Bahamaeyjar

Bahamaeyjar eru eyríki á eyjaklasa sem telur um 700 eyjar og sandrif í Atlantshafi, rétt austan við Flórídaskaga í Bandaríkjunum, fyrir norðan Kúbu og Hispaníólu og vestan við Turks- og Caicoseyjar sem tilheyra sama eyjaklasa.

Samveldi Bahamaeyja
Commonwealth of the Bahamas
Fáni Bahamaeyja Skjaldarmerki Bahamaeyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Forward Upward Onward Together (enska)
Fram á við, upp á við, áfram saman
Þjóðsöngur:
March On, Bahamaland
Staðsetning Bahamaeyja
Höfuðborg Nassá
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Cornelius A. Smith
Forsætisráðherra Philip Davis
Sjálfstæði
 - frá Bretlandi 10. júlí 1973 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
155. sæti
13.878 km²
28
Mannfjöldi
 - Samtals (2022)
 - Þéttleiki byggðar
177. sæti
400.516
25,21/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 - Samtals 16,130 millj. dala (148. sæti)
 - Á mann 40.274 dalir (40. sæti)
VÞL (2021) Decrease2.svg 0.811 (55. sæti)
Gjaldmiðill bahamaeyjadalur (BSD)
Tímabelti UTC-5 (-4 á sumrin)
Þjóðarlén .bs
Landsnúmer +1-242

Upphaflega voru eyjarnar byggðar Lúkíum (Aravökum). Talið er að Kristófer Kólumbus hafi fyrst lent í Nýja heiminum á eyjunni San Salvador í eyjaklasanum en Spánverjar stofnuðu aldrei nýlendu á eyjunum. Þeir rændu þó fólki þaðan sem þeir seldu í þrældóm á Hispaníólu. Árið 1648 settust enskir landnemar frá Bermúda að á eyjunni Eleuthera. Eyjarnar voru griðastaður sjóræningja þar til þær urðu bresk krúnunýlenda árið 1718. Eftir Sjálfstæðisstríð Bandaríkjanna flutti breska stjórnin marga konungssinna til Bahamaeyja þar sem þeir fengu landareignir og hófu plantekrubúskap. Eftir að Bretar gerðu þrælahald ólöglegt flutti Breski flotinn þræla sem þeir höfðu frelsað af þrælaskipum í Atlantshafi til eyjanna. Þangað flúðu líka svartir þrælar frá Flórída. Árið 1973 urðu eyjarnar sjálfstætt ríki innan Breska samveldisins með Bretadrottningu sem þjóðhöfðingja.

Bahamaeyjar eru eitt af auðugustu ríkjum Ameríku þegar miðað er við verga landsframleiðslu á mann. Ferðaþjónusta stendur ein undir 60% af vergri landsframleiðslu Bahamaeyja. Fjármálaþjónusta er um 15% af landsframleiðslu. 70% íbúa búa á eyjunni New Providence þar sem höfuðborgin Nassá stendur. New Providence heyrir undir ríkisstjórn eyjanna.

HeitiBreyta

Bahamaeyjar draga nafn sitt líklega annað hvort af taínóísku orðunum ba ha ma („stóra efra miðland“), sem frumbyggjar nefndu svæðið,[1] eða mögulega af spænsku orðunum baja mar („grunnsævi“), sem vísar þá til grynninga á svæðinu. Nafnið gæti líka hugsanlega verið dregið af heitinu Guanahani sem óvíst er hvað þýðir.[2]

Formlegt heiti landsins á ensku er „The Bahamas“, með ákveðnum greini rituðum með stórum staf, eins og í Stjórnarskrá Bahamaeyja.[3]

