Lýðveldið Kína (1912–1949)

Lýðveldið Kína var kínverskt ríki sem var stofnað árið 1912[1] og réð yfir mestum hluta Meginlands-Kína frá þriðja áratugi 20. aldar fram til ársins 1949. Við lok kínversku borgarastyrjaldarinnar árið 1949 flúði stjórn Lýðveldisins Kína til eyjunnar Taívan og glataði öllum yfirráðum á meginlandinu. Lýðveldið Kína er því lögformlega enn til, en ræður eingöngu yfir Taívan.[1]

Lýðveldið Kína
中華民國 (kínverska)
Zhōnghuá Mínguó (pinyin)
Flag of the Republic of China.svg
Fáni 1912-1928 Skjaldarmerki 1913-1928
Fáni Lýðveldisins Kína Skjaldarmerki Lýðveldisins Kína
Fáni 1928-1949 Skjaldarmerki 1928-1949
Þjóðsöngur:
Ýmsir
  • „Söngur fimm kynþátta í einu sambandi“ (1912–1913)
  • „Söngur til hins ágæta skýs“ (1913–1915)
  • „Kína stendur hetjulega í heiminum“ (1915–1921)
  • „Söngur til hins ágæta skýs“ (með breytingum; 1921–1928)
  • „Þjóðsöngur Lýðveldisins Kína“
Höfuðborg
Opinbert tungumál Kínverska, tíbeska, mansjú, mongólska o.fl.
Stjórnarfar

Forseti Sun Yat-sen (1912, til bráðabirgða)
Li Zongren (1949–1950, settur)
Forsætisráðherra Tang Shaoyi (1912, fyrstur)
He Yingqin (1949)
Saga
 • Xinhai-byltingin 10. október 1911 – 12. febrúar 1912 
 • Stofnun lýðveldisins 1. janúar 1912 
 • Beiyang-stjórnin í Peking 1912–1928 
 • Innganga í Þjóðabandalagið 10. janúar 1920 
 • Norðurleiðangurinn 1926–1928 
 • Þjóðernisstjórnin í Nanjing 1927–1948 
 • Kínverska borgarastyrjöldin 1927–1936, 1945–1949 
 • Seinna stríð Kína og Japans 7. júlí 1937–2. september 1945 
 • Innganga í Sameinuðu þjóðirnar 24. október 1945 
 • Upptaka stjórnarskrár 24. október 1945 
 • Stofnun Alþýðulýðveldisins Kína 1. október 1949 
 • Stjórnin flýr til Taípei 7. desember 1949 
Flatarmál
 • Samtals

9.665.354 km²
Gjaldmiðill Yuan
 
„Fimm lita fáninn“, fyrsti þjóðfáni Lýðveldisins Kína frá 1912 til 1928, táknaði „fimm kynþætti í einu sambandi“ (Hankínverja, Mansjúa, Mongóla, Húía og Tíbeta). Frá árinu 1935 flögguðu kínverskir samverkamenn japanska hernámsliðið þessum fána stundum.

Lýðveldið Kína var framhald af umbóta- og byltingarhreyfingum sem leiddar voru af Sun Yat-sen. Í Xinhai-byltingunni árið 1911 var kínverska Tjingveldinu steypt af stóli og stofnun kínversks lýðveldis var staðfest á nýársdag 1912 þegar síðasti keisari Kína, Puyi, sagði af sér. Sun Yat-sen var settur bráðabirgðaforseti lýðveldisins til eins árs en síðan átti annar meðlimur í byltingarhreyfingunni Kuomintang, Song Jiaoren, að taka við.

Nýja lýðveldið þurfti hins vegar strax að glíma við mikinn óstöðugleika. Byltingarmennirnir urðu að eftirláta Yuan Shikai forsetaembættið og árið 1913 einnig stjórn hersins í skiptum fyrir stuðning hans. Ríkisstjórnin laut í reynd stjórn hermanna úr Beiyang-hernum og var því kölluð Beiyang-stjórnin. Árið 1913 framdi Yuan Shikai valdarán og reyndi að endurreisa keisaradæmi í Kína með sjálfan sig sem keisara. Þetta leiddi til stuttrar borgarastyrjaldar sem endaði með ósigri Yuans. Eftir hana var Kína án sterkrar miðstjórnar.

Næstu árin ríkti mikið rósturástand í Kína sem einkenndist af átökum milli stríðsherra sem réðu yfir stórum hlutum landsins. Sun Yat-sen, leiðtogi Kuomintang, stofnaði nýja ríkisstjórn í Guangzhou en tókst ekki að öðlast alþjóðlega viðurkenningu að Sovétríkjunum undanskildum. Á árunum 1919 til 1921 steig Sun til hliðar og eftirlét stjórnina Cen Chunxuan, fyrrum varakonungi Liangguang (nú Guangdong og Guangxi).

