Chongqing

borghérað í suðvestur-miðhluta Kína

Chongqing (eða Chungking) (kínverska: 重庆; rómönskun: Chóngqìng), er borghérað í suðvestur-miðhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Borgin er mikilvæg fljótahöfn og samgöngumiðstöð. Hún er mennta-, vísinda-, fjármála-, verslunar- og iðnaðarmiðstöð efra vatnasvæðis hins mikla Jangtse fljóts. Í seinna stríði Kína og Japans (1937–45) var hún höfuðborg Lýðveldisins Kína.

Chongqing
重庆
Skýjakljúfar Yuzhong hverfis Chongqing borgar. Árið 2020 var heildaríbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar 32,1 milljónir.
Skýjakljúfar Yuzhong hverfis Chongqing borgar. Árið 2020 var heildaríbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar 32,1 milljónir.
Opinbert tákn Chongqing
Chongqing er staðsett í Kína
Chongqing
Chongqing
Staðsetning Chongqing borgahéraðs í Kína.
Hnit: 29°33′49″N 106°33′01″A / 29.5637°N 106.5504°A / 29.5637; 106.5504
LandFáni Kína Kína
StofnunU. þ. b. 316 f.Kr.
Stjórnarfar
 • FlokksritariYuan Jiajun
 • BorgarstjóriHu Henghua
Flatarmál
 • Sveitarfélagið82.403 km2
Hæð yfir sjávarmáli
244 m
Hæsti punktur

(Yintiao Ling)
2.797 m
Mannfjöldi
 (2020)
 • Sveitarfélagið32.054.159[1]
 • Þéttleiki390/km2
 • Stórborgarsvæði
22.251.500[2]
TímabeltiUTC+08:00
Póstnúmer
4000 00 – 4099 00
Svæðisnúmer23
Vefsíðacq.gov.cn

Chongqing (sem þýðir „tvöföld vegsömun“) sem var undir stjórn Sichuan héraðs var árið 1997 aðskilin frá héraðinu og gerð að sérstöku borghéraði, því fjórða (á eftir Beijing, Sjanghæ og Tianjin). Á þeim tíma var allur austurhluti Sichuan, aðliggjandi sveitir og borgir, felldur inn í sveitarfélagið sem stækkaði mjög að landsvæði og íbúafjölda.

Samkvæmt kínverska manntalinu árið 2020 bjuggu í borgarkjarna Chongqing 9,6 milljónir manna en heildaríbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 32,1 milljónir.

Staðsetning breyta

 
Horft yfir Chongqing borg.
 
Chongqing borg (rauðmerkt) innan Chongqing borgarhéraðsins.
 
Jiefangbei á Yuzhong skaga miðborgar Chongqing borgar.
 
Kort af legu Chongqing borghéraðsins (rauðmerkt) í Kína.

Chongqing er staðsett í suðvesturhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Auk Sichuan í vestri liggur sveitarfélagið við héruðin Shaanxi í norðri, Hubei í austri, Hunan í suðaustri og Guizhou í suðri.

Þegar borghéraðið var skilið frá Sichuan var allur austurhluti þess (um 82.000 ferkílómetrar eða u.þ.b. stærð Austurríkis) með aðliggjandi sveitum og borgum, felldur inn í sveitarfélagið sem stækkaði mjög að landsvæði og íbúafjölda.

Sveitarfélagið Chongqing nær til borgarinnar Chongqing auk ýmissa ólíkra borga og aðliggjandi sveita. Chongqing sveitarfélag er því tæknilega séð stærsta borg veraldar. Borgin er staðsett í um 2.250 kílómetra fjarlægð frá sjó við ármót Jangtse og Jialing fljóts.

Sveitarfélagið Chongqing samanstendur af þremur flipum af misjafnri stærð sem teygja sig suðvestur, norðaustur og suðaustur. Hverfi í miðri Chongqing-borg ná yfir suðvesturhlutann og eru umkringd úthverfum. Þaðan breiðist norðaustur armurinn meðfram Jangtse fljótinu. Suðaustur flipinn, sem teygir sig suðaustur frá Jangtse dalnum, samanstendur af röð hóla og dala milli héraðanna Hunan og Guizhou. Wu-fljót (önnur af þverám Jangtse) liggur nokkurn veginn með suðvesturhlið flipans þar til hún sveigir suður í Guizhou héraðs.