LandfræðiBreyta

Bahamaeyjar eru stór eyjaklasi sem dreifist um 800 ferkílómetra svæði í Atlantshafi, austan við Flórída í Bandaríkjunum, norðan við Kúbu og Hispaníólu, og vestan við bresku eyjarnar Turks- og Caicos-eyjar (sem ásamt Bahamaeyjum mynda Lúkajaeyjar). Eyjarnar liggja milli 20. og 28. breiddargráðu norður og 72. og 80. lengdargráðu vestur. Þær liggja báðum megin Krabbabaugs.[4] Eyjarnar eru 700 og rifin 2.400 alls (þar af 30 byggð), og heildarþurrlendi er 10.010 ferkílómetrar.[4][5]

Höfuðborg eyjanna, Nassá, er á eyjunni New Providence. Aðrar helstu byggðu eyjar eru Grand Bahama, Eleuthera, Cat Island, Rum Cay, Long Island, San Salvador Island, Ragged Island, Acklins, Crooked Island, Exuma, Berry Islands, Mayaguana, Bíminíeyjar, Great Abaco og Great Inagua. Stærsta eyjan er Andros.[5]

Allar eyjarnar eru láglendar og flatlendar, og hæðardrög eru aldrei hærri en 15 til 20 metrar. Hæsti punktur eyjanna er Alvernia-fjall (áður Como-hæð) á Cat Island, 64 metrar á hæð.[4]

StjórnmálBreyta

HerBreyta

Her eyjanna nefnist Konunglegt varnarlið Bahamaeyja eða Royal Bahamas Defence Force (RBDF).[6] Herinn er aðeins með flota, en undir hann heyra sveit landgönguliða og flugdeild. Samkvæmt lögum um herinn er hlutverk hans að verja fullveldi eyjanna, í nafni drottningar, gæta að landhelgi þeirra, veita aðstoð við náttúruhamfarir, gæta að lögum og reglu í samstarfi við lögreglulið eyjanna og önnur verkefni sem öryggisráð eyjanna felur honum.[7] Varnarliðið á aðild að öryggisgæslusveitum CARICOM.[6]

Varnarliðið var stofnað 31. mars 1980. Það fæst einkum við að stöðva eiturlyfjasmygl, ólöglega innflytjendur og veiðiþjófnað, og aðstoð við sjófarendur. Varnarliðið ræður yfir 26 varðskipum og minni gæslubátum og er með yfir 1.100 starfsmenn, þar á meðal eru 65 yfirmenn og 74 konur.[8]

StjórnsýslueiningarBreyta

Fyrir utan New Providence, sem heyrir beint undir ríkisstjórn Bahamaeyja, skiptast eyjarnar í 31 stjórnsýsluumdæmi:

EfnahagslífBreyta

 
Hlutfall útflutnings frá Bahamaeyjum árið 2019.

Miðað við landsframleiðslu á mann eru Bahamaeyjar eitt af auðugustu löndum Ameríku.[9] Gjaldmiðill landsins, bahamadalur, er festur við bandaríkjadal á genginu 1 á móti 1.[10]

Ferðaþjónusta er helsta undirstaða efnahagslífs á Bahamaeyjum og stendur undir bæði helmingi landsframleiðslunnar og helmingi starfa á eyjunum. Fjöldi ferðamanna var 5,8 milljónir árið 2012, og yfir 70% þeirra komu með skemmtiferðaskipum.[11]

Næstmikilvægasti geirinn er banka- og fjármálaþjónusta, sem stendur undir 15% landsframleiðslunnar.[10] Í Panamaskjölunum kom fram að Bahamaeyjar væru það land sem hefði flestar skráningar aflandsfyrirtækja í heimi.[12]

Skattastefnan er mjög samkeppnishæf og eyjunum er oft lýst sem skattaskjóli. Ríkisstjórn eyjanna hefur tekjur af tollum, virðisaukaskatti, leyfisgjöldum og fasteignaskatti og stimpilgjöldum, en það er enginn tekjuskattur, fyrirtækjaskattur, fjármagnstekjuskattur eða eignarskattur. Almannatryggingar eru fjármagnaðar með launatengdum gjöldum þar sem launþeginn greiðir 3,9% og vinnuveitandinn 5,9%.[13] Árið 2010 voru skatttekjur 17,2% af vergri landsframleiðslu.[14]

