Þykjustustríðið

tímabil í seinni heimsstyrjöldinni (1939-1940)
(Endurbeint frá Gervistríðið)

Þykjustustríðið eða Setustríðið (enska: Phoney War; franska: Drôle de guerre; þýska: Sitzkrieg) var átta mánaða tímabil í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar þar sem allt var með kyrrum kjörum á vesturvígstöðvunum. Aðeins ein hernaðaraðgerð átti sér stað þegar Frakkar gerðu tilraun til sóknar í Saarland. Átök styrjaldaraðila voru að mestu bundin við sjóinn.[1]

Kort af Evrópu á meðan þykjustustríðið stóð yfir (1939–40).

Þykjustustríðið hófst þann 3. september 1939; tveimur dögum eftir innrás Þjóðverja í Pólland, en þann dag sögðu Bretar og Frakkar Þjóðverjum stríð á hendur. Því lauk þegar orrustan um Frakkland hófst þann 10. maí 1940.[2]

Þykjustustríðið gaf Þjóðverjum tækifæri til að ljúka innrásinni í Pólland, leggja undir sig Danmörku og Noreg og búa sig undir innrás í Frakkland.

Orsök

breyta

Ýmsar margslungnar orsakir lágu til þess að þykjustustríðið átti sér stað. Helsta ástæðan var vafalaust skortur á sameiginlegri stefnu bandamanna. Þar að auki var óljóst hvar önnur lönd (til dæmis Benelúxlöndin og Sviss) stæðu í slíkri stefnu.

Frakkland hafði margra milljóna manna her, en var ekki undirbúið fyrir sóknarstyrjöld. Í staðinn gerðu herkenningar Frakka ráð fyrir að verja Maginot-línuna ef til styrjaldar kæmi. Sókn kæmi ekki til greina fyrr en árið 1941.[3] Innrás í Þýskaland væri raunar árangurslaus nema brotið væri gegn hlutleysi Belgíu, sem kom ekki til mála af pólitískum ástæðum. Yfirstjórn franska hersins mat þýsku Siegfried-línuna nægilega sterka til að fáar hersveitir gætu haldið henni til lengri tíma, jafnvel gegn verulegum yfirburðum Frakka. Staðan var metin á nákvæmlega öfugan hátt af þýska hernum. Herforingi Þjóðverja á vesturvígstöðvunum fékk það mat frá einum af hershöfðingjum sínum að þýski herinn myndi ekki standast Frakka í einn dag.[4]

Hvað varðar Þjóðverja gilti yfirlýsing Adolf Hitlers frá 31. ágúst 1939: „Fyrir vestan er mikilvægt að láta ábyrgðina á því að hefja fjandskap hvíla vafalaust á Englandi og Frakklandi. Til að byrja með verður að bregðast við minniháttar landamærabrotum eingöngu á staðnum. Ekki má fara yfir þýsku vesturlandamærin á neinum tímapunkti nema með skýlausu leyfi mínu. Sama gildir á sjó um allar hernaðaraðgerðir eða aðgerðir sem túlka má sem slíkar.“[5]

Atburðarás

breyta

Tadeusz-Gamelin sáttmálinn

breyta

Þann 19. maí 1939 skrifuðu Maurice Gamelin og Tadeusz Kasprzycki undir hernaðarsamning milli Póllands og Frakklands. Með þeim samningi skuldbundu Frakkland og Pólland hvort annað til sóknar í Þýskaland ef til styrjaldar kæmi. Frakkland hafði myndað svipuð varnarbandalög við önnur nýstofnuð ríki eftir fyrri heimsstyrjöldina með því markmiði að mynda eins konar forvarnarhring um Þýskaland. Meðal samþykktra skuldbindinga Frakklands var loftherferð sem átti að hefjast strax við upphaf styrjaldar, takmörkuð sókn á þriðja degi styrjaldar og stórfelld sókn frá fimmtánda degi herkvaðningar.[6]

Innrásin í Pólland

breyta

Þann 23. ágúst 1939 var Molotov-Ribbentrop-sáttmálinn undirritaður, en með honum gerðu Þjóðverjar og Sovétmenn leynilegt samkomulag um að skipta Póllandi á milli sín. Þjóðverjar hófu innrás sína í Pólland án stríðsyfirlýsingar (sjá Gleiwitz-atvikið) þann 1. september og tveimur dögum seinna lýstu Frakkland og Bretland Þýskalandi stríði á hendur. Varnaráætlun pólska hersins, Zachód-áætlunin, gerði ráð fyrir að sókn bandamanna á vesturvígstöðvunum myndi létta verulega á pólsku vígstöðvunum í austri.[7]

Sóknin í Saarland

breyta
 
Franskur hermaður í Saarlandinu.