Vestur- og suðvesturhlutar sveitarfélagsins liggja á vatnasvæði Sichuan og samanstanda af tiltölulega jöfnu og hæðóttu landslagi. Daba-fjöll liggja meðfram norðurlandamærum Shaanxi héraðs og í norðaustri afmarka Wu-fjöll inngöngu Jangtse inn í Hubei hérað, í þremur gljúfrum svæðisins. Fangdou-fjöllin eru í austurhluta sveitarfélagsins og í suðri ná Dalou-fjöllin norður frá Guizhou.

Miðhluti Chongqing-borgar er byggður á og í kringum hæðóttan höfða úr rauðum sandsteini sem marka suðurmörk hinna lágu Huaying-fjalla, sem ná allt suður frá Sichuan héraði. Höfðinn afmarkast í norðri af Jialing-fljóti og í austri og suðri af Jangtse og myndar þannig skaga sem rennur á milli fljótanna tveggja.

Saga breyta

 
Búddista musteri í Jiulongpo hverfinu í Chongqing borg.
 
Ríkisstjórnarbygging þjóðernissinna í Chongqing borg frá Seinna stríði Kína og Japans.
 
Fjöldi fórnarlamba menningarbyltingarinnar er grafinn í gröfum byltingarinnar Chongqing.
 
Chongqing listasafnið í Yuzhong hverfi Chongqing borgar.

Samkvæmt fornum frásögnum var Chongqing fæðingarstaður hins goðsagnakennda Yu keisara, stofnanda Xia ættarveldisins, fyrir um 4.000 árum. Á 11. öld f.Kr., undir vesturhluta Zhou-ættarveldisins, varð það svæði sem Chongqing er nú, lénsríkið Ba. Á 5. öld f.Kr. stofnaði Ba til tengsla við ríkið Chu sem náði til miðhluta Jangtse fljótsins. Ríkið var síðar fellt inn í Qinveldið. Um miðja 3. öld f.Kr. var svæðið orðið hluti af ríkinu Shu sem var óháð Norður- og Mið-Kína.

Ba ríkið var eyðilagt af Qin-ríki árið 316 f.Kr. Qin keisari lét reisa nýja borg undir nafninu Jiangzhou og héraðið fékk nafnið Chu. Jiangzhou var áfram undir stjórn Qin Shi Huang, fyrsta keisara Kína, arftaka Qin-ríkisins, sem og undir stjórn keisara Hanveldisins. (206 f.Kr.— 220 e.Kr.)

Jiangzhou var síðan endurnefnd á tímum Norður- og Suður-ættarveldanna (420–589) í héraðið Chu, síðan í Yu hérað árið 581 e.Kr. á valdatímum Sui-veldisins (581–618) og síðar í Gong hérað árið 1102. Nafnið Yu lifir enn í dag sem skammstöfun fyrir Chongqing. Í miðborginni er einnig nafnið Yuzhong (eða Mið-Yu).

Núverandi nafn var gefið borginni árið 1189, eftir að Zhao Dun prins af Songveldinu (960–1279) lýsti krýningu sinni sem konungur og síðar sem keisara Guangzong sem „tvöfaldri vegsemd“ (eða chongqing). Í tilefni af krýningu hans var Yu héraði því breytt í Chongqing Fu.

Á næstu öldum var borgin og nærsveitir hennar, ýmist hluti keisaradæma Norður- og Mið-Kína eða alveg óháð þeim. Borgin varð fyrst óaðskiljanlegur hluti þess á tímum Mingveldisins (1368–1644) og síðan á tímum Tjingveldisins (1644–1912).

Árið 1362, á valdatíma Júanveldisins (1271—1368) stofnaði leiðtogi uppreisnarmanna bænda, að nafni Ming Yuzhen, konungsveldið Daxia í Chongqing. Það varð skammlíft. Árið 1621 stofnaði She Chongming, annað skammlíft ríki, Daliang, með Chongqing sem höfuðborg.

