Albert 1. Belgíukonungur

Albert 1. (8. apríl 1875 – 17. febrúar 1934) var þriðji konungur Belgíu frá árinu 1909 til dauðadags. Þetta var viðburðaríkt tímabil í sögu Belgíu því í fyrri heimsstyrjöldinni (1914 – 1918) var mikill meirihluti landsins hernuminn af Þjóðverjum. Á tíma heimsstyrjaldarinnar var Albert nefndur „Dátakonungurinn“ („le Roi Soldat“) og Riddarakonungurinn („le Roi Chevalier“). Í valdatíð hans var Versalasamningurinn viðurkenndur, hið belgíska Kongó var endurmetið sem nýlenda belgíska konungsríkisins auk verndarsvæði Þjóðabandalagsins í Rúanda-Úrúndí, Belgía var endurreist úr rústum heimsstyrjaldarinnar og heimurinn upplifði fyrstu fimm ár kreppunnar miklu. Albert var alla tíð mikill fjallgöngugarpur en það kom honum að lokum í koll því hann lést í fjallgönguslysi í austurhluta Belgíu árið 1934. Við honum tók sonur hans, Leópold 3.

Skjaldarmerki Saxe-Coburg og Gotha-ætt Konungur Belgíu
Saxe-Coburg og Gotha-ætt
Albert 1. Belgíukonungur
Albert 1.
Ríkisár 23. desember 1909 – 17. febrúar 1934
SkírnarnafnAlbert Léopold Clément Marie Meinrad
Fæddur8. apríl 1875
 Brussel, Belgíu
Dáinn17. febrúar 1934
 Marche-les-Dames, Namur, Belgíu
GröfÉglise Notre-Dame de Laeken, Brussel
Konungsfjölskyldan
Faðir Filippus prins, greifi af Flanders
Móðir María prinsessa af Hohenzollern-Sigmaringen
DrottningElísabet af Bæjaralandi
Börn

Æviágrip

breyta

Albert varð erfingi belgísku krúnunnar árið 1905, eftir að frændi hans Leópold fursti (einkasonur Leópolds 2.) hafði látist árið 1869, bróðir Alberts, Baudouin fursti, árið 1891 og loks faðir Alberts, Filippus fursti árið 1905. Árið 1909 heimsótti Albert hið belgíska Kongó og bauð við misþyrmingunni og útþrælkun innfæddra sem frændi hans, Leópold konungur, stóð fyrir. Auk þess óttaðist hann að Bretar ásældust nýlenduna.[1]

Albert varð konungur Belga þann 23. desember 1909. Ólíkt fyrri konungum Belgíu sór hann konungseiðinn bæði á frönsku og hollensku.[2] Fyrstu árin hélt Albert sig við völd konungsins eins og stjórnarskráin tilgreindi þau og bar merki um meira frjálslyndi en fyrirrennarar hans.

Eftir því sem spennan jókst milli stórvelda Evrópu tóku flestu ríki að vígbúast og ganga í bandalög. Árið 1913 tilkynnti Albert Frökkum og Þjóðverjum að Belgía yrði hlutlaus og að Belgar myndu verja sig ef brotið yrði á hlutleysi þeirra. „Ég er af ætt Saxe-Coburg og einnig af Orléans-ættinni, en mun ekki gleyma því að ég er fyrst og fremst Belgi!“ sagði Albert við Vilhjálm 2. Þýskalandskeisara.

Í ágúst 1913 vann Albert með forsætisráðherranum Charles de Broqueville til þess að yfirstjórn belgíska hersins fengi sjálfstæði frá ríkisstjórninni og kom auk þess á almennri herskyldu [3] í samræmi við lög sem Leópold 1. Belgíukonungur hafði undirritað á dánarbeði sínu árið 1909. Herskyldan fór fram á að einn sonur úr hverri fjölskyndu gengi í herinn. Þessar ráðstafanir hækkuðu heraflann úr 180.000 mönnum upp í 340.000 menn. Sama ár fór fram almennt verkfall í því skyni að veittur yrði almennur kosningaréttur. Fjölmiðar sósíalista biðluðu til konungsins til að grípa inn í deiluna með því að leysa upp þing en hann neitaði.[4]

Sem leiðtogi hlutlauss ríkis miðlaði Albert stundum málum í alþjóðadeilum fyrir heimsstyrjöldina, til dæmis á milli Ítalíu og Úrúgvæ og Þýskalands og Haítí[5].

Fyrri heimsstyrjöldin

breyta
 
Albert konungur á vígvellinum.

Árið 1914 braust fyrri heimsstyrjöldin út. Þann 31. júlí skipaði Albert ríkisstjórninni að hafa herinn til reiðu.[6] Þann 2. ágúst veitti Þýskaland Belgum úrslitakosti: Vilhjálmur keisari heimtaði að her Þjóðverja fengi greiða göngu í gegn um Belgíu, ella yrði litið á Belga sem óvinaþjóð í stríðinu. Var þetta í því skyni að ráðast á Frakkland í gegn um berskjölduð landamæri þess við Belgíu. Albert lýsti því umsvifalaust yfir að skilmálarnir væru óásættanlegir og tók sameiginlega ákvörðun ásamt de Broqueville um að synja Þjóðverjum leið gegn um landið.[7].

