frá Tlaxkaltekum og fólki frá Tetszcoco[23] og Huejotzincum, auk hinna sigruðu Mexíka sjálfra, í síðasta bindi handritsins Codex Florentinus eftir Bernardino de Sahagún.[24][25][26]

 
Útsýni yfir Plaza Mayor (nú Zócalo) í Mexíkóborg um 1695 eftir Cristóbal de Villalpando.

Fall Tenochtitlan árið 1521 og stofnun spænsku höfuðborgarinnar Mexíkóborgar á rústum hennar varð upphafið að 300 ára nýlendutíma þar sem Mexíkó var þekkt sem Nueva España (Nýi Spánn). Sérstaða Nýja Spánar innan Spænska heimsveldisins byggðist einkum á tvennu: fjölmennum og stéttskiptum þjóðum Mið-Ameríku sem greiddu skatta og unnu þegnskylduvinnu fyrir nýlenduherrana, og miklum silfurnámum sem fundust í Norður-Mexíkó.[27] Konungsríkið Nýi Spánn var stofnað úr leifum Astekaveldisins. Tvær stoðir yfirráða Spánverja voru ríkisvaldið og rómversk-kaþólska kirkjan, sem bæði heyrðu undir spænsku krúnuna. Árið 1493 hafði páfi veitt spænska konunginum víðtæk völd í nýlendunum, með því skilyrði að hann tæki að sér að breiða þar út kristni. Árið 1524 stofnaði Karl 5. keisari Indíaráðið á Spáni til að hafa umsjón með stjórn nýlendnanna. Á Nýja Spáni stofnaði krúnan hæstarétt í Mexíkóborg, Real Audiencia, og stofnaði síðan Varakonungsdæmið Nýja Spán árið 1535. Varakonungurinn var æðsti embættismaður ríkisins í nýlendunni. Biskupsdæmið Mexíkó var stofnað árið 1530 og gert að erkibiskupsdæmi árið 1546. Kastilísk spænska var tungumál nýlenduherranna. Kaþólsk trú voru einu trúarbrögðin sem voru leyfð og aðrir trúarhópar (gyðingar og mótmælendur) ofsóttir af mexíkóska rannsóknarréttinum sem var stofnaður 1571.[28]

Fyrstu hálfu öldina var komið á neti spænskra borga, stundum á grunni eldri borga þar sem fyrir var þétt byggð innfæddra. Höfuðborgin, Mexíkóborg, var aðalborgin, en aðrar borgir sem stofnaðar voru á 16. öld eru enn mikilvægar, eins og Puebla de los Angeles, Guadalajara, Guanajuato, Zacatecas, Oaxaca-borg og hafnarborgin Veracruz. Borgir og bæir voru staðir þar sem embættismenn, kirkjur, viðskipti og spænska yfirstéttin komu sér fyrir, auk blandaðra og innfæddra handverks- og verkamanna. Þegar silfurnámur fundust í dreifbýlum norðurhéruðum Mexíkó, langt frá þéttbýlinu í miðju landinu, sáu Spánverjar um að berja niður harða andstöðu frumbyggja þar. Þegar varakonungsdæmið var sem stærst náði það yfir landið sem í dag heyrir undir Mexíkó, auk Mið-Ameríku allt að Kosta Ríka og það sem er í dag vesturhluti Bandaríkjanna. Yfirstjórn annarra nýlendna í Spænsku Vestur-Indíum, Spænsku Austur-Indíum og Spænsku Flórída var líka staðsett í Mexíkóborg. Árið 1819 undirrituðu Spánverjar Adams-Onís-samninginn um norðurlandamæri Nýja Spánar að Bandaríkjunum.[29]

 
Nýi Spánn var miðpunktur hins hnattræna spænska verslunarveldis.

Hinar auðugu silfurnámur, sérstaklega í Zacatecas og Guanajuato, urðu til þess að silfurframleiðsla varð undirstaða efnahags Nýja Spánar. Mexíkóskir silfurpesóar urðu fyrsti alþjóðlegi gjaldmiðillinn. Skattur á silfurframleiðsluna varð ein helsta tekjulind spænsku krúnunnar. Annar mikilvægur iðnaður var landbúnaður, búgarðar og verslun í helstu borgum og höfnum. Verslunarleiðir til Asíu, annarra staða í Ameríku, Afríku og Evrópu, og hin miklu efnahagslegu áhrif silfurs frá Nýja heiminum, gerðu það að verkum að Mexíkó lenti í miðri hringiðu alþjóðaviðskipta. Mexíkóborg hefur því verið kölluð fyrsta heimsborg sögunnar.[30] Manílagaleónin sigldu í tvær og hálfa öld og tengdu Nýja Spán við Asíu. Silfur og rauða litarefnið karmín voru flutt út frá höfninni í Veracruz til annarra hafna við Atlantshafið. Veracruz var líka aðalinnflutningshöfnin fyrir vörur frá Evrópu, landnema frá Spáni og þræla frá Afríku. Vegurinn Camino Real de Tierra Adentro tengdi Mexíkóborg við innri héruð Nýja Spánar.

Íbúar Mexíkó á þessum tíma voru langflestir innfæddir frumbyggjar sem bjuggu í sveitum, þrátt fyrir að þeim hefði fækkað mikið vegna sjúkdómsfaraldra. Evrópumenn og afrískir þrælar báru með sér smitsjúkdóma eins og bólusótt og mislinga, sem ollu mikilli mannfækkun meðal frumbyggja á 16. öld. Mannfjöldinn varð stöðugur í kringum eina og hálfa milljón á 17. öld, en almennt er talið að hann hafi verið milli fimm og þrjátíu milljónir áður.[31] Á þeim þrjú hundruð árum sem nýlendutíminn stóð, fluttust milli 400.000 og 500.000 Evrópubúar,[32] milli 200.000 og 250.000 afrískir þrælar[33] og milli 40.000 og 120.000 Asíubúar til Mexíkó.[34][35]

Fyrsta allsherjarmanntalið var gert í stjórnartíð Juan Vicente de Güemes árið 1793. Mest af upprunalegu gögnunum hefur tapast og það sem er vitað um það kemur úr ritgerðum fræðimanna sem höfðu aðgang að þeim, eins og Alexander von Humboldt. Evrópumenn voru þá milli 18 og 22% af íbúum Nýja Spánar, Mestísar (blandaðir) milli 21 og 25%, Indíánar milli 51 og 61%, og Afríkumenn milli 6.000 og 10.000. Heildarmannfjöldinn var á bilinu 3.799.561 og 6.122.354. Af þessu er dregin sú ályktun að vöxtur í hópi hvítra og blandaðra íbúa hafi verið jafn, meðan hlutfall frumbyggja hafi minnkað um 13-17% á öld, aðallega vegna hærri dánartíðni vegna erfiðra búsetuskilyrða og stöðugra átaka við landnema.[36] Stjórnkerfi nýlendutímans notaðist við kynþáttaflokkun með heitum sem enn eru notuð, þótt hún hafi formlega verið lögð niður eftir að landið fékk sjálfstæði.

 
Mynd Luis de Mena, Mærin frá Guadalupe og kynþættir Mexíkó, sýnir blöndun kynþátta og stigveldi þeirra, auk ávaxta nýlendunnar[37] frá um 1750.

Spænsk lög voru innleidd og tengd við hefðarrétt frumbyggja og komið var á stigveldi milli Cabildo-ráða og spænsku krúnunnar. Innfæddir áttu ekki möguleika á að komast í æðstu embætti stjórnkerfisins, jafnvel þótt þeir væru af hreinræktuðum spænskum uppruna (criollo). Stjórnkerfið byggðist á kynþáttaaðskilnaði þar sem hvítir voru æðstir, blandaðir og þeldökkir í miðið, og frumbyggjar lægst settir. Stjórn landsins skiptist í tvö aðskilin svið: República de Españoles, sem náði yfir fólk af spænskum uppruna, blandaða og svarta íbúa af afrískum uppruna; og República de Indios sem náði yfir frumbyggja. Meðlimir fyrra hópsins greiddu enga skatta, höfðu aðgang að æðri menntun og gátu hlotið embætti í stjórnkerfinu og innan kirkjunnar, heyrðu undir mexíkóska rannsóknarréttinn og þurftu að gegna herskyldu eftir að fastaher var stofnaður seint á 18. öld. Frumbyggjar greiddu skatta, en heyrðu ekki undir valdsvið rannsóknarréttarins, gátu ekki orðið prestar og voru undanþegnir herskyldu. Þetta kerfi var samt oft sveigjanlegt í reynd og yfirráð hvítra íbúa voru aldrei algjör.[38] Þar sem fjöldi frumbyggja var mikill, var minni eftirspurn eftir dýrum þrælum frá Afríku í Mexíkó en annars staðar í Spænsku Ameríku.[39][40] Seint á 18. öld hóf krúnan umbætur Búrbóna þar sem íbúar fæddir á Spáni (peninsulares) nutu forréttinda yfir innfædda hvíta íbúa (criollos) þegar kom að skipun í embætti. Þessi mismunun olli mikilli óánægju innan yfirstéttarinnar í nýlendunni.[41]

Sá atburður þegar Mærin frá Guadalupe vitraðist frumbyggjanum Juan Diego árið 1531 gaf kristniboði í miðhluta Mexíkó aukinn kraft.[42][43] Mærin frá Guadalupe varð að táknmynd fyrir innfædda af spænskum uppruna sem litu á hana sem innlent tákn, aðgreint frá Spáni.[44] Mærin varð að sameiningartákni fylgismanna Miguel Hidalgo í sjálfstæðisbaráttunni.[43]

Spænskar hersveitir, stundum með innfæddum bandamönnum, héldu í leiðangra til að hernema lönd eða berja niður uppreisnir allan nýlendutímann. Meðal uppreisna frumbyggja í dreifbýlum héruðum Norður-Mexíkó má nefna Chichimeca-stríðið (1576-1606)[45] Tepehuán-uppreisnina (1616–1620),[46] og Púeblóuppreisnina (1680). Tzeltal-uppreisnin 1712 var staðbundin uppreisn Maja.[47] Flestar uppreisnirnar voru litlar og staðbundnar og ógnuðu ekki ráðandi yfirstétt.[48] Til að verjast árásum enskra, franskra og hollenskra sjóræningja og verja verslunareinokun krúnunnar, voru aðeins tvær hafnir opnar erlendum skipum: Veracruz Atlantshafsmegin og Acapulco Kyrrahafsmegin. Ein þekktasta sjóræningjaárásin var árásin á Campeche (1663)[49] og árásin á Veracruz (1683).[50] Spánverjar óttuðust líka innrás erlendra ríkja, sérstaklega eftir að Bretar hertóku spænsku hafnirnar í Havana og Maníla árið 1762 í sjö ára stríðinu. Ákveðið var að stofna fastaher, auka varnir við ströndina og reisa virki og trúboðsstöðvar í Alta California. Viðkvæm staða fátækra í Mexíkóborg kom berlega í ljós í uppþotinu í Zócalo árið 1692, þar sem óánægja með verð á maís þróaðist út í árás á höll varakonungsins og aðsetur erkibiskupsins.[38]

Sjálfstæðisbarátta (1808–1821)

breyta
 
Umsátrið um Alhondiga de Granaditas, Guanajuato, 28. september 1810.

