Franska Indókína
Franska Indókína (á frönsku: L'Indochine française) var nýlendur Frakklands í Indókína í Suðaustur-Asíu kallað, það náði yfir fjögur svokölluð verndarsvæði (Tonkin, Annam, Kambódía og Laos) og eina formlega nýlendu (Cochin China). Höfuðborg Frönsku Indókína var Hanoi.
Franska Indókína var stofnað 1887 og samanstóð af svæðunum Annam, Tonkin, Cochin China (sem mynda saman það sem nú er Víetnam) ásamt Kambódíu; Laos bættist við eftir stríð Frakka við Síam 1893. Þetta nýlendusamband stóð allt fram til 1954. Á verndarsvæðunum fjórum létu Frakkar formleg völd í hendur innlendra valdhafa sem voru keisarinn í Víetnam, konungur Kambódíu og konungurinn í Luang Prabang, en í raun söfnuðu þeir öllu valdi í sínar hendur og notuðu konungana sem leppa. Fyrsta alvarlega uppreisnartilraunin stóð yfir frá 1885 til 1895 undir forystu Phan Dinh Phung.
Á fjórða áratugnum hóf Síam viðræður við Frakkland um að svæðum sem þeir töldu sig eiga rétt á yrði skilað. Í upphafi árs 1938 hafði Frakkland gengist inn á að afhenda Angkor Wat, Angkor Thom, Siam Reap, Siam Pang og nokkur fleiri svæði til Síam. Meðan beðið var eftir að skrifað yrði undir samninga hertóku Síamsmenn þessi svæði.
Í september 1940 gaf Vichy-stjórnin í Frakklandi Japönum leyfi til að yfirtaka Tonkin. Japanir héldu franska stjórnkerfinu og létu Frakka áfram stjórna Franska Indókína.
9. mars 1945 ákváðu Japanir að leggja undir sig allt Indókína, þá hafði Þýskaland verið hrakið út úr Frakklandi og Bandaríkin í mikill sókn á Kyrrahafi. Japanir héldu völdum í Indókína þangað til ríkistjórn þeirra gafst upp í ágúst sama ár.
Að heimstyrjöldinni lokinni afneituðu Frakkar samkomulaginu við Taíland frá 1938 og reyndu að ná aftur sömu stöðu og þeir höfðu haft fyrir stríð. En nú var staðan öll önnur, nýlendustefna átti ekki lengur upp á pallborðið í Indókína og nýir og sterkir pólitískir straumar voru farnir að hafa áhrif. Aðalkrafturinn var Viet Minh-hreyfingin, bandalag víetnamskra kommúnista og þjóðfrelsissinna undir forystu Ho Chi Minh. Meðan á heimsstyrjöldinni stóð hafði Bandaríkjastjórn veitt Viet Minh stuðning í baráttunni gegn Japan. Þegar Japanir gáfust upp náði Viet Minh völdunum í öllu Víetnam nema í borgunum í mars 1945. Bao Dai, keisari í Víetnam, sagði af sér og í hans stað tók Ho Chi Minh við embætti sem forseti og 2 september 1945 var Alþýðulýðveldið Víetnam stofnað. En fyrir lok septembermánaðar sama ár höfðu breskir og franskir herir í sameiningu náð völdum að nýju fyrir hönd Frakklands. Við tók margra ára stríð, það sem hefur verið nefnt fyrsta Indókínastriðið. Árið 1950 lýsti Ho Chi Minh að nýju yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Víetnam. Bardagar héldu áfram fram að mars 1954, þegar Viet Minh sigraði franska herinn við Dien Bien Phu. Sigur Viet Minh leiddi af sér skiptingu landsins í Alþýðulýðveldið Víetnam (Norður-Víetnam) undir stjórn Viet Minh og Lýðveldið Víetnam (Suður-Víetnam). Með þessu hurfu Frakkar frá Indókína en hins vegar jukust áhrif Bandaríkjanna.
Skipting Víetnam í tvö ríki var staðfest á alþjóðaráðstefnu í Genf 1954. Á sömu ráðstefnu lýsti Frakkland því yfir að þeir gerðu ekki tilkall til neins lands í Indókína.
Laos og Kambódía urðu einnig sjálfstæð ríki 1954.
Tenglar
breyta- Kort af Indókína Geymt 27 febrúar 2008 í Wayback Machine