Þann 4. ágúst réðust Þjóðverjar inn í Belgíu. Fréttirnar höfðu enn ekki borist þegar konungurinn reið um Brussel í herklæðum og hitti þar ákafan mannfjölda áður en hann flutti ræðu fyrir belgíska þinginu: „Land sem ver sig vinnur sér inn virðingu og deyr ekki. Ég hef trú að slík séu forlög okkar.“ Her Belga varðist árás Þjóðverja og tókst að hægja á þeim í nokkra daga í bardaga við Liège en þurfti þó brátt að hörfa. Her Belga hörfaði til virkis í Anvers sem átti það orð á sér að vera hið tryggasta í Evrópu. Belgar áttu von á liðsauka frá Bretlandi en hann kom ekki í tæka tíð. Albert neyddist því til að skipa hernum að hörfa enn frekar. Loks tók belgíski herinn sér stöðu aftan við fljótið Yser nyrst í Frakklandi og var þar næstu fjögur árin ásamt breskum og frönskum herafla sem tókst loks að frelsa Belgíu árið 1918.

Á meðan stríðinu stóð fylgdi konungurinn ríkisstjórn sinni ekki til Sainte-Adresse og dvaldi þess í stað við víglínurnar ásamt hermönnum sínum. Þetta var í samræmi við belgísku stjórnarskrána, sem mælti svo fyrir að „konungurinn stýrir herafla landsins á landi og sjó, lýsir yfir stríði, semur um frið og bandalög […]“[8]

 
Albert og belgíski herinn við Houthem, árið 1918.

Allt stríðið krafðist Albert þess að Belgía hefði sérstöðu á meðal andstæðinga Miðveldanna þar sem hún væri í raun ekki ein Bandamannaþjóðanna heldur hlutlaust ríki sem nyti stuðnings þeirra gegn innrás Þjóðverja. Belgar áttu þó að vera trúir breskum og frönskum samstarfsmönnum sínum sem hefðu veitt þeim heraðstoð sína og í því skyni áttu þeir að viðhalda bandalagi við þá þar til Belgía væri frjáls, án þess að samið yrði um frið án þeirra. Í samræmi við þetta ákvað konungurinn árið 1914 að senda hermenn frá Kongó til að aðstoða Frakka í baráttu við Þjóðverja í Tógó. Belgísku hermennirnir í Afríku gengu enn lengra og tókst að hertaka austurhluta þýsku Austur-Afríku og unnu sigra við Tabora og Mahenge, á meðan Bretar lögðu norður- og austurhluta þýsku nýlendanna undir sig.

Til ársins 1918 var Albert óviss um að Bandamenn gætu unnið bug á Miðveldunum á vígvellinum. Hann var þegar árið 1915 í sambandi við tengdabróður sinn, Hans Veit de Törring í Þýskalandi, til að komast á snoðir um þýskar fyrirætlanir og vonaðist til þess að hann gæti fengið stríðandi þjóðirnar til að miðla málum og semja um frið þar sem enginn þyrfti að vinna eða tapa. Hann neitaði þó að taka til greina tilboð um að semja um frið við Þjóðverja án friðar við Bandamennina og taldi að slíkt myndi aldrei takast. Hann neitaði lengst af að senda belgíska hermenn til að berjast á víglínum utan Belgíu, eins og við Verdun og Somme. Hann skipti loks um skoðun árið 1918 eftir sigra Bandamanna undir stjórn Ferdinand Foch og féllst á að fella Belgaher inn í sameiginlega herstjórn Bandamanna. Í september skipaði hann gagnárás gegn Þjóðverjum í Flanders. Eftir sigur í Houthulstskógi og tveggja mánaða framsókn sem rak Þjóðverja aftur til bæjarins Gand fékk belgíski herinn þær fregnir að Þjóðverjar væru tilbúnir til að semja um frið. Albert sneri brátt aftur til Brussel ásamt konu sinni, Elísabetu drottningu, og var fagnað sem hetju.

Eftirstríðsárin

breyta
 
Konungurinn og drottningin í opninberri heimsókn til Nýju Mexíkó árið 1919.

Þegar hann sneri aftur til Brussel flutti Albert ræðu þar sem hann gerði grein fyrir umbótum sem hann vildi koma á í Belgíu, þ.á.m. almennum kosningarétti og stofnun flæmskumækandi háskóla í Ghent. Árið 1918 setti Albert á fót samsteypuríkisstjórn þriggja stærstu stjórnmálaflokka Belgíu; kaþólikka, frjálslyndra og sósíalista. Konungurinn mundi eftir kröfum verkfallsmanna árið 1913 og vildi sjá til þess að stjórnin breytti stjórnarskránni til þess að hver maður hefði jafnt atkvæði. Albert tókst að miðla málum milli stjórnarflokkanna til að körlum yrði veittur jafn kosningaréttur.[9] Hins vegar var þetta gert án þess að breyta stjórnarskránni.