Þegar Napoléon Bonaparte réðist inn í Spán 1808, neyddi spænska konunginn Karl 4. til að segja af sér og skipaði Joseph Bonaparte, bróður sinn, í hans stað, kom upp stjórnarkreppa í spænska heimsveldinu. Viðbrögðin urðu mismunandi á Spáni og í nýlendunum. Í Mexíkó færði yfirstéttin rök fyrir því að úr því valdaræningi sæti í hásætinu á Spáni flyttist valdið „til fólksins“ og að bæjarráðin væru bestu fulltrúar þess. Landnemar sem höfðu fæðst í Nýja heiminum sendu bænarskjal til varakonungsins, José de Iturrigaray (1803–08) um að kalla saman þing til að ákveða hvernig stjórn Mexíkó yrði háttað meðan á kreppunni stæði. Landnemar fæddir á Spáni voru andsnúnir þessu, en varakonungurinn kallaði samt saman þing auðugra landeigenda, námamanna, kaupmanna, klerka, menntamanna og bæjarráða. Þeim tókst ekki að komast að samkomulagi og því tóku Spánverjar frumkvæðið og handtóku Iturrigaray og leiðtoga innfæddra í höfuðborginni. Valdaránið batt enda á það sem hefði getað orðið friðsamleg þróun í átt að auknu sjálfræði í Mexíkó, og varð til þess að innfæddir leituðu annarra leiða til að ná fram pólitískum markmiðum.[51]

Þann 16. september 1810 lýsti presturinn Miguel Hidalgo y Costilla andstöðu við „slæm stjórnvöld“ í smábænum Dolores í Guanajuato. Atburðurinn varð þekktur sem kallið frá Dolores (spænska: Grito de Dolores) og er minnst árlega.[52] Fyrsti uppreisnarhópurinn var stofnaður af herforingjanum Ignacio Allende, höfuðsmanninum Juan Aldama og eiginkonu bæjardómarans (Corregidor) Josefa Ortiz de Domínguez, sem var þekkt sem La Corregidora. Yfirlýsing Hidalgos hleypti af stað fjöldauppreisn sem beindist gegn eigum og persónum spænsku yfirstéttarinnar, hvort sem það fólk var fætt á Spáni eða í Nýja heiminum. Í Guanajuato leituðu þau skjóls í kornhlöðu (alhondiga) með fjármuni sína og reyndu að verjast fylgismönnum Hidalgos, en var slátrað. Hernám silfurborgarinnar Guanajuato 28. september 1810 varð frægasti einstaki atburður uppreisnarinnar.[53] Á endanum voru Hidalgo og sumir manna hans handteknir. Hidalgo var sviptur kjól og kalli og þeir voru teknir af lífi í Chihuahua 31. júlí 1811. Höfuð uppreisnarmannanna voru síðan hengd upp á kornhlöðuna. Eftir dauða Hidalgos tóku Ignacio López Rayón og síðan presturinn José María Morelos við leiðtogahlutverki í uppreisninni og hertóku borgir í suðrinu með stuðningi Mariano Matamoros og Nicolás Bravo. Árið 1813 var Chilpancingo-þingið kallað saman og 6. nóvember var undirrituð Yfirlýsing um sjálfstæði Norður-Ameríku. Yfirlýsingin kallaði líka eftir afnámi þrælahalds og þess stigveldis ólíkra kynþátta sem ríkt hafði fram að því, og einræði kaþólsku kirkjunnar í trúmálum. Morelos var handtekinn og tekinn af lífi 22. desember 1815.

 
Fáni Þríheitahersins sem var myndaður af fyrrum konungssinnanum Iturbide og uppreisnarmanninum Vicente Guerrero í febrúar 1821.

Næstu árin staðnaði uppreisnin, en 1820 tóku frjálslyndir við völdum á Spáni. Íhaldsmenn í Mexíkó óttuðust útflutning frjálslyndra gilda til nýlendnanna, þar á meðal takmarkanir á valdi kaþólsku kirkjunnar. Konungssinnaði herforinginn Agustín de Iturbide átti að berjast við uppreisnarmenn Vicente Guerrero í suðri, en hóf þess í stað samræður við hann um bandalag til að taka völdin í Mexíkó. Iturbide gaf út Iguala-áætlunina 24. febrúar 1821 þar sem því var lýst yfir að kaþólsk trú væru einu trúarbrögð Mexíkó, óskað eftir stofnun þingbundins konungsvalds, að landnemar fæddir á Spáni og í Nýja heiminum væru jafn réttháir. Þessi þrjú „heit“ voru því dregin saman sem „trú, sjálfstæði og eining“. Allir áttu að njóta jafnréttis í hinu nýja sjálfstæða ríki, óháð uppruna eða kynþætti, en það var krafa frá Guerrero sem sjálfur var blandaður. Fáni Þríheitahersins sem þeir stofnuðu þróaðist síðan út í fána Mexíkó. Þann 24. ágúst 1821 undirrituðu varakonungurinn og Iturbide Córdoba-samninginn og Sjálfstæðisyfirlýsingu Mexíkóska keisaradæmisins sem viðurkenndi sjálfstæði Mexíkó samkvæmt Iguala-áætluninni. Spænska krúnan hafnaði samningnum og viðurkenndi sjálfstæði Mexíkó ekki formlega fyrr en 1836.

Fyrstu ár sjálfstæðis (1821–1855)

breyta
 
Kort af fyrsta mexíkóska keisaradæminu.

Fyrstu 35 árin eftir að Mexíkó fékk sjálfstæði einkenndust af óstöðugleika og breytingu frá skammlífu einveldi í átt að viðkvæmu sambandslýðveldi.[54] Á þessum tíma gekk landið gegnum herforingjauppreisnir, innrásir erlendra ríkja, stjórnmálaátök íhaldsmanna og frjálslyndra og efnahagslega stöðnun. Rómversk-kaþólsk trú var einu löglegu trúarbrögðin í landinu og kaþólska kirkjan naut sérstakra forréttinda, auk þess að eiga miklar eignir og vera einn helsti stuðningsaðili íhaldsaflanna. Íhaldsmenn réðu lögum og lofum innan hersins, sem líka naut sögulegra forréttinda. Fyrrum herforingi í konunglega hernum, Agustín de Iturbide, varð ríkisstjóri meðan hið nýja ríki leitaði að þjóðhöfðingja í Evrópu. Þegar enginn meðlimur evrópsku konungsættanna vildi taka stöðunni, var Iturbide sjálfur lýstur keisari, sem Agustín 1. Hin ungu Bandaríki Norður-Ameríku voru fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Mexíkó. Þau sendu sendiherra til hirðar keisarans og gáfu til kynna með Monroe-stefnunni að þau hygðust styðja hið nýja ríki gegn ásælni Evrópuþjóða. Valdatíð keisarans varð þó stutt og honum var steypt af stóli af herforingjum, samkvæmt Casa Mata-áætluninni.[55]

Eftir þvingaða afsögn keisarans var fyrsta mexíkóska lýðveldið stofnað. Árið 1824 var stjórnarskráin frá 1824 samþykkt og fyrrum herforinginn Guadalupe Victoria varð fyrsti forseti Mexíkó, í langri röð herforingja. Fylki Mið-Ameríku, Chiapas þar á meðal, sögðu sig úr sambandsríkinu. Árið 1829 varð fyrrum herforingi og eindreginn frjálslyndissinni, Vicente Guerrero, forseti í umdeildum kosningum. Á stuttri valdatíð afnam hann þrælahald. Þar sem hann var sýnilega af blönduðum uppruna og auk þess úr lágt settri fjölskyldu litu aðrir stjórnmálamenn á hann sem aðskotadýr.[56] Íhaldssamur varaforseti hans, Anastasio Bustamante, leiddi valdarán gegn honum og Guerrero var tekinn af lífi.[57] Á þessum tíma voru stöðug átök milli frjálslyndra sem studdu dreifða stjórn og voru oft kallaðir sambandsstjórnarsinnar, og íhaldsmanna sem vildu einingarríki og voru kallaðir miðstjórnarsinnar.

 
Antonio López de Santa Anna herforingi.

Við þessar erfiðu aðstæður reyndi Spánn að endurheimta fyrrum nýlendu sína, en varð að lokum að viðurkenna sjálfstæði hennar. Frakkar reyndu að endurheimta kröfur franskra borgara og settu hafnbann á ströndina að Mexíkóflóa í kökustríðinu svokallaða 1838-39.[58] Herforinginn Antonio López de Santa Anna missti fót í þessum átökum og nýtti sér það til að sýna fram á þær fórnir sem hann hefði fært fyrir þjóðina. Hann kom fram sem þjóðhetja af blönduðum uppruna sem hafði barist gegn ásælni Spánverja. Santa Anna varð þannig áhrifamesti maður mexíkóskra stjórnmála næstu 25 árin, sem eru oft kölluð „Santa Anna-tímabilið“, þar til honum var steypt af stóli árið 1855.[59]

Mexíkóska ríkið átti líka í átökum við frumþjóðir sem ríktu yfir landi sem Mexíkó gerði tilkall til í norðurhlutanum. Kómansjar réðu yfir stóru landsvæði í strjálbýlum héruðum Mið- og Norður-Texas.[60] Til að ná tökum á þessum landamærasvæðum hvatti stjórn Mexíkó til landnáms enskumælandi innflytjenda þangað sem nú er Texas. Landsvæðið lá að Bandaríkjunum en var í raun undir stjórn Kómansja og fáir landnemar frá miðju Mexíkó kusu að flytjast á þetta óvinveitta land. Samkvæmt lögum var Mexíkó kaþólskt land, en enskumælandi landnemarnir voru flestir mótmælendur frá suðurríkjum Bandaríkjanna. Sumir komu með svarta þræla, sem var andstætt mexíkóskum lögum eftir 1829. Santa Anna hugðist koma á sterku miðstjórnarvaldi með því að afnema stjórnarskrána og setja fram lögin sjö sem gáfu honum öll völd. Þegar hann afnam stjórnarskrána braust út borgarastyrjöld um allt land. Þrjú ný ríki lýstu yfir sjálfstæði: Lýðveldið Texas, Lýðveldið Rio Grande og Lýðveldið Yucatán.[61]: 129–137  Mesta höggið var innrás Bandaríkjanna í Mexíkó 1846 og stríð Mexíkó og Bandaríkjanna sem fylgdi í kjölfarið. Mexíkó missti mest af dreifbýlu norðurhéruðunum til Bandaríkjanna með Guadalupe Hidalgo-sáttmálanum 1848. Þrátt fyrir það tap varð Santa Anna aftur forseti þar til frjálslyndir steyptu honum af stóli í Ayutla-byltingunni.

Stjórn frjálslyndra (1855–1911)

breyta
 
Málverk af forsetanum Benito Juárez.

Þegar frjálslyndir höfðu steypt stjórn Santa Anna af stóli og komið aftur á borgaralegri stjórn gátu þeir sett lög sem þeir álitu lykil að efnahagsþróun Mexíkó. Þau urðu undanfari fleiri borgarastyrjalda og afskipta erlendra ríkja. Efnahagsumbæturnar La Riforma áttu að nútímavæða efnahag og stjórnkerfi Mexíkó í anda frjálslyndisstefnunnar. Ný stjórnarskrá var samþykkt 1857 sem kvað á um aðskilnað ríkis og kirkju og afnam sérréttindi bæði kirkjunnar og hersins. Stjórnarskráin kvað líka á um sölu kirkjujarða og landa frumbyggja, og veraldlegt menntakerfi.[62] Þetta fékk íhaldsmenn til að gera uppreisn og hefja Umbótastríðið (1858-1861).

