Mons (hollenska: Bergen) er höfuðborgin í héraðinu Hainaut í Belgíu. Íbúar eru 93 þús og eru frönskumælandi (2015). Í Mons eru aðalstöðvar herja NATO.

Skjaldarmerki Fáni
Upplýsingar
Hérað: Hainaut
Flatarmál: 146,56 km²
Mannfjöldi: 92.523 (1. janúar 2015)
Þéttleiki byggðar: 631/km²
Vefsíða: [1]
Lega í Belgíu

Lega og lýsing

breyta

Mons liggur milli tveggja lítilla hæðardraga sunnarlega í Belgíu, aðeins 10 km fyrir norðan frönsku landamærin. Áin Haine rennur við norðurjaðar borgarinnar. Næstu stærri borgir eru Tournai til vesturs (45 km), Charleroi til austurs (50 km), Brussel til norðausturs (65 km) og Cambrai í Frakklandi (70 km).

Orðsifjar

breyta

Mons hét áður fyrr Castri Locus, sem merkir vinakastali. Á miðöldum var hins vegar talað um Mont du lieu du château, þ.e. fjallið við vinakastalann. Yfirleitt sögðu menn þó aðeins Mont, sem merkir fjall. Síðar breyttist rithátturinn í Mons við áhrif frá latínu. Á hollensku hefur heitið einfaldlega verið þýtt í Bergen, sem merkir fjöll (fleirtala).

Saga Mons

breyta

Upphaf

breyta

Mons varð til á tímum Caesars, en hann lét reisa þar virki og herstöð gegn göllum. Virkið stóð þar sem klukkuturninn er nú. Eftir brotthvarf Rómverja lá staðurinn í eyði, nema hvað klaustur var reist þar snemma á miðöldum. Í kringum það myndaðist byggðin. Á 12. öld lét Baldvin greifi af Hainaut reisa nýtt virki og varnargarð í kringum bæinn. 1295 tók Mons við sem höfuðstaður Hainaut greifadæmisins í stað Valenciennes. Íbúar voru þá orðnir 8.900 talsins.

Stríð

breyta
 
Loðvík XIV Frakklandskonungur situr um Mons 1691

Borgin erfðist til Búrgúnds og síðar til austurrísku og spænsku línu Habsborgar. 1515 lét Karl V keisari greifann af Hainaut sverja sér trúnaðareið í borginni Mons. Í sjálfstæðisstríði Niðurlendinga seinna á öldinni var borgin á valdi Spánverja. 1572 tókst Lúðvík af Nassau að hertaka borgina og hrekja Spánverja burt. Tilgangurinn var að greiða leið Gaspard de Coligny frá Frakklandi til Niðurlanda. Sú von brást hins vegar er Coligny var drepinn í Bartólómeusarvígunum. Því náðu Spánverjar að hertaka borgina á ný í september á sama ári. Frá 1580 - 1584 var Mons höfuðborg spænsku Niðurlanda. Meðan 9 ára stríðið geysaði í Evrópu lagði Loðvík XIV Frakklandskonungur umsátur um Mons. Hún féll 8. apríl 1691 eftir níu mánuði. Borgin var á valdi Frakka allt til 1697, en við friðarsamninga stríðsins í Rijswijk skiluðu þeir Spánverjum borgina. Í spænska erfðastríðinu hertóku Hollendinga borgina eftir ósigur Frakka í orrustunni við Malplaquet (hjá Lille) 11. september 1709. Í friðarsamningum stríðsins í Utrecht 1713 fengu Hollendingar yfirráð yfir Mons, sem nokkurs konar útborg fyrir ágangi Frakka. Að öðru leyti var Belgía undir yfirráðum Austurríkis.

Franski tíminn

breyta

10. júlí 1746 hertóku Frakkar borgina enn á ný, en viðvera þeirra stóð stutt yfir. Þeir voru aftur komnir til Niðurlanda 1792. Franskur byltingarher og herir Austurríkis börðust í orrustunni við Jemappes (sem í dag er borgarhluti Mons), en þar voru Austurríkismenn gerðir afturreka og hurfu úr landi. Mons var innlimuð Frakklandi og varð að franskri borg. Eftir fyrra fall Napoleons 1814 yfirgáfu Frakkar borgina á ný og var hún þá tekinn af Vilhjálmi af Hollandi, sem varð fyrsti konungur Niðurlanda ári síðar. Í belgísku uppreisninni 1839 slitu Belgar sig lausa frá Hollandi. Mons tók þátt í uppreisninni og varð í kjölfarið að belgískri borg. Nýja stjórnin í Brussel ákvað að rífa niður öll varnarvirki í borgunum Mons, Charleroi og Namur. Þeirri vinnu var ekki lokið fyrr en á sjöunda áratug 19. aldar. Þetta skapaði mikið byggingapláss fyrir iðnað og íbúðahverfi. Mikill þungaiðnaður var starfræktur í Mons í iðnbyltingunni og var hann einn mesti efnahagsbakhjarl Vallóníu.

