Belgía
Belgía (hollenska: België; franska: Belgique; þýska: Belgien) er konungsríki í Vestur-Evrópu sem á landamæri að Hollandi, Þýskalandi, Lúxemborg og Frakklandi. Auk þess liggur strönd Belgíu að Norðursjó. Belgía liggur á mörkum germönsku og rómönsku Evrópu og skiptist sjálf á milli þessara menningarheima, þar sem í norðurhluta landsins, Flæmingjalandi (Vlaanderen), er töluð hollenska, en í syðri hlutanum, Vallóníu (Wallonie) er töluð franska. Þýska er töluð í austurhluta landsins. Brussel, hin tvítyngda höfuðborg landsins, liggur í Flandri, nálægt mörkum að Vallóníu. Belgía er ein af stofnþjóðum Evrópusambandsins og eru höfuðstöðvar þess í Brussel. Evrópskar höfuðstöðvar NATÓ eru einnig staðsettar í landinu og EFTA samtökin eru með stórt útibú þar. Í Belgíu búa tæplega 11,5 milljónir manna á um 30 þús km2 svæði.
Konungsríkið Belgía | |
Koninkrijk België (hollenska) Royaume de Belgique (franska) Königreich Belgien (þýska) | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Eendracht maakt macht (hollenska) L'union fait la force (franska) Einigkeit macht stark (þýska) Einingu fylgir styrkur | |
Þjóðsöngur: Brabançonne | |
Höfuðborg | Brussel |
Opinbert tungumál | hollenska, franska og þýska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn
|
Konungur | Filippus |
Forsætisráðherra | Alexander De Croo |
Sjálfstæði | frá Hollandi |
• Yfirlýst | 4. október 1830 |
• Viðurkennt | 19. apríl 1839 |
Evrópusambandsaðild | 25. mars 1957 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
30.689 km² 0,71 |
Mannfjöldi • Samtals (2020) • Þéttleiki byggðar |
22. sæti 11.492.641 376/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2020 |
• Samtals | 575,808 millj. dala (36. sæti) |
• Á mann | 50.114 dalir (18. sæti) |
VÞL (2019) | 0.919 (17. sæti) |
Gjaldmiðill | evra (€) |
Tímabelti | CET |
Þjóðarlén | .be |
Landsnúmer | +32 |
Heiti
breytaHeitið Belgía er runnið undan rifjum Júlíusar Caesars, sem hertók landið á 1. öld f.Kr., en hann kallaði nyrstu héruð Gallíu Gallia Belgica eftir keltneska þjóðflokknum Belgae. Heitið hvarf þó á miðöldum en kom fram aftur 1790 þegar Belgía var sjálfstætt ríki í nokkra mánuði. Það hét þá États-unis de Belgique (Sameinuðu belgísku löndin). Eftir skamma samveru með Hollandi frá 1815-1830 varð Belgía sjálfstætt konungsríki. Landið tók sér heitið Royaume de Belgique (konungsríkið Belgía) en það er enn opinbert heiti landsins í dag.
Saga
breytaNiðurlönd
breytaStærsti hluti nútíma Belgíu var fyrr hluti Rómaveldis, en það var Júlíus Caesar sem hertók landið 57-51 f.Kr. Belgía var skattland Rómverja, kallað Gallia Belgica, en höfuðborgin var Reims (í Frakklandi í dag). Eftir það var landið hluti af frankaríkinu mikla sem Karlamagnús setti saman síðla á 9. öld. Eftir fráfall hans skiptist ríkið í þrennt 843 og lentu Niðurlönd í miðríkinu, Lóþaringíu. Þegar því var hins vegar skipt milli franska ríkisins og þýska ríkisins 855, lentu þau í þýska ríkinu. Þar var hins vegar engin ríkisheild, heldur stjórnuðu greifar og furstar löndunum. Niðurlöndum var stjórnað af greifanum frá héraðinu Hollandi, hertoganum frá Geldern og hertoganum frá Brabant. Auk þess af biskupnum frá Utrecht. Það var hertoginn frá Búrgúnd sem sameinaði löndin. Á þessum tíma voru borgir eins og Bruges, Gent og Antwerpen meðal ríkustu borga Evrópu. Eftir að Karl hinn hugrakki, hertogi Búrgúndar, lést í orrustunni við Nancy 1477, erfði María dóttir hans öll Niðurlönd. Hún missti móðurlandið (Búrgúnd) til Frakklands, en hélt Niðurlöndin eftir. Eiginmaður hennar var Maximilian frá Habsborg og stjórnuðu þau Niðurlöndum frá Brussel. Með andláti Maríu og Maximilians erfði Habsborg Niðurlönd, en þau erfðust til spænsku línu Habsborgar 1556.