Þriðji stærsti geiri atvinnulífs á Bahamaeyjum eru landbúnaður og iðnaður sem standa undir 5-7% af vergri landsframleiðslu.[10] Talið er að Bahamaeyjar flytji inn um 80% af matvælum sem seld eru á eyjunum. Helstu landbúnaðarafurðir eyjanna eru laukur, okra, tómatar, appelsínur, greipaldin, agúrkur, sykurreyr, sítrónur, límónur og sætar kartöflur.[15]

Aðgengi að líffræðilegri getu er miklu hærri á Bahamaeyjum en að meðaltali í heiminum. Árið 2016 höfðu eyjarnar 9,2 framleiðnihektara[16] á mann í landinu, sem er miklu hærra en heimsmeðaltalið 1,6 hektarar á mann.[17] Árið 2016 nýttu íbúar Bahamaeyja 3,7 hektara á mann sem vistspor neyslu, sem er mun minna en eyjarnar ráða við.[16]

ÍbúarBreyta

 
Þróun íbúafjölda á Bahamaeyjum samkvæmt FAO.

Samkvæmt manntali árið 2018 voru íbúar á Bahameyjum 407.906 talsins, þar af 25,9% 14 ára eða yngri, 67,2% 15 til 64 ára og 6,9% yfir 65 ára aldri. Ársfjölgun var 0,925% árið 2010 og fæðingartíðni 17,81/1000 íbúa, en dánartíðni 9,35/1000 íbúa og brottfluttir umfram aðflutta 2,13/1000.[18] Ungbarnadauði er 23,21 á 1000 lifandi fæðingar. Lífslíkur íbúa eru 69,87 ár. Heildarfrjósemishlutfall er 2 börn á konu (2010).[14] Áætlað er að fjöldi íbúa árið 2022 sé 400.516.

Fjölmennustu eyjarnar eru New Providence þar sem höfuðborgin, Nassá er staðsett, og Grand Bahama þar sem næststærsta borgin, Freeport er.[19]

MenningBreyta

Menning eyjanna er blanda af afrískum, breskum og bandarískum hefðum. Tengslin við Bandaríkin eru sterk vegna fjölskyldutengsla, aðflutnings frelsaðra þræla frá Bandaríkjunum og vegna þess að flestir ferðamenn til eyjanna koma þaðan.[5]

Á Fjölskyldueyjum (úteyjum) eru afrískir alþýðugaldrar, obeah, stundaðir.[20] Obeah er ólöglegt á Bahamaeyjum og refsivert.[21] Þar eru líka búnar til hefðbundnar körfur og fleira úr pálmablöðum. Efnið er riðið í hatta og töskur sem eru vinsælir minjagripir hjá ferðamönnum.[22]

Junkanoo eru hefðbundnar afróbahamískar skrúðgöngur með tónlist og dansi sem eru haldnar í Nassá og öðrum bæjum á annan í jólum og nýársdag. Junkanoo er líka sett upp við önnur tilefni.[5]

Siglingakeppnir eru mikilvægir viðburðir á mörgum úteyjunum. Oftast fela þær í sér nokkurra daga keppni á gamaldags vinnubátum með hátíð í landi.[23]

Bahamísk matargerð endurspeglar fjölbreyttan uppruna íbúa með áhrifum frá karabískri, afrískri og evrópskri matarhefð. Í sumum bæjum eru hátíðir sem tengjast uppskeru þess svæðis, eins og „Ananashátíðin“ í Gregory Town á Eleuthera eða „Krabbahátíðin“ á Andros.

Sagnamennska er mikilvæg hefð á eyjunum þar sem er ríkuleg alþýðumenning. Þekktustu þjóðsagnaverur Bahamaeyja eru lusca og chickcharney á Andros, Pretty Molly á Exuma og týnda borgin Atlantis á Bimini. Þekktir bahamískir rithöfundar eru meðal annars Wendy Coakley-Thompson, Paul Albury og Susan J. Wallace. Meðal þekktustu íbúa eyjanna eru leikararnir Sidney Poitier og Roxie Roker, og sonur hennar, söngvarinn Lenny Kravitz.