Frjálslyndir sigruðu íhaldsmenn í bardögum, en íhaldsmenn reyndu þá að fá frönsk yfirvöld til að beita sér í Mexíkó. Þeir sendu Napóleon 3. boð um að skipa evrópskan konung yfir Mexíkó. Franski herinn sigraði mexíkóska herinn og setti Maximilian Habsburg á valdastól með stuðningi íhaldsmanna. Ríkisstjórn frjálslyndra, undir forsæti Benito Juárez, varð útlagastjórn innan lands, en þegar þrælastríðinu lauk í Bandaríkjunum árið 1865 hóf Bandaríkjastjórn að styðja mexíkóska lýðveldið. Tveimur árum síðar dró franski herinn stuðning sinn til baka. Maximilian kaus að vera eftir í Mexíkó fremur en snúa aftur til Evrópu. Lýðveldisherinn náði honum á sitt vald og tók hann af lífi í Querétaro, ásamt tveimur herforingjum íhaldsmanna. Lýðveldið var endurreist undir forsæti Juárez.[63]

Eftir þetta voru íhaldsmenn gersigraðir bæði hernaðarlega og pólitískt, eftir samstarf þeirra við franska innrásarherinn og frjálslyndisstefnan varð að samheiti yfir föðurlandsást.[64] Mexikóski herinn sem átti rætur að rekja til nýlenduhersins og síðan hers fyrsta lýðveldisins var í rúst. Nýir herforingjar komu fram í Umbótastríðinu og átökum við Frakka. Einn sá frægasti var Porfirio Díaz sem hafði getið sér hetjuorð í orrustunni við Puebla. Díaz bauð sig fram gegn Juárez án árangurs 1867. Díaz gagnrýndi Juárez fyrir að bjóða sig fram í annað sinn og gerði uppreisn sem Juárez braut á bak aftur. Juárez lést í embætti í júlí 1872 og Sebastián Lerdo de Tejada tók við. Hann lýsti yfir „ríkistrúarbrögðum“ sem byggðust á lögum, friði og reglu. Þegar Lerdo bauð sig fram gerði Díaz aftur uppreisn og setti fram Tuxtepec-áætlunina. Í þetta sinn hafði Díaz meiri stuðning og stundaði skæruhernað gegn Lerdo. Þegar Díaz var við það að vinna sigur flúði Lerdo og hélt í útlegð.[65]

 
Aftaka Maximilians keisara, 19. júní 1867. Tomás Mejía herforingi til vinstri, Maximiian í miðið og Miguel Miramón herforingi til hægri. Málverk eftir Édouard Manet frá 1868.

Eftir langt óróatímabil frá 1810 til 1876 tók við 35 ára stjórn frjálslynda herforingjans Porfirio Díaz sem skapaði aðstæður fyrir því sem kallað var „regla og framþróun“. Porfiríatið einkenndist af efnahagsstöðugleika og hagvexti, aukningu erlendrar fjárfestingar og áhrifa, stækkun járnbrautakerfisins, símkerfisins og fjárfestingu í listum og vísindum.[66] Þetta tímabil einkenndist líka af miklum ójöfnuði og pólitískri kúgun. Díaz var meðvitaður um hættuna á uppreisnum innan hersins, svo hann dró kerfisbundið úr fjárframlögum til hans, en efldi í staðinn lögregluna í sveitum landsins, sem var undir beinni stjórn forsetans. Díaz forðaðist átök við kaþólsku kirkjuna, en afnam ekki ákvæðin í stjórnarskránni sem beint var gegn henni. Frá því seint á 19. öld fjölgaði mótmælendum nokkuð, þótt landið væri að langmestu leyti áfram kaþólskt.

Ríkisstjórnin hvatti til fjárfestinga breskra og bandarískra fjárfesta. Í Norður-Mexíkó eignuðust bandarískir fjárfestar stóra búgarði og stækkuðu áveitur fyrir ræktun markaðsvara. Mexíkóska stjórnin hóf landmælingar í þeim tilgangi að selja land fyrir landbúnaðarþróun. Mörg frumbyggjasamfélög misstu við þetta lönd sín og fólkið varð landlaust launafólk á stórjarðeignum (haciendas).[67] Breskir og bandarískir fjárfestar þróuðu námavinnslu á kopar, blýi og öðrum jarðefnum, auk þess að hefja olíuvinnslu við strönd Mexíkóflóa. Með breytingum á lögum fengu einkaaðilar rétt á auðlindum í jörðu, en áður hafði ríkið átt allar auðlindir undir yfirborði jarðar. Iðnaðargeirinn þróaðist líka, sérstaklega á sviðið vefnaðarvara. Á sama tíma varð til ný stétt iðnverkafólks sem hóf að berjast fyrir réttindum.

Díaz stjórnaði með hópi ráðgjafa sem voru kallaðir „vísindamennirnir“ (científicos).[68] Einn áhrifamesti vísindamaðurinn var fjármálaráðherrann José Yves Limantour.[69] Stjórn Díaz var undir áhrifum frá framhyggju[70] sem hafnaði guðfræði og hughyggju og vildi beita vísindalegum aðferðum við þróun samfélagsins. Lykilþáttur í stjórn frjálslyndra var veraldlegt menntakerfi. Ríkisstjórn Díaz átti í langvinnum átökum við Yaquia sem náðu hápunkti með nauðungarflutningum þúsunda Yaquia til Yucatán og Oaxaca.

Díaz gerði ekki tilraun til að skapa ættarveldi og tilnefna einhvern ættingja sinn sem eftirmann. Þegar aldarafmæli sjálfstæðis Mexíkó nálgaðist sagði Díaz í viðtali við James Creelman að hann hygðist ekki bjóða sig fram í kosningunum 1910, þegar hann væri orðinn áttræður. Öll stjórnarandstaða hafði verið barin niður og því voru ekki margar leiðir fyrir nýja kynslóð stjórnmálaleiðtoga, en þessi tilkynning leiddi strax til aukinnar stjórnmálaþátttöku. Meðal þess var ólíklegt framboð Francisco I. Madero sem kom úr ríkri landeigendafjölskyldu og tókst að afla sér mikils stuðnings á stuttum tíma. Þá gerðist það að Díaz skipti um skoðun og bauð sig fram í kosningunum, en varpaði Madero í fangelsi. Aldarafmæli sjálfstæðis í september reyndist vera síðasta hátíð Porfiriatsins. Þegar mexíkóska byltingin hófst 1910 tók við tíu ára borgarastríð.[71]

Mexíkóska byltingin (1910–1920)

breyta
 
Francisco I. Madero sem varð forseti þegar Díaz neyddist til að segja af sér í maí 1911.

Mexíkóska byltingin stóð í áratug og afleiðingar hennar eru enn áberandi í mexíkósku samfélagi.[72] Hún hófst með uppreisnum gegn Díaz forseta eftir kosningasvik í forsetakosningunum 1910, afsögn hans í maí 1911 og síðan kjöri auðugs landeiganda, Francisco I. Madero haustið 1911. Tíu daga í febrúar 1913 framdi herinn valdarán og steypti stjórn Maderos af stóli með stuðningi Bandaríkjanna. Madero var svo myrtur af útsendurum Alríkishersins undir stjórn Victoriano Huerta herforingja. Þetta varð til þess að andstæðingar Huertas í norðurhlutanum stofnuðu Stjórnarskrárherinn undir stjórn landstjórans í Coahuila, Venustiano Carranza, og í suðurhlutanum bændaher undir stjórn Emilianos Zapata. Þeir sigruðu svo Alríkisherinn.[73]

Árið 1914 var Alríkisherinn leystur upp sem formleg stofnun svo byltingarherirnir voru einir eftir. Eftir sigur byltingarmanna á Huerta reyndu þeir að semja um frið, sem mistókst. Niðurstaðan varð borgarastyrjöld sigurvegaranna um yfirráð yfir Mexíkó. Pancho Villa, sem stýrði herdeild í norðurhlutanum, klauf sig frá Carranza og gerði bandalag við Zapata. Besti herforingi Carranzas, Alvaro Obregón, sigraði Villa í orrustunni við Celaya árið 1915 og her hans leystist upp í kjölfarið. Sveitir Zapata í suðrinu hófu skæruhernað, en Carranza varð forseti Mexíkó í reynd og Bandaríkin viðurkenndu stjórn hans.[73]

Árið 1916 komu sigurvegararnir saman á stjórnlagaþingi til að skrifa stjórnarskrána frá 1917 sem tók gildi í febrúar 1917. Stjórnarskráin gaf ríkisstjórninni heimild til að taka yfir lykilauðlindir, eins og land (27. grein); kvað á um réttindi verkafólks (123. grein); og styrkti þær greinar stjórnarskrárinnar frá 1857 sem beindust gegn kirkjunni.[73] Þessi stjórnarskrá er, með viðaukum, sú sama og gildir í dag.

Áætlað er að 900.000 af 15 milljón íbúum landsins árið 1915 hafi týnt lífinu í byltingunni.[74][75] Þótt oft sé litið á byltinguna sem innanlandsátök hafði hún ýmis tengsl við atburði utan landamæranna.[76] Bandaríkin léku þar mikilvægt hlutverk þar sem stjórn Repúblikana í forsetatíð William Howard Taft studdi valdarán Huerta gegn Madero, en þegar Demókratinn Woodrow Wilson tók við árið 1913, neitaði hann að viðurkenna stjórn Huerta og heimilaði vopnasölu til stjórnarskrársinna. Wilson skipaði líka Bandaríkjaher að hernema höfnina í Veracruz árið 1914.[77]

 
Byltingarforingjarnir Pancho Villa (til vinstri) og Emiliano Zapata (til hægri).

Eftir ósigur Pancho Villa gegn byltingarhernum árið 1915 leiddi hann herfarir inn í Columbus, sem varð til þess að Bandaríkin sendu 10.000 hermenn undir stjórn John J. Pershing til Mexíkó til að reyna að ná Villa, en án árangurs. Carranza mótmælti veru bandarísks herliðs í Norður-Mexíkó. Herliðið var dregið til baka þegar Bandaríkin hófu þátttöku í fyrri heimsstyrjöld.[78] Í stríðinu reyndi Þýskaland að fá Mexíkó til að gerast bandamaður sinn með dulmálsskeyti árið 1917. Mexíkó átti að hefja stríð gegn Bandaríkjunum til að endurheimta þau lönd sem Mexíkó hafði misst í stríði Bandaríkjanna og Mexíkó.[79] Mexíkó var hlutlaust í heimsstyrjöldinni.

Carranza herti tökin á stjórn landsins og lét myrða bændaforingjann Emiliano Zapata árið 1919. Margir bændur höfðu stutt Carranza í byltingunni, en þegar hann komst til valda gerði hann ekki mikið í að bæta eignarhald á jörðum sem hafði verið fyrir marga meginástæðan fyrir þátttöku í átökunum. Raunar skilaði Carranza mörgum jörðum sem áður höfðu verið gerðar upptækar. Helsti foringi Carranzas, Obregón, tók þátt í ríkisstjórn um stutt skeið, en sneri svo aftur til Sonora til að búa sig undir framboð í næstu forsetakosningum. Þar sem Carranza mátti ekki bjóða fram aftur valdi hann sér eftirmann sem enginn þekkti og ætlaði sér að stjórna á bak við tjöldin. Obregón og tveir aðrir foringjar frá Sonora gerðu þá Agua Prieta-áætlunina og steyptu Carranza af stóli. Hann lést á flótta frá Mexíkóborg. Adolfo de la Huerta tók tímabundið við, en síðan var Álvaro Obregón kjörinn forseti.

Efling stjórnar og flokksræði (1920-2000)

breyta
 
Merki Byltingarsinnaða stofnanaflokksins, sem var stofnaður 1929 og hélt völdum samfleytt í 71 ár, til 2000.