Sjálfstæðisstríð
breytaÞar sem Spánverjar ríktu með harðri hendi á Niðurlöndum hófst uppreisn íbúa svæðisins 1568. Niðurlöndum var skipt í 17 héruð og skiptust þau í andstæða hópa. 1581 lýstu norðurhéruðin yfir sjálfstæði, en suðurhéruðin, að miklu leyti núverandi Belgía, héldu að mestu tryggð við Spánverja. Þó lentu ýmsar belgískar borgir illilega í stríðinu. Til að mynda féll Antwerpen tvisvar og var hún rænd og rupluð. Stríðinu lauk ekki fyrr en með friðarsamningunum í Vestfalíu, samfara lokum 30 ára stríðsins. Spánverjar viðurkenndu sjálfstæði Hollands, en Belgía var enn eign Spánar. Í ófriði við Frakka missti spænska Belgía borgir eins og Dunkerque, Lille og Arras til Frakklands. Við friðarsamninga spænska erfðastríðsins 1713-14 misstu Spánverjar Belgíu til Austurríkis. Reyndar var Belgía á þessum tíma orðið nær sjálfstætt ríki, enda var keisarasambandið við Austurríki aðeins lauslegt. En þegar Jósef II keisari setti ný og strangari lög um Belgíu 1790, gerðu belgísku héruðin uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Austurríkismönnum tókst þó að hertaka landið á sama ári.
Frakkar
breyta1794 hertók franskur byltingarher Niðurlönd öll. Meðan Hollandi var breytt í Batavíska lýðveldið, var Belgía innlimuð Frakklandi. Þar með lauk yfirráðum Habsborgara endanlega á Niðurlöndum. Frakkar umbyltu landinu nánast. Bannað var að tala hollensku í Brabant og Flandri. Aðeins mátti tala frönsku. Efnahagurinn hrundi nánast, en bannað var að selja iðnvörur nema til Frakklands. Kaþólska kirkjan var ofsótt, biskupsdæmin lögð niður og kirkjur vanhelgaðar. Ástand þetta varaði allt til 1814, er Napoleon var sigraður og settur í útlegð á eyjuna Elbu. Þá voru Frakkar hraktir úr landi og frönsk lög afnumin. En Napoleon strauk frá Elbu aðeins ári síðar, safnaði að sér her og varð einvaldur á ný. 18. júní 1815 var síðasta stórorrusta hans háð við smábæinn Waterloo rétt sunnan við Brussel. Þar beið hann ósigur gegn sameinuðum herjum Englendinga og Prússa. Á Vínarfundinum var ákveðið að Holland, Belgía og Lúxemborg skyldu sameinast í eitt konungsríki. Fyrsti konungur þess ríkis varð Vilhjálmur I af Óraníu.