Eftir dauða Sun Yat-sen árið 1926 tók Chiang Kai-shek, leiðtogi Þjóðbyltingarhersins, við stjórn Kuomintang. Hann hleypti af stað norðurleiðangrinum, herför sem endaði með því að her Kuomintang tókst að sigra stríðsherrana og sameina Kína undir einni stjórn á ný. Á svipuðum tíma rofnaði hins vegar bandalag Kuomintang við kínverska kommúnistaflokkinn og kínverska borgarastyrjöldin braust út milli flokkanna árið 1927. Kommúnistar réðu afmörkuðum svæðum í Kína á næstu árum en þjóðernissinnar þjörmuðu mjög að þeim. Frá árinu 1928 var Lýðveldið Kína í reynd einræðisstjórn undir forystu Chiang Kai-shek, sem stýrði kínverska hernum og fór ýmist opinberlega eða óformlega með æðstu stjórn ríkisins. Kuomintang varð eini löglegi stjórnmálaflokkurinn og sérstaða hans var lögfest í bráðabirgðastjórnarskrá ríkisins.

Öryggi Kína var á þessum tíma jafnframt ógnað vegna útþenslustefnu Japanska keisaradæmisins. Árið 1931 gerðu Japanir innrás í Mansjúríu og árið 1937 gerðu þeir allsherjarinnrás í austurhluta Kína og hófu þannig styrjöld sem entist í átta ár. Kínverskir þjóðernissinnar og kommúnistar gerðu á ný með sér bandalag til þess að verjast japanska innrásarhernum saman. Wang Jingwei myndaði hins vegar leppstjórn með stuðningi japanska hernámsliðsins sem kallaði sjálfa sig frá árinu 1940 „Lýðveldið Kína“. Þegar seinni heimsstyrjöldin náði til Asíu gekk stjórn Chang Kai-shek í bandalag við bandamenn gegn Japönum. Kommúnistaflokkurinn fylgdi fordæmi hans í júlí 1941.

Eftir að Japanir voru sigraðir í seinni heimsstyrjöldinni reyndi þjóðernisstjórnin að koma á stöðugleika í ríkinu með því að taka upp nýja stjórnarskrá árið 1947. Kommúnistar undir forystu Maó Zedong, sem höfðu hlotið vopnasendingar frá Sovétríkjunum, nýttu sér tækifærið og voru fljótir að yfirbuga stjórn Kuomintang um allt ríkið. Maó lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína þann 1. október árið 1949. Í desember sama ár urðu herafli og ríkisstjórn Lýðveldisins Kína að hörfa „tímabundið“ til eyjunnar Taívan. Arftakar þjóðernisstjórnarinnar ráða enn yfir eynni í dag.

Ríkisstjórnin á Taívan er löglegt framhald af Lýðveldinu Kína sem áður var til á meginlandinu og gerir enn formlega tilkall til yfirráða í öllu Kína. Kínversku kommúnistastjórninni á meginlandinu tókst aldrei að ná yfirráðum á Taívan en hún gerir einnig tilkall til eyjunar sem óaðskiljanlegs hluta af Kína. Þjóðernisstjórnin á Taívan hefur smám saman orðið lýðræðislegri og hefur notið aukinnar efnahagslegrar velsældar frá því á sjötta áratugnum. Stjórn Alþýðulýðveldisins Kína hefur smám saman tekið upp markaðshagkerfi frá því á tíunda áratugnum og hefur notið aukins hagvaxtar frá aldamótunum. Staða Taívans er enn viðkvæmt málefni í alþjóðasamskiptum þar sem báðar stjórnirnar aðhyllast stefnu um að aðeins sé til „eitt Kína“.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Stofnun Lýðveldisins Kína var yfirlýst í Nanjing þann 1. janúar og höfuðborgin var færð til Peking þann 10. mars sama ár.
  2. Frá 23. apríl 1949 flúði ríkisstjórnin til Guangzhou, Chongqing og Chengdu á meginlandinu en lýsti Taípei síðan tímabundna höfuðborg þann 7. desember 1949. Chengdu var hertekin þann 27. desember.
  3. Nanjing var áfram opinberlega skilgreind sem höfuðborg Kína á kortum sem birt voru af innanríkisráðuneyti Lýðveldisins Kína frá 1949 til ársins 1998.
  4. Sem höfuðborg til bráðabirgða á tíma seinna stríðs Kína og Japans eftir fall Nanjing.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Endymion Wilkinson (2000). Chinese History: A Manual. Harvard-Yenching Institute Monograph No. 52 (enska). Cambridge, Mass: Harvard University Asia Center. ISBN 978-0-674-00249-4. Sótt 9. apríl 2024.
   Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.