Fyrstu 25 árin eftir byltinguna (1920 til 1946) voru byltingarforingjar forsetar Mexíkó; þar á meðal Álvaro Obregón (1920–24), Plutarco Elías Calles (1924–28), Lázaro Cárdenas (1934–40), og Manuel Avila Camacho (1940–46). Frá 1946 hefur enginn meðlimur í her landsins verið forseti. Eftir byltinguna reyndi stjórn Mexíkó að koma á friði, binda enda á afskipti hersins af stjórnmálum og skapa ný ríkisrekin hagsmunasamtök. Obregón hóf jarðaumbætur og efldi verkalýðsfélög. Hann var viðurkenndur af Bandaríkjunum og hóf sáttagerð við fyrirtæki og einstaklinga sem höfðu misst eignir í byltingunni. Hann skipaði félaga sinn, annan herforingja frá Sonora, Calles, sem eftirmann sinn, sem leiddi til misheppnaðrar uppreisnar innan hersins. Calles lenti í átökum við kirkjuna og kaþólska skæruliðaflokka þegar hann hóf að beita ákvæði stjórnarskrárinnar frá 1917 sem beint var gegn klerkum. Átökin milli ríkis og kirkju voru leyst með því að skilgreina ábyrgðarsvið hvors um sig. Stjórnarskráin bannaði endurkjör forseta, en var breytt svo Obregón gæti boðið sig fram aftur. Hann sigraði kosningarnar 1928, en var myrtur af kaþólskum ofsatrúarmanni sem olli stjórnarkreppu. Calles gat ekki orðið forseti aftur, því stjórnarskráin bannaði enn samfellda stjórnarsetu í tvö kjörtímabil í röð. Hann stofnaði þá flokkinn sem átti eftir að halda um valdataumana í Mexíkó næstu 70 árin. Calles lýsti því yfir að byltingin hefði þróast frá caudillismo (stjórn sterka mannsins) í era institucional (stofnanatímabilið).[80]

Þótt hann væri ekki forseti var Calles áfram í lykilstöðu í mexíkóskum stjórnmálum á tímabilinu sem er kallað Maximato (1929-1934). Því lauk með forsetatíð Lázaro Cárdenas sem hrakti Calles úr landi og hóf efnahagslegar og samfélagslegar umbætur. Þær fólu meðal annars í sér þjóðnýtingu olíu í Mexíkó í mars 1938, þar sem fyrirtækið Mexican Eagle Petroleum Company, sem var í eigu Bandaríkjamanna, Breta og Hollendinga, var þjóðnýtt og ríkisfyrirtækið Pemex stofnað. Þetta leiddi til milliríkjadeilna við lönd fyrrum eigenda, en síðan þá hefur fyrirtækið leikið mikilvægt hlutverk í efnahagsþróun í Mexíkó. Arftaki Cárdenas, Manuel Ávila Camacho (1940-1946) var hófsamari og í valdatíð hans bötnuðu samskiptin við Bandaríkin. Mexíkó var mikilvægur bandamaður og birgi Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöld. Árið 1946 var Miguel Alemán Valdés kjörinn. Hann var fyrsti borgaralegi forsetinn sem kosinn var eftir byltinguna. Hann hóf miklar efnahagsumbætur sem urðu þekktar sem kraftaverkið í Mexíkó og einkenndust af iðnvæðingu, þéttbýlisvæðingu og auknum ójöfnuði milli þéttbýlis og dreifbýlishéraða.[81]

 
Stúdentar í brenndum strætisvagni í mótmælum árið 1968.

Efnahagslíf Mexíkó óx hratt og landið vildi sýna umheiminum fram á styrk sinn með því að hýsa Sumarólympíuleikana 1968. Ríkisstjórnin jós fé í byggingu nýrra íþróttaleikvanga. Á sama tíma fóru pólitísk óánægja og mótmæli stúdenta vaxandi. Mótmæli stóðu vikum saman í miðborg Mexíkóborgar fyrir opnun leikanna. Ríkisstjórn Gustavo Díaz Ordaz barði mótmælin niður af hörku, sem náði hápunkti með fjöldamorðunum í Tlatelolco[82] þar sem 300 mótmælendur létu lífið að minnsta kosti (sumir segja allt að 800).[83] Þótt efnahagslífið héldi áfram að blómstra var ójöfnuður enn ástæða óróa, um leið og stjórn Stofnanaflokksins varð í meira mæli að alræðisstjórn sem kúgaði almenning í því sem kallað hefur verið skítuga stríðið í Mexíkó.[84]

Luis Echeverría, sem var innanríkisráðherra í ríkisstjórn Díaz Ordaz og bar ábyrgð á kúguninni meðan á Ólympíuleikunum stóð, var kosinn forseti árið 1970. Ríkisstjórn hans stóð frammi fyrir vaxandi vantrausti almennings og efnahagsvandræðum. Hann kom á takmörkuðum lýðræðisumbótum.[85][86] Echeverría gerði José López Portillo að arftaka sínum árið 1976. Efnahagsástandið versnaði snemma á kjörtímabilinu, en síðan uppgötvuðust stórar olíulindir undan strönd landsins í Mexíkóflóa. Pemex hafði ekki bolmagn til að nýta auðlindirnar og fékk því erlend fyrirtæki til samstarfs. Olíuverð var hátt vegna takmarkana á olíuframleiðslu OPEC-ríkjanna, og López Portilla tók erlend lán til að fjármagna samfélagsleg verkefni. Þessi lán voru auðfengin vegna þess að olíubirgðir Mexíkó voru miklar og framtíðartekjur af þeim voru því lagðar að veði. Þegar olíuverð hrundi á 9. áratugnum, hrundi efnahagur Mexíkó um leið þegar skuldakreppa Rómönsku Ameríku hófst árið 1982. Vextir hækkuðu, pesóinn var gjaldfelldur og ríkisstjórnin lenti í greiðslufalli. Miguel de la Madrid (1982–88) brást við með gjaldfellingum sem leiddu aftur til verðbólgu.

 
Undirritun NAFTA-fríverslunarsamninganna í október 1992. Frá vinstri til hægri: (standandi) Carlos Salinas de Gortari (Mexíkó), George H. W. Bush (Bandaríkin) og Brian Mulroney (Kanada).

Á 9. áratugnum tóku brestir að koma í alræði Byltingarsinnaða stofnanaflokksins. Í fylkinu Baja California vann frambjóðandi Aðgerðaflokksins, Ernesto Ruffo Appel, landstjórakosningar. Þegar De la Madrid kaus Carlos Salinas de Gortari sem frambjóðanda Stofnanaflokksins, klauf annar mögulegur frambjóðandi, Cuauhtémoc Cárdenas, sonur fyrrum forsetans Lázaro Cárdenas, sig frá flokknum og bauð fram gegn Salinas í kosningunum 1988. Í þeim kosningum var kosningasvindl áberandi og niðurstöður sýndu að Salinas hafði sigrað með minnsta sögulega mun. Mikil mótmæli brutust út í Mexíkóborg. Salinas tók við embætti 1. desember 1988.[87] Árið 1990 lýsti rithöfundurinn Mario Vargas Llosa stjórn Stofnanaflokksins sem „fullkomnu einræði“, en þá höfðu þegar komið fram ýmis öfl sem ógnuðu alræði flokksins.[88][89][90]

Salinas hóf efnahagsumbætur í anda nýfrjálshyggju, festi gengi pesóans, hélt verðbólgu niðri, opnaði fyrir erlenda fjárfestingu og hóf samningaviðræður við Bandaríkin og Kanada um að Mexíkó gerðist aðili að fríverslunarsamkomulagi þeirra. Til að það væri hægt var stjórnarskránni frá 1917 breytt á ýmsan hátt. Grein 27 sem heimilaði ríkisstjórninni að þjóðnýta náttúruauðlindir og dreifa landareignum, var breytt til að tryggja eignarétt landeigenda. Andklerkaákvæðin sem múlbundu kaþólsku kirkjuna voru endurskoðuð og Mexíkó tók aftur upp stjórnmálasamband við Vatíkanið. NAFTA-fríverslunarsamningurinn milli Mexíkó, Bandaríkjanna og Kanada tók gildi 1. janúar 1994. Sama dag hófu Zapatistar uppreisn í Chiapas. Vopnuð átök stóðu stutt og uppreisnin hefur lifað áfram sem friðsöm stjórnarandstöðuhreyfing sem stefnt er gegn nýfrjálshyggju og hnattvæðingu. Árið 1994 tók Ernesto Zedillo við embætti forseta og þurfti að glíma við mexíkósku gjaldmiðilskreppuna með því að taka 50 milljarða dala lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Zedillo hóf efnahagsumbætur sem leiddu til skjótrar endurheimtar hagvaxtar sem náði næstum 7% undir lok árs 1999.[91]

Samtíminn

breyta
 
Vicente Fox og stjórnarandstöðuflokkurinn Aðgerðaflokkur Mexíkó unnu forsetakosningarnar árið 2000 þar sem einsflokksræði lauk.

Eftir 71 árs valdatíð tapaði Byltingarsinnaði stofnanaflokkurinn forsetakosningum og Vicente Fox úr Aðgerðaflokknum vann. Í forsetakosningum árið 2006 var Felipe Calderón úr Aðgerðaflokknum lýstur sigurvegari með mjög litlum mun (0,58%) yfir frambjóðanda vinstrimanna, Andrés Manuel López Obrador, sem var frambjóðandi Lýðræðislega byltingarflokksins.[92] López Obrador dró kosningaúrslitin í efa og hét því að mynda „hliðarstjórn“.[93]

Árið 2012 vann Byltingarsinnaði stofnanaflokkurinn forsetaembættið á ný þegar Enrique Peña Nieto, landstjóri í Mexíkófylki frá 2005 til 2011, var kosinn. Hann fékk þó aðeins 38% atkvæða og var ekki með meirihluta á þinginu.[94]

Andrés Manuel Obrador stofnaði Hreyfingu um þjóðarendurnýjun (MORENA) og vann forsetakosningar árið 2018 með yfir 50% atkvæða. Þetta kosningabandalag inniheldur stjórnmálamenn alls staðar að úr mexíkóskum stjórnmálum. Bandalagið náði líka meirihluta í bæði efri og neðri deild mexíkóska þingsins. Þessi sigur López Obrador leiddi meðal annars af því að aðrir sterkir valkostir höfðu þegar fengið tækifæri og hann lagði áherslu á hófsaman málflutning með áherslu á sættir.[95]

Mexíkó hefur glímt við háa glæpatíðni, spillingu, stríð við eiturlyfjahringi og stöðnun í efnahagslífinu. Mörg ríkisfyrirtæki voru einkavædd eftir að umbætur í anda nýfrjálshyggju hófust á 10. áratugnum, en ríkisrekna olíufyrirtækið Pemex hefur verið einkavætt í hægum skrefum.[96] Fyrrverandi framkvæmdastjóri Pemex var handtekinn í aðgerðum López Obrador gegn spillingu.[97]

Í miðannarkosningum 2021 tapaði flokkur López Obrador þingsætum í neðri deild, en bandalagið hélt einföldum meirihluta. Helsta stjórnarandstaðan er frá þremur hefðbundnum valdaflokkum: Byltingarsinnaða stofnanaflokknum, Aðgerðaflokknum og Lýðræðislega byltingarflokknum.[98]

Claudia Sheinbaum varð fyrsti kvenforseti Mexíkó árið 2024.

Landfræði

breyta
 
Hæðakort af Mexíkó.
 
Hæsti tindur Mexíkó, Pico de Orizaba.