Belgíska uppreisnin
breytaÞótt Belgar væru ánægðir með að losna við yfirráð Frakka, voru þeir óánægðir með Hollendinga. Ástæðan var einföld. Þeim fannst Hollendingar líta á sig sem annars flokks þegna. Belgar voru enn kaþólskir, en Hollendingar kalvínistar og reformeraðir. Belgía var iðnvæddara land en Hollendingar notfærðu sér tækni þeirra og skatta. Að lokum töluðu margir Belgar frönsku, meðan aðalmálið í Hollandi var hollenska. Í júlí 1830 sauð upp úr. Í Brussel hófst bylting sem breiddist út til annarra borga. Krafan var að losa sig frá Hollandi. Í september var bráðabirgðastjórn mynduð og 4. október 1830 lýsti stjórnin yfir sjálfstæði Belgíu í ráðhúsinu í Brussel. Í ráðstefnu sem stórveldi í Evrópu héldu í London í lok ársins, var Belgía viðurkennt sem sjálfstætt ríki. Vilhjálmur I, konungur Niðurlanda, viðurkenndi nýja ríkið hins vegar ekki fyrr en 1839. Þingið ákvað einnig að Belgía skyldi vera konungsríki. Hins vegar neitaði aðall landsins að taka við konungdóminum. Það tók heilt ár að finna hentugan aðila. Að lokum varð þýski aðalsmaðurinn Leópold af ætt Sachsen-Coburg-Gotha fyrir valinu. Hann var krýndur 21. júlí 1831 og er þessi dagur þjóðhátíðardagur Belga í dag. 1839 splittaðist hertogadæmið Lúxemborg í tvennt. Það hafði tekið þátt í belgísku uppreisninni 1830 og var hluti Belgíu. En 1839 klofnaði héraðið. Vesturhlutinn varð eftir í Belgíu (og heitir Lúxemborg í dag), en austurhlutinn varð að sjálfstæðu ríki (heitir einnig Lúxemborg).
Nýlenduveldi og heimstyrjöld
breytaMeð nýju sjálfstæði færðist iðnvæðingin í aukana. Nýjar kolanámur spruttu upp og lagt var járnbrautarnet þvert yfir landið og til nágrannalandanna. 1889 varð Belgía að nýlenduveldi er Leópold II konungur eignaðist formlega Kongó í Afríku. Hann hafði þó löngu áður braskað með landið og íbúana. Leópold notaði íbúa Kongósvæðisins vægðarlaust og hófst mikil rányrkja í landinu. Eitthvað um 10 milljónir Kongóbúar létu lífið í þrælabúðunum. Þetta olli þvílíkri hneikslan á Vesturlöndum að Leópold konungur neyddist til að afsala sér landið 1908, sem eftirleiðis var stjórnað af ríkisstjórninni og hlaut heitið Belgíska Kongó. Leópold lést ári síðar. Í ágúst 1914 réðust Þjóðverjar inn í Belgíu til að komast betur inn í Frakkland. En Belgar tóku á móti þeim með þvílíkum krafti, m.a. við orrustuna um Liège, að Þjóðverjar voru stöðvaðir í heilan mánuð. En um síðir náðu Þjóðverjar meirihluta landsins á sitt vald. Stjórnin flúði til Le Havre í Frakklandi. Þjóðverjar tóku fólk af lífi og eyðilögðu byggingar fyrir hið vasklega viðnám og sem hefnd fyrir miklar andspyrnuhreyfingar. Margar borgir skemmdust mikið. 40 þús Belgar voru sendir til Þýskalands til að vinna í hergagnaiðnaðinum. Tugþúsundir annarra voru hnepptir í vinnuþrælkun. Í stríðslok, er Þjóðverjar yfirgáfu landið 1918, eignaðist Belgía héraðið í kringum borgirnar Eupen og Malmedy, sem áður tilheyrði Þýskalandi. Þar með mynduðust núverandi landamæri Belgíu. Einnig tók belgíski herinn þátt í hersetu Ruhr-héraðsins sem hluti stríðsskaðabóta Þjóðverja.
Heimstyrjöldin síðari
breyta10. maí 1940 réðust Þjóðverjar aftur inn í Belgíu. Að nýju veittu Belgar mikið viðnám, en fengu ekki við ráðið. Brussel féll 17. maí. Stjórnin fór þá til Englands og starfaði í London. Þjóðverjar hertóku landið á 18 dögum. Leópold III konungur neitaði hins vegar að yfirgefa landið. Hann var að lokum handtekinn af Þjóðverjum og töldu sumir að hann hafi veitt þeim haldbærar upplýsingar og aðstoð. Leópold átti fund með sjálfum Hitler í bæríska bænum Berchtesgaden í nóvember 1940. Landstjóri nasista í Belgíu varð Alexander von Falkenhausen. Strax var byrjað á því að ofsækja gyðinga og senda þá úr landi. Í september 1944 hrökkluðust nasistar úr Belgíu, en þá höfðu bandamenn ráðist inn í Normandí nokkru áður. Stjórnin sneri heim frá London og neyddi Leópold III konung til að segja af sér. Hann var þó settur í embætti á ný 1946. Í lok árs 1944 sóttu Þjóðverjar fram á vesturvígstöðvunum í síðasta sinn. Þeir komust inn yfir Ardennafjöll og sóttu inn í Belgíu. Framsókn þessi var þó skammlíf, enda mættu Þjóðverjar þar ofjörlum sínum.