Nýrri tímar

breyta
 
Málverk af allsherjarverkfallinu 1893

Í apríl 1893 hófst allsherjarverkfall í Belgíu, eitt það fyrsta í sögunni í iðnríki, eftir að stjórnin hafnaði almennum kosningarétti. Miklir bardagar blossuðu upp, sérstaklega í og við Mons. Margir létust í átökum við hermenn og lögreglu og hundruðir særðust áður en ástandið komst í eðlilegt horf aftur. Í fyrri heimstyrjöldinni réðust Þjóðverjar inn í Belgíu. 23. og 24. ágúst 1914 átti sér stað mikil orrusta í Mons. Breskur her var staðsettur þar og tók hann á móti þýska hernum. Þetta var fyrsta orrusta Breta í styrjöldinni. Orrustan stóð yfir í tvo daga og hörfuðu Bretar loks undan ofureflinu. Þjóðverjar héldu Mons allt til 1918, en þá frelsað kanadískur her borgina. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku Þjóðverjar borgina á nýjan leik. Hún varð fyrir talsverðum loftárásum bandamanna sökum iðnaðarins þar. Í septemberlok frelsuðu Bandaríkjamenn undir stjórn Pattons borgina, eftir nokkra bardaga við hörfandi Þjóðverja. Eftir stríð minnkaði þungaiðnaðurinn talsvert. 1967 flutti herdeild NATO til Mons, en hafði áður verið í Fontainebleau í Frakklandi. Ástæða þess að herstöðin flutti til Mons var sú að glæða átti atvinnulíf borgarinnar. Mons hefur verið valin sem menningarhöfuðborg Evrópu fyrir árið 2015, ásamt tékknesku borginni Pilsen.

Viðburðir

breyta
 
Gullvagninn að keyra með helgriskrínið

Ducasse de Mons eða bara Doudou er árleg hátíð sem haldin er heila viku eftir Hvítasunnu í borginni. Hún samanstendur af nokkrum hlutum. Í fyrsta lagi er helgiskrín heilagrar Valþrúðar fengið í hendur borgarstjóra. Daginn eftir er haldið í skrúðgöngu. Helgiskrínið er þá á gullvagni og er gengið til heiðurs heilagrar þrenningar. Göngufólk er prúðbúið skrúðklæðum. Hápunktur hátíðarinnar er helgileikur sem kallast Lumeçon. Leikurinn fer fram utandyra og sýna leikarar, sem allir eru áhugamenn, bardaga heilags Georgs við drekann. Leikur þessi á uppruna sinn á 14. öld eftir að borgin lá í lamasessi vegna svarta dauða. Leikþátturinn var settur á lista munnlegs og óáþreifanlegs menningararfs mannkyns árið 2005, en það er UNESCO sem gefur út þann lista.

Í ágúst er haldin stríðsminningahátíðin Tanks in town til að halda uppá frelsun borgarinnar 1944. Skriðdrekar frá heimstyrjöldinni keyra síðari inn í borgina og er það stærsta samansafn heims með skriðdreka frá stríðinu.

Vinabæir

breyta

Mons viðheldur vinabæjasambandi við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Valþrúðarkirkjan er bæði ókláruð og turnlaus í dag
  • Klukkuturninn (Beffroi) var reistur 1661-72 í barokkstíl. Hann tengist ekki neinni kirkju, heldur ráðhúsinu. Turninn er einkennisbygging borgarinnar og var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 2000.
  • Valþrúðarkirkjan (Collégial Sainte-Waudru) er aðalkirkjan í borginni og er helguð heilagri Valþrúði. Byrjað var að reisa kirkjuna 1450 og átti hún að hljóta hæsta kirkjuturn heims er væri 190 metra hár. Öllum framkvæmdum var hins vegar hætt 1691 er Loðvík XIV Frakklandskonungur hertók borgina. Kirkjan er því bæði ókláruð og turnlaus í dag. Nokkrar gersemar eru í kirkjunni. Má þar helst nefna helgiskrín með líkamsleifum heilagrar Valþrúðar og gullvagninn sem ber skrínið á helgigöngunni Doudou ár hvert.
  • Gamla ráðhúsið stendur við aðaltorgið og var reist 1440-43. Fyrir framan ráðhúsið er stytta af apa og segir þjóðsagan að sá sem strýkur höfuð hans mun hljóta auðnu.

Gallerí

breyta

Heimildir

breyta