Mexíkó liggur milli 14. og 33. breiddargráðu norður, og 86. og 119. lengdargráðu vestur í suðurhluta Norður-Ameríku. Næstum allt Mexíkó situr á Norður-Ameríkuflekanum, en hlutar skagans Baja California sitja á Kyrrahafsflekanum og Kókosflekanum. Sumir landfræðingar skilgreina Tehuantepec-eiðið sem hluta Mið-Ameríku,[99] en almennt er Mexíkó talið með löndum Norðanverðrar Ameríku, ásamt Kanada og Bandaríkjunum.[100]

Mexíkó er 1.972.550 km² að stærð og er því 13. stærsta land heims. Landið á strönd að Kyrrahafi og Kaliforníuflóa í vestri, og Mexíkóflóa og Karíbahafi í austri. Tvö síðarnefndu höfin eru innhöf í Atlantshafi.[101] Á þessum strandsvæðum eru 6000 km² af eyjum (þar á meðal hinar fjarlægu Guadalupe-eyja og Revillagigedo-eyjar). Ef miðað er við ystu útpunkta landsins er Mexíkó rétt um 3.219 km á lengd. Landið skiptist í níu landfræðileg héruð: skagann Baja California, láglendið við Kyrrahafsströndina, Mexíkóhásléttuna, Sierra Madre Oriental, Sierra Madre Occidental, Cordillera Neo-Volcánica, strandsléttuna við Mexíkóflóa, syðra hálendið og Júkatanskaga.[102] Þótt Mexíkó sé stórt land er mikið af landsvæðinu óhentugt til landbúnaðar vegna þurrka, jarðvegs eða landslags. Árið 2018 var áætlað að 54,9% landsins hentaði fyrir landbúnað og skiptist þannig: 11,8% er ræktarland, 1,4% er lagt undir langtímaafurðir, 41,7% er beitiland og 33,3% skógar.[103]

Frá norðri til suðurs ganga tveir fjallgarðar eftir Mexíkó sem nefnast Sierra Madre Oriental og Sierra Madre Occidental. Þeir eru framhald á Klettafjöllum í Norðanverðri Ameríku. Frá austri til vesturs um miðbik landsins liggur mexíkóska eldfjallabeltið, líka þekkt sem Sierra Nevada. Fjórði fjallgarðurinn, Sierra Madre del Sur, liggur frá Michoacán til Oaxaca. Megnið af mið- og norðurhéruðum Mexíkó liggur á hálendi og hæstu fjöllin er að finna í eldfjallabeltinu: Pico de Orizaba (5.636 m), Popocatépetl (5.462 m) og Iztaccihuatl (5.286 m) auk Nevado de Toluca (4.577 m). Þrjú þéttbýlissvæði er að finna í dölunum milli þessara fjalla: Toluca, Mexíkóborg og Puebla. Chicxulub-gígurinn einkennir hluta af landslagi Mexíkó, en talið er að hann sé afleiðing áreksturs loftsteins við jörðina sem leiddi til krítar-paleógen-fjöldaútdauðans. Margs konar náttúruhamfarir herja á Mexíkó, þar á meðal fellibyljir við báðar strendurnar, flóðbylgjur við Kyrrahafið og eldvirkni.[104]

Í Mexíkó er ekki mikið um vatnsföll. Lerma-á rennur í vestur í Chapala-vatn sem er stærsta náttúrulega stöðuvatn landsins. Santiago-á rennur úr Chapala-vatni í Kyrrahafið. Pánuco-á rennur í Mexíkóflóa. Pátzcuaro-vatn og Cuitzeo-vatn, vestan við Mexíkóborg, eru leifar af risastórum stöðuvötnum og mýrum sem þöktu megnið af suðurhluta Mesa Central áður en Evrópubúar settust þar að. Vatnakerfið í miðju landinu þar sem höfuðborg Asteka, Tenochtitlán, og byggðir í kring blómstruðu fyrir landvinninga Spánverja, hefur nú verið nær algerlega þurrkað upp. Nokkur heilsársvatnsföll er að finna á þurrlendinu í Mesa del Norte og flest þeirra renna inn í landið fremur en út í sjó. Langmikilvægasta fljótið í þeim landshluta er Rio Grande sem í Mexíkó nefnist Río Bravo del Norte, sem myndar 3.141 km af landamærunum frá Ciudad Juárez að strönd Mexíkóflóa. Balsas-fljót er virkjað fyrir raforku. Grijalva-á og Usumacinta-á taka við afrennsli af Chiapas-hálendinu. Papaloapan-á rennur út í Mexíkóflóa sunnan við Veracruz. Bæði Baja California-skagi og Júkatanskagi eru mjög þurrir og engar ár renna þar ofanjarðar.

Stjórnmál

breyta
 
Þjóðarhöll Mexíkó austan megin við Plaza de la Constitución eða Zócalo, aðaltorgið í Mexíkóborg. Hún var áður aðsetur varakonunga og forseta Mexíkó og er nú stjórnarsetur.
 
Fulltrúaþing Mexíkó er neðri deild mexíkóska þingsins.

Sambandsríki Mexíkó eru sambandslýðveldi sem býr við fulltrúalýðræði með forsetaræði samkvæmt stjórnarskrá frá 1917. Stjórnarskráin kveður á um þrjú stjórnsýslustig: alríkisstjórnina, fylkisstjórir og sveitarstjórnir. Samkvæmt stjórnarskránni eiga öll aðildarríki sambandsins að vera lýðveldi með þrískiptingu valds: framkvæmdavald undir stjórn landstjóra og skipaðrar stjórnar, löggjafarvald með þing sem kemur saman í einni deild[105], og dómsvald með hæstarétt. Fylkin eru líka með sín eigin lagasöfn.

Mexíkóska þingið er tvískipt og myndað úr Öldungadeild Mexíkó og Fulltrúaþingi Mexíkó. Þingið setur alríkislög, lýsir yfir stríði, setur á skatta, samþykkir fjárlög alríkisins og alþjóðasamninga, og staðfestir skipan sendiherra.[106]

Þingmenn alríkisþingsins og fylkisþinga eru kosnir með samhliða kosningu meirihluta- og hlutfallskosningu.[107] Í fulltrúadeildinni sitja 500 þingmenn. Af þeim eru 300 kosnir með meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum (alríkiskjördæmi Mexíkó) og 200 með hlutfallskosningu af listum[108] sem lagðir eru fram í fimm kjördæmum.[109] Öldungadeildin er skipuð 128 öldungadeildarþingmönnum. Þar af eru 64 (tveir í hverju fylki og tveir fyrir Mexíkóborg) kosnir með meirihlutakosningu í pörum: 32 eru efsti minnihluti eða næstur inn (einn fyrir hvert fylki og einn fyrir Mexíkóborg), og 32 eru kosnir með hlutfallskosningu af listum.[108]

Forseti Mexíkó fer með framkvæmdavaldið sem bæði þjóðhöfðingi og stjórnarleiðtogi. Hann er auk þess yfirmaður herafla Mexíkó. Forsetinn skipar ríkisstjórn Mexíkó og aðra embættismenn. Forsetinn ber ábyrgð á framkvæmd laga og getur beitt neitunarvaldi til að stöðva lagafrumvörp.[110]

Æðsti dómstóll Mexíkó er Hæstiréttur Mexíkó með ellefu dómara sem skipaðir eru af forsetanum og samþykktir af öldungadeildinni. Hæstiréttur túlkar lögin og dæmir mál sem snúast um valdsvið alríkisins. Aðrar stofnanir dómsvaldsins eru kosningadómstóll alríkisins, kirkjudómstólar, sameinaðir dómstólar og héraðsdómstólar, og ráð alríkisdómara.[111] Dómsvaldið er að nafninu til óháð framkvæmdavaldinu, en forsetinn López Obrador gróf undan sjálfstæði margra stofnana þess í viðleitni til að efla forsetavaldið, meðal annars með því að lækka laun dómara og neita að heimila sjálfstæða skipun ríkissaksóknara.[112]

Eftir kosningasvik af hálfu innanríkisráðuneytisins í forsetakosningunum 1988, var ný stofnun búin til til að hafa eftirlit með framkvæmd kosninga. Stjórn López Obrador hefur stungið upp á umdeildum breytingum á stjórn stofnunarinnar þannig að hún yrði kosin í almennum kosningum en ekki skipuð sérfræðingum.[113]

Stjórnsýslueiningar

breyta

Bandaríki Mexíkó eru sambandsríki 31 fylkis sem hafa að hluta umsýslu með Mexíkóborg[114].

Hvert fylki á sína eigin stjórnarskrá, þing og dómsvald, og íbúar þeirra kjósa landstjóra í beinum kosningum til sex ára í senn, og þingmenn til þriggja ára í senn[115].

Mexíkóborg er sérstök stjórnsýslueining sem tilheyrir sambandsríkinu í heild en ekki einhverju einu fylki[114]. Hún var áður þekkt sem Alríkisumdæmið og hafði takmarkaða sjálfstjórn í samanburði við fylkin[116]. Þessi einkunn var afnumin árið 2016 og borgin mun fá aukna sjálfstjórn með því að verða sérstakt fylki með eigin stjórnarskrá og þing[117].

Fylkin skiptast í sveitarfélög sem eru minnsta stjórnsýslueiningin í landinu. Sveitarfélögin eru með borgarstjóra eða sveitarstjóra sem íbúar kjósa með meirihlutakosningu[118].


Fylki (skst.) Höfuðborg Fylki (skst.) Höfuðborg
Aguascalientes (AGS) Aguascalientes Morelos (MOR) Cuernavaca
Baja California (BC) Mexicali Nayarit (NAY) Tepic
Baja California Sur (BCS) La Paz Nuevo León (NL) Monterrey
Campeche (CAM) Campeche Oaxaca (OAX) Oaxaca
Chiapas (CHIS) Tuxtla Gutiérrez Puebla (PUE) Puebla
Chihuahua (CHIHU) Chihuahua Querétaro (QRO) Querétaro
Coahuila (COAH) Saltillo Quintana Roo (QR) Chetumal
Colima (COL) Colima San Luis Potosí (SLP) San Luis Potosí
Durango (DUR) Durango Sinaloa (SNL) Culiacán
Guanajuato (GTO) Guanajuato Sonora (SON) Hermosillo
Guerrero (GRO) Chilpancingo Tabasco (TAB) Villahermosa
Hidalgo (HGO) Pachuca Tamaulipas (TAMPS) Victoria
Jalisco (JAL) Guadalajara Tlaxcala (TLAX) Tlaxcala
México (EM) Toluca Veracruz (VER) Xalapa
Mexíkóborg (CDMX) Mexíkóborg Yucatán (YUC) Mérida
Michoacán (MICH) Morelia Zacatecas (ZAC) Zacatecas

Efnahagslíf

breyta
 
Graf sem sýnir hlutfallslega skiptingu útflutningstekna Mexíkó. Hagkerfi landsins er með því flóknasta í Rómönsku Ameríku.
 
Kauphöllin í Mexíkó í Mexíkóborg.

Í apríl 2018 var verg landsframleiðsla að nafnvirði í Mexíkó sú 15. mesta í heimi (1,15 billjónir bandaríkjadala)[119] og sú 11. mesta kaupmáttarjöfnuð (2,45 billjónir bandaríkjadala). Hagvöxtur var að meðaltali 2,9% árið 2016 og 2% árið 2017.[119] Landbúnaður hefur staðið undir 4% af landsframleiðslunni síðustu tvo áratugi, en iðnaður stendur undir 33% (aðallega bílaiðnaður, olíuiðnaður og rafeindaiðnaður), meðan þjónusta (aðallega fjármálaþjónusta og ferðaþjónusta) stendur undir 63%.[119] Kaupmáttarjöfnuð landsframleiðsla á mann í Mexíkó var 18.714,05 bandaríkjadalir. Samkvæmt Heimsbankanum árið 2009 voru vergar þjóðartekjur Mexíkó að markaðsvirði þær aðrar hæstu í Rómönsku Ameríku, á eftir Brasilíu,[120] sem gerði hæstu þjóðartekjur á mann, eða 15.311 dali.[121][122] Mexíkó er nú almennt skilgreint sem efra miðtekjuland. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði 2,3% og 2,7% hagvexti árin 2018 og 2019.[119] Árið 2050 gæti Mexíkó verið orðið fimmta eða sjöunda stærsta hagkerfi heims.[123][124]

Margar alþjóðastofnanir skilgreina Mexíkó sem miðtekjuríki, eða miðstéttarríki,[125][126] en Stofnun um mat á stefnu í samfélagsþróun (CONEVAL), sem ber ábyrgð á mælingum á fátækt í landinu, segir að stórt hlutfall íbúa Mexíkó búi við fátækt. Samkvæmt stofnuninni hafði fjöldi fólks sem bjó við fátækt vaxið úr 18-19% árið 2006[127] í 46% (52 milljónir) árið 2010.[128] Sérfræðingar telja þó að þessi mikli vöxtur stafi aðallega af breytingum á forsendum mælinga CONEVAL. Þeir benda líka á að þessi fjöldi er 40 sinnum meiri en sá fjöldi sem er undir fátæktarmörkum Heimsbankans.[129] Samkvæmt skilgreiningu OECD á fátæktarmörkum (sem það hlutfall íbúa sem hefur innan við 60%[130] af miðtekjum í landinu) búa 20% íbúa Mexíkó við fátækt.[131]