Nútíma Belgía
breytaEftir stríð var belgíska stjórnin enn óánægð með Leópold konung. 1949 efndi hún til þjóðaratkvæðagreiðslu um persónu hans. 72% þjóðarinnar kaus með konungi og sat hann því áfram í embætti. En þetta leysti miklar erjur úr læðingi og við lá borgarastríði. 1951 sá Leópold sitt vænsta og afþakkaði. Við konungdóminn tók sonur hans Baldvin. Eftir stríð hófst mikil efnahagsuppsveifla í landinu. Þeir gengu í kola- og stálbandalag Evrópu 1952 og voru stofnmeðlimir Evrópubandalagsins 1957 með Rómarsáttmálanum. 1967 setti NATO upp aðalstöðvar sínar í Brussel. Síðan þá hafa margar aðrar alþjóðlegar stofnanir reist aðalstöðvar sínar í borginni, þar á meðal aðalskrifstofur Evrópusambandsins. Því er Brussel oft nefnd höfuðborg Evrópu. 1960 hófust uppþot í nýlendunni Kongó, sem endaði með sjálfstæði landsins 30. júní. Þegar uppþotin héldu áfram í júlí, sendi Belgía herlið til landsins í trássi við stjórnina í Kongó. Í borgarastyrjöldinni sem á eftir fylgdi neyddust Belgar til að draga sig til baka. Heima fyrir var tungumálavandinn ákaflega erfiður ljár. Það var ekki fyrr en 1967 að hollensk útgáfa af stjórnarskrá landsins varð til. Hún hafði alltaf verið á frönsku fram að þessu. Hollenskan og franskan skiptu landinu einnig upp í tvær þjóðir og tvo menningarheima. 1964 var landinu formlega skipt upp í fjögur tungumálasvæði: Frönsku, hollensku, þýsku og tvítyngda höfuðborg. Eftir þetta hafa nokkrar ríkisbreytingar verið gerðar.
- 1977 var landinu skipt í þrjú menningarsvæði: Frönskumælandi, hollenskumælandi og þýskumælandi. Skiptingin var þó mestmegnis menningarleg, en svæðin fengu m.a. að útvarpa á eigin tungumálum.
- 1980 hlutu menningarsvæðin aukna sjálfstjórn í félagsmálum og heilbrigðismálum. Auk þess voru tvö stór héruð mynduð: Vallónía (frönskumælandi) og Flæmingjaland (hollenskumælandi).
- 1988-89 var Brüssel (höfuðborgarsvæðið) bætt við sem þriðja stóra héraðið í Belgíu. Hin tvö héruðin hlutu enn aukna sjálfstjórn, m.a. í menntamálum.
- 1993 var Belgíu breytt í sambandsland. Héruðin hlutu aukið sjálfræði í fjárhagsmálum. Auk þess var Brabant skipt upp í Flæmska Brabant og Vallónska Brabant.
- 2001 hlutu héruðin enn aukna sjálfstjórn, m.a. í landbúnaði, fiskveiðum, erlendum viðskiptum, fjármálum. Kosningalögum var einnig breytt.
Eftir kosningar 2010 tókst ekki að mynda nýja ríkisstjórn og var landið tæknilega stjórnlaust í hálft annað ár. Stjórnarkreppan leystist ekki fyrr en í desember 2011 er Elio Di Rupo tókst að mynda nýja stjórn. Stjórnarkreppan stóð yfir í 541 dag, sem er heimsmet. Charles Michel tók við stjórnartaumunum árið 2014.
- 2011 var lögum enn breytt, enda var enn mikil spenna í landinu þrátt fyrir allar þessar ríkisbreytingar. Nú er þingið ekki kosið almennum kosningum, heldur samanstendur það af fulltrúm vallóna og flæmingja sem kosnir eru í hvoru héraði fyrir sig. Smásvæðið Brussel-Halle-Vilvoorde var skipt upp, en það hafði verið bitbein lengi í landinu sökum tungumála. Héruðin fá enn aukið fjárhagsfrelsi.
