Liège (hollenska Luik, vallónska Lidje, þýska Lüttich, latína Leodium, limburgíska Luuk, lúxemborgíska Léck) er höfuðborg samnefnds héraðs í Belgíu. Íbúar eru 196 þúsund (1. janúar 2013 og eru frönskumælandi. Liège hefur löngum verið menningarleg miðstöð Vallóníu (franska menningarsvæðisins) í Belgíu.

Skjaldarmerki Lega
Upplýsingar
Hérað: Liege
Flatarmál: 69,39 km²
Mannfjöldi: 195.931 (1. janúar 2013)
Þéttleiki byggðar: 2.824/km²
Vefsíða: [1]
Borgarmynd með Maas fyrir miðju
Miðborg Liege með Maas

Lega og lýsing

breyta

Liège liggur við norðurjaðar Ardennafjalla, við samflæði ánna Ourthe og Maas. Reyndar er Liège stærsta borgin sem við Maas liggur. Næstu stærri borgir eru Maastricht í Hollandi til norðurs (30 km), Aachen í Þýskalandi til norðausturs (50 km) og Namur til suðvesturs (60 km). Til Brussel eru 95 km. Landamærin til Lúxemborgar eru 40 km til suðurs. Íbúar í Liège eru rétt tæplega 200 þús, en margir nágrannabæir umkringja borgina. Þar búa um 600 þúsund manns.

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir gyllta brunnsúlu á rauðum grunni. Til sitthvorrar hliðar eru gylltir bókstafir: L til vinstri og G til hægri. Brunnsúlan er sú sem stendur á aðalmarkaðstorgi borgarinnar (Place du Marché), þ.e. efsti hluti hennar. Áður var heiti borgarinnar ritað í skjaldarmerkinu með stórum stöfum. LIE vinstra megin við súluna og GE hægra megin. Í dag standa aðeins bókstafirnir L og G eftir.

Orðsifjar

breyta

Upphaflega hét bærinn Leodicum eða Vicus Leodicus á tímum Rómverja. Uppruni heitisins kemur úr germönsku, ekki rómönsku. Það er dregið af gamla germanska orðinu liudik eða liudiz, sem merkir fólk, sbr. Leute á þýsku, leod á fornensku og lýður á íslensku. Með áhrifum úr rómönsku breyttist liudiz í Liège með tímanum (framburðurinn er líes). Hollendingar segja hins vegar Luik og Þjóðverjar Lüttich. Fram til 17. september 1946 var ritháttur borgarinnar Liége, en var þá breytt í Liège (sjá áherslukommuna).

Saga Liege

breyta

Upphaf

breyta

Einhver bær mun hafa verið á svæðinu þegar á tímum Rómverja. Þó kemur Liège ekki við skjöl fyrr en árið 558. Héraðið var kristnað af heilögum Lamberti snemma á 8. öld, en hann beið píslarvættisdauða í Liège og var tekinn í helgra manna tölu. Árið 985 varð Liège að furstabiskupadæmi, en biskupinn í bænum hlaut veraldleg yfirráð yfir stóru héraði í kring. Yfirráð biskupanna varaði allt til 1794. Langflestir þeirra komu úr þýska ríkinu. Biskupsdæmið laut þýska keisaranum en var að mestu leyti sjálfstætt. Fyrsti biskupinn hét Notger og breytti hann borginni Liège í mikið mennta- og menningasetur.