Ójöfnuður í Mexíkó er sá annar mesti hjá OECD-ríkjum, á eftir Chile, þótt hann hafi farið minnkandi síðasta áratug.[132] Neðsta tíund tekjuhópa í landinu nýtir 1,36% af auðlegð landsins, meðan efsta tíundin nýtir næstum 36%. Samkvæmt OECD eru fjármunir sem Mexíkó ver í baráttu gegn fátækt og samfélagsumbætur aðeins um þriðjungur meðaltals aðildarríkja samtakanna.[133] Þetta endurspeglast í þeirri staðreynd að ungbarnadauði í Mexíkó er þrisvar sinnum hærri en meðaltal OECD-ríkja, meðan læsi er nálægt miðgildi OECD-ríkja. Samt sem áður telur Goldman Sachs að Mexíkó muni ná því að hafa 5. stærsta hagkerfi heims fyrir árið 2050.[134] Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 2008 eru meðaltekjur í dæmigerðri mexíkóskri borg 26.654 dalir, en meðaltekjur í dæmigerðu sveitahéraði rétt hjá aðeins 8.403 dalir.[135] Lágmarksdaglaun eru ákvörðuð árlega og voru 102,68 pesóar (um 5,4 bandaríkjadalir) árið 2019.[136] Allar þróunarvísitölur fyrir frumbyggja Mexíkó eru mun lægri en meðaltalið innanlands, sem veldur ríkisstjórn landsins áhyggjum.[137]

Rafeindaiðnaðurinn í Mexíkó hefur vaxið mjög hratt á síðasta áratug. Rafeindageirinn í Mexíkó er sá sjötti stærsti í heimi, á eftir Kína, Bandaríkjunum, Japan, Suður-Kóreu og Taívan. Mexíkó er annar helsti framleiðandi rafeindatækja sem seld eru í Bandaríkjunum, sem árið 2011 voru 71,4 milljarða virði.[138] Mexíkóski rafeindaiðnaðurinn snýst aðallega um framleiðslu á sjónvörpum, skjám, tölvum, farsímum, rafrásum, hálfleiðurum, heimilistækjum og íhlutum í kristalsskjái. Geirinn óx um 20% milli 2010 og 2011, sem var aukning frá 17% stöðugum vexti milli 2003 og 2009.[138] Rafeindaiðnaðurinn stendur nú undir 30% af útflutningi frá Mexíkó.[138]

Mexíkó framleiðir fleiri bíla en nokkuð annað land í Norður-Ameríku.[139] Bílaiðnaðurinn framleiðir tæknilega þróaða íhluti og leggur stund á rannsóknir og þróun.[140] „Stóru þrír“ bílaframleiðendurnir (General Motors, Ford og Chrysler) hafa verið með starfsemi í Mexíkó frá 4. áratug 20. aldar, en Volkswagen og Nissan reistu þar verksmiðjur á 7. áratugnum.[141] Í Puebla einni eru 70 framleiðendur bifreiðahluta í kringum Volkswagen.[140] Á 2. áratug 21. aldar stækkaði iðnaðurinn hratt. Árið 2014 var nýfjárfesting í geiranum yfir 10 milljarðar dala. Í september 2016 opnaði Kia Motors 1 milljarðs dala verksmiðju í Nuevo León[142] og Audi opnaði samsetningarlínu í Puebla sama ár.[143] BMW, Mercedes-Benz og Nissan eru með verksmiðjur í byggingu í Mexíkó.[144] Innlendir bílaframleiðandur eru DINA S.A., sem hefur smíðað almenningsvagna og vörubíla frá 1962[145] og nýja fyrirtækið Mastretta sem framleiðir sportbílinn Mastretta MXT.[146] Árið 2006 kom næstum helmingur af útflutningstekjum Mexíkó og 45% af innflutningi frá Bandaríkjunum og Kanada.[147] Fyrstu þrjá ársfjórðunga 2010 var viðskiptahalli Bandaríkjanna gagnvart Mexíkó 46 milljarðar dala.[148] Í ágúst 2010 tók Mexíkó fram úr Frakklandi og varð 9. stærsti lánadrottinn Bandaríkjanna.[149] Landið er viðskiptalega og fjárhagslega svo háð Bandaríkjunum að það veldur áhyggjum.[150]

Peningasendingar frá mexíkóskum ríkisborgurum sem starfa í Bandaríkjunum eru umtalsverðar. Eftir samdrátt í alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008 og aftur í Covid-19-faraldrinum 2021 eru þær orðnar hærri en aðrar gjaldeyrisuppsprettur.[151][152] Peningasendingarnar berast til Mexíkó eftir beinum leiðum í bandaríska ríkisbankakerfinu.[153]

Íbúar

breyta
 
Fylki Mexíkó eftir íbúafjölda.

Alla 19. öld rétt tvöfaldaðist íbúafjöldi Mexíkó. Þessi litla fjölgun hélt áfram fyrstu tvo áratugi 20. aldar, og jafnvel í manntalinu árið 1921 var milljón íbúa fækkun. Þetta má skýra með því að mexíkóska byltingin átti sér stað áratuginn á undan. Vöxturinn jókst gríðarlega milli 1930 og 1990 þegar árleg fjölgun var allt að 3%. Íbúafjöldi Mexíkó tvöfaldaðist á 20 árum og búist var við því að hann næði 120 milljónum fyrir aldamótin 2000. Lífslíkur fóru úr 36 árum 1895 í 72 ár árið 2000. Samkvæmt áætlun Landfræði- og tölfræðistofnunar Mexíkó er áætlaður fjöldi íbúa 129.150.971 árið 2022.[154] Íbúar voru 123,5 milljónir árið 2017[155] en þá var Mexíkó fjölmennasta spænskumælandi land heims.[156]

Menning

breyta
 
Fjölskyldur huga að legsteinum ættingja fyrir dag hinna dauðu í Almoloya del Río 1995.
 
Bókasafnið við Universidad Nacional Autónoma de México í Mexíkóborg með skreytingum sem byggjast á myndlist frumbyggja Mexíkó reist á 6. áratug 20. aldar.

Menning Mexíkó endurspeglar fjölbreyttan uppruna íbúa og er undir mestum áhrifum frá menningu frumbyggja og spænskri menningu. Mexíkó var ein af vöggum siðmenningar frá því fyrir 7.000 árum þegar íbúar landsins þróuðu fyrstu ræktunarafbrigði maís. Olmekar, Majar og Astekar reistu stórar borgir með einkennandi arkitektúr. Eftir að Spánverjar lögðu landið undir sig blandaðist menning frumbyggja við spænska menningu. Kaþólsk trú varð ríkjandi trúarbrögð, þótt ýmsir siðir tengist enn helgiathöfnum frumbyggja. Dagur hinna dauðu, pinjatan og dýrkun Mærinnar frá Guadalupe og alþýðudýrlingsins Santa Muerte eru dæmi um slíka siði.

Eftir mexíkósku byltinguna 1920 var tekin upp stefna aðlögunar frumþjóða landsins undir heitinu Indigenismo. Indigenismo fólst í því að upphefja frumbyggjamenningu sem upprunalega þjóðmenningu Mexíkó og brjóta á bak aftur kynþáttamismunun í skólakerfinu. Um leið voru frumbyggjar seldir undir stjórn- og menntakerfi Mexíkó. Listamenn eins og myndlistarmaðurinn Diego Rivera[157] og tónskáldið Daniel Alomía Robles[158] áttu þátt í að skapa þessa stefnu. Indigenismo-stefnan hefur síðar verið gagnrýnd fyrir að hafa reynt að aðlaga frumbyggja að meginstraumsmenningu Mexíkó og þannig í reynd brotið niður sérstöðu frumbyggjasamfélaga um leið og ákveðnir menningarlegir þættir voru gerðir að þjóðartáknum.

Eftir síðari heimsstyrjöld breyttist stefnan í það sem hefur verið nefnt Mestizaje sem upphefur blandaðan uppruna íbúa landsins, á þeim forsendum að allir séu á einhvern hátt blandaðir og þar með jafnréttháir. Heimspekingurinn José Vasconcelos átti þátt í mótun þessarar stefnu með hugmyndinni um „alheimskynþáttinn“,[159] og meðal listamanna sem tengjast henni eru myndlistarkonan Frida Kahlo og rithöfundurinn Octavio Paz. Margir lykilþættir í menningu Mexíkó, eins og Mariachi-tónlist og kúrekamenning, eru tengdir við þennan blandaða uppruna.[160] Mestizaje hefur líka verið gagnrýnt fyrir að breiða yfir kynþáttamismunun í mexíkósku samfélagi og hafna sérstöðu frumþjóða.[161]

