Viggó viðutan
Viggó viðutan (franska: Gaston Lagaffe) er belgísk persóna í samnefndum teiknimyndasögum eftir André Franquin, sem hann þróaði í samvinnu við Jidéhem. Ævintýri Viggós birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Sval en voru jafnóðum gefnar út á bókaformi.
Í sögunum vinnur Viggó á blaði ásamt Val úr sögunum um Sval og Val. Hann veldur þar sífelldum vandræðum sem oft og tíðum eru tengd steindaldarhörpunni hans svokölluðu.
Franquin hafði gert það skýrt fyrir dauða sinn að hann kærði sig ekki um að aðrir teiknarar myndu spreyta sig á Viggó að honum látnum. Útgáfufyrirtækið Dupuis taldi að listamaðurinn hefði afsalað sér höfundarréttinum á persónunni og eftir miklar þrætur við afkomendur hans náðust samningar um að endurvekja Viggó. Fyrsta nýja Viggóbókin kom út árið 2023 og var samin og teiknum af kanadíska teiknaranum Delaf.
Saga og persónueinkenni
breytaViggó birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval þann 28. febrúar árið 1957 sem þögull og luralegur ungur maður með þverslaufu. Hann var í fyrstu hugsaður sem uppfyllingarefni, sem nota mætti á auðum flötum í blaðinu. Umhverfis þessa skringilegu persónu voru teiknuð fjölmörg blá fótspor, en slóð slíkra fótspora hafði birst í blaðinu um alllangt skeið til að skapa eftirvæntingu lesenda. Ungi maðurinn, sem síðar var kynntur sem Viggó eða Gaston, sagðist hafa verið ráðinn í vinnu á ritstjórn blaðsins en gat þó hvorki gert grein fyrir því hvaða hlutverki hann ætti að gegna eða hver bæri ábyrgð á ráðningunni.
Með tímanum breyttust skrítlurnar með Viggó úr stökum myndum í stuttar myndasögur upp á hálfa eða heila blaðsíðu. Yfirleitt gerast ævintýri hans á ritstjórnarskrifstofunni, þar sem Viggó hefur það verkefni að sjá um póstinn en ver þess í stað öllum stundum í svefn, draumóra, skringileg uppátæki eða uppfinningar sem oftast enda með ósköpum. Stundum fer sögusvið ævintýranna út af skrifstofunni, en oftast koma þó einhverjir vinnufélaganna einnig við sögu.
Viggó er óvenjuleg myndasöguhetja og mætti raunar tala um andhetju. Þrátt fyrir að vera afleitur starfskraftur sem getur stórskaðað fyrirtækið, sett samstarfsfólk í bráða hættu og spillt fyrir gerð mikilvægra viðskiptasamninga, er honum aldrei sagt upp störfum. Líkleg skýring er sú að Viggó hefur gullhjarta og er sérstakur dýravinur, þótt gæludýrahald hans valdi stundum vandræðum á vinnustaðnum.
Öfugt við ýmsar aðrar myndasöguhetjur Svals-tímaritsins, var Viggó hugsaður fyrir eldri lesendur. Til marks um það reykti hann sígarettur mestalla tíð, auk þess sem hann sést stundum neyta áfengis.
Sögurnar um Viggó viðutan hafa stundum samfélagslegan undirtón. Þar eru anarkísk sjónarmið áberandi með andúð á yfirvaldi og smáborgaralegum viðhorfum. Umhverfismál ber oft á góma sem og andúð á hermennsku. Franquin heimilaði jafnframt að Viggó væri notaður til að vekja athygli á mannréttindamálum á vegum Amnesty International.
Viggó viðutan brá fyrir í nokkrum bókanna um Sval og Val á meðan Franquin sá um ritun þeirra. Síðustu Viggó-sögurnar birtust í Svals-tímaritinu árið 1996, ári fyrir dauða Franquins, en þær voru þó afar stopular eftir að komið var fram á níunda áratuginn.
Aukapersónur
breyta- Valur er næsti yfirmaður Viggós, skapstyggur og alvörugefinn. Hann verður einatt fyrir slysni fórnarlamb uppátækja Viggós. Persóna Vals í Viggó-sögunum er verulega frábrugðin því sem gerist í Svals & Vals-sögunum, þar sem hann er hvatvís og léttúðugur. Eftir að Franquin hætti ritun Svals & Vals-sagnaflokksins hvarf Valur mjög fljótlega úr sögunum.
- Eyjólfur (fr. Léon Prunelle) er skapstyggur ritstjórnarfulltrúi, sem tók við yfirmannshlutverkinu af Val. Hann er ötull pípureykingarmaður, skeggjaður og með gleraugu. Eitt einkenni Eyjólfs er að hann skiptir litum þegar hann snöggreiðist.
- Snjólfur (fr. Yves Lebrac) er glaðsinna teiknari á ritstjórninni. Honum kemur betur saman við Viggó en flestum öðrum vinnufélaganna, en verður þó stundum fyrir barðinu á uppátækjum hans og gæludýrum. Snjólfur daðrar í sífellu við eina af skrifstofustúlkunum í sögunni.