Lýðræði og stríð

breyta
 
Liege 1650

Borgarbúar voru tíðast óánægðir með fyrirkomulag furstabiskupanna, enda drógu biskuparnir frekar taum kaþólsku kirkjunnar en þarfir borgarbúa. 1345 hófst mikil uppreisn í borginni gegn Engelberti 3. biskupi. Í bardaga utan borgarhliðanna var biskup drepinn og her hans tvístrað. Í kjölfarið var veraldlega valdið fært yfir til iðngildanna í borginni, sem voru 32 talsins. Allir meðlimir hinna ýmsu gilda máttu taka þátt í að stjórna borginni og hvert gildi átti sér jafngilt atkvæði. Biskuparnir náðu þó með tímanum að auka völd sín á ný. 1465 dró enn til tíðinda. Þá hafði Filippus hinn góði, hertogi af Búrgúnd, ásælst yfirráðin í Liège. Borgarbúar og nærsveitarmenn söfnuðu saman herliði sem barðist við atvinnuher frá Búrgúnd í orrustunni við Montenaken. Þar gjörsigraði herinn frá Búrgúnd undir stjórn Karls hins áræðna. Í friðarsamningum í Sint-Truiden voru yfirráð Búrgúnds staðfest. Þetta lægði þó ekki öldurnar. Strax á næsta ári gerði bærinn Dinant uppreisn. Karl hinn áræðni birtist þá aftur með her, brenndi bæinn og kastaði 800 íbúum í ána Maas. Enn ári síðar, 1467, lést Filippus hertogi. Gerðu íbúar í Liège þá enn uppreisn. Í orrustunni við Brustem sigraði Karl hin áræðni enn á ný. Þá gekk hann á móti borginni og hertók hana 12. nóvember. Furstabiskupadæmið Liège var gert að verndarsvæði Búrgúndar. Þrátt fyrir allt þetta söfnuðust borgarbúar enn saman næsta ár og mynduðu nýjan her. Þeir hertóku Liège, ráku furstabiskupinn á brott, sem og alla aðila frá Búrgúnd. Í þokkabót réðist fólksherinn frá Liège á borgina Tongeren og drap alla hermenn frá Búrgúnd. Þá var Karli hinum áræðna nóg boðið. Hann fór með stóran her til Liege og kom í héraðið 22. október 1468 í fylgd með Loðvík XI Frakklandskonungi. Á leiðinni brenndu þeir nokkra bæi, þar á meðal Tongeren og Lantin. Þá settust þeir um Liège. Eftir nokkra bardaga voru flestir í fólkshernum drepnir og Liège féll. Karl batt 600 íbúa borgarinnar saman og lét kasta þeim lifandi í Maas. Borgina brenndi hann til grunna og er sagt að hún hafi brunnið sleitulaust í 7 vikur. 1477 lést Karl í orrustunni við Nancy. Dóttir hans, María, gaf Liege upp á bátinn og eignaðist Habsborgarættin þá borgina. 1555 erfði spænska Habsborgarlínan borgina. Furstabiskuparnir voru þó nær einráða í borginni og héraðinu. Borgin kom lítið við sögu í sjálfstæðisstríði Niðurlanda. 1704 hertók hertoginn af Marlborough borgina í spænska erfðastríðinu en Englendingar hurfu þó fljótt aftur.

Sjálfstæði og Frakkar

breyta
 
Myndin sem Ingres málaði af Napoleon í Liege 1803

Upp úr miðri 18. öld hlutu franskar byltingarhugmyndir mikinn hljómgrunn í Liège og undirbjuggu þannig jarðveginn fyrir nýja byltingu. Hún hófst 18. ágúst 1789, samtímis byltingunni í Frakklandi. Borgarbúar ráku af sér furstabiskupinn og borgin lýsir yfir sjálfstætt lýðveldi (République liégeoise). Lýðveldi þetta var þó skammvinnt, því 1791 hertóku Austurríkismenn héraðið og unnu að því að endurreisa fyrra valdakerfi furstabiskupanna. Franskur byltingarher sigraði Habsborgara hins vegar í orrustunni við Jemappes 1792 og tóku Liège 28. nóvember. Íbúarnir tóku þeim með fögnuði, enda var þjóðfélaginu umbylt á öllum sviðum. En strax ári síðar voru Austurríkismenn aftur á ferð og sigruðu Frakka í orrustunni við Neerwinden. Habsborgarar settu umsvifalaust nýjan furstabiskup í embætti, Francois-Antoine-Marie de Méan. Hann reyndist síðasti furstabiskupinn í Liege. 1794 sigruðu Frakkar Austurríkismenn í nokkrum orrstum og ráku þá endanlega úr landi. Aftur umbyltu Frakkar borginni og héraðinu og innlimuðu það Frakklandi 1795. Þar með varð Liège að franskri borg og markar þetta jafnframt endalok furstabiskupadæmisins í Liège. Sáttmáli þess eðlis var undirritaður af Napoleon og Píus VII páfa 1801. 1803 sótti Napoleon sjálfur borgina heim.