Albert var viðstaddur Parísarsamkomuna í apríl 1919. Hann mælti gegn því að harkalega yrði gengið að Þjóðverjum því hann óttaðist að það myndi aðeins espa þá upp og leiða til frekari átaka.[10] Honum þótti fall flestra fursta og einvalda í Mið-Evrópu vera ávísun upp á glundroða og stríð og þá sérstaklega hrun veldis Habsborgara í Austurríki-Ungverjalandi. Bandamenn töldu Belga helsta fórnarlamb Þjóðverja í stríðinu og höfðu því mikla samúð með þeim, en þó var lítið hlustað á ráðleggingar Alberts við gerð Versalasamningsins.[11]

Albert stofnaði árið 1925 fyrsta þjóðgarð Afríku í Kongó og nefnist hann nú Virunga-þjóðgarður. Hann var einnig fyrsti sitjandi evrópski einvaldurinn sem heimsótti Bandaríkin.

Goðsögnin um riddarakonunginn

breyta
 
Minnismerki til heiðurs Albert 1. á 8 octobre-torgi 1870 í Saint-Quentin, Aisne, í Frakklandi.

Í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar varð ímynd konungsins samofin þjóðarímynd Belgíu og fór að bera á leiðtogadýrkun á Albert konungi. Í þýska hernáminu fóru Belgar að nýta sér gullpeninga með andliti Alberts sem skartgripi. Eftir að stríðinu lauk voru postulínsgripir, frímerki og jafnvel kexkassar framleiddir með myndum af Albert konungi í fullum herskrúða.[12] Albert hjálpaði til við uppbyggingu ímyndar sinnar með því að sitja fyrir hjá listamönnum, en þó kærði hann sig ekki um viðurnefnið riddarakonungurinn. Hann var rómaður fyrir hæversku[13], auk þess sem hann var afleitur reiðmaður.[14]

Samkvæmt Laurence Van Ypersele varð hetjugoðsögnin um Albert konung til í Belgíu á fyrstu dögum ágústmánuðar árið 1914. Blaðamenn og rithöfundar gerðu Albert að eins konar þjóðgerving Belgíu og verndara réttsýninnar. Bretar og Frakkar hafi síðan tekið þessa glansmynd af konungnum upp á arma sína í eigin áróðri gegn Þjóðverjum.[15] Marie-Rose Thielemans heldur því hins vegar fram að hetjuímynd konungsins hafi orðið til í Bretlandi, þar sem reynt hafi verið að vekja eldmóð áhugalausra íbúanna fyrir stríðinu með því að leggja áherslu á Belgíu sem saklaust smáríki sem hefði orðið fyrir árás illkvittinna Þjóðverja.[16] Dagblaðið Daily Telegraph hafi í þessu skyni safnað saman ýmsum greinum um Albert konung í bók sem kom út í lok 1914 og bar titilinn King Albert's Book.[17]

Ótímabær dauði Alberts árið 1934 blés nýju lífi í goðsögnina löngu eftir lok styrjaldarinnar. Fjöldi gatna og torga voru nefnd í höfuðið á honum og fjölmargar styttur voru reistar, yfirleitt af konungnum með hjálm og á baki hests síns.[18]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Marie-France Cros, Albert Ier au Congo : acerbe, í La Libre Belgique, 26. desember 2008
  2. Laurence Van Ypersele, Le Roi Albert, Histoire d'un mythe, Éditions Labor, Mons, 2006, bls. 92.
  3. Laurence Van Ypersele, bls. 120
  4. Laurence Van Ypersele, bls. 85-86
  5. Laurence Van Ypersele,bls. 99.
  6. Jean Bartelous, bls. 271.
  7. Laurence Van Ypersele, bls. 288 og 326, Marie-Rose Thielemans, Albert Ier et sa légende, í Les grands mythes de l'histoire de Belgique, de Flandre et de Wallonie, Vie ouvrière, Brussel, 1995.
  8. Marie-Rose Thielemans, bls. 184 og Laurence Van Ypersele, bls. 121.
  9. Charles d'Ydewalle, Albert og Belgarnir: Svipmynd af konungi, 1935, bls. 198.
  10. Vincent Dujardin, Mark van den Wijngaert, et al. Léopold III
  11. Margaret MacMillan, Paris 1919 (2003) bls. 106, 272
  12. Marie-Rose Thielemans, bls. 175-176.
  13. Marie-Rose Thielemans, bls. 184.
  14. Patrick Roegiers, La Spectaculaire Histoire des rois des Belges, Perrin, Paris, 2007, bls. 178.
  15. Laurence Van Ypersele, bls. 181-182.
  16. Marie-Rose Thielemans, bls. 178.
  17. Rainey, Sarah, Britain's homage to 'plucky Belgium' Geymt 24 ágúst 2017 í Wayback Machine (2014), The Telegraph, skoðað 24. október 2017.
  18. Marie-Rose Thielemans, bls. 181.


Fyrirrennari:
Leópold 2.
Konungur Belgíu
(17. desember 190917. febrúar 1934)
Eftirmaður:
Leópold 3.