Lýðveldið Texas (enska: Republic of Texas, spænska: República de Tejas) var ríki í Norður-Ameríku sem var til frá 2. mars 1836 til 19. febrúar 1846. Ríkið átti landamæri að Mexíkó í vestri og suðvestri, Mexíkóflóa í suðaustri, bandarísku fylkjunum Louisiana og Arkansas í austri og bandarísku landsvæðunum sem síðar urðu Oklahoma, Kansas, Colorado, Wyoming og Nýju Mexíkó í norðri og vestri.

Lýðveldið Texas
Republic of Texas
Fáni Skjaldarmerki
Höfuðborg Columbia (1836–1837)
Houston (1837–1839)
Austin (1839–1846)
Opinbert tungumál Ekkert; enska notuð í reynd
Stjórnarfar Þingræði

Forseti
David G. Burnet (1836)
Sam Houston (1836–38)
Mirabeau B. Lamar (1838–41)
Sam Houston (1841–44)
Anson Jones (1844–46)
'
 • Stofnun 2. mars 1836 
 • Upplausn 19. febrúar 1846 
Flatarmál
 • Samtals

1.007.935 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1840)
 • Þéttleiki byggðar

70000
0,1/km²
Gjaldmiðill Texanskur lýðveldisdollari

Mexíkóska sýslan Tejas lýsti yfir sjálfstæði frá Mexíkó eftir byltingu árið 1836. Sjálfstæðisstríði Texas lauk þann 21. apríl árið 1836 en Mexíkó neitaði að viðurkenna sjálfstæði Lýðveldisins Texas og átök héldu áfram með hléum milli ríkjanna allt fram á fimmta áratuginn. Bandaríkin viðurkenndu sjálfstæði Texas í mars árið 1837 en afþökkuðu tilboð um að innlima ríkið.[1]

Landamærin sem lýðveldið gerði tilkall til byggðust á Velasco-sáttmálunum sem Texasbúar gerðu við Antonio López de Santa Anna, forseta Mexíkó, á meðan hann var fangi þeirra undir lok sjálfstæðisstríðsins. Austanverð landamærin byggðust á Adams-Onís-sáttmálanum sem Bandaríkjamenn höfðu gert við Spán árið 1819. Í þeim sáttmála hafði verið fallist á landamæri Texas (sem þá var undir spænskum yfirráðum) og bandaríska héraðsins Missouri. Jafnframt höfðu Bandaríkjamenn þá afsalað tilkalli til spænskra landsvæða austan við Klettafjöll og norðan við Rio Grande.

Texasbúar og Mexíkanar deildu um suður- og vesturlandamæri ríkjanna öll árin sem lýðveldið var til. Texasbúar héldu því fram að sunnanverð landamæri ríkisins næmu við Rio Grande, en Mexíkanar héldu því fram að Nueces-fljót markaði landamærin. Þann 29. desember árið 1845 innlimuðu Bandaríkin Lýðveldið Texas og viðurkenndu Texas sem 28. fylki Bandaríkjanna. Stjórnarskiptin áttu sér formlega stað þann 19. febrúar árið 1846. Mexíkanar voru ekki reiðubúnir til að viðurkenna þessa innlimun á landsvæði sem þeir litu á sem hluta af Mexíkó. Landamæradeilurnar höfðu auk þess ekki verið leystar og því leiddi innlimunin á Texas til stríðs milli Mexíkó og Bandaríkjanna sem háð var frá 1846 til 1848.

Tilvísanir

breyta
  1. Henderson (2008), p. 121.