Nýrri tímar

breyta
 
Belgískir hermenn á Lambertustorginu 1914

Frakkar yfirgáfu Liège 1814 eftir fyrri ósigur Napoleons. Ári síðar úrskurðaði Vínarfundurinn að borgin skyldi tilheyra konungsríki Niðurlanda, þ.e. sameiginlegt ríki Hollands og Belgíu. Það stóð eingöngu í níu ár, því 1839 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Þar með varð Liège belgísk borg. Í iðnvæðingu 19. aldarinnar varð Liège ein mesta stáliðnaðarborg Evrópu, með tilheyrandi velmegun fyrir suma og vinnuþrælkun og fátækt fyrir aðra. 1886 hófst mikið uppþot, ásamt verkföllum, í gervallri Vallóníu sem hófst í borginni Liège. Sendur varð sex þúsunda manna her til borgarinnar til að stilla til friðar og koma á reglu aftur. Í framhaldi var borgin vígvædd með röð af virkjum. Þau reyndust þýska innrásarhernum í heimstyrjöldinni fyrri mjög erfiðar er Þjóðverjar réðust inn í landið árið 1914. Þar að auki voru um 30 þúsund belgískir hermenn borginni til varnar. Þýski herinn kom til Liège 5. ágúst en náði ekki að hertaka borgina fyrr en 17. ágúst eftir mikla bardaga. Þessi töf olli því að bandamenn fengu rýmri tíma til að skipuleggja varnir í Frakklandi. Eftir stríð veittu Frakkar borginni heiðursmerkið Légion d'Honneur fyrir vasklega framgöngu í stríðinu. Í heimstyrjöldinni síðari tók það aðeins þrjá daga fyrir Þjóðverja að hertaka borgina. Borgarbúum tókst hins vegar að bjarga nær öllum gyðingum með því að fela þá í klaustrum. Bandamenn frelsuðu borgina í september 1944 en eftir það varð hún fyrir nokkrum loftárásum. Eftir stríð átti stál- og kolaiðnaðurinn erfitt uppdráttar. Þúsundir urðu atvinnulausar. Meðan verkföll dundu yfir 1960-61 fór múgur manna um götur borgarinnar, skemmdi hluti og hrúguðu upp varnarvirkjum. Heil járnbrautarstöð var eyðilögð í æðiskasti. Þegar belgíski herinn kom á vettvang 6. janúar 1961 tóku við bardagar við múginn og stóðu þeir í sjö tíma. 75 manns slösuðust. Fleiri voðaverk hafa verið unnin í borginni. 1991 var stjórnmálamaðurinn André Cools skotinn til bana fyrir framan heimahús vinkonu sinnar. 2011 gerði óður maður með byssur og handsprengjur árás á fólk við torgið Place Saint-Lambert í borginni. 6 biðu bana (þar á meðal hann sjálfur), 123 slösuðust.

Viðburðir

breyta
 
Skrúðganga til heiðurs Maríu mey 15. ágúst

Le Quinze Août er heiti á stærstu alþýðuhátíð í borginni og er haldin 15. ágúst ár hvert, eins og franska heitið segir til um. Hér er verið að heiðra Maríu mey með skrúðgöngu en einnig eru í gangi flóamarkaður, dansatriði, tónleikar og vinsælir leikir. Á hátíðinni er ferðamönnum boðið upp á peket (áfengi) í heimahúsum.

Les Ardentes er heiti á stórri rokkhátíð í borginni sem haldin hefur verið síðan 2006. Hún laðar að sér allt að 70 þúsund gesti víða að úr Evrópu. Hátíðin er haldin í júlí og stendur yfir í fjóra daga.

Borgin heldur árlega jazzhátíð í maí og kallast hún Jazz à Liège.

Hátíð heilags Nikulásar (Saint Nicholas) er haldin 6. desember af stúdentum háskólans. Þá ganga þeir um í ljótum og óþrifalegum hvítum sloppum og betla fyrir sjúss.

Í Liège er einn stærsti og elsti jólamarkaður í Belgíu.