Þrátt fyrir allar þessar breytingar eru vandamálin í landinu ekki leyst. Ekki er útilokað að Belgía leysist upp í tvö ríki í framtíðinni.
- Í mars 2016 voru framin hryðjuverk í Brussel af hendi manna sem studdu Íslamska ríkið.
Landfræði
breytaBelgía liggur við sunnanverðan Norðursjó, þó að strandlengja landsins sé ekki nema rúmlega 70 km löng. Belgía á landamæri að fjórum öðrum löndum:
Land | Lengd landamæra | Ath. |
---|---|---|
Frakkland | 620 km | Til suðurs |
Holland | 450 km | Til norðurs |
Þýskaland | 167 km | Til austurs |
Lúxemborg | 148 km | Til suðausturs |
Belgía er ákaflega flatt land. Meirihluti landsins er láglent undirlendi. Í norðurhluta landsins eru jafnvel nokkrir staðir sem liggja neðan sjávarmáls, en þeir eru talsvert færri og minni en t.d. í Hollandi. Syðst er lítill fjallgarður, Ardennafjöll, en hæsti tindurinn þar, Signal de Botrange, nær aðeins 694 metra hæð. Skipta má landinu í þrjá landfræðilega hluta: ströndina, miðundirlendið og Ardennafjöll. Fjölda áa renna um landið. Þeirra helstu eru Maas og Schelde.
Borgir
breytaStærsta borg Belgíu er Antwerpen með um 466 þús íbúa og er hún að sama skapi langstærsta hafnarborg landsins. Athyglisvert er að höfuðborgin Brussel er eingöngu fimmta stærsta borg landsins með rúmlega 160 þús íbúa. Á hinn bóginn búa um milljón manns á stórborgarsvæði Brussel og er hún að þessu leyti langstærsta borg landsins. Stærstu borgir í Belgíu:
Röð | Borg | Íbúar | Hérað | Menningarsvæði |
---|---|---|---|---|
1 | Antwerpen | 466 þús | Antwerpen | Flæmingjaland |
2 | Gent | 235 þús | Austur-Flæmingjaland | Flæmingjaland |
3 | Charleroi | 201 þús | Hainaut | Vallónía |
4 | Liège | 188 þús | Liège | Vallónía |
5 | Brussel | 163 þús | Höfuðborgarsvæðið | |
6 | Brugge | 117 þús | Vestur-Flæmingjaland | Flæmingjaland |
7 | Schaerbeek | 113 þús | Höfuðborgarsvæðið | |
8 | Namur | 107 þús | Namur | Vallónía |
9 | Anderlecht | 97 þús | Höfuðborgarsvæðið | |
10 | Leuven | 91 þús | Flæmska-Brabant | Flæmingjaland |
11 | Mons | 91 þús | Hainaut | Vallónía |
Ár og vötn
breytaTvö stórfljót renna um Belgíu frá suðri til norðurs: Schelde og Maas. Bæði eiga árnar upptök sín í Frakklandi og bæði fljóta þau inn yfir landamæri Hollands og þaðan í Norðursjó. Stærstu ár Belgíu innanlands:
Röð | Fljót | Lengd innanlands | Rennur í |
---|---|---|---|
1 | Schelde | 200 km | Norðursjó |
2 | Maas | 183 km | Norðursjó |
3 | Ourthe | 165 km | Maas |
4 | Lys | 109 km | Schelde |
5 | Sambre | 105 km | Maas |
6 | Senne | 103 km | Dijle |
7 | Lesse | 89 km | Maas |
8 | Dijle | 86 km | Rupel |
9 | Yser | 50 km | Norðursjó |
Nokkrir skipaskurðir eru í Belgíu. Stærsti skurðurinn er Albert-skurðurinn, en hann er 129 km langur. Skurðurinn tengir árnar Maas og Schelde milli borganna Liège og Antwerpen. Hæðarmunurinn er 56 m og þurfa skip því að fara í gegnum fimm skipastiga. Brussel-Schelde-skurðurinn er 28 km langur og tengir höfuðborgina við fljótið Schelde, og þaðan áfram til sjávar. Skurðurinn var vígður 1561 og er einn allra elsti skipaskurður Evrópu sem enn er í notkun.