- Herra Gvendur (fr. Joseph Boulier) er rúðustrikaður endurskoðandi hjá útgáfufyrirtækinu sem leitar sparnaðarleiða og reynir árangurslaust að sýna fram á að Viggó sé óþarfur starfskraftur. Í Viggó hinum ósigrandi, þriðju bókinni sem út kom á íslensku, er herra Gvendur kallaður Pétur forstjóri.
- Júlli í Skarnabæ (fr. Jules-de-chez-Smith-en-face) er besti vinur Viggós. Hann starfar í fyrirtæki andspænis ritstjórnarskrifstofunni og er sami ónytjungur til vinnu og félagi hans.
- Berti (fr. Bertrand Labévue) er vinur og jafnframt frændi Viggós sem kemur við sögu í mörgum uppátækjum hans. Hann er þó rólegri en þeir Viggó og Júlli og á stundum við þunglyndi að stríða.
- Njörður (fr. Joseph Longtarin) er seinheppinn lögregluþjónn sem reynir í sífellu að hanka Viggó og bílskrjóð hans fyrir hvers kyns umferðarlagabrot. Þrátt fyrir stöðu sína, virðist furðustór hluti vinnutíma hans fara í stöðumælavörslu.
- Ungfrú Jóka (fr. Mademoiselle Jeanne) er samstarfskona og kærasta Viggós. Öfugt við aðra starfsmenn ritstjórnarskrifstofunnar er hún fullkomlega gagnrýnislaus á Viggó, álítur hann snilling og kemur honum til varnar ef þurfa þykir. Ekki er auðvelt að átta sig á eðli sambands þeirra, þar sem Viggó virðist stundum ekki átta sig á aðdáun ungfrú Jóku, en sýnir henni talsverðan áhuga á öðrum tímum.
- Herra Seðlan (fr. Aimé De Mesmaeker) er vellríkur forstjóri sem freistar þess ítrekað að skrifa undir viðskiptasamning við þá Val og Eyjólf, en undirritunin fer ætíð út um þúfur vegna uppátækja Viggós. Herra Seðlan er afar skapstyggur og fyrirlítur Viggó og félaga hans. Það var teiknarinn Jidéhem sem skapaði persónuna og hafði föður sinn, sem starfaði sem sölumaður, að fyrirmynd.
Titlar
breytaBókaútgáfan Iðunn gaf út 12 bækur um Viggó á árunum 1978 til 1988, númeraðar 1 til 12. Froskur útgáfa hóf svo að gefa Viggó út árið 2015, með sömu röð á bókunum og 40 ára afmælisútgáfa Dupuis og Marsu útgefendanna.
Bókaútgáfan Iðunn
breyta- Viggó hinn óviðjafnanlegi (Le Géant de la gaffe 1972) [ísl. útg. 1978, bók 1]
- Hrakfarir og heimskupör (Gaffes, bévues et boulettes 1973) [ísl. útg. 1979, bók 2]
- Viggó hinn ósigrandi (Le Gang des gaffeurs 1974) [ísl. útg. 1979, bók 3]
- Leikið lausum hala [ísl. útg. 1980, bók 4]
- Viggó - vikadrengur hjá Val (Un gaffeur sachant gaffer 1969) [ísl. útg. 1980, bók 5]
- Viggó á ferð og flugi [ísl. útg. 1982, bók 6]
- Viggó bregður á leik (Des gaffes et des dégâts 1968) [ísl. útg. 1982, bók 7]
- Með kjafti og klóm (Le Cas Lagaffe 1971) [ísl. útg. 1983, bók 8]
- Mallað og brallað (Lagaffe nous gâte 1970) [ísl. útg. 1983, bók 9]
- Glennur og glappaskot (Gaffes et gadgets 1985) [ísl. útg. 1986, bók 10]
- Skyssur og skammastrik (Le Lourd Passé de Lagaffe 1986) [ísl. útg. 1987, bók 11]
- Kúnstir og klækjabrögð (Gare aux gaffes du gars gonflé 1973) [ísl. útg. 1988, bók 12]
Froskur útgáfa
breyta- Gengið af göflunum (Gala de gaffes) [ísl. útg. 2015 og 2016, bók 4]
- Braukað og bramlað (Les gaffes d'un gars gonflé) [ísl. útg. 2016, bók 3]
- Vandræði og veisluspjöll (Le bureau des gaffes en gros) [ísl. útg. 2017, bók 5]
- Dútl og draumórar (Gaffes à gogo) [ísl. útg. 2018, bók 2]
- Mættur til leiks (Les archives de la gaffe) [ísl. útg. 2019, bók 1]
- Grikkir og glettur (Gare aux gaffes) [ísl. útg. 2021, bók 6]
- Hugdettur og handaskol (Des gaffes et des dégâts) [ísl. útg. 2022, bók 7]
- Meiningar og misskilningur (Rafales des gaffes) [ísl. útg. 2023, bók 8]
- Geggjað og glatað (Le retour de Lagaffe) [ísl. útg. 2024, bók 20]
Tengt efni
breytaTenglar
breyta- Vefsíða Viggó viðutan Geymt 3 ágúst 2004 í Wayback Machine