Til að uppfylla skuldbindingar sínar við Tadeusz-Gamelin-sáttmálann hóf franska herstjórnin „Opération Sarre“ (einnig kölluð „Offensive de la Sarre“). Þann 9. september fóru franskar hersveitir yfir þýsku landamærin; þeir mættu ekki mikilli mótspyrnu þar sem þýsk yfirvöld vildu forðast stríð á tveimur vígstöðvum. Á svæðinu milli Saarbrücken og Pfälzerwald brutust út átök, en þar var meginþungi sóknarinnar.

Þann 12. september voru hersveitirnar komnar allt að átta kílómetra inn á þýskt landsvæði og höfðu hernumið tólf þorp í Saarlandi. Markmið sóknarinnar var einungis að meta styrkleika Siegfried-línunnar og þann 21. september skipaði Maurice Gamelin hersveitunum að hörfa aftur til upprunalegra staða við Maginot-línuna. Síðustu frönsku hersveitirnar yfirgáfu Þýskaland 17. október. Alls missti Frakkland um það bil 2.000 hermenn í sókninni. Sumir franskir hershöfðingjar, til að mynda Henri Giraud, voru ósáttir við að hörfa og töldu að tækifæri hefði verið ónýtt.

Saarsóknin reyndist ekki sérlega áhrifarík og kom ekki í veg fyrir ósigur Pólverja. Ástæðan fyrir því að bandamenn voru hikandi í sókninni var að þeir reyndu að viðhalda tengslum við Sovétríkin, sem höfðu einnig ráðist á Pólland. Hernám þeirra í Austur-Póllandi hófst þann 17. september. Vesturveldin brugðust við þessu með hógværð þar sem varnarbandalögin sem þau höfðu gert við Pólland fyrir stríðið nefndu aðeins Þýskaland sem styrjaldaraðila. Winston Churchill, sem þá var sjávarútvegsráðherra, flutti eftirfarandi ræðu í útvarpinu þann 1. október, nokkrum dögum eftir að Varsjá féll:

 
[…] We could have wished that the Russian armies should be standing on their present line as the friends and allies of Poland instead of as invaders. But that the Russian armies should stand on this line was clearly necessary for the safety of Russia against the Nazi menace. At any rate, the line is there, and an Eastern front has been created which Nazi Germany does not dare assail. When Herr von Ribbentrop was summoned to Moscow last week it was to learn the fact, and to accept the fact, that the Nazi designs upon the Baltic States and upon the Ukraine must come to a dead stop.
 
 
[…] Við hefðum óskað eftir því að Rússar stæðu á núverandi línu sem vinir og bandamenn Póllands í stað þess að vera innrásaraðilar. En að Rússar skyldu standa á þessari línu var augljóslega nauðsynlegt fyrir öryggi Rússlands gegn nasistahættunni. Hvort sem er, þá er víglínan þar, og austurvígstöðvar hafa myndast sem Þýskaland nasismans þorir ekki að ráðast á. Þegar Herr von Ribbentrop var kallaður til Moskvu í síðustu viku var það til að fræðast um og samþykkja þá staðreynd að áætlanir nasista um Eystrasaltslöndin og Úkraínu verða að engu.
 

Í byrjun október 1939 var Pólland sigrað og í kjölfarið fluttu Þjóðverjar mikinn fjölda hermanna og vopna til vesturvígsstöðvanna. Erwin von Witzleben hélt í gagnsókn gegn Frakklandi frá 16. til 24. október. Nokkrir ferkílómetrar af frönsku landsvæði voru hernumin. Í þessum átökum féllu 196 Þjóðverjar, 356 særðust og ellefu flugvélar voru skotnar niður. Upp frá því hófst vopnahlé sem varði þar til orrustan um Frakkland hófst þann 10. maí 1940. Veturinn 1939-40 var langur og mjög kaldur svo árásinni var frestað 29 sinnum.

Friðarboð

breyta

Í Frakklandi var herkvaðningu lokið um miðjan september, en þá var Pólland nánast gjörsigrað. Þar að auki höfðu Sovétmenn hernumið austurhluta Póllands sem flækti stöðuna stjórnmálalega. Flestir stjórnmálamenn fóru að leita samningslausna á styrjöldinni, einkum eftir að Adolf Hitler gerði vesturveldunum friðartilboð þann 6. október. Belgía og Holland buðust til að semja um sættir á milli Bretlands, Frakklands og Þýskalands í nóvember 1939, en því var hafnað af Frakklandi og Bretlandi. Þau kröfðust þess að Pólland, Tékkóslóvakía og Austurríki yrðu endurreist.