Stöðuvötn í Belgíu eru fá og lítil. Stærsta vatnið er Lacs de L'Eau d'Heure í héraðinu Namur nálægt frönsku landamærunum. Það er þó ekki nema rúmlega 6 km2 að stærð. Vatnið er uppistöðulón sem myndaðist við stíflugerð á 8. áratugnum.
Fjöll
breytaMeginhluti Belgíu er flatlendi. Bara í suðaustri er landið hæðótt. Þar eru Ardennafjöll sem teygja sig frá Belgíu til Lúxemborgar og að einhverju leyti til Frakklands. Hæsta fjallið er Signal de Botrange sem er 694 metra hátt. Það liggur í þeim hluta Ardennafjöllum sem kallast Haute Fagnes nálægt þýsku landamærunum. Fjallið er nær allt skógi vaxið, en efst er útvarpsturn og veitingahús. Fjögur önnur fjöll í Ardennafjöllum (innan Belgíu) ná 600 metra hæð.
Stjórnmál
breytaÍ Belgíu er þingbundin konungstjórn. Lögþingið samanstendur af tveimur deildum, ásamt konungi. Framkvæmdarvaldið samanstendur af 15 manna ríkisstjórn og konungi. Æðsti maður ríkisstjórnarinnar er forsætisráðherra landsins. Síðan 2020 er Alexander De Croo forsætisráðherra. Konungurinn ber titilinn konungur Belga (Roi des Belges), ekki konungur Belgíu.
Listi konunga Belgíu síðan konungsríkið var stofnað 1830:
Röð | Konungur | Tímabil | Ath. |
---|---|---|---|
1 | Leópold I | 1831 - 1865 | |
2 | Leópold II | 1865 - 1909 | Sonur Leópolds I |
3 | Albert I | 1909 - 1934 | Bróðursonur Leópolds II |
4 | Leópold III | 1934 - 1951 | Sonur Alberts I |
5 | Baldvin | 1951 - 1993 | Sonur Leópolds III |
6 | Albert II | 1993 - 2013 | Bróðir Baldvins |
7 | Filippus | 2013 - Situr enn | Sonur Alberts II |
Stjórnmál í Belgíu eru nokkuð flókin. Þar ber helst að nefna ágreining þjóðflokkanna tveggja í landinu, vallóna og flæmingja. Ágreiningsefnin eru ýmis:
- Eftir heimstyrjöldina síðari var tekist á um Leópold III konung, en hann var sakaður um svik við Þjóðverja meðan Belgía var hersetin. Til að leysa þennan ágreining sagði Leópold af sér og við tók sonur hans, Baldvin.
- Síðan í byrjun var iðnaður og efnahagur miklu meiri í Vallóníu (frönskumælandi hlutanum). En á sjöunda áratugnum snerist dæmið við. Efnahagsundrið í Flæmingjalandi hefur orsakað mikla spennu í landinu, ekki síst er flæmskir stjórnmálamenn reyndu að stýra uppgangingum til suðurs til Vallóníu.
- 1962 voru tungumálamörkin fastlögð. Landinu var skipt upp í tvo aðal tungumálahluta, en höfuðborgin Brussel var tvítyngd. Þetta olli enn meiri spennu í landinu, sérstaklega vegna þess að eiginleg tungumálamörkin í landinu eru óskýr. Í miðhéruðunum búa ýmist vallónar eða flæmingjar í röngu tungumálasvæði. Brussel er sér fyrirbæri. Höfuðborgin var áður fyrr nær eingöngu hollenskumælandi, en eftir 1962 fóru æ fleiri að tala frönsku þar. Nú er svo komið að meirihlutinn þar talar frönsku. Nokkrar endurbætur á þessu kerfi hafa aðeins flækt málin enn frekar. Franska er í mikilli sókn í umhverfi Brussel.
Vallónar krefjast þess að viðhalda Belgíu sem eitt ríki. Meðal flæmingja heyrist sú krafa æ oftar að kljúfa sig úr ríkinu og mynda eigið land. Síðan 2007 hafa stjórnmálamenn átt í miklum erfiðleikum að samrýma allar þessar kröfur.
