Flæmska Brabant er hollenskumælandi hérað í Belgíu, það næstminnsta í landinu (aðeins Vallónska Brabant er minna). Íbúar eru um milljón. Höfuðborgin heitir Leuven.

Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Leuven
Flatarmál: 2.106 km²
Mannfjöldi: 1.060.232 (1. janúar 2008)
Þéttleiki byggðar: 503/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]
Lega

Lega og lýsing

breyta

Flæmska Brabant er nánast miðsvæðis í Belgíu og er eina héraðið, auk Vallónska Brabant, sem ekki nær að landamærum ríkisins, heldur er umlukt öðrum héruðum. Fyrir norðan eru flæmsku héruðin Austur-Flæmingjaland, Antwerpen og Limburg. Fyrir sunnan eru vallónsku héruðin Hainaut, Vallónska Brabant og Liège. Auk þess er höfuðborgarsvæðið eins og landlukt svæði mitt í héraðinu.

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki héraðsins sýnir gyllt ljón með rauða tungu og rauðar klær á svörtum grunni. Ljónið hefur lengi verið aðalsmerki greifanna af Brabant, allar götur síðan á 11. öld. Kórónan fyrir ofan ljónið er hertogakórónan. Skjaldarberarnir eru tvö gyllt ljón, sitt til hvorrar handar. Þau eru viðbót frá 1920. Fáninn er einfaldlega megintákn skjaldarmerkisins.

Orðsifjar

breyta

Brabant er dregið af orðunum bra, sem upphaflega merkir auður (sbr. brach á þýsku) og bant, sem merkir fylki (eins og band eða samband). Fyrri hluti heitisins er til aðgreiningar annarra tveggja héraða sem heita Brabant. Hin eru Norður-Brabant í Hollandi og Vallónska Brabant í Belgíu.

Söguágrip

breyta

Brabant var lengi vel greifadæmi í þýska ríkinu og þá miklu stærra en það er nú. Stærsti hluti þess var þá innan núverandi landamæra Belgíu og náði nær alveg suður að frönsku landamærunum. Árið 1430 varð Brabant eign Búrgundar og 1477 Habsborgar. Brabant var miðstöð spænsku Niðurlanda en borgin Brussel var í miðju fylkinu. Hins vegar gekk Brabant til liðs við sameinuð héröð Niðurlanda í sjálfstæðisstríðinu gegn Spánverjum. Í kjölfarið voru margar orrustur háðar í fylkinu. Þegar friðarsamningarnir voru gerðir um endalok sjálfstæðisstríðs Hollands 1648 var Brabant skipt í tvennt. Norðurhlutinn (mótmælendur) varð hluti af sjálfstæðu Hollandi, en suðurhlutinn (bæði mótmælendur og kaþólikkar) var áfram í spænskri Belgíu. Frakkar hertóku Brabant í lok 18. aldar en 1797 var Brabant að öllu leyti innlimað í Frakkland. Eftir burtför Frakka 1813 voru Niðurlönd sameinuð, en Brabant skipt í þrjú héruð: Norður-Brabant, Antwerpen og Suður-Brabant. Árið 1830 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Antwerpen og Suður-Brabant (með Brussel) urðu belgísk héruð, en Norður-Brabant varð hollenskt hérað. Árið 1995 var Belgíu skipt upp í tvö menningarsvæði, hollenskumælandi og frönskumælandi (og reyndar lítið þýskt menningarsvæði að auki). Samfara því klofnaði Suður-Brabant í tvö héruð. Suðurhlutinn var að Vallónska Brabant (frönskumælandi), en norðurhlutinn að Flæmska Brabant (hollenskumælandi).

Borgir

breyta

Flæmska Brabant er skipt upp í tvær sýslur, en í þeim eru 65 sveitarfélög og borgir. Stærstu borgir héraðsins:

Röð Bær Íbúar Ath.
1 Leuven 96 þúsund Höfuðborg héraðsins
2 Dilbeek 40 þúsund
3 Halle 36 þúsund
4 Grimbergen 35 þúsund
5 Tienen 32 þúsund
6 Zaventem 31 þúsund
7 Sint-Pieters-Leeuw 31 þúsund
8 Asse 30 þúsund
9 Aarschot 28 þúsund

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta