Francisco „Pancho“ Villa (fæddur undir nafninu José Doroteo Arango Arámbula; 5. júní 1878 – 20. júlí 1923) var mexíkóskur byltingarmaður og einn þekktasti leiðtogi mexíkósku byltingarinnar.

Pancho Villa
Fæddur5. júní 1878
Dáinn20. júlí 1923 (45 ára)
Parral, Chihuahua, Mexíkó
DánarorsökMyrtur
StörfHerforingi, byltingarmaður
MakiMaría Luz Corral (g. 29. maí 1911)
BörnPaulina Ana María Zapata Portillo
ForeldrarAgustín Arango og Micaela Arámbula
Undirskrift

Sem foringi „División del Norte“ (norðurdeildarinnar) í byltingarhernum vann Villa mikilvæga hernaðarsigra sem leiddu til þess að Victoriano Huerta forseta var steypt af stóli í júlí árið 1914. Eftir að Huerta var sigraður snerust byltingarmennirnir hver gegn öðrum og kom til átaka milli Villa og leiðtoga stjórnarskrársinnanna, Venustiano Carranza. Villa var þá í bandalagi við byltingarmanninn Emiliano Zapata í Morelos-fylki í suðurhluta Mexíkó. Byltingarforingjarnir tveir mættust í Mexíkóborg og hertóku hana er Carranza hörfaði þaðan með lið sitt. Villa, sem þar til hafði verið ósigraður, beið ósigur gegn herforingjum Carranza í orrustu við Celaya árið 1915. Síðan sigraði Carranza hann þann 1. nóvember árið 1915 í orrustu við Prieta og var þar með gert út af við Villa og fylgismenn hans sem mikilvægt afl í borgastyrjöldinni.

Villa leiddi árið 1916 árás á lítinn bæ við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna, Columbus, en flúði síðan af hólmi af ótta við að Bandaríkin myndu grípa inn í. Ríkisstjórn Bandaríkjanna sendi hershöfðingjann John J. Pershing yfir landamærin til að handsama Villa en Villa tókst að flýja og forðast Pershing í heila níu mánuði. Pancho Villa-leiðangrinum svokallaða lauk þegar Bandaríkin gengu inn í fyrri heimsstyrjöldina og Pershing var kallaður heim. Árið 1920, eftir að Carranza hafði verið steypt af stóli, gerði Villa samning við nýju mexíkósku ríkisstjórnina um að láta af skæruhernaði og fékk úthlutað landi sem hann gerði að „hernýlendu“ fyrir fyrrverandi herlið sitt. Þegar forsetakosningar nálguðust árið 1923 reyndi Villa að snúa sér aftur að mexíkóskum stjórnmálum en var ráðinn af dögum áður en honum tókst það, líklega að frumkvæði Álvaro Obregón hershöfðingja.

Á meðan hann lifði hlúaði Villa mjög að ímynd sinni sem heimsfræg byltingarhetja. Hann lék sjálfan sig í Hollywood-myndum og veitti erlendum fréttamönnum viðtöl.[1]

Eftir dauða hans var Villa máður út úr hóp byltingarhetjanna í opinberum frásögnum þar til hershöfðingjarnir Obregón og Calles, sem Villa hafði barist við í byltingunni, voru horfnir af stjórnmálasviðinu. Fjarvera Villa í opinberri útgáfu stjórnarinnar af mexíkósku byltingunni kann að hafa stuðlað að vinsældum Villa eftir dauða hans. Hann var hylltur bæði á meðan byltingunni stóð og löngu síðar í kvikmyndum um ævi hans og í skáldsögum eftir virta rithöfunda. Árið 1976 var lík hans fært yfir að byltingarminnismerki í Mexíkóborg í skrautlegri almenningsathöfn sem ekkja Villa, Luz Corra, sá sér ekki fært að mæta í.[2][3]

Tilvísanir

breyta
  1. John Reed, Insurgent Mexico [1914]. Reprint, New York: Simon & Schuster, Clarion Books 1969.
  2. Thomas Benjamin, La Revolución: Mexico's Revolution as Memory, Myth, and History. Austin: University of Texas Press 2000, p. 134.
  3. Friedrich Katz, The Life and Times of Pancho Villa. Stanford: Stanford University Press 1998, 789.