Fyrsti borgarmúrinn var byggður um 250 f.Kr. Hann var lagfærður og stækkaður á 3. öld e.Kr. og aftur árið 1240. Síðan var múrinn endurreistur að verulegu leyti og styrktur á tímum Mingveldisins (1368–1644). Upp úr 1630, undir lok valdatíma Ming, var borgin eyðilögð í uppreisn Zhang Xianzhong og borgarbúum slátrað. Borgarmúrinn var endurreistur árið 1663 og aftur árið 1760.

Á árunum 1890 til 1904 voru ræðismannaskrifstofur Bretlands, Bandaríkjanna, Þýskalands, Frakklands og japans opnaðar í Chongqing. Verslunarhöfn Chongqing var opnuð fyrir viðskiptum Breta árið 1890, en siglingaerfiðleikar á Jangtse fljóti seinkuðu skipaumferðum í meira en áratug. Á meðan lauk fyrsta kínverska-japanska stríðinu (1894–95) og samkvæmt stríðslokaskilmálum fengu Japanir aðgang að bryggjum Chongqing borgar. Þessi ívilnun stóð til ársins 1937, þegar Seinna stríð Kína og Japans braust út (1937–45).

Árið 1911, í aðdraganda kínversku byltingarinnar, gegndi Chongqing borg - ásamt Chengdu héraðshöfuðborg Sichuan - aðalhlutverki í að koma Tjingveldinu frá. Margir frá borginni gengu til liðs við byltingarflokk kínverska þjóðernisleiðtogans Sun Yat-sen. Árið 1929 varð Chongqing sveitarfélagið í Lýðveldinu Kína. Ári eftir að seinna stríð Kína og Japans (1937–45) hófst var Chongqing gerð að bráðabirgðahöfuðborg ríkisstjórnar þjóðernissinnans Chiang Kai-shek. Hundruð ríkisskrifstofa voru þá fluttar til borgarinnar frá Nanjing ásamt sendiráðum erlendra ríkja. Tugþúsundir manna komu frá strandhéruðum og höfðu með sér hergögn, verksmiðjur og skóla. Vinaþjóðir á þessum tíma sendu einnig hergögn til Chongqing til að styðja þjóðernissinna í stríðinu gegn Japan. Íbúum fjölgaði úr 250.000 í eina milljón. Þrátt fyrir miklar sprengjuárásir Japana var baráttuandi meðal borgarbúa. Chiang Kai-shek gekk hins vegar illa að fást við verðbólgu og spillingu og hafði það mikil áhrif á stríðsrekstur hans frá árinu 1942.

Árið 1946 í stríði þjóðernissinna og kommúnista, varð Nanjing aftur gerða að höfuðborg þjóðernissinna. Þremur árum síðar, í apríl 1949, tóku sveitir kommúnista Nanjing og ríkisstjórn þjóðernissinna flúði til Guangzhou og síðan aftur til Chongqing. Stóð sú vist einungis í tvo mánuði, er þjóðernissinnar flúðu til Taívan og kommúnistar lýstu yfir sigri á meginlandi Kína.

Eftir áratuga hernað var Chongqing í rúst en uppbygging hófst skömmu eftir yfirtöku kommúnista. Ráðist var í að efla þann iðnað sem hafði byggst upp snemma á 20. öld. Sú uppbygging hægði þó verulega á sér á tímum „Stóra stökksins“ (1958–60) og menningarbyltingarinnar (1966–76).

Á þjóðernistímabilinu var Chongqing sjálfstætt sveitarfélag, en á árunum 1954 til 1996 var borgin sett undir stjórn Sichuan héraðs. Árið 1997 var borgin aðskilin frá héraðinu og gerð að sjálfstæðu borghéraði. Markmiðið var að styðja við uppbyggingu mið- og vesturhluta Kína. Allur austurhluti Sichuan var settur undir hið nýja borghérað. Efnahagur styrktist og íbúafjöldi jókst til muna. Sama ár var „Yú“ samþykkt sem opinber skammstöfun borgarinnar. Hún er dregin af gamla nafninu á þeim hluta Jialing-fljóts sem liggur í gegnum Chongqing og rennur til Jangtse fljóts.