Þjóðfáni og skjaldarmerki
breytaÞjóðfáni Belgíu samanstendur af þremur lóðréttum röndum: Svart, gult og rautt. Þegar Brabant lýsti yfir sjálfstæði 1789 var þetta fáninn sem tekinn var upp, nema hvað rendurnar voru láréttar. Lýðveldi þetta var brotið á bak aftur. En 1830 var konungsríkið Belgía stofnað. Fáninn var tekinn í notkun aftur 23. janúar 1831, en rendurnar látnar vera lóðréttar. Til hliðsjónar var franski fáninn hafður, en hann samanstendur einnig af þremur lóðréttum röndum. Litirnir hafa hins vegar ekkert með þýska fánann að gera. Það er algjör tilviljun að fánarnir eru nauðalíkir. Belgíska skjaldarmerkið er til í tvennu formi, þ.e. eitt stórt og eitt minna. Bæði sýna þau gullna ljón héraðsins Brabant, en það var aðalsmerki hertoganna af Brabant fyrr á öldum. Merkið var tekið upp í núverandi formi 17. mars 1817.
Her
breytaBelgía er með her sem skiptist í fjóra hluta: Landher, sjóher, lofther og sjúkraher. Stærstur þessara herja er landherinn með tæpa 25 þús hermenn. Loftherinn ræður yfir 72 flugvélum og 31 þyrlu. Sjóherinn lýtur sameiginlegri stjórn Benelúxlanda. Herskylda var afnumin í landinu 2006.
Stjórnsýsluumdæmi
breytaBelgíu er skipt upp í tvö landfræðileg svæði: Vallóníu (frönskumælandi) í suðri og Flæmingjalandi eða Flandri (hollenskumælandi) í norðri. Hvort svæði um sig er skipt upp í fimm héruð eða fylki.
Flæmsku héruðin:
Hérað | Hollenskt heiti | Franskt heiti | Stærð í km2 | Íbúar | Höfuðborg |
---|---|---|---|---|---|
Antwerpen | Antwerpen | Anvers | 2.867 | 1,7 milljónir | Antwerpen |
Limburg | Limburg | Limbourg | 2.422 | 826 þús | Hasselt |
Austur-Flæmingjaland | Oost-Vlaanderen | Flandre-Orientale | 2.982 | 1,4 milljónir | Gent |
Flæmska Brabant | Vlaams-Brabant | Brabant flamand | 2.106 | 1 milljón | Leuven |
Vestur-Flæmingjaland | West-Vlaanderen | Flandre-Occidentale | 3.125 | 1,1 milljón | Brugge |
Vallónsku héruðin:
Hérað | Franskt heiti | Hollenskt heiti | Stærð í km2 | Íbúar | Höfuðborg |
---|---|---|---|---|---|
Hainaut | Hainaut | Henegouwen | 3.786 | 1,3 milljónir | Mons |
Liège | Liège | Luik | 3.862 | 1 milljón | Liège |
Lúxemborg | Luxembourg | Luxemburg | 4.443 | 264 þús | Arlon |
Namur | Namur | Namen | 3.666 | 472 þús | Namur |
Vallónska Brabant | Brabant wallon | Waals-Brabant | 1.093 | 373 þús | Wavre |
Það athugist að héraðið Lúxemborg er ekki það sama og furstadæmið Lúxemborg, sem er sjálfstætt ríki. Héraðið í kringum Brussel telst ekki til neins héraðs. Það er heldur ekki vallónskt eða flæmst, heldur myndar höfuðborgarsvæðið sér svæði.
Íbúar
breytaÍbúar í Belgíu eru 10,8 milljónir á 30 þús km2 svæði. Þéttleikinn í landinu er því 355 íbúar á km2. Venjulega hafa íbúarnir verið flokkaðir eftir tungumálum. Í Belgíu eru þrjú opinber tungumál: Hollenska, franska og þýska. Flæmingjar (hollenskumælandi) eru um 60% íbúanna. Vallónar og frönskumælandi íbúar eru um 40%. Lengst í austri er lítill minnihlutahópur við þýsku landamærin sem talar þýsku. Höfuðborgin Brussel er tvítyngd (franska og hollenska).