Tilvísanir

breyta
  1. Werner 2001, bls. 386–.
  2. Susan Toby Evans; David L. Webster (2013). Archaeology of Ancient Mexico and Central America: An Encyclopedia. Routledge. bls. 54. ISBN 978-1-136-80186-0.
  3. Colin M. MacLachlan (13. apríl 2015). Imperialism and the Origins of Mexican Culture. Harvard University Press. bls. 39. ISBN 978-0-674-28643-6.
  4. Carmack, Robert M.; Gasco, Janine L.; Gossen, Gary H. (2016). The Legacy of Mesoamerica: History and Culture of a Native American Civilization. Routledge. ISBN 978-1-317-34678-4.
  5. Diehl, Richard A. (2004). The Olmecs: America's First Civilization. Thames & Hudson. bls. 9–25. ISBN 978-0-500-02119-4.
  6. Restall, Matthew, "A History of the New Philology and the New Philology in History", Latin American Research Review - Volume 38, Number 1, 2003, pp.113–134
  7. Sampson, Geoffrey (1985). Writing Systems: A Linguistic Introduction. Stanford University Press. ISBN 978-0-8047-1756-4.
  8. Cowgill, George L. (21. október 1997). „State and Society at Teotihuacan, Mexico“. Annual Review of Anthropology. 26 (1): 129–161. doi:10.1146/annurev.anthro.26.1.129. OCLC 202300854. S2CID 53663189.
  9. „Ancient Civilizations of Mexico“. Ancient Civilizations World. 12. janúar 2017. Sótt 14. júlí 2019.
  10. „The word "Azteca" was NOT created by Von Humboldt!“. Mexicka.org. 31. maí 2014. Sótt 13. júlí 2019.
  11. León Portilla, Miguel (10. maí 2009). „Los aztecas, disquisiciones sobre un gentilico“. Estudios de Cultura Náhuatl. 31 (31).
  12. Berdan, et al. (1996), Aztec Imperial Strategies. Dumbarton Oaks, Washington, DC
  13. Coe, Michael D.; Rex Koontz (2002). Mexico: from the Olmecs to the Aztecs (5th edition, revised and enlarged. útgáfa). London and New York: Thames & Hudson. ISBN 978-0-500-28346-2. OCLC 50131575.
  14. „The Enigma of Aztec Sacrifice“. Natural History. Sótt 16. desember 2011.
  15. Weaver, Muriel Porter (1993). The Aztecs, Maya, and Their Predecessors: Archaeology of Mesoamerica (3rd. útgáfa). San Diego, CA: Academic Press. ISBN 978-0-12-739065-9. OCLC 25832740.
  16. Florescano, Enrique. "The creation of the Museo Nacional de Antropología and its scientific, educational, and political purposes." Í Nationalism: Critical Concepts in Political Science, Vol. IV p. 1257. John Hutchinson and Anthony D. Smith, eds. London and New York: Routledge 2000.
  17. Octavio Paz, Posdata, Mexico: Siglo Veintiuno 1969, tilvísun í Florescano, "The creation of the Museo Nacional de Antropología", p. 1258, nmgr. 9.
  18. Keen, Benjamin. The Aztec Image in Western Thought. New Brunswick: Rutgers University Press 1971. ISBN 9780813515724
  19. Townsend, Camilla (2006). Malintzin's Choices: An Indian Woman in the Conquest of Mexico. UNM Press. ISBN 978-0-8263-3406-0.
  20. Cortés, Hernán. Five Letters to the Emperor. Trans. J. Bayard Morris. New York: W.W. Norton 1969
  21. Díaz del Castillo, Bernal. True History of the Conquest of Mexico. ýmsar útgáfur.
  22. Fuentes, Patricia de. The Conquistadors: First-Person Accounts of the Conquest of Mexico. Norman: Norman: University of Oklahoma Press 1993.
  23. Alva Ixtlilxochitl, Fernando de. Ally of Cortés: Account 13 of the Coming of the Spaniards and the Beginning of Evangelical Law. Trans. Douglass K. Ballentine. El Paso: Texas Western Press 1969.
  24. Altman, Ida; Cline, S. L.; Pescador, Juan Javier (2003). „Narratives of the Conquest“. The Early History of Greater Mexico. Prentice Hall. bls. 73–96. ISBN 978-0-13-091543-6.
  25. León-Portilla, Miguel. The Broken Spears: The Aztec Accounts of the Conquest of Mexico. Boston: Beacon Press 1992.
  26. Lockhart, James. We People Here: Nahuatl Accounts of the Conquest of Mexico. Berkeley: University of California Press 1993.
  27. Lockhart, James og Stuart B. Schwartz. Early Latin America. Cambridge: Cambridge University Press 1983, 59
  28. Chuchiak, John F. IV, "Inquisition" in Encyclopedia of Mexico. Chicago: Fitzroy Dearborn 1997, pp. 704–708
  29. Salvucci, Linda. "Adams-Onís Treaty (1819)". Encyclopedia of Latin American History and Culture, vol. 1, pp. 11–12.
  30. Sempa, Francis P. „China, Spanish America, and the 'Birth of Globalization'. The Diplomat. Sótt 7. febrúar 2017.
  31. McCaa, Robert (8. desember 1997). „The Peopling of Mexico from Origins to Revolution“. University of Minnesota.edu. Sótt 13. júlí 2019.
  32. Sluyter, Andrew (2012). Black Ranching Frontiers: African Cattle Herders of the Atlantic World, 1500–1900. Yale University Press. bls. 240. ISBN 9780300179927. Sótt 8. október 2016.
  33. Russell, James W. (2009). Class and Race Formation in North America (enska). University of Toronto Press. bls. 26. ISBN 9780802096784. Sótt 13. desember 2016.
  34. Carrillo, Rubén. „Asia llega a América. Migración e influencia cultural asiática en Nueva España (1565–1815)“. www.raco.cat. Asiadémica. Sótt 13. desember 2016.
  35. The Penguin Atlas of World Population History, pp. 291–92.
  36. Lerner, Victoria. „Consideraciones sobre la población de la Nueva España (1793–1810)“ [Considerations on the population of New Spain (1793–1810)] (PDF) (spænska). Mexico City: El Colegio de México. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. nóvember 2018. Sótt 4. júní 2020.
  37. Cline, Sarah (1. ágúst 2015). „Guadalupe and the Castas“. Mexican Studies/Estudios Mexicanos. 31 (2): 218–247. doi:10.1525/mex.2015.31.2.218. S2CID 7995543.
  38. 38,0 38,1 Cope, R. Douglas. The Limits of Racial Domination: Plebeian Society in Colonial Mexico City, 1660–1720. Madison, Wis.: U of Wisconsin, 1994.
  39. Vinson III, Ben (2017). Before Mestizaje: The Frontiers of Race and Caste in Colonial Mexico. Cambridge University Press. ISBN 978-1-107-02643-8.
  40. Sierra Silva, Pablo Miguel. Urban Slavery in Colonial Mexico: Puebla de los Angeles 1531-1706. New York: Cambridge University Press 2018.
  41. Deans-Smith, Susan. "Bourbon Reforms", Encyclopedia of Mexico. p. 156
  42. „God intervened through Our Lady of Guadalupe to evangelize the Americas, explains Guadalupe expert“, Catholic News Agency, 11. ágúst 2009, sótt 14. júlí 2019
  43. 43,0 43,1 „Everything You Need To Know About La Virgen De Guadalupe“, Huff Post Latino Voices, 12. desember 2013, sótt 14. júlí 2019
  44. Ortiz-Ramirez, Eduardo A. The Virgin of Guadalupe and Mexican Nationalism: Expressions of Criollo Patriotism in Colonial Images of the Virgin of Guadalupe (enska). bls. 6. ISBN 9780549596509. Sótt 9. febrúar 2017.[óvirkur tengill]
  45. Schmal, John P. (17. júlí 2003). „The Indigenous People of Zacatecas“. Latino LA: Comunidad. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. mars 2016. Sótt 14. júlí 2019.
  46. Charlotte M. Gradie (2000). „The Tepehuan Revolt of 1616: Militarism, Evangelism, and Colonialism in Seventeenth-Century Nueva Vizcaya“. The Americas. Salt Lake City: University of Utah Press. 58 (2): 302–303. doi:10.1353/tam.2001.0109. S2CID 144896113.
  47. Wasserstrom, Robert (1980). „Ethnic Violence and Indigenous Protest: The Tzeltal (Maya) Rebellion of 1712“. Journal of Latin American Studies. 12: 1–19. doi:10.1017/S0022216X00017533. S2CID 145718069.
  48. Taylor, William B. (1. júní 1979). Drinking, Homicide, and Rebellion in Colonial Mexican Villages (1st. útgáfa). Stanford: Stanford University Press. ISBN 978-0804711128.
  49. White, Benjamin (31. janúar 2017). „Campeche, Mexico – largest pirate attack in history, now UNESCO listed“. In Search of Lost Places. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 júlí 2019. Sótt 14. júlí 2019.
  50. Knispel, Sandra (13. desember 2017). „The mysterious aftermath of an infamous pirate raid“. University of Rochester Newsletter. Sótt 14. júlí 2019.
  51. Altman, et al. The Early History of Greater Mexico, 342-43
  52. „Grito de Dolores“. Encyclopaedia Britannica. Sótt 12. september 2018.
  53. Van Young, Eric, Stormy Passage: Mexico from Colony to Republic, 1750-1850. (2022), 127.
  54. Van Young, Stormy Passage, 179-226
  55. Benson, Nettie Lee. "The Plan of Casa Mata." Hispanic American Historical Review 25 (February 1945): 45-56.
  56. Hale, Charles A. Mexican Liberalism in the Age of Mora. New Haven: Yale University Press 1968. p. 224
  57. „Ways of ending slavery“. Encyclopædia Britannica.
  58. Costeloe, Michael P. "Pastry War" in Encyclopedia of Latin American History and Culture, vol. 4, p. 318.
  59. Van Young, Stormy Passage, "The Age of Santa Anna", 227-270
  60. Weber, David J., The Mexican Frontier, 1821–1846: The American Southwest under Mexico, University of New Mexico Press, 1982
  61. Angel Miranda Basurto (2002). La Evolucíon de Mėxico [The Evolution of Mexico] (spænska) (6th. útgáfa). Mexico City: Editorial Porrúa. bls. 358. ISBN 970-07-3678-4.
  62. Britton, John A. "Liberalism" in Encyclopedia of Mexico739
  63. Hamnett, Brian. "Benito Juárez" in Encyclopedia of Mexico, pp. 719–20
  64. Britton, "Liberalism" p. 740.
  65. Sullivan, Paul. "Sebastián Lerdo de Tejada" in Encyclopedia of Mexico. pp. 736–38
  66. Adela M. Olvera (2. febrúar 2018). „El Porfiriato en Mexico“ [The Porfiriato in Mexico]. Inside Mexico.com (spænska). Sótt 18. júlí 2019.
  67. Hart, John Mason. Empire and Revolution: The Americans in Mexico since the Civil War. Berkeley: University of California Press Du 2002
  68. Buchenau, Jürgen. "Científicos". Encyclopedia of Mexico, pp. 260–265
  69. Schmidt, Arthur, "José Ives Limantour" in Encyclopedia of Mexico, pp. 746–49.
  70. „cientifico“. Encyclopædia Britannica (enska). Sótt 7. febrúar 2017.
  71. Brenner, Anita (1. janúar 1984). The Wind that Swept Mexico: The History of the Mexican Revolution of 1910–1942 (New. útgáfa). University of Texas Press. ISBN 978-0292790247.
  72. Benjamin, Thomas. La Revolución: Mexico's Great Revolution as Memory, Myth, and History. Austin: University of Texas Press 2000
  73. 73,0 73,1 73,2 Matute, Alvaro. "Mexican Revolution: May 1917 – December 1920" í Encyclopedia of Mexico, 862–864.
  74. „The Mexican Revolution“. Public Broadcasting Service. 20. nóvember 1910. Sótt 17. júlí 2013.
  75. Robert McCaa. „Missing millions: the human cost of the Mexican Revolution“. University of Minnesota Population Center. Sótt 17. júlí 2013.
  76. Katz, Friedrich. The Secret War in Mexico. Chicago: University of Chicago Press.
  77. „The Mexican Revolution and the United States in the Collections of the Library of Congress, U.S. Involvement Before 1913“. Library of Congress. Sótt 18. júlí 2019.
  78. „Punitive Expedition in Mexico, 1916–1917“. U.S. Department of State archive. 20. janúar 2009. Sótt 18. júlí 2019.
  79. „ZIMMERMANN TELEGRAM“. The National WWI Museum and Memorial. 2. mars 2017. Sótt 18. júlí 2019.
  80. Rafael Hernández Ángeles. „85º ANIVERSARIO DE LA FUNDACIÓN DEL PARTIDO NACIONAL REVOLUCIONARIO (PNR)“ [85th anniversary of the founding of the National Revolutionary Party (PRN)]. Instituto Nacional de Estudios Historicos de las Revoluciones de Mexico (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 19. júlí 2019. Sótt 18. júlí 2019.
  81. „The Mexican Miracle: 1940–1968“. World History from 1500. Emayzine. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. apríl 2007. Sótt 30. september 2007.
  82. Elena Poniatowska (1975). Massacre in Mexico. Viking, New York. ISBN 978-0-8262-0817-0.
  83. Kennedy, Duncan (19. júlí 2008). „Mexico's long forgotten dirty war“. BBC News. Sótt 17. júlí 2013.
  84. Krauze, Enrique (febrúar 2006). „Furthering Democracy in Mexico“. Foreign Affairs. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. janúar 2006. Sótt 7. október 2007.
  85. Schedler, Andreas (2006). Electoral Authoritarianism: The Dynamics of Unfree Competition. L. Rienner Publishers. ISBN 978-1-58826-440-4.
  86. Crandall, R.; Paz and Roett (2004). „Mexico's Domestic Economy: Policy Options and Choices“. Mexico's Democracy at Work. Lynne Reinner Publishers. bls. 160. ISBN 978-0-8018-5655-6.