Efnahagur breyta

 
Raffles City Chongqing, húsþyrping átta bygginga í Yuzhong hverfi Chongqing borgar.
 
Chaotianmen brú tengir Jiangbei hverfið við Nan'an hverfi Chongqing borgar.

Þéttbýlismyndun Chongqing hefur verið gríðarhröð á síðustu áratugum, sérstaklega eftir að Chongqing var aðskilin frá Sichuan héraði árið 1997.

Atvinnuvegir Chongqing eru fjölbreyttir, er útflutningsgreinar takmarkaðar vegna óhagstæðrar staðsetningar innanlands. Þess í stað hafa byggst upp verksmiðjur sem framleiða staðbundna neysluvörur á borð við unnar matvörur, bíla, ýmiskonar efnavörur, vefnað, vélar, íþróttabúnað og raftæki.

Chongqing borg er þriðja stærsta framleiðslumiðstöð fyrir bifreiðar í Kína og sú stærsta í framleiðslu mótorhjóla. Í borginni eru höfuðstöðvar fjórða stærsta framleiðanda bifreiða í Kína; Changan Automotive Corp. Meðal annarra bifreiðaframleiðenda eru Lifan Hongda Enterprise og bandaríski bílarisinn Ford Motor Company, sem er með 3 verksmiðjur í Chongqing.

Í borghéraðinu er umfangsmikil framleiðsla á járni, stál, og álvörum. Meðal mikilvægra framleiðenda eru Chongqing Iron and Steel Company og Southwest Aluminum, sem rekur þar stærsta álver Asíu.

Landbúnaður í borghéraðinu er umtalsverður. Hrísgrjón og ávextir, sérstaklega appelsínur, eru aðalafurðir svæðisins.

Náttúruauðlindir eru einnig miklar á borð við kol, jarðgas og ýmis steinefni. Í borginni rekur CNPC (móðurfélag PetroChina) stórar olíuhreinsistöðvar.

Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á að auka hlut hátækni, upplýsingatækni og annars þekkingariðnaðar.

Borgin hefur einnig fjárfest mikið í innviðum til að laða að erlenda fjárfestingu. Net vega og járnbrauta sem tengja borgina við aðra landshluta Kína hefur verið stækkað og uppfært. Nærliggjandi „Þriggja gljúfra stífla“, stærsta fallorkuvirkjun heims, gefur Chongqing afl og auðveldar skipaflutninga frá hafi á Jangtse fljóti til Chongqing.

Þessar endurbætur innviða hafa leitt til fjölmargra erlendra fjárfestinga í atvinnugreinum allt frá bílum til smásölu og fjármögnunar. Þannig eru í borghéraðinu fjölþjóðleg fyrirtæki á borð við bílaframleiðendurna Ford og Mazda, smásölukeðjurnar Wal-Mart, Metro AG og Carrefour, og fjármálafyrirtæki á borð við HSBC, Standard Chartered Bank, Citibank, Deutsche Bank, ANZ Bank, og Scotiabank.

Menntun breyta

 
Xizheng bókasafn hins virta Suðvesturháskóla í stjórnmálafræði og lögfræði í Chongqing.

Frá árinu 1949 hefur skólum á öllum stigum fjölgað - leikskólum, grunnskólum, gagnfræðaskólum, framhaldsskólum og háskólum. Lögð hefur verið rík áhersla á stofnun kennaraskóla, iðnnámsskóla og landbúnaðarskóla.

Chongqing er miðstöð háskólanáms. Borghéraðið er með á þriðja tug háskóla og framhaldsskóla. Meðal helstu háskólanna eru Chongqing háskólinn (stofnaður 1929), Suðvestur háskólinn (1906), Suðvestur háskólinn í stjórnmálafræði og lögfræði (1950). Þessir þrír háskólar teljast allir til lykilháskóla Kína og njóta virðingar sem slíkir. Meðal annarra háskóla eru Chongqing kennaraháskólinn (1954), Chongqing læknaháskólinn (1956) í Yuzhong, Sichuan myndlistarstofnunin (1940) í Jiulongpo og Chongqing Jiaotong háskólinn (1951) í Nan’an.