TilvísanirBreyta

 1. Peter Barratt (2004). Bahama Saga: The epic story of The Bahama Islands. bls. 47.
 2. Harper, Douglas. „bahamas“. Online Etymology Dictionary.
 3. Government of the Bahamas "Constitution of The Commonwealth of The Bahamas", Government of The Bahamas, Nassau, 9 July 1973. Sótt 18. desember 2018.
 4. 4,0 4,1 4,2 „CIA World Factbook – The Bahamas“. Sótt 21. júlí 2019.
 5. 5,0 5,1 5,2 5,3 „Encyclopedia Britannica – The Bahamas“. Sótt 22. júlí 2019.
 6. 6,0 6,1 Central Intelligence Agency (2009). The CIA World Factbook 2010 (Report). Skyhorse Publishing. bls. 53.
 7. „Defence Act“. Act of 1980. bls. 211-14.
 8. „Our Mandat“. rbdf.gov.bs. Sótt 4. febrúar 2021.
 9. „Real GDP per capita“. CIA.gov. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. apríl 2022. Sótt July 9, 2022.
 10. 10,0 10,1 10,2 Country Comparison :: GDP – per capita (PPP) Geymt 23 apríl 2015 í Wayback Machine. CIA World Factbook.
 11. Spencer, Andrew (14. júlí 2018). Travel and Tourism in the Caribbean: Challenges and Opportunities for Small Island Developing States (enska). Springer. ISBN 978-3-319-69581-5. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. apríl 2021. Sótt 19. október 2020.
 12. „Panama Papers“. The International Consortium of Investigative Journalists. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. maí 2016. Sótt 17. ágúst 2017.
 13. „Contributions Table“. The National Insurance Board of The Commonwealth of The Bahamas. 11. maí 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. janúar 2012. Sótt 22. desember 2011.
 14. 14,0 14,1 Bahamas, The Geymt 26 janúar 2021 í Wayback Machine. CIA World Factbook.
 15. Group, Taylor & Francis (2004). Europa World Year (enska). Taylor & Francis. ISBN 978-1-85743-254-1. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2021. Sótt 19. október 2020.
 16. 16,0 16,1 „Country Trends“. Global Footprint Network. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. ágúst 2017. Sótt 4. júní 2020.
 17. Lin, David; Hanscom, Laurel; Murthy, Adeline; Galli, Alessandro; Evans, Mikel; Neill, Evan; Mancini, MariaSerena; Martindill, Jon; Medouar, FatimeZahra; Huang, Shiyu; Wackernagel, Mathis (2018). „Ecological Footprint Accounting for Countries: Updates and Results of the National Footprint Accounts, 2012–2018“. Resources (enska). 7 (3): 58. doi:10.3390/resources7030058.
 18. Country Comparison "Total fertility rate" Geymt 28 október 2009 í Wayback Machine, CIA World Factbook.
 19. The Bahamas Guide https://www.thebahamasguide.com/facts/population/. Sótt 28.9.2022.
 20. „International Religious Freedom Report 2005 – Bahamas“. United States Department of State. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. desember 2019. Sótt 22. júlí 2012.
 21. "Practising Obeah, etc." Geymt 2017-04-21 í Wayback Machine, Ch. 84 Penal Code. laws.bahamas.gov.bs
 22. Hurbon, Laennec (1995). "American Fantasy and Haitian Vodou". Sacred Arts of Haitian Vodou. Ed. Donald J. Cosentino. Los Angeles: UCLA Fowler Museum of Cultural History, pp. 181–97.
 23. „Native Boat Regattas in The Bahamas“. World Nomads. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2021. Sótt 4. febrúar 2021.

TenglarBreyta

   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.