  87. "Mexico The 1988 Elections" (Sources: The Library of the Congress Country Studies, CIA World Factbook)“. Photius Coutsoukis. Sótt 30. maí 2010.
  88. Gomez Romero, Luis (5. október 2018). „Massacres, disappearances and 1968: Mexicans remember the victims of a 'perfect dictatorship'. The Conversation.
  89. „Vargas Llosa: "México es la dictadura perfecta". El País. 1. september 1990.
  90. Reding, Andrew (1991). „Mexico: The Crumbling of the "Perfect Dictatorship". World Policy Journal. 8 (2): 255–284. JSTOR 40209208.
  91. Cruz Vasconcelos, Gerardo. „Desempeño Histórico 1914–2004“ (PDF) (spænska). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3. júlí 2006. Sótt 17. febrúar 2007.
  92. Valles Ruiz, Rosa María (júní 2016). „Elecciones presidenciales 2006 en México. La perspectiva de la prensa escrita“ [2006 presidential Elections in Mexico. The Perspective of the Press]. Revista mexicana de opinión pública (spænska) (20): 31–51.
  93. Reséndiz, Francisco (2006). „Rinde AMLO protesta como "presidente legítimo". El Universal (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 18. janúar 2012. Sótt 14. desember 2022.
  94. „Enrique Pena Nieto wins Mexican presidential election“. Telegraph.co.uk. 2. júlí 2012. Afrit af uppruna á 10. janúar 2022. Sótt 25. ágúst 2015.
  95. Sieff, Kevin. „López Obrador, winner of Mexican election, given broad mandate“. Washington Post.
  96. Sharma, Gaurav (10. maí 2018). „Mexico's Oil And Gas Industry Privatization Efforts Nearing Critical Phase“. Forbes. Sótt 4. júní 2020.
  97. Barrera Diaz, Cyntia; Villamil, Justin; Still, Amy (14. febrúar 2020). „Pemex Ex-CEO Arrest Puts AMLO in Delicate Situation“. Rigzone. Bloomberg. Sótt 4. júní 2020.
  98. Karol Suarez, Rafael Romo and Joshua Berlinger. „Mexico's President loses grip on power in midterm elections marred by violence“. CNN.
  99. „Nord-Amèrica, in Gran Enciclopèdia Catalana“. Grec.cat. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. maí 2016. Sótt 17. júlí 2013.
  100. Parsons, Alan; Jonathan Schaffer (maí 2004). Geopolitics of oil and natural gas. Economic Perspectives. U.S. Department of State.
  101. Vargas, Jorge A. (2011). Mexico and the Law of the Sea: Contributions and Compromises. bls. 405. ISBN 9789004206205.
  102. Fact Book Mexico. Sótt 4. maí 2022
  103. [1][óvirkur tengill][óvirkur tengill] Mexico Fact Book. Sótt 6. maí 2022
  104. [2][óvirkur tengill][óvirkur tengill] Mexico Fact Book. Sótt 5. maí 2022
  105. „Government of Mexico“. Living Mexico (enska). Sótt 27. janúar 2019.
  106. „Articles 50 to 79“. Political Constitution of the United Mexican States. Congress of the Union of the United Mexican States. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember 2006. Sótt 3. október 2007.
  107. „Third Title, First Chapter, About Electoral systems“ (PDF). Código Federal de Instituciones y Procedimientos Electorales (Federal Code of Electoral Institutions and Procedures) (spænska). Congress of the Union of the United Mexican States. 15. ágúst 1990. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 25. október 2007. Sótt 3. október 2007.
  108. 108,0 108,1 „Third Title, First Chapter, About Electoral systems, Article 11–1“ (PDF). Código Federal de Instituciones y Procedimientos Electorales (Federal Code of Electoral Institutions and Procedures) (spænska). Congress of the Union of the United Mexican States. 15. ágúst 1990. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 25. október 2007. Sótt 3. október 2007.
  109. „Fourth Title, Second Chapter, About coalitions, Article 59–1“ (PDF). Código Federal de Instituciones y Procedimientos Electorales (Federal Code of Electoral Institutions and Procedures) (spænska). Congress of the Union of the United Mexican States. 15. ágúst 1990. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 25. október 2007. Sótt 3. október 2007.
  110. „Articles 80 to 93“. Political Constitution of the United Mexican States. Congress of the Union of the United Mexican States. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember 2006. Sótt 3. október 2007.
  111. „Articles 90 to 107“. Political Constitution of the United Mexican States. Congress of the Union of the United Mexican States. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember 2006. Sótt 3. október 2007.
  112. [3] "Interamerican Dialogue", Vanda Felbab Brown. Brookings Institution, accessed 19 May 2022
  113. "Mexico leader proposes electoral reforms" Los Angeles Times accessed 3 May 2022
  114. 114,0 114,1 Amanda Briney (8. október, 2018). „Mexico's 31 States and One Federal District“. Thought.Co. Sótt 15. júlí, 2019.
  115. „Article 116“. Political Constitution of the United Mexican States. Congress of the Union of the United Mexican States. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember, 2006. Sótt 7. október, 2007.
  116. „Article 112“. Political Constitution of the United Mexican States. Congress of the Union of the United Mexican States. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember, 2006. Sótt 7. október, 2007.
  117. „Federal District is now officially Mexico City: The change brings more autonomy for the country's capital“. Mexico News Daily. 30. janúar, 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júlí 2017. Sótt 5. janúar, 2018.
  118. „Article 115“. Political Constitution of the United Mexican States. Congress of the Union of the United Mexican States. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember, 2006. Sótt 7. október, 2007.
  119. 119,0 119,1 119,2 119,3 Caleb Silver (7. júní 2019). „Top 20 Economies in the World“. Investopedia.com. Sótt 15. júlí 2019.
  120. „Total GNI Atlas Method 2009, World Bank“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 5. nóvember 2010. Sótt 27. desember 2010.
  121. Andrew Jacobs; Matt Richtel (11. desember 2017). „A Nasty, Nafta-Related Surprise: Mexico's Soaring Obesity“. The New York Times. Afrit af uppruna á 12. desember 2017. Sótt 12. desember 2017.
  122. „GNI per capita 2009, Atlas method and PPP, World Bank“ (PDF). Sótt 27. desember 2010.
  123. „Mexico 2050: The World's Fifth Largest Economy“. 17. mars 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. ágúst 2010. Sótt 12. júlí 2013.
  124. „World in 2050 – The BRICs and beyond: prospects, challenges and opportunities“ (PDF). PwC Economics. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 22. febrúar 2013. Sótt 17. júlí 2013.
  125. „How much should you earn in Mexico to belong to the middle or upper class?“. The Mazatlan Post. 11. apríl 2019. Sótt 15. júlí 2019.
  126. Smith, Noah (26. ágúst 2019). „Mexico Is Solidly Middle Class (No Matter What Trump Says)“. Bloomberg.
  127. „Human Development Report 2009“ (PDF). United Nations Development Programme. United Nations. bls. 118. Sótt 4. júní 2020.
  128. „CONEVAL Informe 2011“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 21. október 2013. Sótt 31. mars 2012.
  129. Gentilini, Ugo; Sumner, Andy (24. júlí 2012). „Should poverty be defined by a single international poverty line, or country by country? (and what difference does it make?)“. From Poverty to Power. Oxfam. Afrit af upprunalegu geymt þann 11 maí 2020. Sótt 4. júní 2020.
  130. Michael Blastland (31. júlí 2009). „Just what is poor?“. BBC News. Sótt 27. ágúst 2019. The "economic distance" concept, and a level of income set at 60% of the median household income
  131. „Under Pressure: The Squeezed Middle Class“ (PDF). Paris: OECD Publishing. 2019. Sótt 4. júní 2020.
  132. Income inequality. 12. apríl 2011. ISBN 9789264098527. Afrit af upprunalegu geymt þann 10 október 2017. Sótt 16. mars 2013.
  133. „Perspectivas OCDE: México; Reformas para el Cambio“ (PDF). OECD. janúar 2012. bls. 35–36. Sótt 17. júlí 2013.
  134. „Goldman Sachs Paper No.153 Relevant Emerging Markets“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 31. mars 2010. Sótt 30. maí 2010.
  135. „Sobresale Nuevo León por su alto nivel de vida“. El Norte (spænska). 2006.
  136. „Hoy entra en vigor el aumento en el salario mínimo“ [The increase in the minimum wage starts today]. Forbes Mexico (spænska). 1. janúar 2019. Sótt 19. júlí 2019.
  137. „La Población Indigena en México“ (PDF). Instituto Nacional de Estadística y Geografía (INEGI). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. október 2013. Sótt 17. júlí 2013.
  138. 138,0 138,1 138,2 „Mexican Consumer Electronics Industry Second Largest Supplier of Electronics to the U.S – MEXICO CITY, Oct. 6, 2011/PRNewswire-USNewswire/“. Prnewswire.com. 6. október 2011. Sótt 23. apríl 2014.
  139. „Mexico tops U.S., Canadian car makers“. Upi.com. 11. desember 2008. Sótt 30. maí 2010.
  140. 140,0 140,1 Gereffi, G; Martínez, M (2005). „Mexico's Economic Transformation under NAFTA“. Í Crandall, R; Paz, G; Roett, R (ritstjórar). Mexico's Democracy at Work: Political and Economic Dynamics. Lynne Reiner Publishers (gefið út 30 September 2004). ISBN 978-1-58826-300-1.
  141. Hufbauer, G.C.; Schott, J.J . (1. janúar 2005). „Chapter 6, The Automotive Sector“ (PDF). NAFTA Revisited: Achievements and Challenges. Washington, D.C.: Institute for International Economics (gefið út October 2005). bls. 1–78. ISBN 978-0-88132-334-4.
  142. García, Daniela (7. september 2016). „Inauguran Kia Motors en Pesquería“ [Kia Motors launched in Pesquería]. Milenio (spænska). Pesquería. Sótt 4. júní 2020.
  143. „Audi inaugura planta automotriz en Puebla“ [Audi opens automotive plant in Puebla]. Autoexplora (spænska). 30. september 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2020. Sótt 4. júní 2020.
  144. „Automaker Kia plans $1 bn assembly plant in Mexico“. Mexico News.Net. 28. ágúst 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. september 2014. Sótt 28. ágúst 2014.
  145. DINA Camiones Company. „History“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. maí 2011. Sótt 15. apríl 2009.
  146. Jeremy Korzeniewski. „London 2008: Mastretta MXT will be Mexico's first homegrown car“. Sótt 30. júlí 2008.
  147. Mexico. The World Factbook. Central Intelligence Agency.
  148. „Korea's Balance of Payments“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 1. maí 2011. Sótt 9. mars 2011.
  149. „Major Foreign Holders Of Treasury Securities“. U.S. Department of the Treasury. Sótt 17. júlí 2013.
  150. Thompson, Adam (20. júní 2006). „Mexico, Economics: The US casts a long shadow“. Financial Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. október 2012.
  151. [4] "Personal Remittances Received, Mexico", World Bank accessed 11 May 2022
  152. [5] "Latino Remittances from Mexico Soar". NBC News accessed 11 May 2022
  153. [6] "Most of the $33 Billion in Remittances to Mexico Flow Via U.S. Govt. Banking Program", Judicial Watch, sótt 12. maí 2022
  154. [7] World Fact Book, Mexico. skoðað 5. maí 2022
  155. „México cuenta con 123.5 millones de habitantes“ [Mexico has 123.5 million inhabitants]. El Economista (spænska). Notimex. 10. júlí 2017. Sótt 4. júní 2020.
  156. „Spanish Language History“. Today Translations. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. apríl 2005. Sótt 1. október 2007.
  157. Taylor, Analisa (1. mars 2006). „Malinche and Matriarchal Utopia: Gendered Visions of Indigeneity in Mexico“. Signs. 31 (3): 815–840. doi:10.1086/499209. JSTOR 10.1086/499209. S2CID 144858655.
  158. Fernando Ríos (2020). Panpipes & Ponchos: Musical Folklorization and the Rise of the Andean Conjunto Tradition in La Paz, Bolivia. Oxford University Press. bls. 20–57.
  159. Vasconcelos, José (1997). La Raza Cósmica (The Cosmic Race). Didier T. Jaén (translator). The Johns Hopkins University Press. bls. 160. ISBN 978-0-8018-5655-6.
  160. „History of Mexico“. History.
  161. Federico Navarrete, Ellen Jones (27. nóvember 2020). „The Myth of Mestizaje“. LARB: Los Angeles Review of Books.

Tenglar

breyta