Íþróttir

breyta

Helstu knattspyrnufélög borgarinnar eru tvö. Fyrst er Standard Liege (fullt heiti er Royal Standard Club de Liège) sem 10 sinnum hefur orðið belgískur meistari (síðast 2009), 6 sinnum bikarmeistari (síðast 2011) og komst árið 1982 í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa (tapaði þá fyrir FC Barcelona). Ásgeir Sigurvinsson lék með Standard Liege 1973-81 og skoraði 38 mörk. Hitt félag er RFC Liege, sem 5 sinnum hefur orðið belgískur meistari (síðast 1953) og einu sinni bikarmeistari (1990). Það var hjá þessu félagi sem Jean-Marc Bosman lék í þegar hann kærði félagið fyrir Evrópudómstólnum og í kjölfarið féll Bosman-dómurinn. Hann sagði til um að bannað væri knattspyrnufélögum að halda leikmönnum ef samningur þeirra er runninn út og einnig bannaði hann takmarkanir á útlendum leikmönnum. Félagið varð í kjölfarið gjaldþrota og sameinaðist öðru félagi. Það leikur í neðri deildum í dag.

Á vorin er haldin hjólreiðakeppnin Liège–Bastogne–Liège, en það er elsta klassíska reiðhjólakeppni í Evrópu (þ.e. dagskeppni).

Vinabæir

breyta

Liège viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Pálskirkjan
 
Brunnurinn á Place du Marché
  • Pálskirkjan er kaþólsk biskupakirkja í borginni. Byrjað var að reisa hana 1240 og var fyrsti hlutinn vígður 1289, en hann samanstóð af kór og þverskipi. Næsti hlutinn var reistur 13331390 og samanstóð af langskipinu, hliðarkapellum og turni. Á síðari tímum voru gerðar ýmsar breytingar. Lituðu gluggarnir eru frá 16. öld. 1804 eyðilagðist Lambertuskirkjan (gamla dómkirkja furstabiskupanna) og var Pálskirkjan þá upphafin til dómkirkju í staðinn. 1812 beiddist Napoleon þess að turninn yrði hækkaður og fékk kirkjan þá einnig nýtt strítuþak.
  • Biskupahöllin stendur við Lambertstorgið og var áður aðsetur furstabiskupanna í Liège. Hún var reist 1526 eftir að fyrri höll hafði eyðilagst í bruna við árásir Búrgúnds. Höllin var ekki tilbúin fyrr en við lok 16. aldar. Hún stóð þá gegnt Lambertuskirkjunni, sem var dómkirkja biskupanna, en kirkjan var eyðilögð af Frökkum í upphafi 19. aldar. Frakkar lögðu furstabiskupadæmið niður, þannig að í dag er byggingin notuð sem skrifstofur héraðsins Liege og sem dómsmálaráðuneyti. Opna svæðið að innan er alsett skrautlegum súlnagöngum.
  • Brunnurinn á aðalmarkaðstorginu (Place du Marché) er einkennistákn borgarinnar og kallast Perron. Hann var áður fyrr tákn réttlætisins meðan furstabiskuparnir réðu ríkjum.
  • Bartólómeusarkirkjan er söguleg kirkja í borginni. Hún var reist á 11. og 12. öld í ottónskum stíl (frá Saxlandi) en hefur oft verið endurbætt í gegnum tíðina. 1876 voru báðir turnarnir rifnir og endurgerðir. Í síðustu endurbótum frá 1999 til 2006 voru upphaflegu litirnir aftur settir á bygginguna en þeir gefa henni mjög sérkennilegt útlit, ásamt forna forminu.
  • Curtiussafnið er sögusafnið í borginni. Húsið sjálft var reist á tímabilinu 1597-1610 sem einkahús fyrir framkvæmdamanninn Jean Curtius. Það er gert úr rauðum tígulsteinum í stíl sem kallast Maas endurreisn (Meuse Renaissance). Safnið sjálft var opnað 2009 eftir miklar endurbætur á byggingunni og hýsir fjögur söfn: Fornleifar, vopn, nútímalistir og trúarlega listmuni frá svæðinu í kringum Maas. Þar er til dæmis málverk af Napoleon sem franski málarinn Ingres málaði í Liege 1803.

Gallerí

breyta

Heimildir

breyta