La Malinche

(Endurbeint frá Malinche)

La Malinche, einnig kölluð Malintzin, Malinalli, Marina eða doña Marina (fædd í kringum 1500 og látin í kringum 1529) var amerísk frumbyggjakona af þjóðerni Nahúa. Hún starfaði sem túlkur og ráðgjafi Hernáns Cortés við upphaf landvinninga Spánverja gegn Astekaveldinu. Hún varð jafnframt ástkona Cortésar og eignaðist með honum son, Martín Cortés.[1]

La Malinche
Teikning af La Malinche eftir Kate Stephens (1916).
FæddÍ kringum 1500
DáinFyrir 1529 (28–29 ára)
StörfTúlkur, ráðgjafi
Þekkt fyrirHlutverk sitt í landvinningum Spánverja í Ameríku
MakiJuan Jaramillo
BörnMartín Cortés
María

Upphaflegt nafn hennar var Malinalli. Spánverjar gáfu henni nafnið Doña Marina þegar hún tók kaþólska skírn. Nafn hennar útfærðist sem Malintzin á nahúatl, með asteska viðskeytinu -tzin. Þessi orðmynd þýddist á spænsku sem La Malinche.[2]

Æviágrip

breyta

Talið er að La Malinche hafi verið af hátt settum ættum úr menningarsamfélagi Mexíka. Faðir hennar var landstjóri í Painala (héraði í suðausturhluta Astekaveldisins).[3] Talið er að hún hafi verið seld eða gefin í þrældóm til Maja þegar hún var ung stúlka og þess vegna hafi hún lært bæði móðurmál sitt, nahúatl, og tungumál maja.[4]

Höfðingjar Maja í Tabasco gáfu spænska landvinningamanninum Hernán Cortés La Malinche þann 15. mars 1519 ásamt nítján öðrum konum, gullstykkjum og efnum. Cortés gaf henni nafnið Marina og gaf hana síðan einum af kapteinum sínum, Alonso Hernández Puertocarrero.

Eftir að Cortés komst að því að Malintzin talaði nahúatl fékk hann hana til að túlka úr nahúatl í majamál og fékk Jerónimo de Aguilar, sem hafði verið strandaglópur á eynni Cozumel, til að túlka á milli Spánverja og Asteka. Malintzin var síðan fljót að læra sjálf spænsku.[2] Auk þess að vera túlkur fyrir Cortés varð hún ráðgjafi hans um það hvernig væri rétt að koma fram við frumbyggjana. Talið er að milliganga hennar hafi skipt sköpum við þróun mála í samskiptum Cortés við Asteka´og í því að Cortés náði friðarsamkomulagi við Montesúma, keisara Astekaveldisins. Eftir að Cortés sigraði Astekaveldið fylgdi La Malinche honum jafnframt til Hondúras.[5]

La Malinche og Cortés eignuðust son, Martin, sem var lagalega viðurkenndur sem sonur þeirra af páfanum. La Malinche eignaðist jafnframt dótturina Maríu með einum af hermönnum Cortés, Juan Jaramillo. Hún giftist Jaramillo árið 1524.[6] Eftir herför Cortésar til Hondúras hlaut La Malinche nokkrar gjöfular landeignir nærri Mexíkóborg að launum.[5]

Óvíst er hvenær La Malinche lést. Miðað hefur verið við að hún hafi lifað á árunum 1498-1529[7], 1500-1527[8], 1500–1529[9] eða 1501–1550[1] Óvíst er um dánarorsök hennar en líklega lést hún úr veirusýki sem Spánverjar höfðu flutt til nýja heimsins frá Evrópu.[9]

Malinchismo

breyta

Hugtakið malinchismo í Mexíkó vísar til þess að halda meira upp á erlendar vörur og siði en innlendar.[10] Manneskja með þessa eiginleika er því kölluð malinchista. La Malinche hefur verið kölluð mexíkósk Eva, sem á að tákna að hún sé föðurlandssvikari.[11]

Þótt neikvæðar hugmyndir um La Malinche sem föðurlandssvikara sem seldi þjóð sína í hendur innrásarhers séu útbreiddar hafa jafnframt komið fram femínískari túlkanir á hlutverki hennar. Er þá litið á La Malinche sem konu sem tókst með kænsku sinni að forða þjóð sinni frá stríði og slátrun.[12]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Marina | Biography & Facts“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 2. febrúar 2021.
  2. 2,0 2,1 „How Interpreters Helped Topple the Aztec Empire“ (enska). NativLang. 4 nov 2016. Sótt 2 feb 2021.
  3. „Doña Marina, la traidora“. historia.nationalgeographic.com.es (spænska). 20. júní 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2021. Sótt 21. janúar 2023.
  4. „10 Truths About the Enslaved Person Who Helped Topple the Aztec Empire“. ThoughtCo (enska). Sótt 2. febrúar 2021.
  5. 5,0 5,1 „Biography og f Malinche, Enslaved Woman and Interpreter to Hernán Cortés“. ThoughtCo (enska). Sótt 2. febrúar 2021.
  6. „Women in World History : MODULE 6“. chnm.gmu.edu. Sótt 2. febrúar 2021.
  7. „Who was La Malinche? Everything You Need to Know“. www.thefamouspeople.com (bandarísk enska). Sótt 2. febrúar 2021.
  8. „[Biografía de Malinche]“. Biografías y vidas: La Enciclopedia Biográfica en Línea (spænska). Sótt 15. febrúar 2021. Sótt 2021-02-15.
  9. 9,0 9,1 „Doña Marina, la traidora“. historia.nationalgeographic.com.es (spænska). 20. júní 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2021. Sótt 21. janúar 2023.
  10. Garsd, Jasmine. „Despite Similarities, Pocahontas Gets Love, Malinche Gets Hate. Why?“ (enska). npr.org. Sótt 2 feb 2021.
  11. „La Malinche in Mexican literature from history to myth - Detalle de la obra“. Enciclopedia de la Literatura en México (spænska). Sótt 2. febrúar 2021.
  12. Kristín I. Pálsdóttir (12. mars 2005). „Hin hlið sögunnar“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 11.