Eftirmáli

breyta

Í Nürnberg-réttarhöldunum sagði þýski hershöfðinginn Alfred Jodl að ástæðan fyrir því að Þriðja ríkið hefði ekki hrunið árið 1939 væri að tæplega 110 breskar og franskar herdeildir fyrir vestan voru algjörlega aðgerðarlausar gegn 23 þýskum herdeildum.[8] Siegfried Westphal hershöfðingi sagði að ef Frakkar hefðu efnt til sóknar gegn Þjóðverjum í september 1939 hefði þýski herinn „aðeins haldið út í eina eða tvær vikur“.[9]

Austurþýskir sagnfræðingar túlkuðu þykjustustríðið sem framhald af friðarkaupastefnu bandamanna. Að þeirra mati var ætlunin sú að beita yfirgangi Þjóðverja gegn Sovétríkjunum.[10]

Heiti stríðsins

breyta

Í enskumælandi hluta heimsins hefur þetta tímabil stríðsins verið nefnt mörgum nöfnum. Upphaflega var það kallað „Bore War“ (leiðindastríðið á íslensku) í Breska heimsveldinu. Þetta nafn var sennilega búið til í skopi og má rekja til Búastríðsins („Boer War“ á ensku), sem átti sér stað tæplega fjórum áratugum áður.

Franski blaðamaðurinn Roland Dorgelès er sagður hafa búið til franska heitið „Drôle de guerre“ (fyndna eða skrítna stríðið á íslensku). Orðatiltækið gæti einnig komið frá misskilningi á hugtakinu „phoney war“, sem var rangtúlkað sem „funny war“ í fréttum um franskar og breskar hersveitir.[11]

Winston Churchill kallaði tímabilið „Twilight War“ (rökkurstríðið á íslensku). British Press bjó til orðið Sitzkrieg (setustríðið á íslensku) yfir tímabilið, sem var leikur að þýska orðinu Blitzkrieg.[12][13][14] Orðið varð seinna fast í sessi í þýsku.

Tilvísanir

breyta
  1. Gunnar Karlsson; Sigurður Ragnarsson (2021). Nýir tímar. Forlagið. bls. 243. ISBN 9789979337010.
  2. Imlay, Talbot Charles (2004). „A reassessment of Anglo-French strategy during the Phoney War, 1939–1940“. English Historical Review. 119 (481): 333–372. doi:10.1093/EHR/119.481.333.
  3. Jean Doise; Maurice Vaïsse (1991). Diplomatie et outil militaire 1871–1991 (franska). bls. 396, 416.
  4. Thomas Sowell (2009). Intellectuals and Society (enska). bls. 319.
  5. „documentArchiv.de - Weisung des Obersten Befehlshaber der Wehrmacht Adolf Hitler für den Angriff auf Polen ["Fall Weiß"] (31.08.1939)“. www.documentarchiv.de. Sótt 6. júlí 2024.
  6. Walther Hofer (1960). Die Entfesselung des zweiten Weltkrieges. Eine Studie über die internationalen Beziehungen im Sommer 1939 (þýska). bls. 172.
  7. Seidner, Stanley S. (1978). Marshal Edward Śmigły-Rydz Rydz and the Defense of Poland. New York. bls. 89–91. OCLC 164675876.
  8. „Trial of the Major War Criminals before the International Military Tribunal“ (PDF). Library of Congress. Nüremberg. 1948. bls. 350. Afrit (PDF) af uppruna á 18. júlí 2023. Sótt 29. desember 2017.
  9. "France Falls". The World at War. Thames TV (1973).
  10. Andreas Dorpalen (1985). German History in Marxist Perspective. The East German Approach (enska). bls. 436.
  11. „Drôle de guerre“ (franska). Sótt 5. ágúst 2024.
  12. Dunstan, Simon (20. nóvember 2012). Fort Eben Emael: The key to Hitler's victory in the west. Osprey Publishing. bls. 33. ISBN 978-1-78200-692-3. OCLC 57638821. „Accordingly, the Allies first devised Plan E whereby they would advance into Belgium as far as the Scheldt River, but after months of inactivity that the British press termed "sitzkrieg," a bolder Plan D emerged that called for an advance as far as the Dyle River, a few miles east of Brussels.“[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
  13. Patricia S. Daniels; Stephen Garrison Hyslop; Douglas Brinkley (2006). National Geographic Almanac of World History. National Geographic Society. bls. 297. ISBN 978-0-7922-5911-4. Sótt 10. september 2015. „The invasion of France brought France and Britain into the war. For more than six months, the two sides sat idle — the British press called it Sitzkrieg — as Germany sought to avoid war with Britain without ceding Poland. With war unavoidable, the Germans attacked France on May 10, 1940.“
  14. Bert Whyte; Larry Hannant (2011). Champagne and Meatballs: Adventures of a Canadian Communist. Edmonton: Athabasca University Press. bls. 17. ISBN 978-1-926836-08-9. OCLC 691744583. Sótt 10. september 2015. „When, on September 1, 1939, Germany invaded Poland, which Britain had pledged to defend, Britain declared war. But it did nothing to help Poland; for eight months, the conflict remained strictly the "Phoney War." In May 1940, in what the British press had taken to calling the "sitzkrieg" became a German blitzkrieg throughout Western Europe, Hitler-colluder-with-Chamberlain was replaced by Hitler-antagonist-of-Winston Churchill.“

Heimildir

breyta