Samgöngur breyta

 
Þriðja farþegastöð Chongqing Jiangbei flugvallarins
 
Chaotianmen brúin yfir Jangtse fljót við Chongqing borg.
 
Kort af borgalínu (snarlestarkerfi) Chongqing borgar.

Frá því að Chongqing var gert að sjálfstæðu borghéraði árið 1997 hefur verið ráðsit í verulega uppbyggingu allra innviða og samgöngumannvirkja. Með byggingu járnbrauta og hraðbrauta til austurs og suðausturs er Chongqing orðin aðalsamgöngumiðstöð í suðvesturhluta Kína.

Járnbrautarkerfi Chongqing þróaðist einnig hratt eftir árið 1949. Lagningu járnbrautar á milli Chongqing og Chengdu borgar lauk árið 1952. Chengdu-Baoji járnbrautin, sem lögð var fjórum árum síðar, tengir borgina við allt norðvestur Kína, sem og við Wuhan borg í Hubei héraði. Chongqing-Xiangfan járnbrautin tengir einnig borgina beint við Wuhan. Járnbrautin á milli Chongqing og Guiyang tengir ekki aðeins Chongqing við Guizhou hérað í suðri og sameinast öðrum járnbrautum í Yunnan og Guangxi við víetnamsku landamærin. Nýlokið er lagningu járnbrauta frá Chongqing til Huaihua veitir beinan aðgang til Hunan héraðs og tengist til Guangxi héraðs.

Chongqing nú miðstöð umfangsmikils þjóðvegarnets. Helstu leiðir liggja suður til Guiyang, norðaustur til Wanzhou og norðvestur til Chengdu.

Jangtse fljót og Jialing fljót eru mikilvægar samgönguæðar fyrir Chongqing. Allt frá fimmta áratug síðustu aldar hefur verið ráðist í umfangsmikla dýpkun, hreinsun gróðurs til að gera skipugengd á Jangtse auðveldari og öruggari. Þá hefur bygging „Þriggja gljúfra stíflu“, stærsta fallorkuvirkjun heims, gert skipaflutninga frá hafi á Jangtse fljóti til Chongqing mun auðveldari. Nú geta 3.000 tonna hafskipum siglt upp Jangtse til hafna í Chongqing.

Megin flughöfn borghéraðsins er Chongqing Jiangbei alþjóðaflugvöllurinn sem opnaður var 1990 og er staðsettur um 21 kílómetra norður af miðborg Chongqing og þjónar sem mikilvæg flugmiðstöð fyrir suðvesturhluta Kína. Flugvöllurinn býður upp á bein flug til stærri borga Kína, Suðaustur-Asíu, Miðausturlanda, Norður-Ameríku og Evrópu. Hann er safnvöllur fyrir flugfélögin China Southern Airlines, Chongqing Airlines, Sichuan Airlines, China Express Airlines, Shandong Airlines og China West Air.

Eftir 1949 jókst verulega notkun á reiðhjólum, rútum og mótorhjólum í borginni. Sporvagnar hafa lengi verið nýttir fyrir samgöngur í borginni. Byggðar hafa verið 31 brú yfir Jangtse fljót. Snemma á 21. öld hafa reiðhjól vikið fyrir umferð bifreiða og mótorhjóla. Borgin byrjaði einnig að þróa og byggja upp snarlestarkerfi árið 2005.

Tenglar breyta

Heimildir breyta

Tilvísanir breyta

  1. „China: Chóngqìng (Districts and Counties) - Population Statistics, Charts and Map“. City Population.
  2. 2015年重庆常住人口3016.55万人 继续保持增长态势 (Chinese (China)). Chongqing News. 28. janúar 2016. Afrit af uppruna á 29. janúar 2016. Sótt 13. febrúar 2016.