Trú
breytaUm 75% Belga eru kaþólskir. 1% tilheyra sameinuðu mótmælendakirkjunni. Um 4% tilheyra íslam. 20% eru ekki skráðir í trúflokka. Belgíska stjórnin viðurkennir eingöngu 6 trúflokka: Anglísku kirkjuna, íslam, gyðingdóm, kaþólsku kirkjuna, rétttrúnaðarkirkjuna, sameinuðu mótmælendakirkjuna og fríhugsuðir (þ.e. húmanistar). Gyðingar í Belgíu eru 20 þús talsins.
Menning
breytaMálaralist
breytaBelgísk málaralist er síst lakari en sú hollenska, sérstaklega 17. öldin. Meðal þekktustu málara þess tíma má nefna Adriaen Brouwer, Peter Paul Rubens, Anthonis van Dyck, Teniers feðgar og Cornelis de Vos.
Teiknimyndasögur
breytaTeiknimyndasögur frá Belgíu eru og hafa verið ákaflega vinsælar. Víða í landinu sjást þriggja mynda teiknimyndir (strips), í verslunum, í bókabúðum og á göngugötum. Margir belgískir teiknimyndahöfundar hafa náð heimsfrægð. Listinn hér að neðan er ekki tæmandi:
- Jean Graton bjó til Michel Vaillant
- Morris bjó til Lukku Láka
- Hergé bjó til Ævintýri Tinna
- Peyo bjó til Strumpana
- André Franquin bjó til Sval og Val, Viggó viðutan
- Jacques Martin bjó til sögurnar um Alex
Í Belgíu er hægt að stunda nám í teiknimyndalistinni í listaháskólum.
Matargerð
breytaBelgísk matargerð er ekki einsleit, enda landið klofið í tvo menningarheima. Þekktasta matarafurð landsins er án efa franskar kartöflur, en það er misskilningur margra að þær séu ættaðar frá Frakklandi. Víða í Belgíu eru lítil veitingahús á hjólum (Friture á frönsku) sem selja franskar og aðrar djúpsteiktar vörur. Venjan er að ef borða skuli franskar heima fyrir, þá eru þær keyptar úti og teknar heitar heim. Belgískur bjór er víða þekktur, en landið framleiðir um 500 tegundir. Af þekktum ostum má nefna Limburger og Passendaele, sem gjarnan eru borðaðir sem eftirréttur. Belgískt konfekt er heimsþekkt. Það er selt í hundruðum tegunda og njóta mikilla vinsælda.
Íþróttir
breytaÍ Antwerpen voru sumarólympíuleikarnir haldnir 1920, þeir fyrstu eftir heimstyrjöldina fyrri. Af þekktum belgískum íþróttamönnum má nefna tenniskonurnar Kim Clijsters og Justine Henin (báðar nr. 1 á heimslistanum á sínum tíma), markmanninn í knattspyrnu Jean-Marie Pfaff og hjólreiðamanninn Eddy Merckx, sem margir telja besta hjólreiðakappa allra tíma. Í Spa-Francorchamps er keppt í Formúlu 1.
Helgidagar
breytaDags. | Helgidagur | Ath. |
---|---|---|
1. janúar | Nýársdagur | |
Breytilegt að vori | Páskar | Sunnudagur og mánudagur |
1. maí | Verkalýðsdagurinn | Fête du travail á frönsku |
Breytilegt | Uppstigningardagur | |
Breytilegt | Hvítasunna | Sunnudagur og mánudagur |
21. júlí | Þjóðhátíðardagur | Vígsludagur fyrsta konungs landsins, Leópolds I |
15. ágúst | Himnaför Maríu | Mæðradagur í Antwerpen |
1. nóvember | Allraheilagradagur | |
Vopnahlésdagur | Vopnahlé eftir heimstyrjldina fyrri | |
25. og 26. desember | Jól |
Auk þessara helgidaga eru nokkrir aðrir sem aðeins eru haldnir í einu menningarsvæði. Þeirra á meðal eru:
Dags. | Helgidagur | Ath. |
---|---|---|
11. júlí | Dagur flæmskrar menningar | |
27. september | Dagur franskrar menningar | |
15. nóvember | Dagur þýskrar menningar | |
15. nóvember | Konungsdagurinn | Til heiðurs konungsfjölskyldunni |